14.12.1968
Neðri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Frsm. mínni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Frv. þetta til laga um ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breytingar á gengi íslenzkrar krónu er ekki langt mál. og ekki flókið mál í sjálfu sér, en n. var ekki sammála um afgreiðslu þess eigi að síður. Ef þetta frv. er borið saman við samsvarandi ákvæði í frv. ríkisstj. um ráðstafanir í sjávarútvegi, eins og það heitir á faglegu máli, þá kemur það í ljós, að hér er allt annað form á ákvæðunum, allt annað form. Og það lítur út fyrir það, að þessir tveir þættir gengismálsins, hliðarráðstafanir, sem fylgja gengislækkuninni, hafi verið undirbúnir á allt annan hátt. Frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins varðandi gengishagnaðinn ber með sér, að það hafa verið höfð mjög náin samráð við vissa aðila um það, hversu gengishagnaðinum yrði ráðstafað, og í því frv. er þetta sundurliðað, greint í marga liði. En hér er á allt annan hátt með farið.

Nú var landbn. að sjálfsögðu sammála um meginefni frv., sem er í samræmi við og í framhaldi af því, sem segir í fyrstu löggjöfinni varðandi gengisbreytinguna, að gengishagnaði skuli ráðstafað í þágu þeirra atvinnuvega, sem leggja til andvirði viðkomandi afurða. Um þetta var enginn ágreiningur í n., en að öðru leyti gat n. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. vildi samþykkja frv. alveg óbreytt.

Eins og hv. frsm. meiri hl. skýrði frá, lá fyrir n. bréf frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, þar sem óskað var breytinga á frv. Ekki var nú sú breyt. veigamikil. Það var till. um það, að tekið skyldi upp í frv. ákvæði um, að skylt væri að hafa samráð við Framleiðsluráð um ráðstöfun fjárins. Ég hugsa, að það séu flestir hv. þm. sammála um það, að þar hafi nú ekki verið farið fram á mikið og varla getað minna verið. Og þetta atriði, þó það gangi miklu skemmra en er í frv. um sjávarútveginn, er nákvæmlega í samræmi við það, sem þar er sagt, svo langt sem það nær, t.d. í 16. gr. a, þar sem sagt er, að stjórn Fiskveiðasjóðs annist framkvæmd greiðslna þessara samkv. reglum, sem sjútvmrn. setur, að fenginni umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna, og hliðstæð ákvæði eru í fleiri stafliðum. Hv. frsm. meiri hl. n. sagði hér áðan, að þetta breytti engu. Eins og það breytti engu, hvort það er tekið fram í lögum, að haft skuli samráð við viðkomandi stofnun? Auðvitað breytir það máli, og það er allt annað, hvort það kemur fram í lögunum sjálfum, að viðkomandi stofnun, í þessu tilfelli Framleiðsluráð landbúnaðarins, sé viðurkenndur tillöguaðili í málinu. Og það liggur þá alveg ljóst fyrir, ef till. þessa aðila fara í bága við það, sem endanlega er ákveðið. Þegar málið ber þannig að, liggur það alveg ljóst fyrir, hvað hver hefur viljað. En þó að þarna væri ekki, að því er manni virðist, farið fram á mikið, er ekki unnt að verða við því. Það sem sagt sést, að húsbændurnir á þjóðarheimilinu hirða lítið, hvað hjúin kífa og hlusta ekki á neitt rell.

