10.02.1969
Neðri deild: 42. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

120. mál, áfengislög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Einu sinni enn eru áfengislög til umræðu í þessari hv. d. Á undanförnum 5 árum hafa verið flutt fimm frv. um áfengismál og einni þáltill. betur. Sú þáltill. var um mþn. í áfengismálum og hún var samþ., og gerði hún ráð fyrir kosningu 7 alþm. í þessa mþn., eins og mönnum er kunnugt um. En frumvörpin fimm hafa enn ekki náð fram að ganga, neitt þeirra, hvað sem verður nú um þetta fimmta í röðinni.

Fyrsta frv. af þessum fimm var stjfrv. flutt 1963. Flutningur þess frv. var ekki alveg að ástæðulausu. Svo hafði viljað til, að um hvítasunnuleytið það ár hafði hópur æskufólks lagt leið sína austur í Þjórsárdal sér til skemmtunar. Unglingarnir höfðu með sér miklar birgðir af áfengi og héldu þarna upp á hátíðina austur frá í óslitinni áfengisvímu. En þar sem þetta var svo að segja á bersvæði, vakti þetta nokkra athygli, og um þennan atburð urðu allverulegar umræður og blaðaskrif. Jafnframt voru felldir harðir dómar yfir þessum unglingum, sem vænta mátti, þó að mönnum hefði nú reyndar átt að skiljast, að það gat varla verið í fyrsta sinn, sem þeir neyttu áfengis. Fyrsta sporið á þessari braut er ekki venjulega stigið með þeim hætti, að unglingar safni að sér áfengisbirgðum og haldi svo til fjalla til drykkjunnar. Nei, það má telja víst, að þessir unglingar hafi haft nokkur kynni af áfengisnautn, áður en þeir lögðu í þessa eftirminnilegu ferð, þó að þeir kysu að hafa þennan hátt á að þessu sinni. Þó að Þjórsárdalsförin væri óvenjuleg að forminu til, tel ég, að hún hafi ekki verið neitt annað en spegilmynd af venju, sem sumt æskufólk hafði þegar tamið sér, þ. e. áfengisneyzlu að einhverju leyti, og þess vegna verð ég að líta svo á, að alvarlegasta hliðin á þessum Þjórsárdalsatburði hafi í raun og veru verið þetta, að hann var sýnishorn af venju, sem æskufólk hafði vanið sig á. Það eru nú liðin bráðum 6 ár síðan þessi atburður gerðist, og það er farið að falla í gleymsku fyrir mér, hvaða rannsókn fram hafi farið á þessum atburði. Getur meir en verið, að það hafi alls ekki verið sagt frá þeirri rannsókn opinberlega, og veit ég því ekki, hvort hún hefur verið mikil eða lítil. En það held ég, að mönnum ætti þó að vera ljóst, að þessir unglingar eru ekki hinir sekustu í þessu máli, þó að þeir sekir séu, því er ekki að neita, heldur eru það fullorðnir menn, og það eru fyrst og fremst þeir, sem selt hafa eða veitt hafa unglingunum áfengið. Hvort nokkuð hefur verið gert í því efni að rannsaka þá hlið málsins, veit ég ekkert um. En ég verð þó að telja, að það hafi verið brýnust skylda að gera það.

Skömmu eftir þessa Þjórsárdalsferð skipaði hæstv. ríkisstj. nefnd til að gera tillögur um breytingar á áfengislöggjöfinni. Sú nefnd skilaði tillögum til hæstv. ríkisstj., og ríkisstj. samdi svo frv. sem hún flutti í þingbyrjun 1963. Þetta stjfrv. 1963 fór til allshn., og hv. allshn. skilaði nál., sem var í tvennu lagi, ásamt brtt. bæði frá meiri og minni hl. n. Engin afgreiðsla fékkst á frv. og það dagaði uppi. Á næsta þingi, 1964, flutti svo hæstv. fjmrh. þáltill. um mþn. í áfengismálum, sem ég nefndi áðan, og var sú till. samþ. Hann var svo kosinn form. þeirrar n. Á þinginu 1965 fluttu nokkrir alþm. frv. um breytingar á áfengislögunum. Það frv. miðaði ekki að því að draga úr áfengisneyzlu æskufólks eða hafði inni að halda neinar umbætur á áfengislöggjöfinni. Þvert á móti var efni þess frv. eingöngu það að heimila bruggun og sölu á áfengu öli í landinu. Þetta frv. fékk þinglega afgreiðslu og hana góða, því að það var kolfellt.

Þá kemur árið 1966. Þá hafði mþn. í áfengismálum lokið störfum, samið frv. ásamt umfangsmikilli skýrslu um ástandið í áfengismálum og skilað þessum gögnum til hæstv. ríkisstj. Ríkisstj. flutti svo þetta frv. óbreytt. Í þessu frv. mþn. — og þar með stjfrv. —voru engar brtt. við áfengislöggjöfina aðrar en þær, sem allir nm. mþn. höfðu orðið sammála um. Það var því ekki að búast við, að það yrðu mjög róttækar brtt. gerðar þarna, þegar svo var málum hagað. En auðvitað var þetta gert af nefndarinnar hálfu í þeirri von, að þá tækist betur til um afgreiðslu málsins á þinginu og það fengi skjóta samþykkt Alþ. En niðurstaðan varð alveg eins og áður. Frv. dagaði uppi.

