09.12.1968
Neðri deild: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Með löggjöfinni í fyrra var landbrh. gefin heimild til þess að ráðstafa því, sem þá féll til, en það voru ekki nema 45 millj. En ég hefði nú haldið, að traust hv. 1. þm. Austf. hefði nú vaxið í hlutfalli við það síðan í fyrra, traust hans til mín, þannig að hann gæti nú alveg eins trúað mér fyrir 150 millj. eins og 45 millj. í fyrra. Ég minnist ekki, að hann hafi þá haft neitt við það að athuga, að ég hefði þetta vald, sem tiltekið var í þeim l. En hv. þm. spyr, hvernig þeirri upphæð hafi verið varið. Það er einfalt að svara því. Það fór allt í útflutningsuppbætur til þess að drýgja þær. En hvernig með þetta verður farið, er ég ekki tilbúinn til þess að gefa neinar yfirlýsingar um. Hitt veit ég, að stjórn Stéttarsambands bænda mun ræða það mál við mig nú, eins og í fyrra, og það verður vitanlega athugað rækilega, hvernig þessi upphæð getur komið bændastéttinni að sem beztum notum.