Minni hl. n. leggur til, eins og sjá má á nál. hans, að breyta þessu, taka upp ákvæði um, að samráð skuli haft við Framleiðsluráð, eða fengnar tillögur þess, hliðstætt því, sem er í 16. gr. l. um ráðstafanir í sjávarútvegi. Ég er satt að segja dálítið hissa á því, að hv. frsm. meiri hl. skuli finnast það eðlilegt að lýsa því yfir hér úr ræðustóli, að það skipti engu máli, hvort í lögum sé tekið fram, að haft skuli samráð við, í þessu tilviki, Framleiðsluráð landbúnaðarins eða ekki. Ég verð að segja það, að ég skil ekki þann hugsunarhátt. Annars er þetta ekki meginbreytingin samkv. till. minni hl. n. Meginbreyt., sem felst í okkar till., er sú að taka upp skýr ákvæði um það, hversu verja skuli gengishagnaðinum eða m.ö.o., að Alþ. ákveði það sjálft í stórum dráttum. Einnig þetta er alveg í samræmi við frv., sem ég nefndi áðan, þ. e. um ráðstafanir í sjávarútvegi. Þar er þetta nákvæmlega til tekið. Það eru ekki færri en 5 stafliðir í 16. gr., þar sem rakið er nákvæmlega, hversu verja skuli þeim gengishagnaði, sem til fellst vegna sjávarútvegsins. Sumt á að fara til greiðslu hluta af gengistapi af lánum vegna fiskiskipa, ákveðinn hundraðshluti, 34.5%. Í b-lið er ákveðið, að 16.4% gangi til þess að auðvelda síldveiðibátum, sem stunduðu veiðar á norðausturmiðum sumarið 1968, að standa í skilum o.s.frv. Og í staflið c, að 13.5% gangi til að auðvelda Síldarverksmiðjunum að koma sínum málum fyrir. Í staflið d, að 18.2% gangi til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa, og e, að afgangur renni til Fiskveiðasjóðs, eða til veitingar stofnlána til bolfiskvinnslu eftir reglum, sem sjútvmrn. setur. Þannig er þetta sundurgreint og nákvæmlega til tekið, hversu með gengishagnað sjávarútvegsins skuli farið, en varðandi landbúnaðinn segir það eitt, að hann skuli nota til þarfa landbúnaðarins, skv. ákvörðunum landbrn.

Það virðist okkur í minni hl. eðlilegt og sjálfsagt, að þarna sé fullt samræmi í afgreiðslu mála frá Alþ. að þessu sinni, að því er þetta varðar. Okkur finnst það með öllu óeðlilegt, að eitt rn., sem raunverulega þýðir einn ráðh., að forminu til a.m.k., fái svo víðtæka og óskoraða heimild til þess að ráðstafa svo miklum fjármunum sem hér er um að ræða. Þó að krónan sé orðin lítil, eru samt 150 millj. kr., eða þar um bil, enginn smáskildingur, og við leggjum því hiklaust til, að Alþ. sjálft taki ákvarðanir, í grófum dráttum, en síðan setji þá rn. reglur um nánari meðferð fjárins, líkt og ákveðið er í l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Ég held satt að segja, að það sé ástæðulaust að fara um þetta mörgum orðum, þetta virðist svo eðlilegt og sjálfsagt sem mest má vera, að hvor tveggja þessi löggjöf sé formuð á sama hátt, en þá er það hitt — til hvers skuli verja gengishagnaði. Það er vitað mál, að um það er ágreiningur. Það hefur m.a. komið fram í blöðum, að innan ríkisstj. er uppi ágreiningur um það. Hins vegar lítum við svo á, minni hl. n., að eins og þessi mál standa og ástæður eru í landbúnaði, og eins og gengisbreytingin verkar á þann atvinnuveg, sé það eðlilegt, og að okkar dómi raunar einsætt, að gengishagnaði landbúnaðarins skuli varið til þess að stuðla að því, að bændur fái grundvallarverð fyrir sína framleiðslu. Það hafa gilt um það mjög skýr lagaákvæði um árabil, að, eins og þar segir, tekjur bænda skuli vera í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Þetta ákvæði er búið að vera í l. um alllangan tíma, og það verður að líta svo á, að Alþ., þó að það sé ekki sjálft framkvæmdaaðili varðandi framkvæmd löggjafar, telji það nokkru skipta, að lögum sé hlýtt, og að það sé unnt að ná því marki, sem þau lög setja, er það hefur sett og enn eru í gildi. Nú hafa í seinni tíð verið birtir útreikn. frá Hagstofu Íslands, sem er, eins og ekki þarf að taka hér fram, hlutlaus stofnun, á tekjum hinna ýmsu starfsstétta þjóðfélagsins. Þessar rannsóknir benda til þess, að bændastéttin hafi aldrei náð því tekjujafnrétti, sem viðkomandi löggjöf fjallar um, hvað þá meira, og það jafnvel þótt hið skráða verð, sem sett er samkv. ákvæðum l. ár hvert, hafi fengizt. Ég lít nú svo á, að yfirleitt verði að meðhöndla með nokkurri varúð tölur og tölfræðilegar upplýsingar, já, meðhöndla þær með varúð, og ég vil ekki slá neinu föstu um það, að þeir útreikningar, sem birtir hafa verið um tekjur hinna ýmsu starfsstétta í þjóðfélaginu, gefi nákvæmlega réttan samanburð á stöðu atvinnustéttanna. Ég er ekki að halda því fram. En ég leyfi mér hins vegar að árétta það, sem ég sagði áðan, að bændur hafa ekki náð tekjujafnréttinu, og ég fullyrði það vegna þess einfaldlega, að það hefur ár eftir ár borið svo ákaflega mikið á milli í þessu efni. Og þá er einnig á það að minna, að vegna hinnar gífurlegu verðbólguþróunar, sem orðið hefur hér á landi á löngu árabili og þó aldrei örari en á síðari tímum, hafa skapazt enn vaxandi erfiðleikar varðandi afkomu landbúnaðarins og afsetningarmöguleika á söluvörunum. Bilið á milli þess grundvallarverðs, sem ákveðið er á innlendum markaði, og þess verðs, sem fæst fyrir landbúnaðarvörurnar á útlendum markaði, þeim hluta, sem út þarf að flytja, hefur stöðugt farið vaxandi. Fyrir svona 10 árum fékkst nálægt 75% fyrir þær útflutningsafurðir, sem bezt gáfu, en þetta bil hefur stöðugt verið að breikka og áður en gengislækkunin var gerð, höfðu þessi hlutföll raunverulega snúizt við. Og þannig er komið nú, að þrátt fyrir gengislækkunina fer því svo fjarri, og ég kem aðeins nánar inn á það síðar, að lögmætar útflutningsbætur hrökkvi til þess, að endar nái saman. Og þó er þess að gæta, að fyrir atbeina bændasamtakanna og Framleiðsluráðs hefur það tekizt að draga stórkostlega úr útflutningi þeirrar vöru, sem erfiðust hefur verið í útflutningi, þ.e.a.s. mjólkurvaranna. Það er svo enn og það hefur löngum verið, að útflutningur sauðfjárafurða er þó miklu hagkvæmari en útflutningur mjólkurvaranna.

