25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

198. mál, loðdýrarækt

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta mál er þannig vaxið, að ég tel ástæðu til að fara um það nokkrum orðum nú við þessa umr. Málið virðist vera knúið áfram með nokkrum hraða, því það hefur komið fram í umr., að mþn., sem situr að störfum að tilhlutan hæstv. ríkisstj., hefur ekki unnizt tóm til að ljúka störfum. En þrátt fyrir það er frv. þetta flutt, og þingnefndin, sem hefur haft frv. til athugunar, virðist ekki hafa varið löngum tíma til þess að kanna málið, því það kom fram í umr., að um það hefði verið haldinn aðeins einn stuttur fundur, og það nægði til þess, að nm. tækju afstöðu til málsins. En loðdýraræktin er eitt af þeim fáu málum, þar sem við Íslendingar höfum allmikla reynslu við að styðjast, því að nú er komið hátt á fjórða áratug síðan loðdýrarækt var hafin hér á landi og hún var stunduð allvíða um land um nokkuð langt árabil.

Eftir 1930 féllu landbúnaðarafurðir mjög í verði, þannig að bændur munu ekki hafa fengið í sinn vasa nema svona 4–8 kr. fyrir dilkinn og átti það sinn þátt í því, að þeir, sem forustu höfðu á sviði atvinnumálanna, fóru mjög að huga að nýjum atvinnugreinum. Og þá kom skinnaframleiðsla af ýmsum tegundum mjög til álita. Þá var flutt inn karakúlfé í því skyni að koma upp nýrri atvinnugrein til stuðnings landbúnaðinum, en sú saga, sem er af þeim innflutningi, er ákaflega dapurleg, og reynslan varð á allt annan veg heldur en þeir bjartsýnu menn, sem að þeim innflutningi stóðu í öndverðu, gerðu sér vonir um. Um svipað leyti voru flutt inn og ræktuð hér í loðdýrabúrum loðdýr, bæði minkar og refir. Fyrst munu þetta hafa verið áhugamenn, sem gengust fyrir þessari framleiðslu og stofnuðu félag með sér, loðdýraræktarfélag, en þegar þessi framleiðsla var tekin að vaxa, þá voru sett lög um loðdýrarækt 1937. Og í sambandi við þá lagasetningu ríkti mikil bjartsýni. Þá var gert ráð fyrir því og það kom raunar til framkvæmda, að þessi atvinnugrein yrði rekin í svo stórum mæli, að eftirlit með henni og leiðbeiningar yrði falið sérstökum loðdýraræktarráðunaut frá Búnaðarfélagi Íslands, og þáð var fest í 1. að stofna sérstaka deild í Búnaðarbankanum, loðdýralánadeild, til þess að styðja þessa mikilvægu atvinnugrein, sem menn gerðu sér svo bjartar vonir um.

En í sambandi við þetta mál var það frá öndverðu tvennt, sem sérstaklega var um að ræða. Annað var hagnaðarvonin og hitt áhættan, sem þessari nýbreytni fylgdi, og þá eins og raunar hefur ávallt verið síðan, skiptust skoðanir manna mjög um það, hvort þessara atriða væri mikilvægara, eða með öðrum orðum, hvernig ætti að meta þá áhættu, sem þessari atvinnugrein fylgir. Náttúrufræðingar, sem störfuðu á áratugnum 1930–40, vöruðu mjög sterklega við innflutningi loðdýra, t. d. innflutningi á minki, svo að þær viðvaranir fóru alls ekki fram hjá alþm. Sá, sem kvað einna sterkast að orði um þetta, var náttúrufræðingurinn Guðmundur G. Bárðarson, sem lýsti í ritgerð eftir 1930 lifnaðarháttum minksins og dró upp mynd af því, hvaða hætta væri því samfara að flytja hann til landsins og hvað líklegt væri, að af því mundi hljótast. Og reynslan, sem við höfum nú við að styðjast, er sú, að það, sem náttúrufræðingarnir sögðu fyrirfram um minkinn, hefur komið fram. Hins vegar var hagnaðarvonin, og það sjónarmið varð í meiri hluta að leyfa loðdýrarækt, svo sett voru lög um það efni, eins og ég hef þegar minnzt á. Ég tek það fram, að ég vil ekki ámæla þeim mönnum, sem gengust fyrir þessari nýjung í atvinnulífi landsmanna á sinni tíð, en það væri miklu fremur ámælisvert af okkur, ef við tækjum ekki tillit til þeirrar reynslu, sem nú er fyrir hendi um þetta efni.

