22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

150. mál, skattfrelsi Sonningsverðlauna Halldórs Laxness

Frsm. 2. minni hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég tel ekki, að ég þurfi að hafa langa framsögu um nál. okkar hv. 2. þm. Norðurl. v. Við gerum þar grein fyrir ástæðunni fyrir því, hvers vegna við leggjum til, að frv. verði fellt. Við teljum okkur hafa öruggar upplýsingar um það, að í því landi, sem þessi verðlaun eru veitt, Danmörku, verði þeir aðilar, séu þeir þar búsettir, að greiða skatta og skyldur af þessum verðlaunum, ef þeim eru þau veitt. Við sjáum ekki neina ástæðu fyrir því, að hér á landi skuli um þetta gilda aðrar reglur. Það má segja, að það hafi getað talizt eðlilegt á sínum tíma, þegar Halldóri Kiljan Laxness voru veitt skattfríðindi vegna Nóbelsverðlauna vegna þess, að þar er um slíkan sérstæðan atburð að ræða, sem snertir heiður þjóðarinnar allrar, og þess vegna eðlilegt, að hann í því sambandi nyti nokkurra forréttinda. Ef hins vegar á að fara inn á þá braut að veita í hverju tilfelli skattfríðindi, ef einhver maður hlýtur einhverja umbun eða viðurkenningu fyrir sín störf, hvort heldur er á erlendum eða innlendum vettvangi, þá er það miklu stærra mál en svo, að ekki þurfi að athuga betur en hér virðist hafa verið gert í sambandi við þetta mál. sem hér liggur fyrir. Enda kemur það fram á þskj. 384, þar sem hv. 6. þm. Reykv. flytur brtt., að þetta muni geta leitt það af sér, að það verði um nokkuð almenna opnun á l. um skatta og útsvör að ræða, ef farið verður inn á þá braut, eins og hér er lagt til að samþykkja það frv. sem fyrir liggur óbreytt, eins og meiri hl. fjhn. hefur lagt til. Við flm. 2. minni hl. fjhn. teljum, að þetta sé það stórt mál og þess eðlis, að ef ríkisvaldið treystir sér til þess að fara að opna tekjuskattslögin og gera þar sérstakar undanþágur og ívilnanir, þá sé það kannski margt fleira, sem fyrr ætti að koma til greina, sem tekið yrði tillit til heldur en þess, sem hér er um að ræða. Auðvitað eru heilir hópar manna, margir einstaklingar, sem mjög mundu óska þess, að þeir hlytu slíka umbun, eins og hér er gert ráð fyrir í þessu frv. í sambandi við greiðslu sinna skatta. Og ég hygg, að margir aðilar í þjóðfélaginu gætu vissulega fært rök fyrir því, að það væri eðlilegt, að ríkisvaldið og sveitarstjórnir mættu þeim í einhverju og mætu þeirra störf kannski sérstaklega með því að veita þeim sérstaka fyrirgreiðslu og sérstaka niðurfellingu skatta eða útsvara. Ég og meðflm. minn að áliti 2. minni hl. á þskj. 378, við teljum rétt að benda á það, að við teljum ekki, að í neinu sé skertur heiður Halldórs Laxness, þó að hann yrði látinn greiða samkv. gildandi lögum og reglum alla skatta og skyldur af þeim tekjum, sem honum hafa hlotnazt með þessum verðlaunum. Við bendum á þetta vegna þess, að við höfum heyrt það og á það hafði verið bent, að þetta væri heldur niðrandi fyrir skáldið, en við teljum, að svo sé ekki nema síður sé. Við teljum hann mjög vel kominn að þeim heiðri, sem honum þarna hlotnast og þeim tekjum, sem hann hefur fengið með veitingu Sonnings-verðlaunanna, en við teljum alveg hiklaust, að hann eigi, eins og aðrir íslenzkir þegnar, að greiða af þessum hluta tekna sinna, eins og öðrum, skatta og skyldur til ríkis og bæja, og engin ástæða sé til þess að fella það niður með sérstakri löggjöf. Ég vil undirstrika það, sem ég sagði hér í upphafi, að ef það á á annað borð að fara að opna lögin um greiðslu tekju- og eignarskatts og útsvara, þá sé það mjög margt, sem þar komi til greina, þetta sé það stórt mál, að það verði að skoðast mjög vandlega, áður en í það er farið að gera í einföldu frv. þær ráðstafanir, sem hér er lagt til.

Ég skal svo ekki hafa í bili um þetta fleiri orð, tel mig ekki þurfa að rökstyðja það frekar. Það eru sjálfsagt um það skiptar skoðanir, eins og hér kemur fram, bæði innan fjhn. Alþ. og meðal þjóðarinnar, en okkar skoðun er afdráttarlaus sú, að frv. þetta beri að fella.