11.11.1968
Neðri deild: 12. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Forsrh- hæstv. hefur nú tilkynnt, að ríkisstj. hafi enn og nú í 4. sinn látið fella krónuna og nú miklu mest eða 35.4%, sem jafngildir hvorki meira né minna en 54.5% hækkun á erlendum gjaldeyri.

Verðstöðvunarstjórnin reisir enn eina dýrtíðaröldu, tröllauknari en nokkru sinni fyrr. Á einu og sama árinu hefur þessi stjórn, verðstöðvunarstjórnin, hækkað verð á erlendum gjaldeyri frá 76% til 104%, eftir því hvort miðað er við pund eða dollar, en verðið á erlenda gjaldeyrinum er undirstaða alls verðlags í landinu. Jafnframt er ætlazt til þess, eftir því sem hæstv. forsrh. sagði, að almenningur taki á sig óbætta þá heljar holskeflu dýrtíðar, sem af þessu mun leiða frá 1. nóvember s.l. Í því skyni að fá þessu framgengt segist ríkisstj. á næstu dögum ætla að beita sér fyrir því að afnema 1. eða nema úr gildi alla kjarasamninga.

Auðvitað er þessi stefna algerlega óframkvæmanleg, eða telja menn hugsanlegt, að þeir, sem búa við almenn kjör, geti tekið á sig jafntröllaukna kjaraskerðingu og af þessu mundi leiða? Hæstv. ríkisstj. hefur ekki látið svo lítið að hafa nokkurt samráð við launþegasamtökin, áður en hún gefur þessa yfirlýsingu. Jafngildir þetta yfirlýsingu um ófrið á vinnumarkaðinum og vinnudeilur á næstunni.

Lýsing hæstv. ríkisstj. á því, hvernig komið er í þjóðarbúinu, er ljót. Fyrir nokkrum dögum var t.d. tilkynnt, að allur gjaldeyrir væri gersamlega þrotinn, og það var notað þetta orð, þrotinn. Allar þessar lýsingar hæstv. ríkisstj. og þessi tilkynning minna menn á gamla úttektargerð, sem fram fór á einu prestssetri í landinu endur fyrir löngu og þjóðfræg hefur orðið, en hún endaði þannig: „kúgildin kveður prestur sig upp étið hafa“.

Mundi þessi lýsing ekki vera nokkuð nærri lagi á því, hvernig nú er ástatt í þjóðarbúinu við þennan merkilega áfanga, sem nú verður í sögu „Viðreisnarinnar“? Fyrir 11/2 ári voru alþingiskosningar á Íslandi. Það var kosið um verðstöðvun og blómlegt atvinnulíf á traustum grunni „Viðreisnarinnar“ og ríkisstj. skreið á þessum fögru fyrirheitum. Það var 1967, fyrir 11/2 ári síðan, en þá var komið afurðaverðlag eins og við höfum átt að venjast undanfarið, að undanskildum tveimur toppárum, og aflinn orðinn aftur líkur því, sem við höfum átt að venjast. Einmitt við slíkar aðstæður, ekki ólíkar því, sem við höfum búið við síðan, var lofað verðstöðvun og blómlegu atvinnulífi á traustum grunni. Við vissum, að þetta var ósatt, og þeir, sem lofuðu þessu, vissu líka, að þetta var blekking. Þetta var ekki hægt og átti sér enga stoð í veruleikanum. Við vissum, að allt efnahagslífið var holgrafið og helsjúkt, en því var reynt með tröllauknum lántökum erlendis og lausaskuldasöfnun erlendis, sem kölluð var gjaldeyrisvarasjóður.

Nú er svo komið, að nettóskuldir erlendis eru sem næst 9 milljarðar kr. á móti 3 milljörðum kr. reiknað með sama gengi, sem þær voru 1958. En reiknað með nýja viðreisnargenginu eru þessar skuldir nálega 131/2 milljarður, og árlegar greiðslur af þessum lánum eru nú orðnar miklu meiri hluti af gjaldeyristekjum íslenzku þjóðarinnar eða gjaldeyrisvonum íslenzku þjóðarinnar en nokkurn tíma hefur áður þekkzt í sögu landsins. Þó var okkur sagt, að viðreisnin væri fyrst og fremst sett á fót vegna þess að það þyrfti nýja stefnu til þess að stöðva óhóflega skuldasöfnun við útlönd, sem væri orðin óbærileg. En hvað hefur gerzt?

