17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

210. mál, sala Höfðahóla með Hólagerði og Spákonufell í Höfðahreppi

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem ég flyt hér ásamt öðrum þeim hv. þm. Norðurl. v., sem sæti eiga í þessari hv. d., er flutt að beiðni hreppsnefndar Höfðahrepps í Austur-Húnavatnssýslu. Með frv. er farið fram á heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja Höfðahreppi jarðirnar Höfðahóla og Stóra-Spákonufell í sama hreppi. Þessar jarðir eru báðar fyrir löngu komnar í eyði sem bújarðir, en í landi þeirra hefur byggzt kauptúnið Höfðakaupstaður, og er það nú ósk hreppsnefndarinnar í Höfðahreppi að fá jarðirnar keyptar. Það virðist fullkomlega eðlilegt, að sú heimild verði veitt og hreppnum gert kleift að eignast þetta land. Í frv. er, eins og venja er til ákvæði um, að kaupverð fari eftir því, sem um semst, eða eftir mati dómkvaddra manna.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.