08.05.1969
Efri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1967)

120. mál, áfengislög

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Það var með hangandi hendi, að ég skrifaði undir nál., sem mælti með samþykkt þessa frv. Þó má náttúrlega segja, að það skipti ekki miklu máli, þótt fáeinum vitlausum greinum sé bætt við heimskulegustu löggjöf þessa lands, áfengislögin. Að þessu sinni kemur þó það sjaldgæfa fyrir, að ein gr. af viti er í frv. og það er hún, sem gerir það að verkum, að ég mæli með samþykkt þess. Það er nú erfitt, eins og málið er búið í hendur hv. þd., að segja, um hvaða grein maður er að tala. Það mun vera 16. gr. frv., en 33. gr. laganna, bókstafur b, 4. mgr., 1. tölul., sem orðist svo: „Flytji skip hingað ólöglega áfengi, svo að telja megi það verulegan hluta af farmi þess, er heimilt að gera skipið upptækt handa ríkissjóði.“ Þetta með heimildina er nýmæli í lögunum. Hingað til var það skylda, og einn af mínum ágætu kjósendum varð fyrir barðinu á þessu. Hann hafði leigt öðrum bát sinn til fiskveiða. Það næsta, sem hann fréttir um skipið, er, að þá er það úti í Belgíu og hlaðið af smygluðu áfengi. Mannauminginn átti engan þátt í þessu, það vissu allir, en það þurfti að náða hann af refsingu fyrir glæp, sem hann hafði aldrei framið. En skv. frv. verður nú heimilt — aðeins heimilt — að framfylgja þessum grimmdarákvæðum, og ég skil það þannig, að sú heimild verði ekki notuð, nema eigandi skipsins sé annaðhvort í vitorði með smyglurunum eða taki þátt í leik, þar sem hann, góður og skynsamur maður, hlaut að sjá, hvað væri á seyði. Annars verði þessi heimild ekki notuð.

Burtséð frá þessu og þeirri raunhæfu breytingu að setja orðin „Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins“ í staðinn fyrir „Áfengisverzlun ríkisins,“ þá skipta nú hin ákvæðin ekki mjög miklu máli í framkvæmdinni. Því að vitanlega fer um þessi ákvæði eins og önnur ákvæði áfengislaganna — það dettur engum ófullum manni í hug að fara eftir þeim. Þau verða jafnmargir dauðir bókstafir eins og núv. áfengislöggjöf. Það er ekki skortur á refsiákvæðum og lagaheimildum fyrir yfirvöldin, sem gerir það að verkum, að það er tæplega komandi á veitingahús hér að kvöldi til fyrir drukknum ungmennum, sem liggja þar á gólfinu eða þvælast að borðum manna. Það er ekki það, að það skorti lögin, það skortir viljann til að framkvæma lög, sem gefa allt of víðar heimildir og órýmilegar heimildir.

Ég nennti nú ekki að fara að eltast við margt í frv. en samt fannst mér ég samvizku minnar vegna verða að gera ofurlitlar aths., þar sem nú á að fara að bæta þremur flokkum við löggæzlulið þessa lands, sem sagt póstmönnum, leigubílstjórum og veitingaþjónum. Allir þessir menn eiga að geta hlaupið á eftir manni og heimtað nafnskírteini og þeir eiga að geta látið merkja sendingar, sem manni eru sendar, með leiðindaáletrunum, og einn flokkur þeirra á að geta frestað afhendingu á löglegum sendingum. Þá má ekki lengur koma drukknu ungmenni heim til kunningja þess og láta það sofa úr sér, og ég veit ekki hvað og hvað. En út af þessu öllu er ég með sex smátillögur.