Það liggur nú fyrir, að á síðasta verðlagsári, þ.e.a.s. á verðlagsárinu 1967–1968, hafa bændur sjálfir formlega — það hefur verið gengið frá því nú þegar — tekið á sig tæpl. 50 millj. kr. lækkun frá hinu skráða verði á framleiðslu verðlagsársins 1967–1968. Og þó að það sé ekki algerlega fulluppgert fyrir þetta ár, er það þó sýnilegt, að því fer mjög fjarri, að það hafi verið komizt til botns í málinu. því fer mjög fjarri. Og það hefur verið gerð áætlun. Það er erfitt að gera áætlanir í landbúnaði og auðvitað miklu erfiðara en t.d. í iðnaði, af því að tíðarfar grípur þar mjög inn í alveg eins og veðrátta og mismunandi afli getur gert við sjávarsíðuna. En samkv. þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið, er ekki annað sjáanlegt en á því verðlagsári, sem nú stendur yfir, vanti svo mikið á, að grundvallarverð náist á þessu ári, að áætlaður gengishagnaður geri ekki betur en að brúa það bil eitt saman. Ég sagði áðan, að áætlunum um þetta efni væri að vísu ekki fyllilega að treysta, en ég get þó ekki ímyndað mér, að útkoman verði betri að því leyti, að minna vanti á en áætlunin gerir ráð fyrir. Ég get varla ímyndað mér það, þegar þess er gætt, sem mér er vel kunnugt um, að í þessari áætlun er gert ráð fyrir óbreyttri kjötsölu á innlendum markaði á þessu ári, óbreyttri frá því, sem var í fyrra. En því miður er það áreiðanlega of djarfi að gera sér vonir um það. A.m.k. bendir allt til þess, sem vitað er um kjötsölu innanlands á síðustu vikum, að hún muni dragast saman. Það er svo komið hag þjóðarinnar nú, að hinir efnaminni verða að draga við sig kaup á þeim matvælum, sem talin hafa þó verið hingað til með þeim ágætustu, sem Íslendingar eiga völ á, og leita heldur fanga á þeim slóðum, sem hægt er að fá ódýrari tegundir matar. Og það er þannig um fleiri atriði varðandi undirbyggingu þessarar áætlunar, sem eru á þann veg, mér er vel kunnugt um það, þó að ég hirði ekki að rekja það nánar hér, — að þess er ekki að vænta, að útkoman verði betri. Þess er ekki að vænta, að minna vanti á, að grundvallarverð náist en áætlunin gerir ráð fyrir.

