15.04.1969
Neðri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1951)

120. mál, áfengislög

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég mun hafa sama hátt á og síðasti ræðumaður að ræða ekki þær brtt. aðrar, sem hér hafa komið fram við þetta mál. sem á dagskránni er, heldur skýra með nokkrum orðum þá brtt., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt fjórum öðrum hv. þm. á þskj. 419. Það má segja, að þetta mál sé svo margrætt hér í þessari hv. deild, að efnislega þyrfti ekki að skýra það á þessu stigi, nema þá að tilefni gefist til eins og þegar hefur verið tilkynnt, síðar í umr. og mun ég þá halda mig við þá skoðun.

Sú meginbreyting hefur verið gerð á þessu máli, frá því að það var síðast flutt hér, að lagt er til að áður en ákvörðun sé tekin, skuli þjóðin sjálf dæma um, hvort þessi leið skuli farin eða ekki. Að leyfa sem sagt tilbúning og sölu á áfengu öli hér innanlands, sem er veikasta stig áfengra drykkja, sem við þekkjum, með sömu meðferð og annað áfengi hér í landinu, innan þess ramma, sem áfengislögin hafa mótað. Það eru þó nokkrir aðilar, sem hafa rætt við mig, sem hafa sagt eitthvað á þessa leið. Ja, ég mun verða á móti þessu, vegna þess að það er verið að leggja undir dóm þjóðarinnar mál sem á að vera til úrlausnar hjá Alþ. sjálfu. Aðrir hafa sagt: Ég verð á móti málinu, vegna þess að þarna er verið að leggja til að mál verði lagt undir dóm þjóðarinnar, sem er miklu minna um vert heldur en mörg önnur mál sem lagt hefur verið til, að þjóðin fengi að segja álit sitt á með sérstakri atkvgr. Við báða þessa aðila vil ég taka það fram, að ég held, að áfengislöggjöfin sé eina löggjöfin, sem hefur notað þetta um langt árabil. en í 10. gr. áfengislaganna segir m.a., að ef ætti að stofna til eða loka útsölustað Áfengisverzlunar ríkisins, þá skuli sú ákvörðun borin undir atkvæði viðkomandi aðila í viðkomandi sveitarfélagi. Við þurfum heldur ekki annað en að renna huganum til baka. Þegar bannlögin voru samþykkt fór fram þjóðaratkvgr. og eins þegar þau voru upphafin á sínum tíma, þannig að fordæmið er fyrir hendi, að þjóðin sjálf, kjósendur, útkljái þetta deilumál. enda hafa ábyggilega mjög margir þm. talið rétt að láta aðra segja til um, hvað þeir vildu í þessu efni. En þetta mál hefur ekki enn þá fengið þá meðferð, og þess vegna hafa meðflutningsmenn mínir, hv. þm. Jón Skaftason, Matthías Bjarnason, Steingrímur Pálsson og Björn Pálsson, leyft sér að leggja það til við hv. deild, að sá háttur verði á hafður, að áður en ríkisstj. geti veitt þessar heimildir, skuli þjóðin sjálf dæma þar um. Ég hef líka talið óþarft að senda mál þetta til n. Það hefur verið í n. nú á mörgum undanförnum þingum, og það hafa borizt umsagnir um það frá ýmsum aðilum, sem auðvitað hafa enn þá tækifæri og hafa sýnt það, að þeir vilja nota það tækifæri til að segja sinn hug um þetta mál en þar sem það er lagt til að það sé þjóðin, sem dæmi um málið, þá höfum við ekki lagt til að málið fari til n. eða sérstakra umsagna væri leitað.

Ég þykist ekki á þessu stigi hafa ástæðu til þess að ræða málið frekar efnislega. Eins og ég tók fram í byrjun míns máls, þá hefur þetta mál verið ítrekað til umræðu hér í þessari hv. deild, og rætt mjög ítarlega. Ég geri ráð fyrir því, að svo verði enn nú, og þá munum við auðvitað, sem flytjum þetta mál. taka til máls á seinna stigi málsins, og þá ekki aðeins um þessa brtt., heldur og aðrar, sem fram hafa komið við áfengislögin, þótt ég geti auðvitað skýrt frá því strax eins og fram hefur komið á þskj., að ég er fylgjandi brtt., sem komið hafa frá allshn., en mun verða á móti þeim brtt., sem koma fram á þskj. 397 og ég mun þá síðar gera nánari grein fyrir.