18.03.1969
Neðri deild: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

120. mál, áfengislög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl., sem jafnframt er formaður útvarpsráðs, hefur gert að umtalsefni ummæli mín í gær um það, sem ég kallaði skoðanakönnun hjá útvarpinu. Ég hafði bent á þessa skoðanakönnun, sem ég kalla svo, sem fram fór s. l. laugardagskvöld um ágæti næturklúbba. Hann talar um það, hv. þm„ að ég hafi hafið árás á starfsmann útvarpsins. Ég veit ekki til að ég hafi nefnt einn einasta starfsmann útvarpsins í ræðu minni í gær, heldur talaði ég um Ríkisútvarpið. Mig skiptir engu máli, hvaða starfsmaður það er, sem Ríkisútvarpið sjálft felur að framkvæma ákveðna hluti í útvarpinu. Ég er ekkert að ásaka neinn ákveðinn mann, heldur útvarpið sjálft, fyrir að hafa tekið upp þann hátt að eiga ýmis viðtöl með spurningum og leita eftir svörum manna um mjög mikilsverð og oft hápólitísk deilumál í þjóðfélaginu. Ég nefndi sem dæmi, að þarna komu fram skoðanir, sem virtust vera ákaflega einkennilega einhliða á þessu máli, og ég taldi það ótrúlegt. að þarna hefði komið fram nokkur mynd af almennum skoðunum manna hér í höfuðstaðnum á nytsemi næturklúbba. En það er ekki aðeins þetta mál. sem ég átti við og ég nefndi, heldur að margt fleira af þessu tagi hefði verið framkvæmt í útvarpinu. Ég skal ekkert dæma um það, hvaða tjón það kann að hafa gert, þessi viðtöl. En Ríkisútvarpið sjálft hefur haldið uppi þessum hætti um alllangt skeið að láta einn starfsmann sinn semja spurningar og velja sjálfur fólk, að því er manni skilst, til þess að svara þeim. Mér er tjáð t. d., að í vetur einhvern tíma hafi Ríkisútvarpið efnt til þáttar um spurninguna: Er rétt, að ríkisstj. segi af sér? Ég heyrði ekki þennan þátt og veit ekkert um svörin við henni. En þetta er dæmi um það, að það eru engin smámál. sem Ríkisútvarpið er farið að taka fyrir og leita eftir skoðunum manna á. Það, sem gerist í þessum tilvikum, er aðeins þetta, að það er verið á þennan hátt að láta þjóðinni í té upplýsingar um skoðanir manna á ákveðnu máli, án þess að það sé nokkur trygging, meira að segja nokkrar líkur til þess, að það sé nokkuð á þessu að byggja, hvað snertir almenningsálit. Þetta kalla ég skoðanakönnun og þetta er ekkert annað en skoðanakönnun. Ríkisútvarpið er að leita þarna eftir skoðunum manna, og hlustendur víðs vegar um land hljóta að líta svo á, að þarna komi fram almennar skoðanir. Annars er ekkert vit í þessu. Ég spurði í gær þessa hv. þm., sem eiga sæti í útvarpsráði og einnig eru hér í þessari hv. d., hver væri tilgangurinn með þessu. Því hafa hv. þm. ekki svarað. Er Ríkisútvarpið að skemmta einhverjum með þessu? Er það að leiða einhvern ákveðinn sannleika í ljós um hápólitísk og umdeild mál í þjóðfélaginu? Hver er tilgangurinn með þessu? Það er þetta, sem ég átel Hv. þm. segir, að Ríkisútvarpið hafi ekki notað orðið skoðanakönnun. Það skiptir engu máli. Það er könnun fyrir því. Það er verið að leita eftir skoðunum þarna. Það er því ekkert annað en skoðanakönnun, þetta, þó að ómerkileg sé.

Þá vitnar hv. þm. í það, að dagblöðin leyfi sér þetta. Þau spyrji fólk um álit á einu og öðru. Á þá Ríkisútvarpið að gera allt, sem dagblöð gera? Er allt til fyrirmyndar hjá dagblöðunum, sem Ríkisútvarpið gæti þá tileinkað sér? Ég held, að það sé síður en svo. Það verður að gera strangari kröfur til ríkisstofnana eins og útvarpsins heldur en það. Hv. þm. segir, að þessi fréttamaður, sem ég þekki ekki neitt, hafi samvizkusamlega spurt og valið menn í þessu efni. Auðvitað veit ég ekkert um, hversu samvizkusamlega hann hefur gert það. Það er enginn til frásagnar, ekki einu sinni formaður útvarpsráðs, nema hann hafi þá verið með honum í þessu. Eða hverjir eru þarna viðstaddir? Eftir hvaða reglum, eftir hvaða lögmálum er farið, þegar verið er að velja menn í slíka spurningaþætti? Mér þótti það einkennilegt, ég endurtek það, mér þótti það einkennilegt, að svo að segja allir, sem þarna voru spurðir um næturklúbbana, voru sömu skoðunar svo að segja, — að þessir næturklúbbar væru bara góðar stofnanir. Þær væru æskilegar og jafnvel ágætar stofnanir. Mig undrar þetta og ef þetta er á öðrum sviðum svipað, þykir mér hér ekki rétt að farið. Hv. þm. talaði um, að það væri rangt hjá mér, að Ríkisútvarpinu bæri að sýna hlutleysi, heldur ætti það að sýna óhlutdrægni. Þetta heyrir þá undir óhlutdrægni, þetta með næturklúbbana eða hvað? Ég sé ekki, að þetta skipti ákaflega miklu máli, hvort orðið er notað, því að hvort sem það er óhlutdrægni eða hlutdrægni, hvort sem þar er hlutleysi eða ekki, þá er þetta að mínum dómi, þegar um stórmál, deilumál, er að ræða og hápólitískt mál, eins og hefur átt sér stað, lítt viðunandi, og þá á þessi þáttur ekki við og það á að leggja hann niður.