Með þessu er þó ekki sagður nema einn lítill þáttur úr mikilli sögu, að skuldabyrðin við útlönd hefur verið þrefölduð. Undan atvinnulífinu hefur samtímis verið grafið á þann hátt, sem hlaut að koma fram innan stundar, enda byrjaði ballið strax eftir kosningarnar. Þá byrjaði strax framkvæmd „verðstöðvunarinnar.“ Strax sumarið 1967 voru ráðh. óþreytandi við að reikna út, hversu mikið þyrfti að hækka verðlagið, því að sá var ómjúkur, sem á eftir rak, og það voru staðreyndirnar, sem hafði verið haldið leyndum í kosningunum. Fyrsta skrefið voru stórfelldar álögur, sem áttu að verða uppbætur. Næsta skrefið var gengislækkunin í nóvember í fyrra, sem sögð var reiknuð út á sérlega vísindalegum grundvelli og mundi færa málefni landsins í skynsamlegt horf og greiða úr vandræðum atvinnuveganna. En síðan kom eftir áramótin nýtt stórfellt uppbótakerfi, og í vor, þegar átti að fara að gera út á síldina, dugði ekki gengislækkunin og ekki nýja uppbótarkerfið heldur.

Þá varð að gefa út loforð til síldveiðiflotans um veruleg framlög úr ríkissjóði á þessu ári til viðbótar.

Bullandi halli var á ríkisrekstrinum 1967, sjálft kosningaárið, og á þessu ári hefur sá halli haldið áfram og farið sífellt vaxandi. Við sögðum það í fyrrahaust, þegar núverandi ríkisstj. lagði út í þriðju gengislækkunina á sínum stjórnarferli, að óbreyttri stefnu að öllu leyti, að hún mundi byrja strax að safna í næstu gengislækkun. Og hvað hefur orðið? Það hefur vitanlega orðið raunin á, eins og fyrirsjáanlegt var, vegna þess að hér er um að ræða grundvallarmeinsemd í okkar þjóðarbúskap og atvinnulífi, sem ekkert hefur verið reynt að lækna. Við sjáum nú og erum vitni að, að hér er að springa tröllaukið kýli, sem ekki er lengur hægt að leyna, en allt var þó gert til þess að leyna. Og skollaeyrum er enn skellt við öllum uppástungum um breytta stefnu, sem orðið gæti til að horfa tæki í heppilegri átt.

Ég skal rekja aðeins örlítið einstaka þætti í því, hvernig ástatt er. Greiðsluhalli við útlönd á þessu ári er áætlaður einhvers staðar sem næst 1000 milljónir. Gjaldeyriseignin er gjörsamlega þrotin og það verið sérstaklega tilkynnt, eins og ég minnti á áðan, skuldir við útlönd eru orðnar hvorki meira né minna en sem næst 9 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum til 8 manna nefndarinnar og hafa þrefaldazt síðan 1958. Ríkissjóður var rekinn með halla árið 1967, og á þessu ári verður gífurlegur greiðsluhalli á ríkisbúskapnum. Reynt hefur verið að halda uppi verklegum framkvæmdum með lántökum á lántökur ofan og farið til útlanda til þess að skrapa saman fé í það að halda gangandi venjulegum verklegum framkvæmdum á vegum ríkissjóðs. T.d. um, hvernig þessi þróun er, má geta þess, að samkv. upplýsingum, sem við höfum aflað okkur, voru ríkislántökur frá 1. sept. 1967 til 1. sept. 1968 eða á tólf mán. nálega 1.200 millj. Skuldir ríkissjóðs jukust sem sé á þessu tímabili um 60%, á einu ári. Og samkv. þeim tölum, sem við höfum fengið, eru þær nú komnar á fjórða milljarð.

Ríkissjóður hefur stóraukið yfirdráttarskuldir sínar hjá Seðlabankanum, og það hefur svo vitanlega orðið til þess að magna kreppuna í atvinnulífinu, því að ríkissjóður hefur sogað til sín fé, sem atvinnulífið átti að fá, til þess að geta gengið. Samkv. yfirliti, sem gert hefur verið um fjárfestingarsjóðina, sem er þó mjög lauslegt. vantar að minnsta kosti 450 millj. inn í þá, svo nokkur von sé til þess, að þeir geti haldið uppi álíka lánastarfssemi á næsta ári og í ár.

