30.04.1969
Efri deild: 81. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

242. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt, eins og hv. þdm. mun e. t. v. kunnugt, vegna þess, að út renna á morgun þær heimildir, sem í l. hafa verið um veiði með botnvörpu og flotvörpu innan fiskveiðilandhelgi Íslands. Það mun einnig kunnugt hv. þdm., að n. hefur nýlega skilað áliti, sem upp úr hefur verið samið sérstakt frv. allviðamikið, og hefur þegar komið til 1. umr. og n. í hv. Nd. um allverulegar rýmkanir í þessu skyni, en fyrirsjáanlegt er, að það frv., svo viðamikið sem það er, muni ekki geta hlotið afgreiðslu Alþ., áður en þær heimildir, sem nú eru í l., renna út, og þess vegna er þetta frv. flutt til þess að veita 10 daga viðbótarheimild til þess, að þær reglugerðir og heimildir, sem nýttar hafa verið, megi gilda áfram þann tíma, sem það hugsanlega tæki Alþ. að afgreiða sjálft aðalfrv. Ég tel mikla nauðsyn á, að frv. fái skjóta og góða afgreiðslu hér í þessari hv. þd., eins og það hefur fengið í hv. Ed., og það hefur þar verið afgr. á einum degi gegnum þrjár umr. Ég legg því mikla áherzlu á það, ef d. telur sér fært að veita þessar heimildir, sem frv. þetta kveður á um, svo að ekki þurfi að koma til öngþveitis á fiskimiðunum ofan á þá örðugleika, sem við er að etja.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn. og ítreka tilmæli mín um, að n. hraði svo störfum sem kostur er.