Ég ætla að leyfa mér í sambandi við þetta mál að lýsa með örfáum orðum þeirri reynslu, sem ég sjálfur hef orðið áskynja í þessu efni, og ég vona, að þeir, sem beita sér fyrir framgangi þessa frv., lýsi sinni eigin reynslu, en fari ekki einungis eftir fréttum ofan úr Efnahagsstofnun eða einhverjum lauslegum fréttum utan úr löndum. Þm. A-Skaftfellinga, fyrirrennari minn hér á Alþ., Þorbergur Þorleifsson í Hólum, var fyrsti flm. að frv. um loðdýrarækt, þegar málið var fyrst tekið upp á Alþ. 1936, og hann var þá og ávallt síðan, meðan honum entist aldur, mikill áhugamaður um loðdýrarækt, og hann lét ekki við það eitt sitja að beita sér fyrir málinu hér á þingi, heldur setti hann upp refabú á sínu búi, Hólum í Hornafirði, og var því haldið við í mörg ár. Ýmsir fleiri í mínu héraði tóku sér fordæmi þm. til fyrirmyndar, svo að þar voru á allmörgum bæjum sett upp loðdýrabú og refir ræktaðir til skinnaframleiðslu um allmörg ár. M. a. var eitt slíkt bú rekið á næsta bæ við heimili mitt, þannig að ég hafði um mörg ár, mátti segja, fyrir augum, hvernig þessari ræktun reiddi af, og þeir, sem þar lögðu hönd að, eru miklir náttúrufræðingar og hirðumenn í umgengni, þannig að það mun vandfundið fólk, sem er hæfara til að hafa með höndum slíka framleiðslu heldur en þar átti sér stað. Og ég get af þessari kynningu af refarækt fullyrt það, að á þessari framleiðslu reyndust vera mikil vanhöld af ýmsum orsökum, vanhöld, sem menn fyrirfram, þeir sem bjartsýnir voru á þessa framleiðslu, gerðu sér ekki grein fyrir. Og það voru ekki aðeins vanhöld á framleiðslunni, heldur líka kom það fljótt í ljós, að skinnin voru háð miklum verðsveiflum, og ég vil minna á það, ef hér kunna að vera einhverjir af deildarmönnum, sem ekki hafa athugað það, að 5 árum eftir að lög um loðdýrarækt voru sett, var borin fram hér á Alþ. till. um verðuppbætur á útflutt refa- og minkaskinn. Ég er ekki að segja það, að í sjálfu sér hafi það verið nein óhæfa, því að vitanlega höfum við þá og síðar flutt út vöru, sem hefur þurft að verðbæta, en þetta sýnir aðeins, að þessi framleiðsla er háð svipuðum — ja, ekki minni sveiflum heldur en margt annað í okkar atvinnurekstri.

Ég vil einnig víkja að því, að frá því að ég man eftir mér hef ég getað fylgzt með sölu kópaskinna, vegna þess að í mínu byggðarlagi er ár hvert lögð nokkur stund á selveiðar og að koma þeirri vöru á markað. Nú er það svo um kópaskinn, að þó þau séu ekki að öllu leyti sambærileg við minkaskinn, þá eru þau samt varningur, sem er mjög háður tízkunni. Vorkópaskinn eru notuð í kápur, líklega aðallega kvenkápur, og það er vara, sem er mjög háð tízkunni hverju sinni. Við vitum það ákaflega vel, að það eru miklar verðbreytingar á þessari framleiðslu, en sá er munur á framleiðslu selskinna og minkaskinna, að það þarf ekki að leggja í neinn kostnað við kópinn annan en þann að veiða hann, en minkinn þarf að ala í búrum og veita honum mjög nákvæma umhirðu og jafnvel fæðu eftir vísindalega útreiknuðum matseðli. Á minni ævi hafa komið tímabil, þar sem selskinn hafa fallið svo í verði, að það hefur ekki þótt svara kostnaði að veiða kópinn, svo aftur önnur tímabil, þar sem þessi vara hefur verið í svo háu verði, að það hefur þótt mjög gróðavænlegt að stunda þessa veiði, þar sem eitt kópsskinn hefur komizt að verðmæti upp undir 2000 kr. En hér er þó ekki gert ráð fyrir, að minkaskinn seljist fyrir nema eitthvað um 1100–1200 kr. samkv. áætlun, sem fylgir þessu frv. Ég vildi segja þessi orð af minni eigin reynslu, og ég endurtek það, að ég vænti þess, að þeir hv. þm., sem hér standa að þessu máli og ætla að veita því brautargengi, segi eitthvað sjálfir frá sinni reynslu hér í þessum umr., en byggi ekki eingöngu á trú eða á fréttum, sem menn fá annars staðar frá.

