12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

198. mál, loðdýrarækt

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna ummæla 3. þm. Austf. áðan, þegar hann hélt hér framsögu fyrir meirihl-áliti þessarar hv. n. Hann las upp úr grg. okkar, minni hl. í þessari mþn., og taldi, að þar væri ýmislegt ofsagt. Þess vegna vil ég spyrja hv. 3. þm. Austf.: Til hvers var n. skipuð? Til hvers var hún skipuð? Það vill nú svo vel til, að við hv. 3. þm. eigum báðir sæti í landbn. Nd., sem hafði þetta sama mál til meðferðar í fyrravetur á síðasta þingi, og vitum við því alveg, hvað kom fram í sambandi við störf landbn. um þetta mál. Ég vil því spyrja hann: Kom eitthvað nýtt fram í störfum þessarar mþn. fram yfir það, sem landbn. í fyrra var búin að kanna? Hann gat um það, hv. þm., gat um það enn fremur, að honum hefði verið alveg ókunnugt um afstöðu minni hl., hefði ekki séð þetta plagg. Mér kemur það dálítið á óvart vegna þess, að í upphafi vildi ég haga störfum n. á allt annan veg heldur en hún vann sín störf, og það fær enginn mig til þess að skrifa undir svona nál., sem meiri hl. gerði, þar sem ég tel, að hún hafi ekki unnið það starf, sem henni var ætlað. En þrátt fyrir það, að ég hafi þessa afstöðu, þá var ég með því að gefa leyfi fyrir loðdýrarækt í fyrra og sú afstaða hefur ekki breytzt, en hins vegar tek ég ekki þátt í svona vinnubrögðum.