12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

198. mál, loðdýrarækt

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 2. umr., er frv. til l. um loðdýrarækt og er flutt af hv. meiri hl. allshn. Ed. og hefur hlotið afgreiðslu í þeirri hv. d. Eins og fram kemur í nál., sem allshn. þessarar hv. d. hefur skilað um málið, varð hún ekki einhuga um afgreiðsluna. Svo sem fram kemur á þskj. 688, leggur meiri hl. til að frv. verði samþ., en minni hl., þeir hv. þm. Magnús Kjartansson og Jónas Jónsson, hafa skilað séráliti á þskj. 699 og leggja til að frv. verði vísað frá með rökst. dagskrá.

Þetta mál hefur um nokkurra ára skeið legið hér fyrir hv. Alþ., var síðast vísað til ríkisstj. og það varð til þess, að skipuð var n. á s. l. vetri af hæstv. landbrh. til þess að endurskoða frv., sem áður var vísað til stjórnarinnar, og gera að nýju till. um það, hvort lagt skyldi til, að minkaeldi yrði leyft hér að nýju og skilaði þá um það lagafrv. Þessi mþn., sem starfaði um nokkurra vikna skeið í vetur, skilaði áliti til hæstv. ríkisstj., en varð þó ekki sammála. Hún var skipuð þannig, þessi n., að það var einn fulltrúi frá hverjum þingflokkanna, sem þeir tilnefndu sjálfir, og síðan formaður, sem skipaður var af ríkisstj. Þrír af þessum nm. skiluðu því frv. til ríkisstj., sem hér liggur fyrir og hefur verið samþ. af hv. Ed., eins og ég hef áður getið, en minni hl. skilaði hins vegar séráliti, og grg. hans hefur verið prentuð með sem fskj. hjá hv. minni hl. allshn. d.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa langt mál um þetta, nema sérstakt tilefni gefist til Eins og ég sagði áðan, hefur þetta mál mjög verið rætt, bæði hér á hv. Alþ. og eins í blöðum nú að undanförnu, og meira að segja í Ríkisútvarpinu. Það hafa verið mjög skiptar skoðanir um það fram til þessa, en mér er óhætt að segja það, að þær skoðanir eru nú greinilega mjög að breytast. Það kom m. a. fram í afgreiðslu hv. Ed., sem nú var að miklum meiri hl. samþykk því að afgreiða þetta frv., sem inniheldur fyrst og fremst þá breytingu frá núgildandi lögum, að þar er numið í burtu það bann við minkaeldi, sem verið hefur í gildi. Og eins og vakin er athygli á í nál. meiri hl. allshn., þá er hér í raun og veru um þá eina breytingu að ræða, sem máli skiptir, að numið er úr gildi bann gegn minkaeldi. Samkv. þeim lögum, sem í gildi eru og hafa verið, er hvers konar loðdýraeldi heimilt í landinu, annað heldur en eldi minka. En það er einmitt sú dýrategundin, sem farið hefur algera sigurför um öll nálæg lönd í þessari framleiðslugrein, og ég verð að segja það, að mér finnst, að þetta atriði, þetta meginatriði, — þegar menn gera sér grein fyrir því, sé í raun og veru ósköp auðvelt að taka afstöðu í þessu máli.

Ég vil aðeins víkja hér að einu atriði, sem fram kemur í áliti minni hl. þeirrar n., sem undirbjó þetta frv. fyrir ríkisstj. og Alþ., og sem ég verð að játa, að ég hafði ekki séð fyrri heldur en núna, þegar þetta mál lá fyrir hv. allshn. d. En í þessu áliti, sem þeir undirrita hv. þm. Stefán Valgeirsson og Örnólfur Thorlacius, en það eru tveir þeirra manna, sem voru í n., sem undirbjó frv., segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Minni hl. lítur svo á, að n. hafi alls ekki haft aðstöðu til að kanna málið, eins og landbrh. lagði fyrir n. að gera, og því ekkert á því að byggja, sem frá n. kemur á þessu stigi málsins.“ Og svo halda þeir áfram: „Ef landbrh. gerir sér að góðu slík vinnubrögð, er það sýnt, að þessi nefndarskipun hefur aldrei verið nema til málámynda, aðeins til að geta sagt, að n. hafi verið skipuð í málið og hafi gert um það till.“ Ég ætla ekki að svara nema fyrir mig þeim ásökunum, sem í þessu felast. Og hvort sem þessir hv. meðnm. mínir hafa haft þá tilfinningu, að ég hafi yfirleitt enga alúð lagt í mitt starf í n., þá mótmæli ég því algerlega, og ég vil bara lýsa því hér yfir, að að því leyti, sem ég tók þátt í störfum þessarar n., gerði ég það af fullkominni ábyrgðartilfinningu og gerði mér grein fyrir öllum atriðum málsins. Hitt er svo rétt, að ég hafði, áður en til þess kom, að ég starfaði í þessari n., gert mér grein fyrir meginatriðum þessa máls. Og ég tel svona heldur ósmekklegar, þessar tvær klausur, sem þarna standa í nál.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta á þessu stigi. Við leggjum til, meiri hl. hv. allshn., að frv. verði samþ. hér í þessari hv. d. eins og það liggur nú fyrir á þskj. 403.