Nú má meta hagnaðinn af loðdýraræktinni, annars vegar fyrir einstaklinginn, framleiðandann sjálfan, sem að henni hefur unnið, og hins vegar hagnaðinn fyrir þjóðarbúið í heild. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvaða skaðvaldur villiminkurinn hefur reynzt í náttúru. landsins, fuglalífi og sjálfsagt að því er varðar silung og lax í vötnum, og gagnvart æðarvarpi, en þessi hlunnindi eru talsvert verðmikil, a. m. k. æðarvarpið og lax- og silungsveiði. En ég vil leyfa mér að spyrja: Hefur þingnefndin, sem fjallaði um þetta frv., athugað verzlunarskýrslur frá þeim árum, sem loðdýrarækt var stunduð hér á landi? Hvað hlaut þjóðarbúið í arð af skinnaframleiðslunni, og hvað ætli til frádráttar því eigi þá að koma vegna þess skaða. sem villiminkurinn hefur valdið? En eftir nokkur ár var reynslan orðin sú af loðdýraræktinni, að það voru samþ. hér lög, sem fela í sér bann við minkaeldi, og þetta mál, bann við minkaeldi, var tekið upp hér á hv. Alþ. aðeins 5 árum síðar en heildarlöggjöf um loðdýrarækt var samþ. Þeir, sem beittu sér fyrir banni við minkaeldi öðrum fremur hér á hv. Alþ., voru hinir merku þingskörungar Pétur Ottesen og Jörundur Brynjólfsson. Halda menn, að þessir mætu og reyndu þm. hafi ekki haft neina þekkingu á atvinnuvegum landsmanna? Það má minnast þess í þessu sambandi, að annar þeirra, Pétur Ottesen, átti um mjög langt skeið sæti bæði í stjórn Búnaðarfélags Íslands og Fiskifélags Íslands, þannig að hann var alla sína ævi mjög tengdur báðum þessum aðalatvinnuvegum Íslendinga, og um Jörund Brynjólfsson er það vitanlega kunnugt, að hann var stórbóndi og sérstaklega tengdur landbúnaðinum á sinni löngu og merku starfsævi.

