18.11.1968
Neðri deild: 16. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

50. mál, sala landspildu úr prestssetursjörðinni Hálsi í Hálshreppi

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Frv. það sem hér er flutt, er varðandi sölu á lítilli landspildu úr prestssetursjörðinni Hálsi í Suður-Þingeyjarsýslu og er flutt að beiðni hreppsnefndar Hálshrepps. Eins og hv. þm. mun kunnugt, er nýlega búið að byggja nýja brú yfir Fnjóská nokkru norðar heldur en sú brú er á Fnjóská, sem hingað til hefur verið notuð og tengir saman austur- og vesturhluta Fnjóskadals ásamt ýmsum öðrum landsbyggðum. En við þessa brúargerð má segja, að miðja hreppsins flytjist nokkuð til eða frá Skógum og út fyrir Nes, og þeir, sem þarna þekkja til, vita, að hvorki er til fundahús né íþróttamannvirki í Fnjóskadal, en hugmynd hreppsbúa er að koma þessu hvort tveggja upp. Staðurinn, sem hér ræðir um, er fast við Fnjóská sunnan vegarins nýja, sem kemur í framhaldi af Fnjóskárbrú, og í frv. er nefnt, hve stór landspildan er, en þetta er, eins og tekið er fram í grg. með frv., óræktaðir hrísmóar og tekur því ekkert undan neinu gæðalandi hjá jörðinni, sem nú er leigð út, en er ekki í raun og veru prestssetursjörð nema að vissu marki. Presturinn, sem þar býr, er ekki búandi maður.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Með frv. er prentuð sem fskj. beiðni Hálshrepps um þetta mál, og það skýrir í raun og veru allt, sem skýra þarf varðandi frv. Ég legg svo til að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.