Sú fyrsta er við 7. gr. frv., en hún tekur í sjálfu sér einnig til 10. gr. þess. Hún segir, að í staðinn fyrir það, að þarna er gert ráð fyrir því í 7. gr., að lögreglustjórum sé heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að banna um stundarsakir afhendingu áfengissendinga, þ. á m. úr pósti, þá vil ég takmarka þessa heimild, að það megi ekki tefja nema í einn sólarhring í senn slíkar lögmætar sendingar til manna, og ef grunur leikur á, að sending, sem ekki er merkt sem áfengissending, innihaldi áfengi, þá megi lögreglustjóri eða fulltrúi hans heimta, að sendingin sé opnuð í hans viðurvist, en ella gæti hann tafið afhendinguna. En skv. frv. eiga póstmenn að leika löggæzluvöld yfir mönnum. Þessa brtt. mína álít ég vera afar nauðsynlega til verndar persónufrelsi viðtakenda póstsendinganna.

Þá kemur 9. gr. Hún er töluvert umfangsmikil, því að hún er alger umorðun á 16. gr. laganna, þar sem í dag standa margir staðlausir stafir. T. d. hefst, með leyfi hæstv. forseta, 2. mgr. 16. gr. þannig, eins og hún er í frv.: „Óheimilt er að selja þeim manni áfengi, er sekur hefur gerzt um óleyfilega sölu eða bruggun áfengis. Skylt er að tilkynna útsölumönnum Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins jafnóðum, hverjir gerzt hafa sekir um óleyfilega sölu eða bruggun áfengis.“ —Á þá að dæma þann, sem einu sinni hefur gerzt bruggari, til ævilangrar bruggunar eða ævilangs bindindis? Eða á hann að taka þátt í þeim yfirdrepsskap, sem er alls staðar kringum þessi lög, að vera með sendisvein til að fara inn í áfengisverzlunina fyrir sig? Hverjum dettur í hug, að nokkur maður hafi neitað sér um áfengi út af þessum lagabókstaf? Að þetta hafi stöðvað kaup á einni einustu flösku? Dettur nokkrum manni í hug, að nokkur útsölumaður áfengis hafi nokkurn tíma litið í þessa spjaldskrá, sem þarna er gert að skyldu að færa? Vitanlega ekki. Þetta er þvættingur, sem ekki á að hafa í lögum. Og síðan segir seinna í þessari sömu gr., að yngri mönnum en 20 ára má ekki selja, veita eða afhenda áfengi með nokkrum hætti. Það er alveg nóg að gefa þarna fyrirmæli til Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins og vínveitingahúsa. Þess vegna vil ég orða 16. gr. í heild þannig: „Útsölur Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins og vínveitingahúsa mega ekki afhenda ölvuðum mönnum áfengi. Ekki mega þessir aðilar heldur selja eða veita yngri manni en 20 ára áfengi. Ef vafi leikur á um aldur manns, verður hann að geta sannað sitt mál með nafnskírteini eða á annan fullnægjandi hátt.“ Þetta sýnist mér framkvæmanlegt. Við skulum reyna að halda okkur á jörðinni og reyna að setja lög um það, sem er framkvæmanlegt í þessum efnum.

Þá kemur 10. gr. Þar vil ég fella niður seinni málsl.

Það er þetta sama, sem ég var að tala um áðan með póstsendingarnar. Og 11. gr. vil ég fella niður með öllu. Það er kjánaleg hnýsni og óþarft og að mínu viti mjög heimskulegt ákvæði, sem á að fara að lögfesta.

Þá er 15. gr. Það er nú meinlaust, smáhortittur, sem þarf að leiðrétta. Það stendur í henni í sambandi við félagsmálaráð í Reykjavík: „Ráðh. kveður nánar á um starfssvið í reglugerð.“ Þarna hlýtur náttúrlega að vera átt við starfssvið félagsmálaráðsins að þessu leyti, því að það er Reykjavíkurbær, sem skipar félagsmálaráðið og ákveður þess almenna starfssvið. Ég hugsa, að það geti ekki orðið ágreiningur um þessa brtt.

Og þá er 20. gr. Þar er aftur verið að gera hlutina strangari að óþörfu heldur en þeir þurfa að vera, og þess vegna legg ég til að hún sé felld niður.