12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

198. mál, loðdýrarækt

Birgir Kjaran:

Herra forseti. Þá er minkurinn enn einu sinni kominn á Alþ. Að vísu í sakleysislegu gervi, því hans er hvergi getið í frv. og aðeins rætt um loðdýr, en að vísu er hann nefndur í grg. Og í 1. gr. frv. er okkur tjáð, að hæstv. landbrh. skeri úr um, hvort dýrategund þessi skuli teljast til loðdýra eða ekki. Með fullri virðingu fyrir hæstv. landbrh. og hans alkunna dugnaði leyfi ég mér að efast um, að hann hafi nánari þekkingu af loðdýrum en náttúrufræðistofnanir landsins, að ég tali nú ekki um yfirdýralækni. Mér skilst, að með frv. þessu, ef að l. verður, eigi að gera tilraun til minkaeldis hér á landi. Hér þarf engra tilrauna við. Minkarækt var hafin hér á landi í kringum 1930 og vissir voru menn þá um, að þarna yrði um mikinn tekjustofn að ræða. Minkurinn gæti aldrei sloppið úr búri og aldrei orðið skaðvaldur, hvað þá þjóðarvágestur. Ekki voru þó nema tvö ár liðin, þar til minkurinn var orðinn villt dýr í landinu, sem miklu tjóni olli í varpi, við veiðivötn og jafnvel á skepnum. Svo rammt kvað að þessu, að árið 1939 var horfið að því að veita opinber verðlaun fyrir að bana mink. Hann hafði þá lagt fögur fuglaver í eyði, svo sem í Slútnesi, í Viðey og víðar. Árið 1951 voru svo samþ. lög um, að minkarækt skyldi lögð niður í landinu á næstu fimm árum og skeði það. Minkarækt hefur sem sé verið reynd hér á landi í aldarfjórðung með þeim afleiðingum, að nauðsyn þótti til að leggja bann við henni. Samkv. l. um innflutning búfjár frá 1962 þarf samþykki yfirdýralæknis, en ekki umsögn til þess að heimila innflutning dýra. Þar segir og, að í því landi, sem dýrin eru flutt frá, megi ekki vera neinir þeir búfjársjúkdómar, sem menn kunni að óttast að borizt gætu á þennan hátt til landsins. Stríðir þetta frv. gegn þeim l., og mér er kunnugt, að yfirdýralæknir er mjög andvígur því, að hér sé slakað á, enda hefur sú reynsla, sem fengizt hefur af óvarlegum innflutningi búpenings, verið svo dýru verði keypt, að öllum ábyrgum mönnum ætti að vera ljóst, að til þess eru vítin að varast þau.

Varðandi hugsanlegan hagnað og hins vegar hættur af minkaeldi vildi ég m. a. leyfa mér að vitna til eftirfarandi: Í marz 1966 var haldin ráðstefna í Stokkhólmi um villt dýr á Norðurlöndum: Vildt rovdyrs nordiske konferense. Var minkurinn þar m. a. til umræðu. Þar komst einn kunnáttumanna svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Það er fjarri lagi, að minkaeldi í Skandinavíu muni framvegis verða samkeppnishæft. Jafnóvíst er það og, að tízkan muni áframhaldandi gera minkaskinnin eftirsótt, þar sem þau eru víðs fjarri að vera beztu loðskinnin, sem við höfum.“ Og hann heldur áfram: „Persónulega er ég þeirrar skoðunar, að minkaræktin muni fyrr eða síðar lenda í alvarlegri kreppu.“

Á Norðurlöndum og Bretlandi er minkurinn nú plága, sem ekki verður ráðið við. M. a. var þetta mál eða innflutningur dýra — og þar með talinn minkurinn, — til umræðu í brezka þinginu og var þar mjög varað við honum. Dönum hefur að vísu tekizt vegna landslags að halda stofninum í skefjum, en í Noregi, Svíþjóð og Bretlandi er hann stöðugt vaxandi plága. Í Noregi hefur landbrn. skipað nefnd til að gera till. um eyðingu minksins. Á Norðurlöndum hefur og komið til mála að skattleggja minkabúin og verja skatttekjunum til eyðingar villiminksins. Í Rússlandi skeði það, að þar kom upp minkapest og eyðilagði að mestu rússneska minkastofninn. En það varð hins vegar Dönum til happs. Þar var minkaeldi komið í nokkurt fjárhagslegt öngþveiti, og hafði ríkisstj. ráðgert að lóga þar miklum fjölda minka,½–1 millj., en þetta slys í Rússlandi olli því, að danskur minkabúskapur rétti við, vegna þess að þeir gátu selt dýr til Rússlands.