Talið er, að uppbætur til sjávarútvegsins á þessu ári muni ekki verða fjarri 700 millj., en þó er það dæmi óuppgert enn og verður að nefnast með fyrirvara. Frystihúsin dragast áfram, og nær öll önnur fyrirtæki í framleiðslunni eru með óbotnandi lausar skuldir, og ýmsum þeirra hefur þegar verið lokað, önnur sjá sína sæng uppreidda, ef ekki verða neinar skynsamlegar ráðstafanir gerðar í lánamálunum. Lausaskuldir liggja yfir höfuð eins og mara á nálega öllum atvinnufyrirtækjum landsins og flestum þeim fyrirtækjum, sem þjóðin byggir afkomu sína mest á.

Í landbúnaðinum hafa safnazt botnlausar lausaskuldir, þannig að landbrh. hefur gengizt fyrir því, að safnað væri sérstökum upplýsingum um þau mál til þess að fá yfirlit um, hvernig komið er, en þar mun engin von vera til þess að farsællega verði haldið áfram, nema sérstakar ráðstafanir verði gerðar til þess að leysa úr lausaskuldamálunum, og á það einnig við um sjávarútveginn.

Þróunin í iðnaðinum hefur verið mjög óhagstæð, eins og kunnugt er, og hefur iðnaður dregizt saman hröðum skrefum í ýmsum greinum. En í því sambandi er einfaldast að upplýsa, að samkv. skýrslu, sem Efnahagsmálastofnunin hefur gert um þetta efni, kemur þetta fram m.a., með leyfi hv. forseta: „Árin 1964–1967 eru talin hafa verið mikil erfiðleikaár í íslenzkum iðnaði. Mikill vöxtur framleiðslu átti sér stað á árunum '62`63, um 10% á ári. Á árunum þar á eftir versnaði samkeppnisaðstaða iðnaðarins við erlendan iðnað hins vegar mjög, fyrst og fremst vegna ört hækkandi framleiðslukostnaðar hér á landi,“ — þ.e.a.s. verðbólgu, það er innskot mitt, — „en einnig að nokkru leyti vegna lækkunar verndartolla og í einstaka greinum vegna afnáms beinna innflutningshafta. Varð þetta til þess, að verulega dró úr framleiðsluaukningu í iðnaðinum, og er hún ekki talin hafa verið meiri en 3–4% á ári 1964–1966 og sennilega engin árið 1967. En á þessum árum jókst fjárfesting í iðnaðinum hins vegar mjög mikið og mun ekki hafa verið meiri í annan tíma en á árunum 1966–1967.“ Síðan kemur um rekstrarniðurstöður og afkomu iðnaðarins nánar á þessa lund, með leyfi hv. forseta: „hagnaður, þ.e.a.s. brúttóhagnaður iðnaðarins í heild, fór vaxandi 1964–1967. Tekjur hafa aukizt umfram hækkun breytilegs kostnaðar, þannig að vaxandi fjárhæð hefur verið til ráðstöfunar til þess að mæta hækkunum fjármagnskostnaðar í heild sinni, en í öðru lagi, að nettóhagnaður hefur hins vegar farið lækkandi með hverju ári frá 1964–1967. En þessi þróun stendur í nánu sambandi við mikla fjárfestingu í iðnaðinum á þessum árum, sem gerir það að verkum. að afskriftir og vextir aukast mjög, án þess að tekjur aukizt að sama skapi.“

Á þessu sjáum við, hvernig iðnaðinum hefur vegnað á þessum árum og hvernig ástatt er fyrir honum. Afkoman hefur á þessum árum farið versnandi og alls ekki orðið sú aukning, sem lífsnauðsynlega þurfti að verða, ef vel átti að fara um þróun atvinnumálanna.

Við þessar staðreyndir, sem ég hef bent á, bætist svo að atvinnuleysið hefur haldið innreið sína í landið, og nú er geigvænlegt atvinnuleysi framundan samkv. þeim beztu skýrslum, sem hægt er að fá um þau efni.

Nú segir hæstv. forsrh., að það sé ekki von á góðu, vegna þess að þjóðin hafi orðið fyrir meira áfalli í verðlagsbreytingum og aflaleysi en nokkru sinni áður á þessari öld. Í því ljósi verði menn að skoða allt ástandið og ekki kippa sér upp við það, þó illa horfi, og menn verði að taka á sig margvíslega erfiðleika. En hvernig standast þessar fullyrðingar hv. forsrh., sem allur hans málflutningur er byggður á og sem háskalegastar eru. vegna þess að með þeim er verið að reyna að koma í veg fyrir, að þjóðin skilji hinar raunverulegu aðalástæður þess, hversu erfiðlega horfir.

