17.03.1969
Neðri deild: 65. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

172. mál, sala Hauganesslands

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem ásamt mér er flutt af hv. 11. landsk. þm., er þess efnis, að leitað er heimildar Alþ. til þess að selja Árskógshreppi land það, sem tilheyrir Hauganesi í þeim hreppi. Frv. er flutt að beiðni hreppsnefndar Árskógshrepps, eins og tekið er fram í grg., sem fylgir frv. Ástæðan fyrir því, að þessarar heimildar er leitað nú, er sú, að íbúar Hauganess eru mjög óánægðir yfir því að þurfa að sækja öll sín mál til Reykjavíkur, t. d. vegna lóða undir verbúðir og íbúðarhús eða annarrar mannvirkjagerðar. Íbúarnir eru rúmlega 100 á Hauganesi, og þetta er vaxandi útgerðarstaður. Meginhluti þess lands, sem nú tilheyrir Hauganesi, er frá jörðinni Selá, en sú jörð er í eigu ríkisins. Var þetta land tekið undan Selá fyrir æðimörgum árum. Enn fremur er lítil skák af landi Hauganess frá Brimnesi, og keypti ríkið það land fyrir fáum árum. Þetta mál er þess eðlis, að það ætti að liggja ljóst fyrir hv. alþm. og þarflaust að hafa frekari framsögu um málið. Legg ég því til að lokinni þessari umr., að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.