02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

185. mál, sala Þykkvabæjar I í Landbroti

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Þessi jörð, sem hér er um að ræða, jörðin Þykkvibær I í Landbroti, var afhent Kirkjubæjarhreppi með gjafabréfi 15. des. 1913 og fylgdu þeirri gjöf margháttuð skilyrði, þ. á m. það, að jörðin skyldi vera ævarandi eign Kirkjubæjarhrepps, nema ákvæðum um þetta yrði breytt á Alþingi. Það voru flókin fyrirmæli í þessu gjafabréfi, og er ekki ástæða til að lengja tíma með því að rifja það allt upp, en fyrir gefendum vakti það, að þeirra afkomendur ættu fyrsta rétt til þess að fá þessa jörð leigða. Þetta frv. var lagt fyrir Alþ. í fyrra og þá voru ýmis vandkvæði á því að afgreiða það. Það tók nokkuð langan tíma að athuga þessi gögn öll, svo að það dróst á langinn, að frv. næði fram að ganga. Nú hefur frv. hins vegar gengið í gegnum Ed. og fengið þar afgreiðslu, að því er ég hygg nokkurn veginn samhljóða, og að baki þeirrar afgreiðslu liggur það, að náðst hefur fullkomið samkomulag, að því er mér er tjáð, milli þeirra aðila, sem þetta mál snertir, þ. e. a. s. ættingja hinna upphaflegu gefenda, sem láta þetta mál sig einhverju varða. Hreppsnefndin telur, að það sé nauðsynlegt að selja jörðina þeim ábúanda, sem nú er og óskar að fá hana, til þess að hann geti gert þar nauðsynlegar umbætur og byggingar og það muni velta á því, hvort þessi söluheimild fáist á Alþingi, hvort jörðin haldist í byggð eftirleiðis. Þeir, sem eru búnir að kynna sér þetta mál frá öllum hliðum, telja nú eðlilegt, að Alþingi veiti þessa heimild og á sama máli er landbn. Nd. og leggur til, að frv. verði samþ.