Þá veit ég ekki, hvort formælendur minkainnflutnings gera sér ljósa þá sjúkdómshættu, sem slíku getur fylgt. Minkurinn ber með sér vissa sjúkdóma, sem geta borizt í önnur skyld dýr, svo sem hunda. Má þar nefna tríkínur og bendilorma, en versta farsótt er minkafárið eða minkaæðið, sem berst í hunda og veldur hundafári. Þetta er talinn mjög hættulegur og skaðvænlegur sjúkdómur, sem herjar nágrannalönd okkar, Norðurlöndin, Bretland og einnig N.-Ameríku. Fram til þessa hefur dýralæknum okkar og ströngu eftirliti með búfjárinnflutningi tekizt að forða íslenzka hundinum frá þessu fári, en mikil hætta er á, að sá sjúkdómur gæti borizt til landsins með innflutningi minka, og væri þá illa farið, ef við lóguðum íslenzka fjárhundinum, sem svo dyggilega hefur fylgt íslenzka bóndanum í meira en þúsund ár, en fengjum í staðinn villta minka.

Þá vildi ég leyfa mér að fara fáeinum orðum um þá fjárhagsáætlun, sem sett var fram varðandi hagnað af minkaeldi, og þar vitna nokkuð til grg., sem kom frá Náttúrufræðifélaginu og næsti ræðumaður á undan gat um. Með leyfi hæstv. forseta þá segir í þessari grg.:

Í áætlun um fóðurþörf á fskj. frá Efnahagsstofnuninni er gert ráð fyrir, að fiskúrgangur kosti 1 kr. hvert kg. Þetta stangast illilega á við þá fullyrðingu, sem hefur verið rauður þráður í áróðri minkamanna, að þeir gætu borgað mun hærra verð fyrir fiskúrgang en nú er gert. Því að 1 kr. er það verð, sem greitt er nú fyrir lélegasta fiskúrgang í mjölvinnslu. Við höfum aflað okkur upplýsinga um útflutningsverð á fiskúrgangi og sláturúrgangi hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga, Sláturfélagi Suðurlands og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og fara þær tölur hér á eftir.

Verð á fiskúrgangi er fob., en á sláturúrgangi cif. Við viljum vinsamlega biðja yður að bera þessar tölur saman við þær, sem eru á fskj. Efnahagsstofnunarinnar, en þær eru fengnar frá minkamönnum sjálfum. Fiskúrgangur, fyrsti afskurður 6.40 kg., bein 3.70, heill úrgangsfiskur 5.30 og sláturúrgangur, lungu og annað 12 kr. og er nú um 18 kr. Minkamenn hafa og mjög haldið því á loft, að fiskur og fiskúrgangur væri 75% af fóðri minkanna. Þetta er hins vegar mjög blekkjandi, því hlutfall þessa þáttar í kostnaði er samkv, fskj. 38.6% og er það ívið minna en hlutfall hins innflutta fóðurs. Eins og síðasti ræðumaður benti á, nægir og hvergi nærri að hafa fiskúrganginn, heldur þarf að blanda saman við ýmiss konar öðrum efnum, steinefnum, bætiefnum og öðru slíku. Og minkurinn étur heldur ekki slorið eins og það kemur fyrir, heldur þarf að mala þetta og það þarf að búa úr þessu sérstakar kökur, sem minkarnir eru fóðraðir með, og til þess þyrfti verksmiðju, sem ég skal ekki segja, hvað kostaði, en vafalaust kostar nokkurn pening, en um það mál liggja engar áætlanir fyrir frá þeim nefndum, sem um þetta hafa fjallað.

