22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

218. mál, skólakostnaður

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Árið 1962 var sú breyting gerð á skólakostnaðarlögum, að umráðamönnum héraðsskóla var í sjálfsvald sett, hvort ríkið tæki við rekstri og stofnkostnaði viðkomandi héraðsskóla. Á stuttum tíma, eftir að þessi l. tóku gildi munu forráðamenn allra héraðsskóla í landinu hafa notfært sér þessa heimild og óskað eftir því, að ríkið tæki við rekstri skólanna og þá einnig þeim kostnaði, sem leiddi af nýjum byggingum þar. Ákvæði um þetta voru þau áður, að héruðin kostuðu að ¼ hluta byggingar slíkra skóla og einnig að ¼ hluta rekstur þeirra fyrir utan þann kostnað, sem leiddi af kennslunni sjálfri. Árið 1967 voru gerðar allsherjarbreytingar á skólakostnaðarlögunum, og í upphaflegri gerð þess frv. var gert ráð fyrir, að þetta næði í fyrsta lagi til barnaskóla og unglingaskóla, héraðsskóla og húsmæðraskóla. En áður en þessi l. voru afgreidd, var sú undanþága gerð, að umráðamenn húsmæðraskólanna máttu velja um það, hvort skólarnir störfuðu áfram eftir l. frá 1955 eða eftir hinum nýju skólakostnaðarlögum. Stjórnir allra húsmæðraskóla munu þegar hafa óskað eftir því að starfa samkv. eldri lögum, því að það varhagkvæmara fyrir héruðin, að hlutföllin væru 3/4 og ¼ kostnaðar, en það breytist mjög með tilkomu nýju skólakostnaðarlaganna.

Nú er þess að geta, að þó að héruðin í landinu, sem standa að héraðsskólunum öll með tölu nema eitt, teldu sér það hagkvæmara að afhenda ríkinu héraðsskólana, þá var það eitt hérað, sem ekki vildi ganga þessa leið. Með þessu frv. er lagt til, að aðstandendur Laugaskóla í Þingeyjarsýslu megi velja um það, hvort skólinn starfi áfram eftir l. frá 1955 eða hvort hann verður afhentur ríkinu. Með breyt. á l. 1967 kom það í ljós, að hlutur héraðsins í rekstri skólans hækkaði nokkuð frá því, sem verið hafði. Og við athugun, sem gerð hefur verið af menntmrn. og eftirlitsmanni skóla, Aðalsteini Eiríkssyni, kemur í ljós, að á þessu skólaári muni rekstrarkostnaður við Laugaskóla verða um ½ millj. kr. hærri en áður, meðan hann starfaði eftir eldri ákvæðum. Þetta er það þungur baggi fyrir héraðið, að það mun naumast telja sig fært að rísa undir honum ofan á það, sem áður var, sem mun hafa verið eitthvað um 250–300 þús. kr. á ári. Þess ber að geta, að þetta eru ekki ný útgjöld fyrir ríkið miðað við það, sem áður var, þó að frv. þetta verði samþ. Hins ber einnig að geta, að við Laugaskóla eru byggingar í gangi, sem kosta héraðið nokkuð mikið fé á ári, þar sem það greiðir ¼ af kostnaði við þær byggingar. Ef þetta frv. nær ekki fram að ganga, sem ég vænti, að verði þó, þá eru horfur á því, að héraðið sjái sér ekki fært að reka skólann áfram á sama hátt og verið hefur og muni þá gefast upp og neyðast til að afhenda hann ríkinu, eins og þegar er búið að gera við aðra héraðsskóla. Mundi þá að sjálfsögðu koma á ríkið kostnaður við þær byggingar, sem verið er að vinna að við Laugaskóla, og einnig við þær, sem eru ógerðar, og yrðu þær á þann hátt mun kostnaðarsamari fyrir ríkið en er og verið hefur.

Ég tel að það sé ekki farið fram á neitt annað en réttlætismál í þessu efni með því að bera fram þetta frv. og vænti þess, að það fái góðar undirtektir hér í deildinni og nái fram að ganga, áður en þingi lýkur nú í vor. Tel ég svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en legg til að frv. verði sent hv. menntmn. að lokinni þessari umr.