Á þinginu 1967 flytur svo hv. allshn. frv. um áfengislöggjöfina. Það frv. var í veigamiklum atriðum mjög á annan veg en það, sem mþn. hafði samið og hæstv. ríkisstj. hafði áður flutt. En það var líka tekið fram við flutning þess frv. að einstakir nm. hefðu óbundnar hendur um afstöðu til þess. Þeir urðu aðeins við tilmælum um, að frv. yrði flutt í nefndarinnar nafni, en höfðu enga afstöðu tekið aðra. Það kom svo í ljós við 2. umr. um frv. að n. klofnaði um það og fluttar voru brtt. bæði frá meiri og minni hl. n. og frá einstökum þm. Enn fór sem fyrr. Frv. dagaði uppi, komst ekki nema til 2. umr. í þeirri þd. — Og svo kemur fimmta frv. þetta, sem nú er hér til umræðu. En það er, orðrétt, sama frv., sem flutt var hér í fyrra, og með sömu skýringum af n. hálfu. Það er ekki aðeins, að það sé sagt, að einstakir nm. hafi óbundnar hendur um brtt., sem fluttar kynnu að verða, heldur segir í nál.: „einstakir nm. hafa óbundnar hendur um afstöðu til frv.“. Það er nefnilega ómögulegt að vita, nema að sumir nm. séu algjörlega á móti frv. eins og það leggur sig.

Hvað um þetta frv. verður, skal ég engu spá um, en svona er nú þessi fimm ára saga af afrekum Alþ. til endurbóta á áfengislöggjöfinni. Þessi saga færir mér heim sanninn um það, að hneykslan manna vegna Þjórsárdalsferðar æskufólks um hvítasunnu 1963 hafi ekki rist sérlega djúpt, og það er vægast sagt Alþ. til lítils sóma, hvernig það hefur tekið á þessu máli, að flutt skuli vera frv. þing eftir þing, þ. á m. 2 stjfrv. og 2 frv. flutt af þingnefnd, og ekkert hefur verið afgr. enn. Ég held, að það sé ekki ofmælt, að þetta bendi til þess, að það sé harla lítið meint með þessum frumvarpsflutningi og einnig með till. um skipun mþn. í þessu máli á sínum tíma. Það er ekki hægt að skýra þetta á annan veg. Þetta sé gert til málamynda og ekkert annað. Það er hins vegar ekkert við því að segja, þó að skoðanamunur sé um einstök atriði áfengislaganna. Slíkt er daglegt brauð í fjöldamörgum málum, og kippir enginn sér upp við það. En að frv, skuli vera svæfð þing eftir þing af ásettu ráði, það er ekki viðunandi.

Þetta frv. eins og það er úr garði gert, er ekki stórt í sniðum, og eins og hv. frsm. drap á, þá er hér í veigamiklum atriðum vikið frá frv. mþn. á sínum tíma, og ég verð að telja, að þetta frv. ráði harla litla bót á ástandinu í áfengismálum. Ég vil því beina því alvarlega til hv. allshn. sem nú mun taka frv. á ný til athugunar, að hún endurskoði það rækilega og leitist við að koma því í það horf, að það nái fram að ganga og að það verði til bóta.

Ég hef hug á því að flytja brtt. við þetta frv., en mér hefur dottið í hug að hafa þau vinnubrögð á að þessu sinni að gera það ekki fyrst í stað, heldur koma mínum brtt. á framfæri við hv. n., svo að hún athugi rækilega, hvað hún kynni að geta fallizt á af þeim. Ég tel það skynsamlegri vinnubrögð og vil a. m. k. sjá, hvort það ber nokkurn árangur. Við þessa umræðu skal ég ekki fara að gera einstök ákvæði þessa frv. að umtalsefni, en ég vil nefna, svona rétt sem dæmi, að ég tel mikla þörf á því að taka til rækilegrar athugunar, hvaða lagaákvæði skuli gilda t. d. um það, að unglingum skuli selt áfengi, selt eða veitt áfengi, hvaða tökum eigi að taka þá menn, sem aka bifreiðum ölvaðir og valda slysum og jafnvel dauða, og fleira af þessu tagi, sem áreiðanlega þarf að setja ný lagaákvæði um. En viðurlög við þessu og mörgu fleiru eru svo lítilfjörleg og orðin svo úrelt á þeim 15 árum, sem núverandi áfengislög hafa gilt, að það er óhjákvæmilegt að endurskoða þetta. Þá vil ég í þriðja lagi nefna upphæð sekta fyrir brot á lögunum. Náttúrlega er það ekkert sérstakt um þessi lög frekar en um ýmis önnur lög, að sektarákvæði, krónuupphæð sekta, er algjörlega orðin í ósamræmi við það, sem var, þegar t. d. þessi l. voru sett. Mér virðist t. d., að krónan sé ekki meiri að verðmæti nú en svona 20–25% af því, sem hún var, þegar núgildandi áfengislög tóku gildi. Á þessu geta menn séð, hvort það er nokkurt hóf á því að hafa slík sektarákvæði enn þann dag í dag. Ætli menn taki það svo sérlega nærri sér, þó að þeir þurfi að greiða þessar upphæðir núna fyrir að brjóta þessi lög? Nei, þeir gera það sannarlega ekki.

Ég endurtek tilmæli mín til hv. allshn„ að hún endurskoði nú þetta frv. rækilega og beiti sér fyrir því, að gagnleg lagaákvæði verði nú samþ. og áfengislögin fái á sig þá mynd, að þau geti orðið að meira gagni en þau, sem enn eru í gildi.