09.12.1968
Neðri deild: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. ráðh. kvartaði yfir því, að ég hefði sagt, að það væri aðeins í áttina, ef hann gæfi yfirlýsingar, en ég vil þá, til þess að hæstv. ráðh. sé rórra í þessu, lýsa því hér með yfir, að ef hann lýsti þessu yfir skýlaust, þá mundi ég treysta því. Vona ég, að þetta verði þá til þess, að hann gefi þessar yfirlýsingar. Ég mundi treysta því. Það, sem ég átti við með þessu, var nú fremur hitt, að mér var ekki ljóst, hvort með því væri allri fjárhæðinni ráðstafað. Ég er ekki svo kunnugur þessu, að ég geti fullyrt, að allri fjárhæðinni væri ráðstafað, þó að hæstv. ráðh. gæfi yfirlýsingarnar, sem ég minntist á. Ég hef vanizt því, að menn treystu ráðherrayfirlýsingu á Alþ., og ég vil mega álíta, að það sé óhætt og þess vegna vil ég gera hæstv. ráðh. auðveldara að gefa yfirlýsingu með því að hafa þetta alveg skýlaust okkar á milli. Það stendur því alveg fast.

Hæstv. ráðh. spurði, hvort ég hefði spurt um þetta eða viljað fá þessa yfirlýsingu í umboði stjórnar Stéttarsambands bænda. Ég tala hér í umboði þeirra bænda m.a., sem hafa kosið mig á þing, og þarf ekki umboð frá neinum öðrum til þess að spyrjast fyrir um efni af þessu tagi eða lýsa yfir minni skoðun á þeim. Ég álít, að það sé alveg skýlaus krafa og komi algerlega af sjálfu sér frá bændum, að þeir fái þessa peninga, til þess að afurðaverðið nái tilskildu lágmarki, til þess að þeir fái grundvallarverð. Ég efast ekkert um afstöðu Stéttarsambands bænda. Þetta hlýtur auðvitað að vera fyrsta krafan. Hverjum ætli dytti í hug, sem hefur umboð fyrir bændur, að samþykkja það, að verðhækkun á birgðum landbúnaðarafurða verði tekin og notuð í eitthvað annað, en peningar innheimtir í staðinn af bændum með verðjöfnunargjaldi? Þetta finnst mér vera ákaflega einfalt. Það þarf ekki umboð frá neinum sérstaklega til þess að gera þá kröfu fyrir landbúnaðinn, sem er alveg eðlileg og sjálfsögð. Enda sjáum við, að í fyrra segist hæstv. ráðh. hafa látið nota allan gengishagnað á birgðum til þess að greiða útflutningsuppbætur. Hvers vegna getur hæstv. ráðh. ekki lýst því yfir, að hann ætli að fara að eins og í fyrra og nota þessa peninga í útflutningsuppbætur, eftir því sem þarf?