15.04.1969
Neðri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

120. mál, áfengislög

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég hafði, satt að segja, ekki ætlað að taka þátt í þessum umr. að þessu sinni, þar sem ég hef verið að undanförnu að reyna að afla mér upplýsinga, sem enn þá hafa ekki borizt, réttra upplýsinga um reynslu þeirra þjóða, sem skyldastar okkur eru, af milliölinu og sterka ölinu og hvaða áhrif það hefði haft á neyzluvenjur og víndrykkju í þessum löndum. Ég á von á að fá nýjar upplýsingar um þetta atriði frá Svíþjóð, en því miður eru þær ekki enn þá komnar, þannig að ég hafði hugsað mér að bíða með að taka til máls um þetta mál. þar til þær upplýsingar eru fengnar. En ég kemst þó ekki hjá því vegna ræðna tveggja flokksbræðra minna úr eldri deild flokksins að segja hér nokkur orð um þær ræður. Ég er farinn í gegnum nokkuð mörg ár að kannast við þann tón, sem ég heyrði í þeim, hvernig sumir gefa sér forsendur og halda heilar ræður út frá forsendum, sem hvergi eru til staðar nema í þeirra eigin hugarheimi, enda niðurstaðan oft eftir því. En þetta er nú kannske innanríkismál í þeim flokki, sem ég tilheyri, og skal ég ekki fara að flíka því mjög hér.

Ég verð að segja það, að vinur minn, hv. 1. þm. Vestf„ flutti hér alleinkennilega ræðu, og er þá ekki mikið sagt. Mér fannst, að á ýmsum sviðum væri málflutningur hans ærið mótsagnakenndur. Tímans vegna skal ég aðeins víkja að þessu örfáum orðum, ekki fara út í öll þau atriði, sem ástæða væri til að víkja að, heldur aðeins nokkur. Hann harmaði mjög þá breytingu, sem lagt væri til að gerð yrði á gildandi lögum um, hvaða skilyrði þyrftu að vera fyrir hendi til þess, að veitingahús í 1. flokki gætu öðlazt vínveitingaleyfi. Og hann komst að þeirri niðurstöðu, að ef þessi brtt., sem flutt er á þskj. 396, yrði samþ., væri þar með verið að koma hlutunum þannig fyrir, að vínveitingahús í kaupstöðum gætu selt áfengi í óþökk meiri hluta bæjarbúa, eins og hann orðaði það og hneykslaðist hann eðlilega mjög á því. Hins vegar virtist það ekki valda honum neinum hrellingum eða hneykslan að virða að vettugi þjóðarvilja, ef meiri hluti þjóðarinnar við atkvgr. lýsti því yfir, að hann væri því samþykkur og teldi til bóta frá því ófremdarástandi, sem nú ríkir í áfengismálunum, að leyfa sölu á léttu öli í landinu eftir nákvæmlega sömu reglum og nú gilda um sölu á sterku áfengi. Honum fannst ástæðulaust, að meiri hluti þjóðarinnar fengi tækifæri til þess að segja sína skoðun á þessu máli, og honum fannst ekkert athugavert heldur við það, þó sú skoðun þjóðarinnar, sem kæmi fram í atkvgr., yrði að engu metin. Hv. þm. sagði: Í hvaða tilgangi er till. fimmmenninganna flutt? Og hann komst að þeirri skynsamlegu niðurstöðu, að annaðhvort vekti fyrir okkur að auka á áfengisneyzluna í landinu með því að leggja til að leyfð yrði framleiðsla á léttum bjór ellegar þá að við gerðum okkur væntanlega vonir um að minnka áfengisneyzluna: Þetta er rétt hjá hv. þm. Öðrum hvorum þessum kosti er til að dreifa. En hv. þm. var ekki í miklum vafa sjálfur um það, hver niðurstaðan yrði af þessu, ef létt öl yrði framleitt í landinu og leyft til sölu. Hann flutti um það atriði nokkuð langa ræðu og vitnaði þar í ýmsa mæta menn, og skal ég ekkert fara á þessu stigi málanna að rífast um það við hann. En ég vil benda honum á, að það eru ýmsir aðrir og ekkert ómerkari menn, sem hafa alveg þveröfugar skoðanir á áhrifum þess á vínneyzluna í löndunum. Og meðan hv. þm. var að tala og flokksbróðir hans, sem talaði á eftir, las ég í fljótheitum yfir mjög athyglisverða skýrslu, sem birtist í Nordisk Kontakt, 5. hefti 1969 á bls. 306, um reynsluna af þessu í Svíþjóð. Þetta hefti liggur hér frammi á borðum allra þm„ og getur hver og einn lesið þetta og kynnt sér af eigin reynd, hver reynslan er þar sögð hafa verið af tilkomu ölsins í Svíþjóð. Ég þýddi nokkur atriði úr þessari skýrslu, meðan hv. þm. var að tala og í ónákvæmri og óvandaðri þýðingu ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp efnisleg atriði úr þeirri skýrslu. Yfirskrift skýrslunnar er „Áfengissalan minnkar í Svíþjóð“. Undirfyrirsögn er „Órói hjá brennivínsframleiðendum og kartöfluframleiðendum“. Það er undirfyrirsögnin. Í inngangi skýrslunnar segir:

