02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

218. mál, skólakostnaður

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef litlu við að bæta þau orð, sem ég sagði við flutning þessa máls fyrir nokkrum dögum, en vil þó geta þess, að menntmn. sendi frv. til umsagnar skólaeftirlitinu eða nánar tiltekið Aðalsteini Eiríkssyni, sem stendur fyrir því. Hann er allra manna kunnugastur framkvæmd laga um skólakostnað, bæði eldri laga og einnig þeirra laga, sem nú hafa gengið í gildi frá 1967. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa kafla úr álitsgerð hans um þetta frv., sem hljóðar svo:

„Við afgreiðslu 1. nr. 49/1967 var, svo sem kunnugt er, samþykkt, að húsmæðraskólar mættu vera áfram undir ákvæðum l. nr. 41/1955, ef sveitarfélög óskuðu þess, þar sem sýnt þótti, að ákvæði hinna nýju l. yrðu sveitarfélögum mjög í óhag, hvað snerti þennan skólakostnað. Sama gildir og um skóla eins og héraðsskólann á Laugum. Var það raunar vangá ein, að ekki var vakin athygli á þessum eina héraðsskóla, sem nú er kostaður sameiginlega af ríki og sveitarfélögum.

Það mun ekki hafa verið ætlunin með setningu hinna nýju skólakostnaðarlaga að þrengja hag sveitarfélaga. Þess vegna var samþ., að húsmæðraskólarnir kæmu undir áðurnefnda undanþáguheimild, ef þess yrði óskað, og það hafa allir hlutaðeigendur gert. Nákvæmlega sömu rök liggja til þess, að sama gildi um héraðsskólann á Laugum. Að honum stendur eitt sýslufélag, er kostar hann móti ríkinu, og hlutur þess verður allmiklu meiri eftir ákvæðum nýju l. en hinna eldri. Vísast um þetta atriði til meðfylgjandi samanburðaryfirlits miðað við kostnað 1967.“

Svo fylgir hér yfirlit um þann kostnað, sem hefði fallið á þennan tiltekna skóla 1967, ef þau ákvæði hefðu verið í gildi þá, sem nú eru í gildi samkv. l., sem ég nefndi áðan frá 1967. Það kemur í ljós, sem ég raunar vissi, að þarna þyngist allmikið hlutur sýslufélagsins, og það, sem þetta frv. á að koma til leiðar, er það, að sýslufélagið sitji við sama borð og áður, ef það á annað borð ekki kýs að afhenda skólann ríkinu, eins og aðrir héraðsskólar hafa þegar verið afhentir því. Ég hygg, að það þurfi ekki um þetta mál mikið að ræða. Ég vænti þess, að það þyki eðlilegt, að þetta frv. verði samþ., og ég vil geta þess, að sá samanburður á kostnaði, sem þarna er birtur á þskj. 615, er gerður eftir ósk frá menntmrn. og var því eftirlitsmaðurinn viðbúinn að afhenda okkur það, þegar þess var óskað. Menntmn. leggur svo til að þetta frv. verði samþ.