25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

198. mál, loðdýrarækt

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um loðdýrarækt, 198. mál Ed., hefur verið til athugunar í allshn. Á þskj. 476 skilar meiri hl. áliti og mælir með frv. óbreyttu. Minni hl., hv. 4. þm. Sunnl., skilar séráliti á þskj. 518. Í framsögu gerði ég ítarlega grein fyrir þessu máli, og er óþarfi að endurtaka það nú. Við 1. umr. var það aðallega fundið þessu frv. til foráttu, m. a. af hv. þdm., sem annars fylgja frv., að ýmislegt væri ókannað varðandi markaðsmál, blöndunarstöðvar fyrir fóður og önnur hrein teknisk atriði. Þetta er í sjálfu sér rétt varðandi hina teknísku hlið, en gert er ráð fyrir margs konar reglugerðaratriðum, sem sett yrðu, ef frv. yrði að l. Það má einnig upplýsa, að undanfarin 2 ár hefur af áhugamönnum um loðdýrarækt verið unnið að því að stofna félagsskap, sem hefði það að markmiði að taka upp minkaeldi, ef löggjöfin leyfir. Forvígismenn þessa félagsskapar hafa fengið Gunnar Torfason byggingaverkfræðing til þess að hanna loðdýragarð, sem sameinar alla kosti og kröfur, sem gera verði til minkabús. Þessi hugmynd að minkagarði hefur verið til sýnis á alþjóðaráðstefnu minkaframleiðenda í Frankfurt í Þýzkalandi. Var það álit manna, að þessi hugmynd Gunnars Torfasonar bæri af, og töldu sérfræðingar, að svo rammgerðar varnir sem þar væru ráðgerðar, væru óþarflega miklar og meiri en það, sem þekkist annars staðar.

Þá var fundið að því við 1. umr., að áætlun Efnahagsstofnunarinnar, sem fylgir með frv., væri lausleg. Ég hafði samband við Efnahagsstofnunina, og var mér tjáð, að þeir hafi haft í huga alla varfærni við gerð áætlunarinnar og haft hliðsjón af þeim upplýsingum, sem hægt var að afla, m. a. frá Danmörku. Efi um, að minkarækt gæti verið ábatasöm, sem gert er ráð fyrir í áætlun Efnahagsstofnunarinnar, er því ástæðulaus. En ég vil undirstrika það, sem ég sagði í framsögu, að sá markaður, sem hér skapast fyrir úrgangsfisk og sláturúrgang, er mikilsverður fyrir okkur Íslendinga. Og þótt dýr mistök hafi áður hent okkur varðandi minkinn, þá gerir þetta lagafrv. ráð fyrir fyllstu varúðarráðstöfunum. Ég sé ekki annað en að allir séu sammála um að búa nú svo um hnútana, að þetta lagafrv. verði íslenzkum atvinnuvegum veruleg lyftistöng. Eins og ég tók fram í framsögu, þá skil ég vel hræðslu þeirra manna við minkinn, sem muna reynslu fyrri ára. En dýrkeypt reynsla er okkur einmitt mikils virði. Hún skapar okkur einmitt nú þá möguleika, sem eru undirstaða þess, að hér sé hægt að breyta um stefnu, leyfa minkaeldi. Reynsla getur að vísu verið beizk, en við höfum tekið út þessa beizku reynslu, og hún á að forða okkur frá þeim mistökum, sem urðu þessari atvinnugrein að falli fyrir 20 árum.

Um markaðsmál fyrir minkaskinn má svo ætíð deila, en miklar vonir má binda við það, hversu lífskjör fara batnandi í hinum menntaða heimi, sem svo orsakar betri markað fyrir slíka vöru, og ekki síður hitt, hversu við hér höfum aflögu ákjósanlegt fóður fyrir minkinn, sem aðrar þjóðir hafa ekki aflögu nú orðið. Gærusútun hefur verið stunduð hér á landi síðan 1906. Nú í ár hafa sútunarverksmiðjur mikið bætt aðstöð sína og hafa mikil verkefni og arðsöm framundan. Með réttri gengisskráningu og meiri eftirspurn hefur hlaupið mikil gróska einmitt í sútun. Þannig mun Samb. ísl. samvinnufélaga hafa ákveðið bygging sútunarverksmiðju á Akureyri, sem geti afkastað 300 þús. skinnum á ári. Aðrar verksmiðjur, svo sem hér í Reykjavík og á Akranesi, vinna af fullum krafti, og það er spá mín, að þær 700–800 þús. gærur, sem falla til á ári, verði allar fullnýttar hér innanlands áður en langt um líður og verðmæti þeirra margfaldað frá því, sem nú er. Þannig gæti líka orðið með minkaskinn, ekki aðeins, að þau yrðu fullverkuð hérlendis, heldur einnig, að feldskurður yrði hér stórkostleg iðngrein, sem mundi enn margfalda verðmæti þeirrar grávöru, sem hér er rætt um að leyfa framleiðslu á. Meiri hl. allshn., sex af sjö nm., mælir því eindregið með því, að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir hér í hv. þd.