05.05.1969
Efri deild: 85. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

186. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég þarf að vísu ekki að hafa mörg orð um þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr. Það er upphaflega flutt af landbn., og það liggur því ekki fyrir neitt nál. hér við þessa 2. umr. Hins vegar hefur landbn. hugað betur að þessu frv. frá því að 1. umr. fór fram, og hefur orðið ásátt um að orða um 2. gr. l., og er hún flutt sem brtt. á sérstöku þskj. Það má segja, að í því felist ekki nein höfuðbreyting. Aðeins er gert ráð fyrir því með þessari umorðun gr., að það verði ekki misskilið, hver hafi með höndum eftirlit með útflutningi kynbótahrossa. Ég vildi aðeins láta það koma fram hérna við þessa umr., af hvaða tilefni gr. er orðuð um. Við nánari athugun virtist okkur, að það gæti verið nokkrum vafa undirorpið og lægi ekki nægilega ljóst fyrir í frv. — jafnmikilvægt og það er að hafa verulegt eftirlit með útflutningi á kynbótahrossum — hver ætti að hafa hönd í bagga um eftirlit með leyfisveitingum á útflutningi þeirra. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þessa brtt. Við leggjum til, að hún verði samþ. og frv. síðan vísað til 3. umr.