Við höfum því mikla reynslu við að styðjast, þegar við eigum að greiða atkv. um þetta mál, sem hér liggur fyrir, og enn er það hið sama eins og var eftir 1930, sem við verðum að gera okkur grein fyrir. Annars vegar er hagnaðarvonin. Er hún rétt metin í sambandi við það frv., sem hér er lagt fram, og þá áætlun sem því fylgir? Hins vegar er áhættan, sem því fylgir að leyfa nú að nýju minkaeldi í landinu. Ef stefnt væri að því með frv. að veiða þann villimink, sem fyrir er í landinu, og flytja hann lifandi í búr og fara að rækta dýr af þeim stofni, þá væri það að sjálfsögðu góðra gjalda vert, en ég hygg, að það sé ekki stefnt að því með þessu frv., heldur að flytja inn nýjar tegundir, og ég hygg, að sá villiminkur, sem hér er nú útbreiddur í landinu, sé aðallega af stofni Kanadaminks, en ég hef heyrt talað um, að það verði fluttur inn minkur frá Alaska eða Evrópulöndum, sem væri stærri og harðfengari og enn þá grimmari heldur en sá villiminkur, sem við höfum nú, og sé þetta rétt, þá sýnir það, hver alvara er hér á ferð. Nú telja ýmsir, að það sé ekki hægt að búa svo um búrin, að það sé útilokað, að minkar sleppi úr búrunum. Ég ætla í þessu efni að minna á erindi, sem menntaskólakennari og náttúrufræðingur, Örnólfur Thorlacius, flutti fyrir fáum árum um minkaeldi hér á landi, og minna á, hvað hann segir um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Í áróðri um minkarækt hefur þeirri skoðun mjög verið haldið á lofti, bæði áður en loðdýrafrv. var flutt (þ. e. a. s. það, sem var hér á fyrri þingum til meðferðar) og í sambandi við það, að minkar hafi því sem næst hvergi sloppið úr búrum nema hér á landi. Þetta er alrangt og bendir annað tveggja til þess, að minkaeldissinnar hérlendis séu ekki of vandir að meðulum eða þeir beri harla lítið skyn á það, sem þeir þykjast öðrum fróðari um. Verður hvorugt til að auka traust manna á því, að þeir muni reynast þeim vanda betur vaxnir en fyrirrennarar þeirra að halda minkunum innan húss. Norðmenn hafa nú miklar áhyggjur af sívaxandi útþenslu villiminks í Noregi. Þar er landnám minkanna enn á útþensluskeiði. Norskir náttúrufræðingar gera ráð fyrir, að ekki verði þess mjög langt að bíða, að minkurinn verði kominn um allan Noreg. Svipaða sögu er að segja um Svíþjóð. Þar er minkurinn í mikilli útbreiðslu og veldur víða tjóni. Í Finnlandi er eitthvað um villimink, sem sloppið hefur úr búrum, en ekki virðist hann jafnútbreiddur þar og í Skandinavíu, enda er evrópskur villiminkur fyrir í Finnlandi og því tæpast eins góð skilyrði til útbreiðslu fyrir hinn ameríska og í grannlöndunum vestan Finnlands. Danmörk hefur stundum verið tilnefnd í umr. um minkaeldi hérlendis. Minkaræktarsinnar halda því fram, að minkar sleppi aldrei úr búrum í Danmörku. Þetta er ekki rétt. Að vísu hefur villiminkur í Danmörku ekki valdið neinum stórvandræðum til þessa. Bæði munu staðhættir í Danmörku gera baráttu við minka óvenjulega auðvelda og svo eru þar sérlega strangar reglur um geymslu loðdýra. Samt sleppa minkar annað veifið úr búrum þar, svo að villiminkar eru þar nú að staðaldri. Auðséð er af þessu, að sá áróður minkaræktunarsinna er rangur, að hægt verði að hindra, að minkar sleppi úr búrunum. Það verður aldrei hægt að fyrirbyggja með öllu, að aliminkar sleppi út. Hversu vel sem um hnútana er búið, geta alltaf orðið ófyrirsjáanleg óhöpp. Búrin geta t. d. skemmzt af völdum illviðris. Þess eru mörg dæmi frá Noregi.“

Þetta segir Örnólfur Thorlacius um frágang búranna og reynslu í öðrum löndum í sambandi við það. Og ég vil benda á, að það er alveg eins mikil ástæða til að ætla að þau varnaðarorð, sem hér eru fram borin, muni reynast rétt, ef minkaeldi verður leyft að nýju, á sama hátt sem þau varnaðarorð, er eldri náttúrufræðingar sögðu og gerðu þm. grein fyrir, hafa í öllum atriðum reynzt rétt.