Ég vil enn benda á það, til frekari áréttingar, hversu þunglega horfir um, að landbúnaðurinn nái sínu tilskilda verði, hvað þá að þær tekjur fáist, sem framleiðsluráðslögin raunverulega gera ráð fyrir, sbr. ákvæðið um, að tekjur bænda skuli vera í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Ég vil enn fremur víkja að því, hvernig gengislækkun verkar fyrir íslenzka atvinnuvegi með mismunandi hætti eftir því, hversu mikinn hluta af framleiðslu sinni atvinnuvegirnir flytja úr landi. Því er haldið fram af hæstv. ríkisstj., að gengislækkunin hafi verið gerð fyrir atvinnuvegina og fyrst og fremst fyrir útflutningsatvinnuvegina og við skulum segja, að þetta sé rétt. Við skulum segja, að þeir hagnist á gengislækkuninni, vel að merkja, ef ekki heldur áfram sama þróunin og hér hefur átt sér stað á undanförnum árum. Og náttúrlega gerist ekki annað en það, sem gerðist hér í fyrra, er gengislækkun var gerð, að sama daginn var byrjað að safna í næstu gengislækkun. En við skulum nú sleppa því í þessu sambandi. En það er óhjákvæmilegt, þegar rætt er um landbúnaðinn og ráðstöfun gengishagnaðar til hans, að gera sér grein fyrir því, að landbúnaðurinn flytur ekki út nema lítinn hluta af sinni framleiðslu. Það er aðeins lítill hluti af hans framleiðslu, sem fær á sig verðhækkun vegna lækkunar á verðgildi íslenzkrar krónu, verðhækkun í íslenzkum krónum talið. En rekstrarvörur landbúnaðarins aftur á móti eru að langmestum hluta innfluttar og hljóta því að hækka gífurlega. Og verzlun með stærstu liðina af rekstrarvörum landbúnaðarins, eins og t.d. fóðurbæti, er þannig hagað, að innlendi kostnaðurinn er tiltölulega mjög lítill og verðhækkunin vegna gengislækkunar verður enn meiri hlutfallslega á því en á öðrum innflutningi, sem meiri innlendur kostnaður er á. Hún verður enn meiri.

Landbúnaðurinn hefur þess vegna ekki beinan hagnað af gengislækkuninni sjálfri sem slíkur, þegar á heildina er litið. Og ef þurft hefur að gera slíka harða ráðstöfun sem gengislækkunin er, til þess að rétta hluta annarra atvinnugreina í landinu, ef þess hefur þurft og ef það ber tilætlaðan árangur, hver verður þá hlutur landbúnaðarins eftir þær sviptingar, sem orðið hafa í efnahagslífinu, þegar öll kurl eru komin til grafar? Hann getur áreiðanlega ekki orðið góður. Og ég held, að það geti enginn haldið því fram, að staða landbúnaðarins nú, þegar gengislækkunin er gerð, hafi verið þannig, að hann geti tekið á sig byrðar á sama tíma og þarf að gera stórar ráðstafanir til þess að greiða fyrir öðrum atvinnurekstri. Ég held, að það geti engum dottið slíkt í hug.

