12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

198. mál, loðdýrarækt

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það mál, sem er hér til umr., er — eins og hv. dm. vafalaust vita allir — mikið deilumál, bæði hér á hv. Alþ. og eins á meðal manna úti um allt land. Þær ræður, sem fluttar hafa verið núna við þessa umr., endurspegla það líka, að hér er um málefni að ræða, sem ágreiningur ríkir um í þessari hv. d. Ég vil þá áður en ég vík að því efnislega benda aðeins á, að mér virðist, miðað við þá atkvgr., sem var í Ed. um þetta mál, að stuðningur við þá stefnu, sem frv. mótar, hafi vaxið mjög á hv. Alþ., í Ed. a. m. k., og hygg ég, að það sé aðeins spegilmyndin af því, sem hér hefur verið að gerast með þjóðinni hin síðari ár. Hér hafa bæði hv. 6. þm. Reykv. og eins hv. 7. þm. Reykv. varað mjög við því að samþykkja þetta frv. Þeir fluttu viss og sterk rök fyrir þeirri afstöðu sinni, sem sjálfsagt er að athuga og taka til greina. Ég vil þó benda á það, sem raunar kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að þegar hv. 7. þm. Reykv. talar um, að hér sé verið að efna til nýs og áhættusams atvinnuvegs, þá er hann ekki að segja nokkuð nýtt. Benda má á, að ekkert sérstakt gildir um þennan atvinnuveg í landinu, loðdýraræktina, umfram margt annað, sem við höfum stundað undanfarandi áratugi og aldir og lifum enda af. Hver mundi vilja halda því fram t. d., að sjávarútvegurinn væri ekki áhættusamur, þar sem við eigum jafnmikið undir atvikum, sem við ekkert ráðum um, bæði um göngur fisksins á miðin og annað. Landbúnaðurinn verður ekki heldur talinn áhættulaus atvinnuvegur. Þar eigum við mikið undir veðri og öðru, sem við ekki ráðum neitt við, og áföll hafa sannarlega orðið á undanförnum áratugum í öllum okkar höfuðatvinnuvegum. Þannig að út af fyrir sig yrði ekki um neitt nýnæmi að ræða, þótt loðdýraræktin sem atvinnugrein sé ekki alveg áhættulaus. En þegar menn eru að benda á þá reynslu, sem Íslendingar hafa haft af þeirri tilraun, sem gerð var hér fyrir nokkrum áratugum í minkarækt, og gefa sér þar með, að hún hljóti að verða endurtekin, ef þetta frv. verði samþ., þá finnst mér, að menn gleymi einu ákaflega veigamiklu atriði í því sambandi, og það er, að í frv. er að finna ákvæði um mjög strangar öryggisráðstafanir í þeim minkagörðum eða minkabúum, sem leyfð yrðu, miklu, miklu strangari en voru í lögum hér áður fyrr og að því, er ég bezt veit, þær ströngustu öryggiskröfur, sem nokkurs staðar munu vera gerðar í nokkru landi, þar sem minkahald eða loðdýrarækt er stunduð. Þetta hlýtur að sjálfsögðu að hafa verulega mikil áhrif á afstöðu þeirra manna, sem eru að reyna að koma sér niður á ákveðna afstöðu til þessa frv., og hljóta þeir þá að skoða þetta eins og annað, því það er ekki ómerkasta innleggið í málinu nú.

Ég lít nánast á þetta mál sem spurningu um það, hvort það sé virkilega svo, að Íslendingar geti ekki — eins og aðrir — stundað atvinnuveg, sem fyrirfram má telja, að verulegar líkur séu til, að hægt sé að reka með talsvert góðum arði hér á landi. Erum við virkilega það miklu síður hæfir til þess að stunda loðdýrarækt en frændur okkar Norðmenn, Danir, Svíar og fleiri, að það þurfi að vera gefið, að þessi atvinnugrein verði hér í kaldakoli, þó að hún sé rekin með verulegum ábata og hagnaði á Norðurlöndum? Ég vil ekki, þrátt fyrir slæma reynslu, skrifa undir þá skoðun, að Íslendingar geti ekki með tíð og tíma, og ef rétt er farið í málið, eins og mér virðist eiga að gera með frv., að þá getum við ekki stundað þessa atvinnugrein alveg eins og frændur okkar á Norðurlöndum. Og auk þess er ég, persónulega, sannfærður um það, að við höfum á ýmsan hátt talsvert betri aðstöðu til þess að gera þetta hér að arðvænlegum atvinnuvegi heldur en frændur okkar á Norðurlöndum hafa. Í sambandi við þetta langar mig til að benda hv. alþm. á að lesa grein, athyglisverða grein, sem mér fannst vera, sem birtist í Tímanum í gær og er skrifuð af Jóni Jóhannessyni, cand. mag., sem hefur, að því að ég veit til lagt sig talsvert eftir að kynna sér þá reynslu. sem ýmsar aðrar þjóðir hafa haft í sambandi við loðdýrarækt.