Ég sé, að í frv. þessu eða í grg. þess er verið að impra á því, að við munum hafa aðstöðu til að flytja út um 1 millj. minkaskinna og fá þannig gjaldeyri, sem nemur 1100–1200 millj. Ég hygg, að í þessu felist nú nokkuð mikil bjartsýni, að hér sé ekki alls kostar raunhæft á málinu tekið, en ég bendi á þetta til þess að sýna, að hjá áhugamönnum í þessu efni er hér stefnt að því, að þessi framleiðsla verði ekki í smáum stíl. Til þess að framleiða 1 millj. minkaskinna þarf mörg minkabú að minni hyggju, og eftir því sem minkabúin verða fleiri og framleiðslan færist í aukana, vex sú hætta, að minkahópar stærri eða minni sleppi og síðan útbreiðist sá stofn um landið til viðbótar við þá minka, sem fyrir eru. En ég tek eftir því líka, sem frsm. minni hl. vakti athygli á, að það er ekki gert ráð fyrir að geyma minkana nú eftirleiðis í steyptum búrum, sem var þó miðað við í þeim l., sem nú gilda um loðdýrarækt, því að loðdýrarækt er alls ekki bönnuð yfirleitt hér á landi, þó að minkaeldi sé bannað. Ef við gerum okkur grein fyrir þeirri áhættu, sem því er samfara, að ný tegund minka sleppi úr búrum, jafnvel stærri og harðfengari stofn heldur en villiminkurinn, sem nú er í landinu, þá verðum við jafnframt að íhuga, hvaða áhrif það mundi hafa t. d. á æðarvarp, en af því eru veruleg hlunnindi, og ég hygg, að æðardúnn sé nú í mjög háu verði ekki síður en minkaskinn. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því, hvaða áhrif þetta mundi hafa á fiskeldi hér á landi, en nú hefur verið um það fjallað af ýmsum að undanförnu að koma á fót nýrri atvinnugrein hér í landinu, þ. e. fiskeldi, og ég sé mér til mikillar ánægju, að nú nýlega hefur verið útbýtt meðal þm. frv. um breyt. á laxveiðil., sem mun fela í sér ákvæði er lúta að nýjungum á þessu sviði. Ég vil leyfa mér að minna hv. þdm. á það, að það er til í þingtíðindum umsögn eins hins lærðasta og reyndasta fiskifræðings, sem á síðari árum hefur starfað hér á landi, Árna Friðrikssonar, um það, hvað minkurinn sé skaðvænlegur í sambandi við fiskgengd í ám og vötnum. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa nokkur orð úr álitsgerð, sem dr. Árni Friðriksson lét í té í sambandi við frv., sem um var fjallað á sinni tíð og snerti minkaeldi. Hann segir svo:

„Villiminkar gætu í bili e. t. v. gert nokkurt gagn með því að fækka andartegundum, sem hættulegar eru vatnafiskunum, en á hinn bóginn gætu þeir orðið til mikils tjóns með því að fækka nytjafugli. Í vötnum vorum og ám eru engir fiskar að hornsílinu undanskildu aðrir en nytjafiskar, en það tjón, sem villiminkar gætu gert á þeim, ef þeim væri farið að fjölga allverulega, er óútreiknanlegt.“ Þessi orð eru raunar miðuð við fiskgengd í ám og vötnum eins og hún hefur verið, en hvað skyldi þá gerast, ef við stefndum að því að taka upp fiskeldi í verulegum mæli á ýmsum stöðum á landinu og ætluðum svo jafnframt að búa þannig um, að hætta væri á nýjum stofni villiminka, sem gengi lausum hala hér í náttúru landsins? Ég vil benda mönnum á að íhuga bæði þessi mál í samhengi og af fullkomnu raunsæi.

Enn er það sem fyrri, að hagnaðarvonin er öllum ofarlega í huga, og það virðist gæta mikillar bjartsýni hjá þeim, sem flytja þetta mál um að minkaeldi muni leiða mikinn hagnað af sér, bæði fyrir framleiðendurna sjálfa og þjóðarbúið. Ég hef áður vikið að þeim verðsveiflum, sem skinnasala yfirleitt er háð, ekki síður en aðrar vörur, sem við þurfum að selja, og skal ekki endurtaka það. Ég vil í öðru lagi minna á það, að þegar lög um bann við minkaeldi voru sett 1951, þá var leyft að halda áfram minkaeldi í steyptum búrum næstu 5 ár, þ. e. a. s. til ársins 1956. Ég spyr: Hefur þingn., sem hefur fjallað um þetta frv., kannað það, hvaða árangur varð af minkaeldinu á þessu tímabili? Stóð það með blóma á árunum 1951–56? Ég vil í þriðja lagi minna á það, að loðdýrarækt er alls ekki bönnuð hér á landi. Við höfum í gildi lög um loðdýrarækt, og það er aðeins eitt ákvæði í þeim l., sem segir, að óheimilt sé að reisa ný minkabú eftir að l. þessi koma til framkvæmda, og því banni hefur vitanlega verið fylgt. En ég benti á það í upphafi þessarar ræðu, að l. um loðdýrarækt, sem sett voru 1937, tóku jöfnum höndum til refaræktar og minkaræktar, og á þeim tíma, sem loðdýrarækt var stunduð hér, voru refir hafðir í búrum mjög víða. En ég spyr: Hvað er að segja um refaræktina nú? Og ef svo er sem ég hygg, að hún sé lítið eða ekki stunduð, hvers vegna er svo komið? Við þurfum engin ný lög, til þess að hægt sé að ala refi hér í búrum. Vilja flm. þessa frv. gera grein fyrir því, hvað það er, sem veldur, að refaræktin hefur lagzt niður? Ég hef lýst reynslunni, sem ég varð áskynja um á sínum tíma í mínu héraði, og það skyldi ekki vera, að sama reynslan væri annars staðar á landinu.

