15.04.1969
Neðri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

120. mál, áfengislög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. við þetta frv. ásamt hv. 1. þm. Vestf. og 1. þm. Norðurl. v. Brtt. okkar er á þskj. 397. Hér er um að ræða tvær till. Sú fyrri er á þessa leið:

„Hvert veitingahús, er vínveitingaleyfi hefur, skal halda uppi fullkominni þjónustu án vínveitinga a. m. k. eitt laugardagskvöld af hverjum fjórum eftir kl. 8 síðd., samkv. reglum, er ráðh. setur að fengnum till. áfengisvarnaráðs.“

Þessi till. er samhljóða brtt., sem mþn. sú, sem athugaði áfengislögin samkv. ákvörðun Alþ„ lagði hér fram við áfengislöggjöfina. Við teljum eðlilegt, að þau veitingahús, sem fá vínveitingaleyfi, taki á sig þessa þjónustu, sem hér er rætt um, og þá sérstaklega fyrir þá aðila, sem ekki óska sérstaklega eftir vínveitingum. Það er kunnugt, að samkomuhús ýmis hafa sótt mjög fast á það að fá vínveitingaleyfi, því að það fer varla á milli mála, að það hefur gefið þeim talsverðar tekjur í aðra hönd, svo að það sýnist ekki óeðlilegt, að þessi hús, sem sækja svona mikið eftir þessum heimildum, taki á sig þá þjónustu, sem hér er um að ræða, þ. e. að þau skuli a. m. k. halda uppi fullkominni þjónustu eitt laugardagskvöld af hverjum fjórum eftir kl. 8 síðdegis án vínveitinga. Ég vænti sem sagt, að hv. þd. geti fallizt á það, að hér sé ekki farið fram á of mikið við þessa aðila, þó að þeir yrðu að halda uppi slíkri þjónustu, sem þarna er gert ráð fyrir, enda er þetta í fullu samræmi við till. mþn„ sem um málið fjallaði.

Hin brtt. okkar á þessu sama þskj. er þannig, að ákveðið skuli verða, að verði ungmenni innan 20 ára aldurs uppvíst að ölvun, skuli viðkomandi lögregluyfirvöld þegar í stað rannsaka, hver selt hafi eða veitt því áfengið, og skuli hinir seku sæta refsingu samkv. 45. gr. þessara laga. Það hefur verið allmikið um það rætt, sérstaklega í vissum tilvikum, að vínveitingastaðir eða aðrir, sem vín hafa með höndum, hafi veitt ungmennum vín, en slíkt brýtur fullkomlega í bága við áfengislögin, þar sem óheimilt er að selja eða veita yngra fólki en því, sem náð hefur 20 ára aldri, vín. Í vissum tilfellum hefur borið mjög mikið á þessu og jafnvel verið settar á laggirnar sérstakar rannsóknarnefndir til þess að athuga um framferði unglinganna, sem af þessu hefur hlotizt. En það er álit okkar, að þegar slík atvik verða, sé sjálfsagt að láta fara fram sérstaka rannsókn á því, hver það er í raun og veru, sem veitt hefur þessum ungmennum hið ólöglega áfengi í þessum tilfellum og þeir, sem sekir reynast, verði látnir sæta refsingu samkv. lögum. Það hjálpar vitanlega lítið í þessum tilfellum að fyllast vandlætingu yfir því, að unglingarnir skuli hafa reynzt drukknir. En hitt skiptir vitanlega öllu máli að reyna að finna þann seka í þessum efnum, hver það hefur verið, sem veitt hefur þeim áfengið, því að samkv. lögum er það óheimilt að veita ungmennum á þessum aldri áfengi. Okkur hefur fundizt skorta mjög á, að lögregluyfirvöld í landinu teldu sér raunverulega skylt að láta fara fram rannsóknir af þessu tagi. Því viljum við setja það skýlaust inn í áfengislögin, að ef það kemur fyrir, að ungmenni innan 20 ára aldurs reynast vera drukkin, skuli fara fram rannsókn á því, hvaðan áfengið er komið, hver hinn seki er, sem selt hefur þeim eða veitt áfengið. Það er mín skoðun, að ef undanbragðalaus rannsókn færi fram í þessum efnum, mundi vera hægt að koma í veg fyrir vínveitingar til ungmenna í mörgum tilfellum. En nú sýnist mér, að vettlingatök séu á þessu hjá lögregluyfirvöldum, sem láti þetta að mestu leyti afskiptalaust, þegar slíkt kemur upp.

Ég hef þá gert grein fyrir þessum tveimur brtt., sem við flytjum á þskj. 397, og þarf þá ekki að fjölyrða um þetta meir að sinni. Hér eru að vísu komnar fram ýmsar aðrar brtt. við áfengislögin, þ. á m. sú till., sem er á þskj. 419 og gerir ráð fyrir því, að heimilað verði að selja sterkt öl. Þessi till. mun að sjálfsögðu verða hér til umr. síðar, þegar frsm. till. hefur gert grein fyrir henni, og geri ég þá ráð fyrir því að taka einhvern þátt í þeim umr., en skal ekki frekar víkja að henni, meðan frsm. hafa ekki gert grein fyrir till. En ég vænti, að till. okkar á þskj. 397 fáist nú samþykktar.