20.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

219. mál, sjómannalög

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 10. þm. Reykv. að flytja hér á þskj. 481 frv. til l. um breyt. á sjómannalögum. Frv. er þess efnis, að aftan við 24. gr. l. bætist ný málsgr. þess efnis, að óheimilt sé að framselja eða veðsetja samningsbundnar dánarbætur og ekki megi leggja á þær löghald né gera í þeim fjárnám eða lögtak né halda bótagreiðslu til opinberra gjalda. Hér er um að ræða hinar samningsbundnu sérstöku bætur, sem sjómenn sömdu um á sínum tíma við útgerðarmenn og munu þá hafa numið allt að 200 þús. kr., en hafa nú hækkað í allt að 400 þúsund kr., ef um dauðsfall er að ræða. Samkvæmt l. um almannatryggingar eru bætur samkvæmt l. verndaðar eins og 1. gr. þessa frv. gerir ráð fyrir. Þó að flm. telji, að eðli málsins samkvæmt muni einnig þær bætur, sem hér um ræðir, njóta þeirrar verndar, sem er að finna í l. um almannatryggingar, þá þykir þeim þó rétt, til að taka af allan vafa, að flytja það frv., sem hér liggur fyrir, um hinar sérstöku bætur, sem samið hefur verið um milli sjómanna og útgerðarmanna.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.