10.02.1969
Neðri deild: 42. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

120. mál, áfengislög

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Alþingi kaus í maímánuði 1964 áfengismálanefnd samkv. þál. um athugun á áfengisvandamálinu. Þessi nefnd skilaði till. sínum til ríkisstj. og lagði til tilteknar breyt. á áfengisl. Þær breyt. lagði ríkisstj. fyrir í frumvarpsformi á þinginu 1966, og varð frv. ekki útrætt á því þingi. Allshn. tók þetta mál upp að nýju á síðasta þingi og flutti frv., sem þá varð eigi útrætt, en tekur það frv. nú aftur upp óbreytt, eins og það var flutt á síðasta þingi. Frá því frv. sem áfengismálanefnd fyrst lagði til, hafa verið gerðar nokkrar breyt., og eru þær helztar, að 21 árs aldur er nú færður í 20 ára aldur, en það er í samræmi við breytingar á aldursmörkum, sem samþykktar voru á síðasta Alþingi um kosningarrétt og kjörgengi, lögræðisaldur og hjúskaparaldur, og þá er einnig fellt niður úr frv. áfengislaganefndar það skilyrði, sem var í hennar frv., að skylda vínveitingahús til að hafa opið án vínveitinga eitt laugardagskvöld af hverjum fjórum, og auk þess er lagt til, að önnur skilríki en nafnskírteini geti orðið sönnunargögn um aldur á sama hátt og nafnskírteini, og er þá átt við ökuskírteini, vegabréf og önnur opinber skírteini, sem veita upplýsingar um aldur.

Loks er tekin upp í frv. tillaga borgarstjórnar Reykjavíkur um breytt fyrirkomulag áfengisvarna í Reykjavík í samræmi við samþykkt borgarstjórnar frá 20. júlí 1967, um nýskipan félagsmála í Reykjavík. Er samþykkt borgarstjórnarinnar prentuð sem fskj. með þessu frv.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessa framsögu lengri. Þetta frv. var mjög rætt hér á síðasta þingi, og allshn. taldi rétt að flytja frv. að nýju, þó að einstakir nm. áskilji sér rétt til þess að fylgja eða flytja brtt., sem fram kunna að koma við frv. Enn fremur hafa einstakir nm. í allshn. óskað eftir því, að þrátt fyrir það, að þetta frv. sé flutt af n., verði því að lokinni þessari umr. vísað til n. til frekari athugunar.