Eins og hér var getið, skipaði landbrh. n. í þessu máli, og n. klofnaði, að mér skilst, efnislega og einnig sökum vinnubragða eða þess tíma, sem henni var ætlaður til starfa. Í áliti minni hl. segir m. a., með leyfi forseta: „Minni hl. lítur svo á, að n. hafi alls ekki haft aðstöðu til þess að kanna málið eins og landbrh. lagði fyrir n. að gera og því ekkert á því að byggja, sem frá n. kemur á þessu stigi málsins. Enginn nm. hefur neina reynslu eða sérþekkingu varðandi minkarækt, og því hlýtur n. að þurfa talsverðan tíma til að kynna sér málið, ef hún á að vera þess umkomin að taka afstöðu til þess, sem byggð sé á könnun, eða gera till. um gerð mannvirkja, þar sem fyllsta öryggis sé gætt, eftir því sem það er hægt og hins, að kostnaður fari ekki úr hófi fram, hvað þá um annað, sem málið varðar. Benda má á ýmis atriði í grg. meiri hl., sem þarfnast frekari athugunar. Þar er til dæmis fullyrt, að fóðurkostnaður standi því fyrir þrifum, að minkarækt hafi aukizt á Norðurlöndum og í Kanada undanfarin ár. Minni hl. vill benda á þann möguleika, að markaðsmöguleikar ráði hér miklu og telur fráleitt, að flutt verði frv. um minkarækt fyrr en markaðsmálin eru betur könnuð.“ Við þetta vildi ég bæta því, að hagur eða hagnaður þeirra þjóða, sem hann hafa haft, hefur hvað mest verið fólginn í útflutningi lífdýra, en ekki beint í skinnasölunni sjálfri.

Í áliti minni hl., þeirra Stefáns Valgeirssonar og Örnólfs Thorlaciusar, sem voru í þessari n., er landbrh. skipaði, segir svo að lokum: „Að athuguðu máli leggur minni hl. til, að n. fái málið til endurskoðunar, byggi afstöðu sína á könnun, en ekki á trú eða trúleysi á þýðingu þess fyrir þjóðina og verði búin að ljúka störfum fyrir næsta reglulegt Alþ., enda er það í fullu samræmi við erindisbréf n. Ef frv. það, sem meiri hl. hefur gengið frá og sent rn., verður nú lagt fyrir Alþ., er ekki líklegt, að það nái fram að ganga, þar sem ekkert nýtt hefur komið fram í málinu, sem ætla má að breyti afstöðu þm. til málsins.“

