22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

150. mál, skattfrelsi Sonningsverðlauna Halldórs Laxness

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft til meðferðar frv. það, sem er á þskj. 280 um skattfrelsi Sonningsverðlauna Halldórs Laxness. Eins og fram kemur á þskj. 373, 378 og 380 hefur fjhn. þessarar hv. d. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n. mælir með því á þskj. 380, að frv. verði samþ. óbreytt, en tveir minni hl. gera grein fyrir sínum skoðunum á þskj. 373 með nokkuð sérstökum hætti þar og á þskj. 378. Hv. þm. mun að sjálfsögðu mjög kunnugt um mál þetta, svo mjög sem það hefur verið á dagskrá undanfarna daga, og ég tel ekki ástæðu þess vegna til þess að fjölyrða um' efni þess né aðdraganda. Hér er um að ræða, að skáldinu Halldóri Laxness hafa verið veitt Sonningsverðlaun, sem nefnd eru svo og veitt eru af Hafnarháskóla, og ýmsir þekktir menn hafa hlotið áður, svo sem Sir Winston Churchill, Niels Bohr, Bertrand Russel, Alvar Aalto og Albert Schweitzer.

Fjhn. hv. Ed. taldi, að hér væri um slík verðlaun að ræða, að ekki væri óeðlilegt, að af hálfu skattyfirvalda yrði farið að með sama hætti og þegar nefnt skáld hlaut Nóbelsverðlaunin. Þegar á meðan n. hafði mál þetta til afgreiðslu komu til viðræðna við form. fjhn. form. og ritari Bandalags ísl. listamanna, þeir Hannes K. Davíðsson arkitekt og Ingólfur Kristjánsson rithöfundur, og beindu þeim tilmælum til n., að hún hlutaðist til um að breyta frv. í þá átt, að hér yrði ekki aðeins um að ræða skattfrelsi þessa skálds í þessu einstaka tilfelli, heldur yrði frv. breytt í það horf, að það fjallaði almennt um skattfrelsi verðlauna til handa listamönnum, sem þeir fengju án þess að gera sjálfir í samkeppni tilraunir til þess að afla sér þeirra. N. ræddi þetta og varð sammála um, að hún féllist ekki á að gera brtt. þessa efnis, taldi, að til þess að setja slíka löggjöf þyrfti nánari undirbúning og athugun, sem gæti þá fram farið hvort heldur á vegum þingsins eða vegum menntmrn. og þessi hugmynd þá sérstaklega athuguð.

Á þskj. 384 hefur hv. 6. þm. Reykv. flutt brtt., sem miðar í þessa átt. Hann mun að sjálfsögðu gera grein fyrir sínu máli, en frá því að hann flutti þessa till. og þar til nú að 2. umr. fer fram, hefur n. setið á fundum og m. a. tekið til athugunar þessa till. hans og samþykkt að halda sér við sína fyrri skoðun, að málið krefðist meiri undirbúnings en svo, að hægt væri að breyta því í þá átt, sem hér um ræðir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið. Eins og ég gat um áðan, leggur meiri hl. n. til á þskj. 380, að frv. verði samþ. óbreytt.