Staðreyndirnar eru þær, að ef tekin eru viðskiptakjör þjóðarinnar út á við, en það eru þau, sem máli skipta í þessu efni, þ.e.a.s. verðlag útflutningsvara samanborið við verðlag innflutningsvara, þá er talið, að vísitala viðskiptakjara muni verða 112 á árinu 1968, þ.e.a.s. á yfirstandandi ári, í stað 118 á árinu 1967. Þetta eru hagstæðari viðskiptakjör en þjóðin hefur oftast áður átt við að búa. Ef maður tekur yfirlit frá árinu 1958, kemur í ljós, að vísitala viðskiptakjara 1958 var 104, vísitala 1959 var 106, vísitala 1960 var 100, vísitala 1961 var 111, 1962 111.7 og 1963 111.9. Síðan kemur vísitala Il8 1964, 131 1965, þegar verðlagið hækkar gífurlega, og 1966 131. Síðan aftur 118 1967 og 112 1968. M.ö.o. verðlag það, sem íslenzka þjóðin á við að búa á þessu ári, sem er lægsta árið nú af þessum síðustu 5, er betra en meðaltal síðustu 10 ára, mun betra en meðaltal áranna frá 1958 til 1964. Athugum þessar staðreyndir og þá sjáum við, að við búum við verðlagskjör, viðskiptakjör sem líkust því, sem þjóðin er vönust, og þó í betra lagi. En það eru toppárin 1965 og 1966, sem skera sig úr.

Ef verðbólgustefna ríkisstj. og aðrar aðfarir hennar. sem hafa reynzt óheppilegar fyrir íslenzkt atvinnulíf, hefðu ekki verið búnar að grafa undan íslenzku atvinnuvegunum, hefði ástandið ekki átt að þurfa að vera neitt verulegt vandamál.

Ef litið er á aflabrögðin, kemur í ljós, að afli ársins 1967 er með bezta móti, þegar frá eru skilin aðeins 2 ár. og aflabrögðin í ár verða í heild einna líkust því, sem menn eiga hér að venjast af og til. Það er ákaflega þýðingarmikið, að þjóðin átti sig á þeim blekkingum, sem bornar eru fram í þessu sambandi, vegna þess að það er alveg vonlaust, að fundnar verði aðferðir til þess að bæta úr þessu, ef menn vilja ekki gera sér grein fyrir því, hvernig þjóðin raunverulega er á vegi stödd og að aðalástæðan fyrir því, hvernig komið er, er hvorki aflabrestur né verðfall, þó að það hafi verið erfitt að fá lækkað verð og minni afla en var allra hæst og þá svo hátt, að það er einsdæmi á þessari öld. Þetta hefur valdið nokkrum erfiðleikum, en þetta er ekki aðalástæðan, heldur hitt, hvernig verðbólgu- og eyðslu- og stjórnleysisstefna ríkisstj. hefur leikið íslenzkan þjóðarbúskap. Allt er úr skorðum gengið að segja má og búið að grafa undan atvinnurekstrinum á þann hátt, sem afkoma aðalfyrirtækja landsmanna glögglega sýnir. Þessi stefna. sem hefur leitt út í þessar ógöngur er sannarlega fullreynd orðin, enda hefur hún leitt til fjögurra gengisfellinga á 8 árum.

Það, sem nú hefði skipt mestu fyrir íslenzku þjóðina. hefði verið, að ríkisstj. hefði fengizt til þess að viðurkenna, hvernig komið var, og að hún hefði sagt af sér eins og sjálfsagt var, þegar málin lágu fyrir á þessa lund, og þannig myndað jarðveg fyrir það, að ný stjórn gæti tekið við eða þá almennar alþingiskosningar farið fram.

Það, sem mest á ríður, er sem sé að koma málefnum landsins í nýjan farveg bæði framkvæmdalega og löggjafarlega, því að öll endurreisn á vegum þeirrar ríkisstj., sem svo hefur farið með málefni þjóðarinnar, er óhugsandi, og allar tilraunir hæstv. ríkisstj. í þá átt hljóta að mistakast. m.a. vegna þess, hvernig hún hefur sjálf grafið undan trausti sínu með þjóðinni. Sannarlega eru margar erfiðar ráðstafanir, sem þarf að gera, og mundi því sízt af veita, að þeir, sem fyrir því stæðu, nytu trausts.

