19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mig langar til þess að segja hér aðeins nokkur orð í þessu sambandi. Ég vil upplýsa það þá fyrst, að þessi umrædda landhelgisnefnd leitaði til sjútvmrh. um möguleika á því, að hugsanlegur ferðakostnaður yrði greiddur, þ. e. annaðhvort færum við á viss landsvæði eða fengjum til okkar í Reykjavík vissa menn frá einstökum landsvæðum. Hv. sjútvmrh. ræddi þetta við hv. fjmrh., og ég fékk jákvæðar undirtektir, þannig að ég vil fullvissa hv. þd. um það, að þessi n. mun starfa, eins og til var ætlazt, og reyna að skila áliti sem fyrst í febrúar. Hvort okkur tekst að framfylgja okkar vinnuáætlun, það veit maður ekki á þessu stigi, en ég vil hvetja þá þm., sem hafa fengið bréf frá okkur og eru í þessari hv. d., til að stuðla að því, að ákveðnir menn á viðkomandi svæðum verði útnefndir, þannig að við getum kvatt menn til þess að vinna að lausn þessa máls í heild. Ég vildi koma þessari aths. hér inn vegna umræðna um starfsemi n. sem slíkrar.

Að öðru leyti vil ég ekki eyða miklum tíma í þetta, þó að ástæða væri til. Maður verður var við það, að flestir eru hlynntir málinu, þó að eðlilegt sé að fara að öllu með gát. Í landhelgismálinu er sjálfsagt að fara að öllu með gát. Það er þess eðlis. Við þurfum að sækja út á við með aukna friðun á fiskveiðilögsögunni, og þess vegna er eðlilegt, að við gáum mjög að okkur, þegar við erum að tala um að auka heimildir til togveiði innan sjálfrar landhelginnar. En ég vil aðeins upplýsa það vegna till. hv. 6. þm. Sunnl., að það atriði að binda þessa rýmkun við báta, sem eru tengdir rýmkunarsvæðunum, hefur verið marg-margrætt og er mjög viðkvæmt mál. Og ég tel, að það þurfi mjög gagngerða athugun á því, ef slíkt skref yrði tekið — mjög gagngerða athugun. Ég persónulega tel nokkur rök fyrir þessu, en þegar maður talar um þetta við marga menn, þá er erfitt að draga línu — mjög erfitt, og það verður varla hugsanlegt, nema við sjáum heildarmyndina fyrir okkur. Þess vegna finnst mér á þessu stigi óvarlegt að leggja þetta til og deila um það og mundi mælast til þess, að hv. þm. athugaði möguleika á því að draga þessa till. til baka, vegna þess að hún snertir mjög, mjög viðkvæmt mál. Það er erfitt, þegar við drögum línuna, ef svo verður gert, um Garðsskaga að segja við skipstjórann, sem er rétt norðan við: „Þú hreyfir þig ekki,“ jafnvel þótt sá skipstjóri hafi oft sótt suður fyrir í röstina og jafnvel enn lengra suður, en nú má ekki hreyfa sig suður fyrir þennan hugsaða punkt — þessa hugsuðu línu réttvísandi vestur. Þetta veit ég, að þessi hv. þm. skilur mætavel. Þess vegna er eðlilegt að draga till. til baka, þegar þessi mál eru athuguð nánar, því að þetta mun koma mjög á dagskrá, þegar við ræðum við hina einstöku fulltrúa víða að. Þeir, sem eru algjörlega andvígir breytingum á togveiðiheimildum, kynnu að verða að láta undan. Það veit maður ekki á þessu stigi, en að dæma um það núna tel ég ekki eðlilegt.