18.03.1969
Neðri deild: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

120. mál, áfengislög

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið hv. 1. þm. Vestf„ sem beindi hér fsp. í gær til okkar þm„ sem eigum sæti í útvarpsráði, varðandi þátt, sem var fluttur í Ríkisútvarpið s. l. laugardag. Það mun hafa gerzt, að í þætti Árna Gunnarssonar, Daglegt líf, hafi verið flutt viðtal við nokkrar persónur um næturklúbba. Ég hlýddi nú því miður ekki á þennan þátt, svo að ég get ekki dæmt um það, sem þar fór fram, en ég vil aðeins minna á það í þessu sambandi eins og hv. 5. þm. Vesturl. hefur bent á, að meðal þeirra kvaða, sem útvarpið leggur starfsmönnum sínum á herðar, m. a. þeim, sem sjá um þætti sem þessa, er það, að fyllstu óhlutdrægni sé gætt gagnvart mönnum og málefnum og skoðunum. Þetta þýðir að sjálfsögðu það, að sé verið að setja þarna fram eða halda fram ákveðnum skoðunum í slíkum þáttum, þurfa helzt bæði sjónarmiðin að koma fram eða fleiri, ef fyrir hendi eru í viðkomandi máli. Þetta er venjulega gert í þessum þáttum á þann hátt, að það eru látnir koma fram menn, sem túlka bæði sjónarmiðin eða öll. ef fleiri eru. Ég hygg, að með þeirri aðferð, að hringt er til ónafngreindra eða vissra manna, án þess að vitað sé fyrirfram, hverjar skoðanir þeirra séu á máli, þá geti út úr slíkum upphringingum komið það, að það sé túlkuð alveg önnur skoðunin eða sjónarmiðið'. Þess vegna er það mitt álit, að þessi aðferð sé mjög vafasöm með tilliti til þess, að hún geti samrýmzt þeim reglum útvarpsins að gæta fyllstu óhlutdrægni. Þetta hefur ekki borið neitt sérstaklega á góma í útvarpsráði, en ég mundi lýsa því sem minni skoðun í þessu efni, að ég teldi þessa aðferð óheppilega, ekki vegna þess að það sé endilega tilgangur þess manns, sem spyr eða stjórnar þessum þáttum, að hann ætli sér að fá fram eitt ákveðið sjónarmið, heldur getur þetta alltaf orðið þannig, þegar hann hringir til manna, sem hann veit kannske ekki neitt fyrirfram, hvaða skoðanir hafa á málinu, að það verði alveg einlit hjörð, sem þarna kemur fram. Þess vegna tel ég, að þetta sé ekki heppileg aðferð hjá útvarpinu eða starfsmönnum þess að leita eftir skoðunum eða áliti manna með þessum hætti.

Ég vil annars segja það um þennan þátt, sem Árni Gunnarsson hefur stjórnað í útvarpinu um nokkurra missera skeið, að mér finnst honum hafa tekizt að mörgu leyti vel. Þetta er mjög vandasamt verk, sem hann sér þarna um. Verkefnið er, eins og nafnið á þættinum bendir til að reyna að bregða upp myndum af því, sem er að gerast í daglega lífinu og efst er á baugi hverju sinni, með samtölum við menn með ýmsum hætti. Þetta hefur að mínum dómi oft tekizt mjög vel og verið til upplýsingar og glöggvunar og fróðleiks á viðkomandi máli, en við, sem vinnum við blöðin, þekkjum það mætavel. að þegar menn eiga annríkt og þurfa kannske að vinna verk sín á síðustu stundu, þá geta alltaf orðið einhver mistök í þessum efnum, án þess að það sé beinlínis viljandi gert. Ég get sagt það um það atriði, sem hér er talað um eins og ég raunar hef áður tekið fram, að ég álít þessar hringingar með þessum hætti til ónafngreindra manna eða manna, sem viðkomandi spyrjandi veit ekki um, hvaða skoðanir hafa á málinu, að þær geti orðið til þess, að niðurstaðan stríði gegn reglum útvarpsins um að fyllstu óhlutdrægni sé gætt gagnvart mönnum og málefnum. Þess vegna álít ég, að þegar verið er að leita eftir skoðunum eða áliti manna á málum, þá eigi það að vera með því að leitað sé til manna, sem fyrirfram sé vitað um, hvaða skoðanir hafa á málinu, og með því sé tryggt, að mismunandi sjónarmið fái nokkurn veginn notið sín.