Ég vil þá fara örfáum orðum um nauðsynlega stefnubreytingu. Í fyrsta lagi álít ég lífsnauðsyn að taka upp samstarf við launþegasamtökin í landinu í stað þeirrar stríðsstefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur ævinlega fylgt og sem hún tekur nú upp á nýjan leik. Þetta er algert grundvallaratriði, því það er ekki hugsanlegt, að komizt verði fram úr þeim vanda, sem við stöndum nú frammi fyrir, nema í nánu samstarfi við verkalýðssamtökin og launþegasamtökin í landinu.

Þá verður að taka upp alveg nýja stefnu í efnahags- og atvinnumálum. Stefnuna í atvinnumálum verður að miða við fulla atvinnu. Það þarf að hagræða lausaskuldaflækjunni hjá fyrirtækjum landsins og gera með því mögulegt að koma rekstrinum í sæmilegt horf. Það þarf að ganga í að lækka álögurnar á atvinnuvegunum og útgjöld atvinnuveganna, áður en gripið er til gengisfellingar af þeirri stærð, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú beitt sér fyrir. Það þarf að taka upp nýja vaxtapólitík, lækka vextina og álögurnar í öllum greinum hjá atvinnulífinu til þess að minnka vandann.

Það verður að taka upp nýja lánastefnu, sem sé fyrst og fremst miðuð við þarfir atvinnulífsins, þar sem látið sé sitja fyrir, að framleiðslan hafi rekstursfé, en ríkisstj. hefur á undanförnum árum byggt stefnu sína fyrst og fremst á því að láta verðlag í landinu hækka, án þess að kaup hækkaði að sama skapi og að draga saman útlánin til þess með því að hafa hemil á kaupgetunni. En með þessu hefur verið dregið úr rekstursfé fyrirtækjanna, og þau hafa aldrei getað notið sín á undanförnum árum vegna þessarar lánastefnu hæstv. ríkisstj. Það er mjög athyglisvert, að í hvert skipti, sem talað er við forráðamenn úr atvinnulífinu, koma þeir aftur og aftur að þessu sama. Við gætum framleitt meira, ef við hefðum aukið rekstursfé. Talað var við framkvæmdastjóra iðnaðarsambandsins í atvinnumálaþáttum útvarpsins 16. október, og hann sagði þetta m.a.:

„Á meðan við þurfum að búa við 91/2%-10% vexti í skipasmíðaiðnaðinum, þá er þetta vonlítið mál samanborið við aðra. Við þurfum aukið rekstursfé í nálega öllum greinum iðnaðarins, og ef við fengjum það. gætum við aukið framleiðsluna.“

Það er rekstursfjárskortur sagði hann einnig, sem hamlar eðlilegum samruna fyrirtækjanna, og svo stórfellt atriði sagði hann, að þetta væri í rekstrinum, að það mundi borga sig fyrir iðnaðinn, að það væru felldar niður stofnlánaveitingar hjá iðnaðinum, ef féð gæti fengizt sem reksturslán í staðinn. Þetta sýnir neyðina. En það er einmitt þetta, sem hefur verið meginkjarninn í því, sem við höfum haldið fram og lagt til á undanförnum árum, að það er algerlega vonlaust að komast út úr þeim vanda, sem við höfum verið settir í, nema með því að hleypa nýju lífi og fjöri í framleiðsluna og notfæra sér afkastamöguleika þeirra fyrirtækja, sem við eigum, til fulls, og allra sízt er það mögulegt nú, þegar atvinnuleysið hefur haldið innreið sína. Til þess þarf að taka upp nýja lánastefnu, sem er miðuð fyrst og fremst við þetta sjónarmið.

