14.04.1969
Efri deild: 73. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

198. mál, loðdýrarækt

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru nú aðeins eitt eða tvö atriði í sambandi við þá ræðu, sem hér var síðast haldin. Ég skal ekki hafa neitt á móti því, sem hann segir, og veit ekkert um það, hvað þeim fimmmenningum, sem frv. flytja, hefur farið á milli, eftir að við tveir fórum úr n. að þessu leyti, og það er þess vegna mjög líklegt og ég tek það gilt, að allir hv. flm. séu ákveðnir í því að styðja frv. En ég var einungis að rekja svona raddir, sem komu fram í n., áður en endanlega var ákveðið, hverjir stæðu að flutningi frv. og ekkert meira um þetta að segja.

Hv. 3. landsk. sagði, að þær aths., sem ég hafði hér fram að færa um það, hvaða n. ætti að flytja frv. eða að einhverju leyti taka það að sér, hefðu átt að koma fram í allshn. Ég vil aðeins minna hann á, að þær komu fram. Á fyrsta fundi, sem þetta frv. var sýnt, gerðum við tveir, sem ekki stöndum að flutningi frv., ég og hv. 4. þm. Sunnl., þá aths. við þetta, að við teldum, að það væri fremur landbn., sem um þetta mál ætti að fjalla. Og ég man ekki betur en málið væri þá tekið af dagskrá og það væri ekki fyrr en á síðari fundi, sem það varð svo endanlega niðurstaðan, að allshn. eða hluti hennar tæki málið að sér. Þetta skiptir auðvitað sáralitlu máli. En ég vil bara koma þessu á framfæri, úr því að sú rödd kom fram, að ég væri að flytja mál þetta of seint. Ég tel ekki, að ég hafi gert það, tel. að ég hafi flutt það strax og tækifæri gafst.

Um það, hvað ég mundi gera, ef ég væri landbrh., skal þess getið, að þá hugsun hef ég nú satt að segja aldrei hugsað. En hv. 3. landsk. ályktar, að ég mundi hafa farið svipað að eins og hæstv. landbrh. gerir nú vegna þess, að ég væri ekki búinn að gera upp hug minn til málsins. Ég held, að ég mundi alls ekki hafa farið að eins og hæstv. landbrh. hefur gert. Ég mundi bara ekki hafa hreyft þessu máli fyrr en ég væri búinn að gera hug minn upp um það. Og ég mundi þá annaðhvort hafa neitað að flytja frv. og ekkert verið að vafstrast í þessu eða látið rn. eða ríkisstj. flytja það, svo að hvora leiðina sem ég hefði farið í því, þá er ég alveg viss um, að ég hefði ekki farið þá leið, sem hæstv. landbrh. hefur valið.

Deildin sker auðvitað úr um það, hvort hún telur þörf á því, að fleiri n. fjalli um þetta mál. Þrátt fyrir þær ábendingar, sem komu frá hv. 3. landsk., sem ég viðurkenni, að eru að ýmsu leyti réttar, þannig að það er e. t. v. ekkert einsdæmi, að n. eða nefndarhluti flytji mál. þá sé ég ekki ástæðu til þess að draga þá till. til baka, sem ég áðan gerði um það, að málið færi til landbn.