19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég viðurkenni að sjálfsögðu það, sem tveir hv. síðustu ræðumenn hafa hér sagt, að þetta mál er allt saman viðkvæmt mjög, og t. d. það, sem hv. 4. þm. Reykn. sagði hér um þetta áðan, að útgerð í hans kjördæmi yrði þannig í tvennu lagi, annars vegar væru þeir, sem hefðu rýmkaðan veiðirétt og hins vegar þeir, sem ekki hefðu hann, og mundi það valda nokkurri óánægju. Þetta er augljóst mál. Og að þessu vék einnig hv. 5. landsk. þm., og þetta er alveg hárrétt hjá þeim, en að vísu er það ekki ég, sem geri málið viðkvæmt með þessu, heldur er það sú ákvörðun að hafa Garðsskaga sem grunnlínupunktinn í þessu, hann skiptir réttindunum. En mér fyndist ekki óeðlilegt, að hann skipti þá einnig skyldunum eða sem því svarar. Ég viðurkenni það, að ég er ákaflega tregur til þess að stefna málinu í hættu. Ég óska ekki eftir því, að það verði fellt eða dagi uppi, en það er fleira en þetta, sem er viðkvæmt í málinu. Hugsum okkur t. d. Vestmannaeyjabáta. Það hefur verið haft hér á orði, að þetta frv. hafi aðallega verið gert fyrir Vestmanneyinga. Það eru tvær hliðar á því. Það er að vísu hárrétt, að Vestmanneyingar mundu njóta góðs af því að fá rýmkaðan veiðirétt, en hvort þeir yrðu alls kostar ánægðir með það, að miðin hjá þeim fylltust af Reykvíkingum, Breiðfirðingum o. s. frv. — bátum frá fjarlægum stöðum, þar sem veiðiheimild hefði ekki verið rýmkuð. Það er annað mál. Ég er ekki jafnsannfærður um, að ánægja mundi ríkja yfir því. Við skulum bara hugsa okkur tilteknar aðstæður, sem vel gætu skapazt. Við Vestmannaeyjar yrðu þá máske á togveiðum 20–30 bátar á einhverju litlu, afmörkuðu svæði. Þar af væru máske flestir frá Reykjavík, Keflavík eða Vestfjörðum, en inni í hópnum væru kannske einhverjir frá Vestmannaeyjum líka. Í þessu frv. felst líka sú viðkvæma ákvörðun, að stærð bátanna sé takmörkuð við 200 brúttólestir. Mér er kunnugt um, að fáeinir bátar í Vestmannaeyjum stunda togveiðar, sem stærri eru en svo, að þeir eigi að njóta þessara heimilda, og hugsum okkur svo, að það kæmi landhelgisgæzluflugvél eða landhelgisgæzluskip, tíndi úr tvo til þrjá Vestmanneyjabáta meðal Reykjavíkurbátanna, flytti þá til hafnar, sektaði þá og gerði afla þeirra og veiðarfæri upptæk o. s. frv. Þetta er líka viðkvæmt mál. Og það er ekki aðeins þetta, sem ég hef fjallað hér um, sem er viðkvæmt í málinu. Við eigum alveg vafalaust eftir að sjá framan í alls konar viðkvæmni í þessu máli. Engu að síður þá vil ég virða nokkurs orð þeirra manna, sem hér hafa talað á undan mér, þeirra hv. 4. þm. Reykn. og 5. landsk. þm., sem jafnframt er nú formaður í þeirri landhelgisnefnd, sem á nú að fjalla um þessi mál, fyrir lengra tímabil og einnig vil ég ekki tefla málinu í þá hættu, að máske sitji allt eftir í sama farinu, sem augljóslega er nokkur hætta á. Þess vegna mun ég við þessa umr. taka till. aftur.