Þá verður að taka upp nýja jákvæða atvinnumálastefnu: sem er miðuð við, að ríkisvaldið hafi raunverulega forystu um að auka framleiðsluna í öllum greinum, koma upp nýjum atvinnugreinum og búa í haginn fyrir þær atvinnugreinar, sem fyrir eru. Það þarf að gera áætlanir um atvinnulífið og einstakar greinar þess, og þessar áætlanir þarf að semja og vinna að framkvæmd þeirra í nánu samstarfi ríkisvaldsins, atvinnurekendanna og verkafólksins og samtaka þess. Það þarf að endurskoða öll þessi mál atvinnulífsins í hverri grein frá rótum og gera heilsteyptar ráðstafanir, sem geta verið margvíslegar. Sumt, sem þarf að gera, verður að koma til framkvæmda á vegum ríkisvaldsins, t.d. eins og að bæta þjónustuna við fjölmargar atvinnugreinar, og sumt verða þeir að gera, sem atvinnureksturinn hafa með höndum sjálfir.

Það er alveg táknrænt í þessu, hvernig farið hefur með togaraútgerðina, hvernig farið hefur með rekstur frystihúsanna og hráefnaöflun til þeirra. Þetta eru táknræn dæmi um það, hvernig sú stjórnleysis- og vanrækslustefna hefur leikið íslenzkt atvinnulíf, sem fylgt hefur verið. En það er einmitt hið gagnstæða, sem við höfum ætíð viljað gera, reka jákvæða atvinnupólitík, sem miðuð er við samstarf ríkisvalds, atvinnuveganna og félagasamtakanna.

Einn stórfelldasti liðurinn í þeirri endurreisn, sem koma þarf, er efling iðnaðarins, og það verður aldrei hægt að vinna bug á atvinnuleysinu nú á næstu mánuðum nema gjörbreyta viðhorfinu í garð iðnaðarins. Það verur alveg tvímælalaust að grípa til þess að banna innflutning á sumum iðnaðarvörum, sem hægt er að framleiða hér í landinu, til þess að auka atvinnuna á næstu mánuðum og fullnýta afköst margra þeirra fyrirtækja, sem nú standa hálfnýtt. En það bólar ekkert á því, að ríkisstj. hafi viljað ljá því eyra að annast slíkar framkvæmdir. Það verður einnig að breyta tollakjörum iðnaðarins til hagsbóta fyrir hann, en ekki hið gagnstæða, og það verður að taka upp þá stefnu að láta íslenzk þjónustufyrirtæki sitja fyrir erlendum fyrirtækjum, þegar um er að ræða þýðingarmikil verk í íslenzkum þjóðarbúskap, alveg gagnstætt því, sem gert hefur verið nú um sinn.

Þá verður að ganga í að auka verulega framkvæmdir hins opinbera til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi, og verður að skoða ástandið í hverju byggðarlagi fyrir sig.

Grundvallarþýðingu í öllu þessu hefur að koma upp fjárfestingarstjórn í stað algers skipulagsleysis og stjórnleysis, sem meira en nokkuð annað hefur grafið undan íslenzkum þjóðarbúskap.

Það má kalla furðulegt, að svo illa skuli vera komið fyrir okkur eftir þau geysilegu góðæri, sem þjóðin hefur lifað. Það er eitthvað meira en lítið bogið við þetta og hér er ein ástæðan einmitt sú, hvernig verðbólgu- og stjórnleysisstefnan hefur haft áhrif á fjárfestinguna í landinu, hversu óhagfelld hún hefur orðið og hve mikil sóun hefur átt sér stað í fjárfestingunni. Ekki má gera ráð fyrir, að það takist að snúa hjólinu við og aftur fari að ganga í rétta átt, nema upp verði tekin fjárfestingarstjórn, sem að verulegu leyti er byggð á því samstarfi við atvinnulífið, sem ég var að lýsa hér áðan.

Þá verður að koma stjórn á gjaldeyrismálin, og það er lífsnauðsyn m.a. vegna þess, að það er ekki hægt að framkvæma þá útlánastefnu, sem nauðsynleg er, til þess að hjólin fari að snúast á nýjan leik, nema á bak við sé stjórn á gjaldeyrismálunum. Stjórn á gjaldeyrismálunum, sem geti komið í veg fyrir, að kaupgetan beinist allt of mikið út á við með því að kaupa inn alls konar óþarfa, sem þjóðin getur neitað sér um og þarf að neita sér um eins og nú er komið. Slíkt er hægt að framkvæma með mörgu móti. Það er hægt að banna innflutning á vissum vörum, og það er hægt að gera margvíslegar aðrar skynsamlegar ráðstafanir í þessu efni, ef höfð er gjaldeyrisstjórn, en ekki algert stjórnleysi á þessum málum, eins og átt hefur sér stað undanfarið, enda sjáum við, hvernig komið er með gjaldeyrisstöðu landsins.

