18.03.1969
Neðri deild: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

120. mál, áfengislög

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég kvaddi mér nú ekki hljóðs vegna þeirra umr., sem hafa farið fram um starfsemi næturklúbbanna. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég er allsendis ókunnugur því háttalagi, sem þar á sér stað og legg engan dóm á það. Hins vegar er kannski skiljanlegt, að menn, sem eru komnir fast að sjötugu, séu ekki spenntir fyrir starfrækslu næturklúbba, því að þeir fara sennilega fyrr að sofa. En það erindi, sem ég á hér í ræðustólinn, er út af ræðu hv. 1. þm. Vestf. hér í gær. Þá hafði hann nokkur orð um það, að nm. í allshn. þessarar hv. d. væru frjálslyndir, því að þeir vildu hafa óbundnar hendur í afstöðu til þeirra till., sem þeir sjálfir flyttu, og mér virtist þm. líka þetta vel. svoleiðis að ég er nú ánægður með það. En hins vegar er þetta auðvitað háttur allra frjálslyndra manna. Það voru einstakir nm. í n. með þessari till., en ekki mjög spenntir fyrir annarri, en þeir komu sér saman um að flytja þessar till., og við erum allsendis óhræddir um það, hvernig þær fara. Menn hafa alveg frjálsar hendur, og ég vona, að hv. þd. afgreiði þessar till. auðvitað eftir því, sem hverjum þm. lízt sjálfum á.

Hitt fannst mér öllu lakara hjá hv. þm., þegar hann sagði, að allshn. hefði verið að flytja þetta frv. óbeðin. Ég vil nú bara minna á ræðu þessa hv. þm. við 1. umr., því að þá flutti hann hér mikið harmatal um það, hvernig hafði farið fyrir þessu frv., sem áfengismálanefndin samdi á sínum tíma og ríkisstj. lagði síðan óbreytt fram sem álit áfengismálanefndar, en náði ekki fram á því þingi og var síðan flutt af allshn. náði þá ekki fram að ganga og var enn flutt á síðasta þingi, og hann lýsti því átakanlega, hvernig því væri eiginlega háttað, þegar þessi áfengismál kæmu til umr. hér á Alþ., svo að ég hélt, að það sæti þá sízt á honum að kvarta undan því, að n. eins og allshn. hefði þá framtak í sér til þess að flytja það frv., sem er að verulegu leyti samið m. a. af þessum hv. þm.

Það er aðeins tvennt í ræðu hv. þm., sem ég vil vekja athygli á. Það er b-liður 9. brtt. þeirra, að sala, veitingar eða hvers konar afhending áfengis til ungmenna yngri en 20 ára varðar sektum, í fyrsta sinn kr. 5 þús. til 50 þús. Ítrekað brot skal auk sekta varða fangelsi allt að 30 dögum. Ég hygg, að það muni vera erfitt að vera þjónn á vínveitingahúsi og eiga yfir höfði sér fangelsi allt að 30 dögum, ef dyravörðurinn hleypir ungmenni innan við 20 ára aldur inn, og ég býst nú við, að þjónar biðji ekki um nafnskírteini eða ökuskírteini við hvern sjúss, sem pantaður er, og því muni þessum þjónum kannske verða það á að afgreiða menn, sem ekki hafa náð 20 ára aldri, og ef þeir verða uppvísir að því að hafa gert slíkt, þá skal samkv. till., sem flutt er af hv. 1. þm. Vestf. ásamt þremur öðrum þm., þá geti slíkur maður átt von á því að sæta fangelsi allt að 30 dögum. Mér finnst þetta harðir kostir, og ég hygg, að þegar hv. flm. þessarar till. fara að líta betur á þessa till. sjái þeir, að hér sé gengið fulllangt, og væri þessi till. betur óflutt en flutt.

Þá furða ég mig mjög á þeirri túlkun, sem hv. 1. þm. Vestf. viðhafði hér í sambandi við að sýna skilríki upp á að eiga aðgang að vínveitingahúsum, nafnskírteini eða ökuskírteini. Við í allshn. leggjum til, að þetta sé víðtækara og nota megi önnur sönnunargögn um aldur. Hv. þm. reyndi mjög að hártoga það, en í grg. frv. segir, að lagt sé til, að önnur skilríki en nafnskírteini geti orðið sönnunargögn um aldur á sama hátt og nafnskírteini, og er þá átt við ökuskírteini, vegabréf og önnur þvílík opinber skírteini, sem veita upplýsingar um aldur. Ég held, að þetta fari ekki á milli mála, og við skulum taka sem dæmi, að útlendingur er hér á ferð og ætlar inn á veitingahús. Það orkar tvímælis, hvort maðurinn er orðinn 20 ára eða ekki. Hann á ekki nafnskírteini, og hann á ekki ökuskírteini, en hann á vegabréf. Þá á dyravörðurinn að fussa við slíkum manni og segja:

Vegabréf gildir ekki hér, það þarf nafnskírteini eða ökuskírteini, og þú færð ekki að fara hér inn. Þetta finnst mér vera svona heldur þröngt sjónarmið hjá hv. flm. þessarar till. og tel ég þessa till. þeirra hina mestu fjarstæðu.