02.05.1969
Neðri deild: 82. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

198. mál, loðdýrarækt

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel, að hæstv. forseti hafi brotið lög á mér með því að meina mér að taka til máls við þessa 1. umr., en úr því að ég fæ nú að gera grein fyrir mínu atkv., þá langar mig til að lesa hér upp bréf, sem mér hefur borizt um þetta mál frá náttúruverndarnefnd Hins íslenzka náttúrufræðifélags. Mér þykir mjög sennilegt, að fleiri þm. hafi fengið sams konar bréf. Bréfinu fylgir ljósrit að greinarkorni, sem mér skilst, að sé úr brezku tímariti (Forseti: Ég leyfi mér að vekja athygli hv. þm. á því, að hann hefur fengið orðið til þess að gera grein fyrir atkv. sínu, en ekki til þess að taka til máls efnislega um málið. Ég vil fara fram á það, að hv. þm. geri grein fyrir atkv. sínu.) Ég ætla að gera það. (Forseti: En ekki með því að halda ræðu.) Ég ætla að fá leyfi til að lesa hér upp bréf og gera grein fyrir mínu atkv. á þann hátt m. a.

Í þessu greinarkorni er sagt frá því, að Bretar hafi í hyggju að herða mjög eftirlit með innflutningi margra dýrategunda, sem geta borið hundaæði, og sé minkur á meðal þeirra. Og í fréttinni kemur einnig fram, að hundaæði breiðist út í Evrópu.

Þá eru hér í þessu bréfi aths. við kostnaðaráætlun.

„Í áætlun um fóðurþörf í fskj. frá Efnahagsstofnuninni er gert ráð fyrir, að fiskúrgangur kosti kr. 1.00 pr. kg. Þetta stangast illilega á við þá fullyrðingu, sem hefur verið rauður þráður í áróðri minkamanna, að þeir gætu borgað mun hærra verð fyrir fiskúrgang en nú er gert, því að 1.00 kr. er það verð, sem greitt er nú fyrir lélegasta fiskúrgang í mjölvinnslu. Við höfum aflað okkur upplýsinga um útflutningsverð á fiskúrgangi og sláturúrgangi hjá SÍS, Sláturfélagi Suðurlands og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, og fara þær tölur hér á eftir. Verð á fiskúrgangi er fob., en á sláturúrgangi cif. Við viljum vinsamlegast biðja yður að bera þessar tölur saman við þær, sem eru í fskj. Efnahagsstofnunarinnar, en þær eru fengnar beint frá minkamönnum sjálfum.“ Og síðan segir hér: „Fiskúrgangur, afskurður af flökum 6.40 kr. pr. kg, bein, heilir hryggir eða möluð, 3.70 kr. pr. kg og heill úrgangsfiskur 5.30 kr. pr. kg. Og sláturúrgangur úr sauðfé og stórgripum var fyrir gengisfellingu kr. 12 pr. kg, en er nú um l8 kr. kg. Minkamenn hafa haldið því á lofti, að fiskur og fiskúrgangur væri 75% af fóðri minka. Þetta er hins vegar mjög blekkjandi, því að hlutfall þessa þáttar í kostnaði er samkv. fskj. 38.5% og er það ívið minna en hlutfall hins innflutta fóðurs, sem er 39.3%. Að lokum viljum við benda á, að svo virðist sem ekki sé lengur gert ráð fyrir hinum rammbyggilegu steinsteyptu minkabúrum, sem minkamenn tefldu mjög fram í upphafi. Fleira væri hægt að tína til, en við vonum, að þetta muni nægja til að vekja menn til umhugsunar.

Náttúruverndarnefnd Hins íslenzka náttúrufræðifélags skorar á Alþingi að leyfa ekki minkaeldi í landinu að nýju. Máli okkar til stuðnings viljum við leyfa okkur að benda á eftirfarandi atriði:

1. Náttúrufræðingar, sem fjallað hafa um þetta mál. eru sammála um, að ekki beri að leyfa minkarækt á Íslandi að nýju. Ef farið hefði verið að þeirra ráðum í upphafi, væri enginn minkur á Íslandi nú.