Þessi aðferð, sem hæstv. ríkisstj. hefur alltaf notað, að reyna að stjórna gjaldeyrismálunum með því einu að hækka verðlagið innanlands, halda niðri kaupgjaldinu og draga úr lánsfénu, sem kemur harðast niður á atvinnulífinu, þessi aðferð, sem hæstv. ríkisstj. hefur viðhaft, skrúfar okkur sífellt lengra og lengra niður í fenið. En það er ekki hægt að komast upp úr þessu feni aftur, sem við erum komnir ofan í, nema með því að láta hjólin snúast hraðar. Til þess þurfum við djarflegri útlánapólitík, meira rekstursfé í atvinnulífið, en þá þurfum við líka að hafa gjaldeyrisstjórn á bak við til þess að sjá um, að ekki snarist út á við á meðan verið er að koma skriði á skútuna.

En það er einmitt þessi meginstefna okkar, sem brýtur algerlega í bág við hugsunarhátt hæstv. ríkisstj., og það er sá hugsunarháttur hæstv. ríkisstj., sem mestu óláni hefur valdið. Hæstv. ríkisstj. hefur ævinlega ímyndað sér, að það væri hægt að stjórna Íslandi á sama hátt og háþróuðum iðnaðarþjóðfélögum er stjórnað, þar sem fjármagn er svo að segja yfirfljótanlegt. En slíkt er ekki með nokkru móti hugsanlegt. Íslenzkur þjóðarbúskapur þolir ekki slíka stjórn, þolir ekki slíkar aðfarir, og við höfum gleggstu sönnunina í fjórum gengisfellingum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gengizt fyrir, og í því ástandi. sem íslenzkt atvinnulíf býr við í dag, þrátt fyrir góð viðskiptakjör. Samt er ástandið svona, og það er vegna þess, hvernig þessi stefna hefur leikið íslenzkt atvinnulíf, en það er undirstaðan undir öllu saman.

Þá verður að sjálfsögðu að gera öflugar ráðstafanir til þess, að þær byrðar, sem óhjákvæmilegt er að leggja á, komi sem réttlátast niður og þeir sterkustu beri mest og þær vörur hækki þá mest í verði, sem helzt er hægt að vera án eða fresta kaupum á. En lífsnauðsynjum sé haldið niðri og sérstakar ráðstafanir gerðar vegna þeirra, sem erfiðasta eiga afkomuna, og umfram allt, að tekið sé upp samstarf við launþegasamtökin um kjaramálin.

Að lokum vil ég segja þetta. Það hefur ekkert gerzt síðan kosið var til Alþ. 1967, sem orsakar þetta geigvænlega hrun, nema það, sem fyrirsjáanlegt var þá, að óbreyttri stjórnarstefnu, óbreyttum vinnuaðferðum og svipuðu verðlagi, eins og það var orðið þá. Sú gífurlega óreiða, sem undir bjó og leynt hefur verið undanfarið allt frá því fyrir alþingiskosningarnar síðustu, sem magnazt hefur síðan og reynt hefur verið að leyna með brögðum og með því að éta upp allt, sem til náðist, mergsjúga atvinnufyrirtækin, taka lán á lán ofan og safna lausaskuldum erlendis þar á ofan, hlaut að koma fram með gengishruni eða álíka öngþveiti af öðru tagi.

Neyðarástand hlaut að skapast að lokum, þegar allt væri upp étið og engin teygja lengur til. Nú er þetta komið fram. En þessi gengislækkun, sú 4., leysir ekki vandann. Hún verður bara upphaf að enn nýjum kapítula í hrakfallasögu ríkisstj., því að áfram á að vera sama stefna, og sömu aðferðum á að beita. Stjórnleysis-, eyðslu- og verðbólgustefna undanfarinna ára hlaut að enda með skelfingum, og nú á að láta þær dynja yfir án þess að draga nokkurn lærdóm af þessu áfalli.