Það eru aðallega tvö atriði, sem ég hef reynt að gera mér grein fyrir til þess að geta byggt á afstöðu til þessa frv. Það er í fyrra lagi: Er ekki sennilegt, svo að ekki sé nú meira sagt, að með loðdýrarækt sé hægt að stofna til nýrrar og arðvænlegrar atvinnugreinar, sem renni traustum og nokkuð gildum stoðum undir útflutningstekjur landsmanna? Þetta er fyrra atriðið. Hið síðara atriði, sem ég hef reynt að gera mér líka grein fyrir, er: Kaupum við þessa nýju atvinnugrein og þessar nýju útflutningstekjur, sem við væntanlega fáum af minkaeldi í landinu, of dýru verði? Um fyrra atriðið get ég sagt, að það er að vísu ekki um mjög mikla eða langa reynslu hér á landi að ræða í þessum efnum af eðlilegum ástæðum, þar sem minkaeldi hefur verið rekið hér um stutt árabil og var þá algerlega á byrjunarstigi, en vissulega er til reynsla fyrir því, hvernig þessi atvinnugrein hefur gengið og hvernig hún hefur verið rekin t. d. á Norðurlöndum og víða annars staðar, og ég hef reynt að leggja mig eftir því að afla mér upplýsinga um, hver reynslan hefur verið, ekki sízt á Norðurlöndum, og langar mig til þess að víkja lítillega að því í þeim fáu orðum, sem ég ætla að segja um frv. núna við þessar umræður.

Í Danmörku byrjar minkaeldið á síðari hluta þriðja tugar aldarinnar, en verulegur skriður komst ekki á málin fyrr en upp úr síðari heimsstyrjöldinni, en þá komst framleiðslan upp í 100 þús. minkaskinn á ári. 1968 var framleiðslan komin upp í 3 millj. skinna, og voru þau seld fyrir 3.1 milljarð ísl. króna. Hinar öru framfarir á sviði minkaeldis í Danmörku er fyrst og fremst að þakka hagstæðum fiskimarkaði. Hinir dönsku minkagarðar eru aðallega staðsettir umhverfis fiskibæina, t. d. í Esbjerg og norður við Limafjörð. Í Finnlandi byrjaði minkaræktin upp úr 1930, en fyrst 1953 komst ársframleiðslan upp í 100 þús. skinn. 1968 var framleiðslan komin upp í 2.2 millj. skinna og voru loðskinn fimmti stærsti útflutningsliður þeirra. Finnar hafa 40-faldað ársframleiðslu sína frá árinu 1950. Það tók Norðmenn hins vegar nokkru lengri tíma að komast í gang með minkarækt heldur en hin Norðurlöndin, en þar höfðu menn staðið framarlega á sviði refaræktar. 1927 voru fyrstu minkarnir fluttir inn frá Kanada og síðan var talsvert magn flutt inn frá Svíþjóð, og stofninn jókst hægt og hægt. Skömmu eftir 1930 kom alvarlegur afturkippur, og margir Norðmenn hættu þá minkaeldinu. Skömmu fyrir 1940 kom góður kippur í minkaræktina. en á stríðsárunum var ógerningur að afla fóðurs og stofninn dróst aftur saman, og í stríðslokin voru aðeins til um 30 þús. eldisdýr í Noregi. Frá árinu 1952 hefur minkaræktin þar tekið hröðum framförum, þó ekki jafnhröðum og í Danmörku og Svíþjóð. 1968 var ársframleiðslan komin upp í 2.3 millj. skinna og seldust þau fyrir 2.5 milljarða ísl. kr. Athygli skal hér vakin á því, að Íslendingar gáfust upp á minkaræktinni upp úr 1950, þegar l. var breytt, rétt í þann mund, er verulega fór að birta til í markaðsmálunum. Voru menn þá hérlendis rétt byrjaðir á minkarækt og fengu aldrei að sýna, hvað þeir gátu á þessum sviðum. Verður það að teljast kaldhæðni örlaganna. Í Svíþjóð voru fyrstu minkabúin stofnuð 1928, og 1939 voru til um 100 þús. dýr og hvolpar, en einnig þar dróst búskapurinn saman, og verulegur skriður komst ekki á málin fyrr en 1950. Árið 1953 var framleiðslan komin upp í ½ millj. skinna á ári og 1968 upp í 1.7 millj. skinna, sem seldust fyrir 1.9 milljarða ísl. kr. Fjöldi eldisdýra á hvert bú á Norðurlöndum árið 1964 er frá aðeins nokkrum dýrum og upp í 10 þús., en meðaltalan er ekki há. Í Danmörku er meðaltalan 165 kvendýr, í Finnlandi 120 og í Noregi 117. Eins og sést af ofangreindum tölum, er stærsti hluti minkabúanna á Norðurlöndum lítil bú, og getur þetta því með réttu kallast smábúskapur. Þó er nokkur munur frá landi til lands. Noregur er og hefur ávallt verið smábúaland, en í Svíþjóð hafa minkabúin yfirleitt verið stærri en á hinum Norðurlöndunum. Í Danmörku og í Finnlandi eru til margir smáminkabændur og einstakir stórbúgarðar, þar sem framleiðslan fer upp í 30–50 þús. skinn á ári. Fjöldi minkabúa á Norðurlöndum mun vera um 12 þús., og gefur sú tala til kynna, hversu áfjáðir menn þarlendis eru í að afla tekna með skinnaframleiðslu.

