25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

198. mál, loðdýrarækt

Frsm. minni hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður var nú ekki sérlega vísindalegur í niðurstöðum sínum og þaðan af síður að hann kæmi með sérstaklega nýjar upplýsingar í þessu mjög umdeilda og viðkvæma máli, og stendur því algerlega við það sama að öðru leyti en því, að hann las úr bréfi Efnahagsstofnunar ríkisins ummæli um þær athugasemdir, sem hér liggja frammi frá Náttúrufræðifélaginu um verð á innlendu minkafóðri. Ég skal ekki þrátta um þá skýrslu, sem Efnahagsstofnunin hefur gefið, en tel þó, að þetta fóðurkostnaðarmál sé hvergi nærri nægilega upplýst og þó ekki væri nema vegna þessa eins ætti að fresta málsmeðferð hér í hv. deild.

Þessi hv. frsm. gat þess, að minni hl. hefði ekki skilað álitsgerð, en það gerði hann, og úr henni las ég nokkrar setningar, sem ég byggi mjög á minn málflutning um frávísun máls að sinni. Og í niðurstöðu minni hl. var greinilega fram tekið, að hans álit væri, að kanna bæri þetta mál áfram, svo að það fer ekki á milli mála. Ég spurði enn fremur um markaðsmál, hvort þau hefðu verið könnuð, og það kemur í ljós, að svo er alls ekki, en reiknað er með að komast inn á markaði með úrvals skinnavöru. Þetta þykir mér a. m. k. ekki mjög sannfærandi. Hann talaði um fundinn að Selfossi. Jú, hann var sögulegur. Mér er sagt, að það hafi verið 4–5 menn á þessum fundi, þar af hafði einn áhugasamur maður komið úr Grindavík og hann stjórnað fundinum, svo hafi dýralæknirinn úr Árnessýslu komið þarna og tveir eða þrír menn aðrir og það var nú allur áhuginn. Þetta sagði mér bóndi einn, sem kom að austan í gær. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Frsm. meiri hl. efast um það, að ég hafi farið rétt með, þegar ég segi í nefndaráliti og enda líka í orðum mínum hér áðan, að það sé talið líklegt, að minkarækt sé á fallanda fæti í Danmörku, Finnlandi, Kanada og Svíþjóð. Ég hafði það þó úr grg. frv., og hann vildi hallast að því, að ég færi með rangt mál. Nú ætla ég að lesa þennan hluta grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Hver þjóð um sig flytur inn um 50 þús. tonn af minkafóðri (og þá er talað um Norðurlöndin). Þetta kostar ekki aðeins gjaldeyri, heldur verður fóðurkostnaðurinn óeðlilega hár, vegna þess að frysta þarf vöruna og geyma hana.“ (Gripið fram í.) A. m. k. ekki í Noregi. Og enn fremur: „Þetta veldur því, að þessar þjóðir geta ekki öllu lengur aukið minkarækt sína. Svíar og Kanadamenn hafa t. d. ekki aukið minkarækt sína undanfarin ár vegna þess, hve fóðurkostnaðurinn er orðinn hár. Ólíklegt er, að Danir og Finnar geti aukið framleiðslu sína verulega af sömu ástæðu.“

Þetta er í grg. fyrir því máli, sem hv. frsm. flytur hér í deildinni. Og enn fremur:

„Þá hefur framleiðsluaukning í Bandaríkjunum verið tiltölulega hægfara, og framleiðendur kvarta mjög vegna mikils kostnaðar og erfiðrar samkeppnisaðstöðu.“

Ég hygg því, að ég hafi farið með alveg rétt mál. en hv. frsm. ekki athugað grg. til fulls. Hitt er annað, að málflutningur hans er, eins og búast mátti við af hans hálfu, hógvær og laus við alla áreitni. Ég sagði líka í mínum orðum áðan, að með því að auka fjármagn í sjávarútvegi á ýmsa lund og fara þar nýjar leiðir gætum við margfaldað söluverð sjávarafurða okkar á erlendum markaði. Þetta stendur alveg óhaggað. Og mér finnst það meira en vafasamt, hvort fyrirmenn í þjóðfélaginu eigi að hafa þau orð við þessa áhugasömu minkamenn, að þeir megi gjarnan leggja í þetta, ef þeir vilji láta fé sitt af mörkum til fjármögnunar. Þannig finnst mér, að fyrirmenn þjóðfélagsins megi alls ekki tala í sambandi við þessa nýju grein, sem er mjög á völtum fæti í nágrannalöndum okkar og jafnvel í Bandaríkjunum og við ætlum svo að byrja á hér. Vissulega munum við verða fyrir margvíslegum áföllum í fyrstu, t. d. tapa mörgum minkum úr búi. Það er stórt áfall. Nú, skinn geta eyðilagzt og allt hvað eina komið til og við ekki dottið ofan á þá erlendu sérfræðinga, þótt dýrir séu, sem gætu varnað því, að afföll yrðu mikil.

Í l. um innflutning búfjár segir í 1. gr.: „Bannað er að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, þar með taldir fuglar. Landbrh. getur þó vikið frá banni þessu og leyft innflutning á búfé o. s. frv., enda sé stranglega fylgt þeim fyrirmælum, sem felast í lögum þessum og reglugerðum, er settar verða samkv. þeim.“

Í 4. gr. segir: „Áður en búfé eða önnur dýr eru flutt inn samkvæmt l. þessum, skal ríkið byggja sóttvarnarstöð, svo og setja saman bú í eyju í nágrenni Reykjavíkur, þar sem hins innflutta fénaðar er gætt og hann ræktaður eins og 1. þessi mæla fyrir um og þær reglugerðir, sem eftir þeim verða settar.“

Ég veit ekki betur heldur en að minkurinn heyri undir þessa löggjöf, eða það skilst mér a. m. k., og þá sjáum við, að það er ekki auðhlaupið að fara út í minkarækt, þó áhugamenn um minkarækt hér á hv. Alþ. komi þessu frv. í gegn. Þá vil ég að lokum geta þess, að ég spurðist fyrir um það, hvert hefði verið álit yfirdýralæknis um þetta mál og hv. frsm. sagði, að hann vissi ekki betur en að yfirdýralæknir væri samþykkur því að þetta frv. fengi byr á Alþ. En ég leyfði mér að efast um að svo væri, en það má vel vera, enda mun hann, ef frv. nær fram að ganga sem l., að sjálfsögðu bera höfuðábyrgð á innflutningi minka til landsins.

Ræða hv. frsm. meiri hl. gefur mér ekki tilefni til þess að fara nánar út í málið. Ég þykist hafa í framsöguræðu minni rakið það, að vísu í stórum dráttum, en drepið á flest þau efni, sem ég taldi vera þess eðlis, að nauðsyn væri, að tekin yrðu til rannsóknar og gaumgæfilegrar könnunar, áður en frv. yrði samþ. Ég vil alveg sérstaklega vekja athygli á þeim orðum hv. þm. Páls Þorsteinssonar, sem hann viðhafði í sambandi við fiskeldi, fiskirækt í vötnum og ám í þessu landi. Ef okkur tekst — sem margir vona og vildu að næði fram að ganga — að efla fiskirækt að þessu leyti, þá segir það sig sjálft, að ef siga á á lönd og í vötn, þar sem fiskirækt er, villimink á næstu árum, þá væri það hreinn dauðadómur yfir þeirri ræktun, sem annars mundi færa að mínu áliti á næstu árum björg í bú svo að um munaði.