Engum sjáandi manni gat dulizt undanfarið, að hrikalegt neyðarástand nálgaðist óðfluga. Engin síldveiði seinni hluta þessa árs gat breytt nokkru verulegu þar um til eða frá, og það vissi hæstv. ríkisstj. mætavel. Ríkissjóður hefur verið rekinn með stórfelldum halla, aðvinnufyrirtæki umvörpum komin í þrot, framleiðslan hefur dregizt áfram í sumum greinum með loforðum um ríkisstuðning, sem ekkert fé var til fyrir. Ríkissjóður svalg hundruð milljóna úr Seðlabankanum og þar með rekstursfé atvinnuveganna, og greiðsluerfiðleikar fyrirtækjanna og einstaklinganna hafa vaxið m.a. af þeim ástæðum dag frá degi. Greiðsluhallinn við útlönd magnaðist, gjaldeyririnn étinn upp, og föst lán og lausaskuldir við útlönd hafa farið dagvaxandi. Venjulegum framkvæmdum ríkisins hefur verið haldið gangandi með erlendum lántökum.

Ekkert af þessu gat komið þeim á óvart, sem ábyrgðina báru, og þetta gerðist þrátt fyrir betra og hagstæðara verðlag og viðskiptakjör en við oft höfum orðið að sæta og sæmilegustu aflabrögð, þegar á reynslu þjóðarinnar er litið. Ríkisstj., sem komst yfir síðustu kosningar með því að lofa verðstöðvun, stórfelldum framförum og blómlegu atvinnulífi á þeim grundvelli, sem búið væri að leggja, átti að segja af sér í sumar og í síðasta lagi í haust og gera annaðhvort að efna til nýrra kosninga eða gera mögulega samninga um myndun nýrrar ríkisstj. allra flokka um nýja stefnu, ný úrræði og nýjar vinnuaðferðir, með því að fara frá. En þess í stað hefur hæstv. ríkisstj. stritazt við að sitja, neitað að viðurkenna réttar orsakir vandamálanna og nauðsyn stefnubreytingar og talið sig þess umkomna að ráða við vandann með sömu stefnu og sömu úrræðum, sem leitt hafa út í það botnlausa öngþveiti, sem nú er orðið.

Ekkert getur á hinn bóginn bjargað, nema málin komist í nýjan farveg á vegum nýrrar ríkisstj., sem tekur nýja stefnu og notar nýjar og betri vinnuaðferðir. Í stað stjórnleysis og eyðslu komi þá stjórnsemi og ráðdeild á öllum sviðum, fjárfestingarstjórn, gjaldeyrisstjórn í stað botnlausrar óráðsíu í fjárfestingar- og gjaldeyriseyðslu, endurreisn atvinnulífsins, hagræðing á lausaskuldaflækjunni, sem tröllríður öllu atvinnulífi, lækkaðar álögur á framleiðsluna. Ný lánastefna komi og vaxtastefna í þágu atvinnulífsins. Full atvinna verði. Efling iðnaðarins komi, en án nýrrar iðnaðarstefnu. sem verkar strax, verður ekki fyrirbyggt stórfellt atvinnuleysi. Efling ráðstafana komi til stuðnings þeim byggðarlögum, sem höllum fæti standa. Óhjákvæmilegum byrðum til þess að rétta hlut atvinnulífsins verði skipt réttlátlega, eftir að þær hafa verið minnkaðar með skynsamlegum ráðstöfunum atvinnurekstrinum í hag. Kjaramálin verði leyst í traustu undirhyggjulausu samstarfi við alþýðusamtökin. Öflug forysta verði tekin upp við uppbyggingu íslenzks atvinnulífs og í því skyni nýtt áður óþekkt samstarf ríkisvalds og einkaframtaks og félagsframtak sett á fót, sem byggist á því, að beztu hugsanlegu skilyrði séu sköpuð fyrir hverja atvinnugrein og til þess að fyrirbyggja þá misþyrmingu íslenzks atvinnulífs, sem núverandi stjórnleysisstefna hefur haft í för með sér og við súpum nú seyðið af. Eru þá aðeins nokkur meginatriði nefnd.

Það þarf nýja stjórn, nýja menn, nýjar aðferðir í stað þreyttra manna og þess úrræðaleysis, sem aftur og aftur hefur leitt út í ófæruna. En málum verður ekki komið í nýjan farveg, á meðan þessi ríkisstj. situr, sem telur pólitískt líf sitt og sinna flokka undir því komið, að þjóðin fái ekki rétta mynd af því, hverjar eru hinar raunverulegu rætur vandans, og meðan þannig er á málum haldið, skapast ekki jarðvegur fyrir þá samstöðu, sem annars væri æskileg og nauðsynleg.