Nú er svo komið, að öll Norðurlöndin nema Noregur verða að flytja inn fisk- og sláturúrgang vegna minkaræktar sinnar, m. a. um 8–10 þús. tonn frá Íslandi. Hver þjóð um sig flytur inn um 50 þús. tonn af minkafóðri. Þetta kostar ekki aðeins gjaldeyri, heldur verður fóðurkostnaðurinn óeðlilega hár vegna þess, að frysta þarf vöruna og geyma og flytja hana síðan landa á milli. Þetta veldur því, að þessar þjóðir geta ekki öllu lengur aukið minkarækt sína. Svíar og Kanadamenn hafa t. d. ekki aukið minkarækt sína undanfarin ár, vegna þess hve fóðurkostnaðurinn er orðinn hár. Ólíklegt er, að Danir og Finnar geti aukið framleiðslu sína verulega af sömu ástæðu. Þá hefur framleiðsluaukning í Bandaríkjunum verið tiltölulega hægfara, og framleiðendur kvarta mjög vegna mikils kostnaðar og erfiðrar samkeppnisaðstöðu. Hins vegar er vitað, að Rússar eru að ráðgera að auka framleiðslu sína stórlega næstu ár.

Íslendingar hafa mikla möguleika til að afla ódýrs minkafóðurs. Við veiðum meira af þorski og öðrum fiski en Norðmenn, sem þó veiða mest allra Norðurlandaþjóða. Þorskafli okkar er um og yfir 300 þús. tonn árlega. Í vaxandi mæli mun þessi afli fara til flökunar og frystingar á næstu árum og við það eykst fiskúrgangurinn, sem nauðsynlegt er að koma í betra verð. Undanfarin ár hafa fallið til um 100–120 þús. tonn af fiskúrgangi, sem farið hefur í fiskimjölsverksmiðjurnar. Af þessum fiskúrgangi mætti framleiða um 2–3 millj. skinna, ef öllu væri til skila haldið, nýju, frystu eða í formi fiskimjöls. Söluverðmæti þessara skinna væri 2–3 milljarðar kr. á ári. Um ¼ hluti þorskaflans aflast á sumrin, þegar fóðurþörf minkanna er mest. Þann fiskúrgang þyrfti yfirleitt ekki að frysta og geyma með ærnum kostnaði, heldur láta beint í hakkavélina fyrir dýrin. Af fiskúrgangi frá sumaraflanum ásamt með ýmsum úrgangs- og ruslfiski, sem nú er yfirleitt hent, mætti framleiða um 1 millj. minkaskinna að söluverðmæti 1150–1200 millj. kr. Af þessu er ljóst, að minkaeldi á Íslandi er stórkostlegt, þjóðhagslegt spursmál fyrir okkur. Útlitið er mjög bjart í skinnaframleiðslu hér á landi, ekki sízt vegna þess, að Bandaríkjamenn eru nú farnir að nýta fiskúrgang meir til manneldis heldur en áður hefur verið gert. Þetta leiðir svo af sér hærri eldiskostnað minkanna þarlendis. Hér á Íslandi er fiskúrgangi sturtað niður í fjöru í tonnatali daglega til eldis mávum og hröfnum og engum til gagns. Talið er, að einn maður geti mjög auðveldlega annað 300 tæfa búi ásamt tilheyrandi hvolpafjölda og 30–40 karldýrum. Meiri vinnukraft þarf þó á fengitíma og um sláturtíma. Slík bú eiga að geta gefið af sér um 1.5 millj. kr. á ári í brúttótekjur. Fæðiskostnaður er ríflega áætlaður kr. 300 þús. á ári miðað við núverandi verðlag. Stærð lóðar undir fyrrgreinda stærð af búi þarf að vera í minnsta lagi 1200 m2 , en væri ágæt 2500 m2.