Halda þá flm. þessa frv., að það sé öruggt, að minkaskinnin ein muni um alla framtíð halda verðgildi, þó að refaskinn falli í verði og refaræktin leggist niður fyrst og fremst af þeim sökum? Og hafa þeir gefið því gætur, að í sjálfri grg. þessa frv. er talað um, að til þess að tryggja gæði skinnanna þurfi að vera ákaflega mikil litafjölbreytni og það séu nú á markaðnum um 40–50 litaafbrigði af minkaskinnum. Tízkan er breytingum háð, og eitt litaafbrigðið er í tízku á þessum tíma, en svo fellur það fyrir öðru litaafbrigði, sem verður talið verðmeira og fegurra í svipinn. Hvernig halda þeir, að verði fyrir okkur að bregðast við þessum tíðu sveiflum á markaðinum, sem standa í sambandi við tízkuna? Eða búast menn við því, að það sé auðvelt að breyta litaafbrigðum skinnanna, t. d. með fóðrun eða á einhvern annan hátt? Ég held, að þetta sé ekki skoðað af fullu raunsæi, og að það sé — því miður, vil ég segja — of mikil bjartsýni um hagnaðarvonina, sem kemur fram í sambandi við þetta frv.

Hv. frsm. minni hl. minntist nokkuð á fóðrunina og að það væri í raun og veru heil vísindagrein, hvernig að henni þyrfti að standa, og í þessu þskj. er einnig minnt á, að hún útheimti mjög mikla nákvæmni og að flytja þurfi inn fóðurblöndur með vissum efnum, til þess að skinnaframleiðslan verði í eðlilegu horfi, en það má segja, að grundvallaratriðið í þessu máli eru þó markaðshorfurnar, eins og þær eru núna. Ég hef litla þekkingu á því, hvernig horfur eru nú í næstu framtíð um markaðinn, en ég vil þó segja það, að ég hef heyrt mann, sem lærður er í búvísindum og er við störf úti í Skandinavíu, segja það, að það sé í raun og veru offramleiðsla á minkaskinnum á Norðurlöndum nú á þessum tímum, en framleiðendur minkaskinna í Noregi, Svíþjóð og Danmörku hafi myndað með sér samband og það sé svo sterkt og sá félagsskapur svo vel skipulagður, að þeir haldi minkastofninum í hæfilegri stærð til þess að halda markaðinum uppi á þeirri framleiðslu, sem fyrir er. Ég hef sjálfur ekki haft aðstöðu til að kanna þetta og hef ekki neina sérþekkingu á þessu sviði, en þetta hef ég heyrt, og þetta allt er þannig vaxið, að ég tel alveg fráleitt að afgreiða þetta mál án nánari athugunar á því öllu heldur en enn hefur farið fram, og nú er það kunnugt, sem ég gat um í upphafi þessa máls, að mþn. er að starfa að málinu og hún hefur ekki enn þá lokið störfum. Það á að vera næsta skrefið í málinu að fresta afgreiðslu þess nú eða vísa því til ríkisstj., eins og minni hl. leggur til, og bíða eftir heildaráliti mþn., sem er að athuga málið á sem breiðustum grundvelli.

Ég mun því að svo stöddu láta þessi orð nægja, en vildi ekki láta hjá líða að koma á framfæri þeim sjónarmiðum í þessu máli, sem ég hef hér vikið að.