Þá segir í álitsgerð, sem Örnólfur Thorlacius hefur samið einn, m. a. þetta, sem ég — með leyfi forseta — mun flytja hér og tel nauðsynlegt, að þm. sé kunnugt. Það hljóðar þannig: „Þegar nú er íhugað, hvort leyfa skuli minkaeldi á nýjan leik hérlendis, ber að athuga, hver hætta náttúru landsins geti enn stafað af þessari atvinnugrein og meta hvort ágóði af minkaeldi verði slíkur, að hann réttlæti, að banninu gegn minkaeldi á Íslandi verði aflétt. Í minnihl.-áliti okkar Stefáns Valgeirssonar,“ segir Örnólfur áfram, „eru færð rök fyrir því, að viðhlítandi könnun á ábatasemi minkaeldis hérlendis hefur enn ekki farið fram. Ef frv. til l. um loðdýrarækt verður samt lagt fyrir Alþ. að þessu sinni, leyfi ég mér að vekja athygli á því, að hættan af innflutningi aliminks er engan veginn úr sögunni, þótt fyrir sé í landinu villiminkur og ósennilegt sé, að honum verði útrýmt, a. m. k. með þeim aðferðum, sem nú eru tiltækar. Aliminkar, sem úr haldi sleppa, hegða sér á allt annan veg en villiminkar, sem fyrir eru í landinu og aðhæfzt hafa hér aðstæðum. Nægir í þessu sambandi að vekja athygli á því, að á meðan minkarækt var stunduð hérlendis, bárust tíðar fréttir af spjöllum, sem minkar höfðu unnið á alifuglum, auk þess sem minka varð oft vart í þéttbýli, jafnvel inni í höfuðborginni. Nú er minkastofninn í landinu mun stærri og útbreiddari en þá var, en samt fréttist sjaldan af ásókn minka á hænsn eða aðra alifugla og menn verða á allan hátt minna varir við villiminkana en áður.“ Þá segir hann enn: „Því er oft haldið fram, að með traustlegum frágangi minkabús megi koma að mestu eða öllu leyti í veg fyrir, að minkar sleppi úr haldi og að auðvelt sé að ná þeim fáu kvikindum, sem sleppa kunni úr búrunum. Reynsla nágranna okkar á Norðurlöndum og raunar annarra þjóða, sem minkaeldi stunda, sýnir hins vegar, að aliminkar sleppa jafnt og þétt úr haldi. Í Danmörku eru náttúrlegar aðstæður þannig, að auðvelt er að veiða þau dýr, sem sleppa, svo villiminkurinn er þar ekkert vandamál. En í Skandinavíu lifir enn og breiðist út talsverður stofn villiminka, og er álit margra sérfræðinga, að ókleift sé að halda þessum stofni niðri, meðan minkaeldi fer þar fram. Í þessum löndum voru þó fyrir marðartegundir með svipuðum lifnaðarháttum og minkar, en hér var ekkert slíkt dýr til fyrir, er minkaeldi hófst, þannig að jafnvægi náttúrunnar var og er enn mun meiri hætta búin hér af minkaeldi en í flestum öðrum löndum. Þau rök, sem fram hafa verið færð um ábatasemi minkaræktar hér á landi, virðast mér mjög ófullnægjandi, svo sem fyrr greinir, en það sem ég hef nú talið, hvetur hins vegar til varfærni. Þeir fulltrúar náttúrufræðinga, sem látið hafa í ljós álit sitt um þetta mál, t. d. náttúruverndarráð og stjórn Hins ísl. náttúrufræðifélags, hafa varað við innflutningi aliminka á sömu forsendum og hér hefur verið rakið.“

Þar sem ég tel, að hér sé um mikið alvörumál að ræða, er ég að eyða nokkuð lengri tíma en ég kannske hefði óskað, þar sem svo er áliðið þings, en sé hér ástæðu til að geta nokkurra aths., sem Hið ísl. náttúrufræðifélag hefur gert við þetta frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Reynslan hefur sýnt, að enginn getur ábyrgzt, að minkar sleppi ekki úr haldi, minkabúr geta t. d. skemmzt af völdum náttúruhamfara og dýrin komizt út á annan hátt. Þetta hefur ekki aðeins gerzt hér á landi, heldur einnig í öðrum löndum, svo sem Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Bretlandi, þrátt fyrir varúðarráðstafanir. Afleiðingin verður sú, að öðru hvoru koma hópar aliminka út í náttúruna, en það eru einmitt slíkir minkar, sem mestu tjóni valda. Þeir fara um myrðandi án tillits til þarfa. Einnig verður að gera ráð fyrir, að þessum minkum fjölgi miklu örar en þeim villiminkum, sem fyrir eru. Það tekur minka, sem sleppa úr búri, langan tíma að aðlagast umhverfi sínu og taka upp lífshætti villtra dýra. Þetta hefur því í för með sér, að meðan minkaeldi er stundað, verður sífelld röskun á jafnvægi í náttúrunni, en slíkt getur haft hinar alvarlegustu afleiðingar. Sá minkastofn, sem fyrir er í landinu, hefur að baki sér aðlögunarskeið og hefur tekið upp lifnaðarhætti villtra dýra. Ætti tjón það, sem hann veldur, að fara minnkandi, enda er hann sennilega að komast í jafnvægi í náttúrunni eftir uppnám það, sem hann olli með fyrstu tilkomu sinni. Minkastofn þessi hefur þó ekki verið rannsakaður enn, hvorki stofnstærð hans né lifnaðarhættir hans. Að svo stöddu er því erfitt að meta, hvaða tjóni núverandi villiminkastofn kann að valda í framtíðinni, ef ekki tekst að útrýma honum.“

