09.12.1968
Neðri deild: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. hafa náttúrlega alltaf rétt til þess að spyrja, en mér leiðist það nú, að mér heyrðist á hv. þm., að traust hans til mín hafi nú heldur minnkað, því að hann segir, að það sé nú aðeins í áttina, ef ég vilji gefa skýlausa yfirlýsingu um það, hvernig þessu skuli nú varið. Það er aðeins í áttina, og það er þá vegna þess, að hann treystir því ekki, að það yrði staðið við það, sem ég mundi lýsa hér yfir. Þar af leiðir, að það kemur auðvitað ekki til mála, að ég fari að gefa nokkra yfirlýsingu hér um, og held ég, að hv. þm. virði mér það til vorkunnar.

Hitt get ég endurtekið, það, sem ég sagði áðan, að það verður athugað mjög rækilega, hvernig þessi fjárhæð verður notuð og þannig, að hún komi að sem beztum notum fyrir landbúnaðinn, og af því að hv. þm. er búinn að leggja margar fsp. fyrir mig, þá held ég, að mér leyfist að leggja eina fsp. fyrir hann. Og ég vil spyrja hann að því, hvort stjórn Stéttarsambandsins hafi beðið hann um að framkalla yfirlýsingu þá, sem hann leitar hér eftir? Og þætti mér ákaflega gott að vita það, hvort hann talar hér í umboði Stéttarsambandsstjórnarinnar. Að sjálfsögðu þarf hann ekki að gera það. Hann hefur sem þm. fullan rétt til þess að spyrja, en ég geri dálítinn greinarmun á því samt.