„Með mikilli gleði tilkynntu sænsk áfengismálayfirvöld þann 20. febr. s. l., að vínsalan árið 1968 hefði verið sú lægsta síðan verkfallsárið 1963. Sala sænsku áfengisverzlunarinnar minnkaði á árinu 1968 um 4.4% eða í 50.4 milljarða lítra. Það vill segja, að minnkun frá árinu 1967 er um 2.3 milljarða lítra.“

Þetta er nýjasta reynsla Svía af árinu 1968, borið saman við árið 1967. Enn fremur segir í skýrslunni m. a. þetta:

„Yfirstjórn áfengismálanna lýsti yfir mikilli ánægju með fráhvarfið frá sterku drykkjunum til léttu drykkjanna, og forsvarsmenn bindindishreyfingarinnar voru að sjálfsögðu mjög ánægðir.“

Síðar í þessari skýrslu segir enn fremur, að meðal þeirra, sem mótmæltu þessari þróun, væri að sjálfsögðu formaður samtaka sænskra brennivínsframleiðenda. Hv. þm., sem töluðu hér á undan mér, létu báðir að því liggja, hvor á sinn hátt að vísu, að fyrir okkur flm. brtt., sem hér er verið að ræða, lægi það að auka á þau vandræði, sem hér væru til staðar vegna neyzlu áfengis. Það er auðvelt að gera mönnum upp tilgang með flutningi mála. En ég vil biðja þessa hv. ágætu þm. að athuga nú betur, áður en þeir leyfa sér að staðhæfa hluti, sem þeir gerðu áðan, þá reynslu, sem ég var hér að lýsa og fengizt hefði í Svíþjóð. Það er enginn vandi að draga upp sorglegar myndir af áhrifum neyzlu áfengis á unglinga og raunar alla þá, sem þess neyta í óhófi. Áfengið er til staðar í landinu. Því verður ekki breytt nema með banni, og enginn hér á hv. Alþingi hefur, meðan ég hef hér setið, lagt það til eða talið það framkvæmanlegt að banna algerlega sölu á áfengum drykkjum í landinu.

Ég tel það vera, eins og sagt er í hnefaleikum, að berja fyrir neðan beltisstað, þegar tveir síðustu ræðumenn voru að láta að því liggja, að við vildum með tillöguflutningi okkar auka á þetta vandamál. Ég þori að fullyrða, að við ætlumst allir til þess og við trúum því, þar til reynslan afsannar það, að með tilkomu létta ölsins muni fara hér, kannske ekki alveg í upphafi, en mjög fljótlega þannig, að ekki einasta dragi úr neyzlu áfengisins, heldur verði neyzlan sjálf miklu mennilegri heldur en hún er í dag við þau ákvæði, sem eru gildandi um sölu áfengisins. Ég skal verða fyrstur manna til að draga réttar ályktanir af þeirri reynslu, sem við fáum væntanlega eftir 2–3 ár, ef leyft verður að selja létt öl í landinu. Sjái ég fram á það og séu færð fyrir því rök, að það geri ástandið, illt ástand, enn þá verra, þá skal ekki standa á mér að breyta til þeirra reglna, sem í gildi eru í dag. En ég trúi því enn þá, að ef framleiðsla á léttu öli verður leyfð, munum við bæta ástand þessara mála í landinu, en ekki gera það verra. Það er aðalatriðið. En á þessu stigi málanna ætla ég ekki að lengja þessar umr. mikið meira.