06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

172. mál, sala Hauganesslands

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft þetta frv. til ath. og mælir hún með því, að það verði samþ. óbreytt. Einn nm. var fjarverandi, þegar málið var afgr. í n. Ég hygg, að ég þurfi ekki að hafa mörg orð um frv., en ég vil þó taka það fram, að á fundi hreppsnefndar Árskógshrepps, sem haldinn var í vetur, var samþ. samhljóða að óska eftir því, að ríkisstj. fengi heimild til þess að selja Árskógshreppi Hauganesland. Hauganes er, eins og kunnugt er, vaxandi útgerðarstaður. Þar eru nú um 100 íbúar, og þeir telja það vera sér hagsmunamál. að hreppurinn eignist það land, sem þetta þéttbýli stendur á. Í umsögn, sem borizt hefur frá landbrn., jarðeignadeildinni, er það tekið fram, að sú stefna hafi verið ríkjandi, að ríkið styðji sveitarfélögin í því að eignast það land, sem þau standi á, og það er upplýst, að mikið land hafi verið selt þannig úr ríkiseign á undanförnum árum. Einnig upplýsir jarðeignadeildin, að ekki sé sjáanlegt, að sérstakir hagsmunir séu tengdir því fyrir ríkissjóð að eiga áfram það land, sem Hauganes stendur á, og getur því fyrir sítt leyti mælt með því, að landið verði selt. Þær upplýsingar, sem hér liggja fyrir, urðu til þess, að landbn. varð sammála um það að mæla með því, að þessi heimild yrði veitt, og það sem að sjálfsögðu eru sterkustu meðmælin með þeirri ráðabreytni er sá einhugur, sem ríkir heima fyrir um það, að þessi ráðstöfun sé gerð. Eins og ég hef þegar tekið fram, þá mælir landbn. með því að frv. þetta nái fram að ganga óbreytt.