Ég hef minnzt á skýrslu Hagstofunnar um tekjurnar. Við getum litið á almenna þætti eins og t.d. mannfjöldaþróunina í landinu. Hafa menn sótzt eftir því að fara inn í þessa atvinnugrein? Þróunin hefur ekki verið á þann hátt, heldur hefur fólkinu fækkað í sveitum, og menn hafa leitað á aðrar slóðir, þar sem betur hefur blásið. Og það má minna á það árferði, sem verið hefur í sumum héruðum og valdið þar mjög miklum erfiðleikum. Það liggja ekki fyrir tölur um skuldir landbúnaðarins, en það er verið að vinna að rannsókn á þeim málum. Tölur liggja ekki fyrir, en eigi að síður er það margt, sem liggur fyrir varðandi það mál, þó að heildarniðurstöður þeirrar rannsóknar séu ekki komnar. Það er vitað um miklu meiri vanskil en nokkru sinni áður á greiðslum af föstum lánum. Og á einstökum landssvæðum er vitað um stórfellda skuldasöfnun. Og þegar litið er á þessar almennu staðreynd, held ég, að engum geti komið það til hugar, að íslenzkur landbúnaður og bændastéttin þoli að taka á sig byrðar, að landbúnaðurinn þoli það sem atvinnuvegur á sama tíma og gerðar eru róttækar ráðstafanir til þess að létta undir með öðrum atvinnuvegum, sem hafa þó búið þannig fram undir síðustu misseri a.m.k., að til þeirra hefur fólksstraumurinn legið, en frá landbúnaðinum.

Það heyrist að vísu oft um það talað, að landbúnaðarframleiðslan sé nú meiri en nota þarf innan lands, það sé sök bændanna sjálfra, og þeir geti þá sjálfir borið sínar byrðar, þegar útflutningsbætur þrýtur. En það er náttúrlega of langt mál að fara út í það, en ég vil þó árétta það, sem ég drap á áðan, að framleiðsla þeirrar vöru, sem óhagfelldust er til útflutnings, hefur minnkað fyrir tilstuðlan bændasamtakanna. Til viðbótar því vil ég einnig minna á það, að bændasamtökin hafa haft uppi ráðagerðir og leitað eftir því að fá aukið vald til handa Framleiðsluráði landbúnaðarins til þess að skipuleggja framleiðsluna á hagfelldan hátt, en það hefur ekki fengizt. Og ég vil nú einnig segja það, að íslenzkir bændur hafa lagt hart að sér við umbætur og með þeim árangri, að framleiðslan hefur vaxið þrátt fyrir það, þótt fólki hafi fækkað. Ég ætla ekkert að fara að afsaka það. En það hefur nú ekki verið til siðs hér í íslenzku þjóðfélagi, þó að misjafnlega hafi gengið í atvinnurekstri og jafnvel þó að mistök hafi átt sér stað í fjárfestingu, að refsa fyrir það.

Við leggjum það til, minni hl. landbn., að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, að 1. gr. orðist alveg um og á þessa leið: „Fé það, sem kemur vegna útfluttra landbúnaðarafurða á reikning þann, sem um getur í 2. mgr. 4. gr. laga frá 12. nóvember 1968, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu, skal nota til verðuppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir, til viðbótar því fé, sem greitt er samkv. 12. gr. laga nr. 101 1966, allt að því marki, að bændur fái greitt hið skráða verð fyrir framleiðsluna.

Landbrh. setur, að fenginni umsögn Framleiðsluráðs landbúnaðarins, nánari reglur um greiðslu fjárins.“ Við lítum svo á, að þegar það blasir við, að stórkostleg vöntun verður, á síðasta verðlagsári, á því, að bændur nái hinu skráða verði, og þegar það einnig liggur fyrir, að ekki er annað sjáanlegt en sú vöntun verði jafnvel enn þá meiri á því verðlagsári, sem nú stendur yfir, þá sjáum við ekki, að með nokkru móti sé forsvaranlegt að ráðstafa hinum svo kallaða gengishagnaði af landbúnaðarvörum á annan hátt en þann, að hann komi beint í hendur framleiðendanna og að það verði á þann hátt stuðlað að því, að þeir nái hinu skráða verði. Okkur sýnist, að annað sé ekki viðhlítandi. Og ég vil aðeins að lokum láta þess getið, að enda þótt við höfum tekið inn í okkar till. „allt að því marki, að bændur fái greitt hið skráða verð fyrir framleiðsluna,“ þá teljum við, að því fari fjarri, að það mark náist.