Það er hér sitt hvað fleira fróðlegt í þessu, en ég tel ekki ástæðu til að tíunda það frekar, en vil að lokum leyfa mér að segja þetta: Ég vil leyfa mér að vara mjög við innflutningi minka til landsins, sökum þeirrar slæmu reynslu og stórfellda afhroðs, sem slíkar tilraunir hafa áður haft í för með sér, þegar spendýr hafa verið flutt inn til þessa lands, sem svo lengi hefur búið að eigin stofni búfjár, sem aðhæfður er landi og landsgæðum, en óvarinn mjög gegn smiti frá því, sem aðflutt er. Tel ég þá menn takast mikla ábyrgð á hendur, sem slíkt hugsa sér, því að mér er nær að halda, að hér sé aðeins um enn eina áhættuatvinnugreinina að ræða fyrir þjóðfélagið, en ekki þá geysilegu bjargarhellu, sem margir vilja láta í veðri vaka, og telja jafnvel, að þessi svokallaði nýi atvinnuvegur eigi að geta rétt þjóðarskútuna við, þrátt fyrir alla þá örðugleika, sem nú hafa steðjað að. Og ég yrði ekkert undrandi yfir því, ef minkarækt yrði tekin hér upp, þó að það liði ekki óralangur tími, þangað til hún yrði komin inn í styrkjakerfið, svo vinsælt og skemmtilegt sem það nú er. Í þriðja lagi: loðdýrarækt er mjög nostursamur atvinnuvegur, þar sem kunnáttu, reynslu og vísindalegs eftirlits er krafizt. Yrði því trúlega að byggja hann upp hér í fyrstu að mestu eða öllu með erlendum kunnáttumönnum, svo að hér yrði um litla atvinnubót að ræða. Í fjórða lagi er hér um atvinnurekstur að ræða, sem krefst allmikillar fjárfestingar, en skilar ekki ört arði, ef einhver er. T. d. má geta, þess, að sölur skinna yrðu vafalítið hjá okkur sem öðrum að fara um hendur umboðsmanna, sem sitja á svokölluðum skinnamörkuðum eða kauphringum, þar sem slík viðskipti eiga sér stað. Kunnugur maður þeim málum, sem í áratugi hefur fengizt við loðskinnaverzlun, segir, að uppgjör fyrir slíkar sölur fáist yfirleitt ekki nema einu sinni á ári. Og hann bætti því við, að margs konar skinn hefði hann selt og keypt, en lífsafkomu sína vildi hann sízt eiga undir minkaskinnum.

Við Íslendingar höfum reynt þessa atvinnugrein og mistekizt. Er það ekki nóg? Aðstæður í dag gefa engin betri fyrirheit en afkoman var þá. Til þessa atvinnuvegar þyrfti töluvert fjármagn, sem ég held að væri í okkar fjársnauða landi betur varið í annan atvinnurekstur eða tilrauna á öðrum sviðum, sem við höfum meiri reynslu og sennilega betri aðstæður til. Af þessari tilraun með minkarækt gætu hlotizt varanleg náttúruspjöll, sem ekki verða endurheimt með neinum fjármunum. Við þurfum áreiðanlega að reyna að auka á fjölbreytni atvinnuvega okkar, ef við viljum halda sæmilegum lífskjörum, en minnumst þess, að við búum ekki í þessu landi einungis vegna lífskjara, heldur engu síður vegna þess, að við búum í fögru landi, sem eitt fárra í hinum svokallaða siðmenntaða heimi heldur töluverðu af upprunalegri náttúru, jurta- og fuglalífi, óvirkjuðum fossum, hverum og kvikri jarðskorpu. Þær eru að vísu flestar þjóðirnar, sem lifa í þéttbýli Evrópu, sem öfunda okkur af þessari auðlegð og vildu gefa mikið fyrir að geta endurheimt sína náttúrusjóði. Hugsum okkur því tvisvar um áður en við stígum nokkurt það spor, smátt eða stórt, sem rýrir náttúrufegurð Íslands. Við betrumbætum ekki það, sem okkur var gefið í vöggugjöf, með því að flytja meindýr til landsins eins og minkinn.

Herra forseti, ég vil styðja þá rökstuddu dagskrá, sem hér var borin fram.