Um það hefur verið nokkuð deilt hér, hvort það væri rétt, sem ýmsir halda fram, að hárgæði íslenzka villiminksins væru jafnvel enn þá meiri heldur en nokkurs staðar þekkist annars staðar frá, og sýnist þar sitt hverjum eins og um annað raunar, er lýtur að minkaeldi í landinu. Mér hefur verið sögð sú saga, sem ég hygg, að sé rétt, að formaður Loðdýraræktarsambands Kanada hafi óskað eftir að fá að rannsaka ullarþel á músum íslenzkum, þar eð þel á músum og minkum á sama landssvæði er mjög svipað. Niðurstöður af þessum rannsóknum voru mjög jákvæðar og verður manni þá einnig á að hugsa til íslenzku sauðkindarinnar, sem gefur af sér einna gæðahæstu ull í heiminum. Eru því ekki fyrirfram miklar og verulegar líkur til þess, að það sé rétt, þegar staðhæft er, að íslenzki minkafeldurinn sé vegna háralags enn þá dýrmætari heldur en þekkist nokkurs staðar annars staðar, þar sem minkarækt er stunduð?

Mikið hefur verið rætt um og ritað um skaðsemi villiminks í íslenzkri náttúru og skal ég á engan hátt gera lítið úr því. Bent hefur þó verið á, að Kanadamenn hafa sleppt mink lausum við ár og vötn, þar sem fiskirækt átti að hefjast, í þeim tilgangi, að hann eyddi fugli, sem nærist á miklu magni af fiskiseiðum. En minkur ræðst á fullorðna fiska og þarf þar af leiðandi færri fiska sér til lífsviðurværis. Talið er, að villiminkur valdi aðeins 10% tjóni á fiskistofni miðað við fiskendur og máva. Hér hafa á síðustu árum verið metveiðiár hvað lax áhrærir. Menn hafa einnig lært að útbúa hænsnabú sín þannig, að minkurinn komist ekki auðveldlega þar inn. Því hefur verið haldið fram, að minkur væri hér orðinn það villtur, að hann kæmi ekki lengur nálægt mannabústöðum. Þetta er misskilningur. Minkurinn leitar á hænsnabúin hvenær sem færi gefst, og nægir í því sambandi að benda á, að fyrir stuttu drap hann 36 hænur að Brunná við Akureyri. Hænsnabú eru nú betur varin heldur en áður var og eru þakin þéttmöskvuðum vírnetum í gólfi, veggjum og lofti, ef þau þá eru ekki steinsteypt. Það er með ólíkindum, að minkur, sem slyppi úr búri í dag, mundi gera meiri usla í hænsnabúunum heldur en villiminkurinn getur gert.

Ég skal nú ekki orðlengja þetta. Mér er ljóst, að hér er komið að síðustu starfsdögum þingsins og ýmislegt er eftir að afgreiða úr d., en ég fæ ekki betur séð og á því byggist mín afstaða um stuðning við þetta frv., að þegar tekið er tillit til alls, bæði þeirra raka, sem mæla ótvírætt með því, að hagkvæmt sé fyrir okkur að leyfa minkahald í landinu á ný með þeim öryggisráðstöfunum, sem frv. hefur að geyma, þegar þetta er vegið á aðra vogina og svo það á hina vogina, hvaða óhagræði og hvaða áhættu við kunnum að taka á okkur með því að leyfa þetta minkahald á ný, þá sýnist mér enginn vafi vera á því, hvor lóðaskálin er þyngri og hvort vegi þyngra til hags fyrir vaxandi þjóð í landi, sem á sannarlega ekki allt of margra úrkosta völ til þess að standa undir þeim lífskjörum, sem Íslendingar eru orðnir vanir fram á síðustu árin a. m. k. og sambærileg má telja við það, sem þekkist á Norðurlöndum, og við, sem teljum okkur til yngri hluta þjóðarinnar, viljum engan veginn sætta okkur við að þurfa að hætta við. Þess vegna er það ótvírætt, að ég styð að framgangi þessa frv. Ég bind enda við það talsvert miklar vonir, að reynslan eigi eftir að sýna okkur það innan nokkurra ára, að hér séum við e. t. v. að leggja einn af veigameiri steinum í þann grundvöll. sem við byggjum afkomu okkar á, og vil ég gjarnan vera þátttakandi í því að leggja þann stein í grundvöll þjóðlífsins.