2. Reynslan hefur sýnt, að enginn getur ábyrgzt, að minkar sleppi ekki úr haldi. Minkabúr geta t. d. skemmzt af völdum náttúruhamfara eða dýrin komizt út á annan hátt. Þetta hefur ekki aðeins gerzt hér á landi, heldur einnig í öðrum löndum, svo sem Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Bretlandi, þrátt fyrir varúðarráðstafanir. Afleiðingin verður sú, að öðru hverju koma hópar aliminka út í náttúruna, en það eru einmitt slíkir minkar, sem mestu tjóni valda. Þeir fara um myrðandi án tillits til þarfa. Einnig verður að gera ráð fyrir, að þessum minkum fjölgi miklu örar en þeim villtu minkum, sem fyrir eru. Það tekur minka, sem sleppa úr búrum, langan tíma að aðlaga sig umhverfi sínu og taka upp lífshætti villtra dýra. Þetta hefur því í för með sér, meðan minkaeldi er stundað, að sífelld röskun verður á jafnvægi í náttúrunni, en slíkt getur haft hinar alvarlegustu afleiðingar. Sá minkastofn, sem fyrir er í landinu, hefur að baki sér aðlögunarskeið og hefur tekið upp lifnaðarhætti villtra dýra. Ætti því tjón það, sem hann veldur, að fara minnkandi, enda er sennilega að komast á jafnvægi í náttúrunni eftir uppnám það, sem hann olli með fyrstu tilkomu sinni. Minkastofn þessi hefur þó ekki verið rannsakaður enn, hvorki stofnstærð hans né lifnaðarhættir. Að svo stöddu er því erfitt að meta, hvaða tjóni núverandi villiminkastofn kann að valda í framtíðinni, ef ekki tekst að útrýma honum.

3. Nefndin dregur í efa, að skilyrði til minkaræktar hér á landi séu eins góð og forsvarsmenn minkaræktar vilja vera láta. Í þessu sambandi viljum við benda á þá staðreynd, að minkarækt hafði að mestu lagzt niður af sjálfsdáðum, er hún var bönnuð árið 1951.“

Nú er ég rétt að segja búinn, herra forseti.

„4. Ísland hefur algera sérstöðu að því er varðar fábreytni í gróðri og dýralífi og verður því að gæta alveg sérstakrar varúðar við innflutning dýra. Við viljum minna á það tjón, sem hlotizt hefur af innflutningi dýra að vanhugsuðu og órannsökuðu máli. Erlendis er bæði hundapest og hundaæði í minkastofninum. En hundaæði er mjög alvarlegur og mannskæður sjúkdómur, eins og kunnugt er.

5. Nefndin telur hættu á, að draga mundi úr áhuga á því að halda villiminknum í skefjum, ef minkarækt yrði leyfð, þar sem alltaf mætti gera ráð fyrir, að dýr slyppu úr haldi að nýju. Einnig hafa erlendir aðilar látið í ljós áhuga á því að gera tilraun til að eyða villiminki hér á landi með sýkingu, en slíkar tilraunir er auðvitað aðeins hægt að framkvæma í landi, þar sem minkabú eru ekki fyrir hendi. Um leið og við ítrekum andstöðu okkar og mótmæli gegn innflutningi minka og minkarækt, viljum við skora á Alþingi að beita öllum tiltækum ráðum til eyðingar og útrýmingar villiminknum í landinu.“

Þetta er frá náttúruverndarnefnd Hins íslenzka náttúrufræðifélags. Nú vil ég færa hæstv. forseta þakkir fyrir að leyfa mér að flytja þessa aths. við atkvgr. og með skírskotun til þess, sem hér kemur fram frá náttúruverndarnefndinni, þá segi ég nei.