12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

198. mál, loðdýrarækt

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Já, hv. 2. þm. Reykn. segist vilja leggja stein í grundvöll þjóðlífsins með því að láta flytja inn á nýjan leik þessi skaðræðisdýr, minkana, sem hér hafa valdið stórkostlegu tjóni. Við þurfum ekki að flytja inn mink, en við þurfum að reyna að útrýma til fulls þessu dýri hér úr landinu. Og ég vil vekja athygli á einu, sem kemur hér fram í umsögn Hins íslenzka náttúrufræðifélags, sem prentuð er með áliti minni hl. allshn. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Erlendir aðilar hafa látið í ljós áhuga á því að gera tilraun til að eyða villimink hér á landi með sýkingu“, en bætir svo við: „Slíkar tilraunir er auðvitað aðeins hægt að framkvæma í landi, þar sem minkabú eru ekki fyrir hendi“.

Ég tel, að það ætti að kynna sér þetta mál nánar og athuga það, ef þess er kostur að fá þessa erlendu aðila til þess að vinna að útrýmingu minksins með sýkingu, og ég vil segja það, að útlendingar hafa oft verið fengnir hingað til lands til verka, sem minni árangur hafa borið heldur en þetta, ef takast mætti að útrýma villiminknum með þeirra aðstoð á þennan hátt.

Það liggja engar viðhlítandi áætlanir fyrir um rekstur loðdýrabúa hér, þótt leyfður verði. Menn eru að tala um það, hvað framleiðslan sé mikil í nágrannalöndunum, og hv. 2. þm. Reykn. var að enda við að lesa upp margar tölur í þessu sambandi. En hann nefndi nú ekki rekstrarafkomu þessara búa, svo að ég tæki eftir. En ég hef hins vegar fengið upplýsingar nokkrar um rekstrarafkomu loðdýrabúa í Noregi. Ég fékk þetta fyrir milligöngu sendiráðs okkar í Osló um áramótin síðustu, og þar með fylgdi bréf til sendiráðsins frá Norges pelsdyravlsslag dags. 27. des. 1968.

Viðvíkjandi rekstrarútkomunni af loðdýraræktinni segir þetta samlag, að meðalbúin muni ekki hafa haft neinn ágóða af rekstrinum tvö síðustu árin, en flestir þeir, sem hafa þetta bara í smáum stíl á heimilum sínum, munu hins vegar hafa fengið nokkurn veginn viðunandi greiðslu fyrir sína vinnu við þetta. Hins vegar þeir, sem hafi ekki haft góðan stofn, muni ekki hafa haft neina möguleika til að fá viðunandi fyrir sína vinnu við þetta loðdýraeldi.

Það er sagt, að það séu nú ekki til opinberar skýrslur um reikningslega afkomu þessa atvinnurekstrar í Noregi. En þeir standa í þeirri meiningu, þeir, sem skrifa bréfið, að útkoman hjá þeim, sem hafa rekið bú með aðkeyptum vinnukrafti, hafi verið negatív tvö síðustu árin.

Það er talið og það er sjálfsagt rétt, að ýmsir, sem hafa haft þennan rekstur, bjargi sér nokkuð með lífdýrasölu. En það er nú ekki endalaust hægt að selja öðrum dýr til að ala. Það var þannig með refaræktina, sem var ærið mikil víða hér á landi fyrir 30–40 árum. A. m. k. var það reynsla í mínu héraði, þar var nokkuð um refabú og meðan menn gátu selt nágrönnum sínum tófur til að ala, þá höfðu þeir sæmilega upp úr þessu. En svo þegar lífdýrasalan var búin, var draumurinn búinn um leið. Þá datt botninn úr þessu öllu. Það var nefnilega ekki hægt að byggja þetta á skinnaframleiðslu og útflutningi refaskinna. Þetta var nú reynslan af þeim atvinnurekstri.

Menn eru að velta vöngum yfir því, hvað sé hægt að gera til þess að auka framleiðslu hér á landi og koma upp atvinnugreinum, sem geti skilað ágóða fyrir þjóðina. Þetta er eðlilegt. En við höfum hér mikla möguleika, sem ekki hafa verið notaðir nema að litlu leyti. Það er talað um það núna og verið að undirbúa það að fullvinna að miklu leyti íslenzkar kindagærur, og ég get nú búizt við því, að þegar svo er komið, verði varanlegri markaður fyrir pelsa úr íslenzkum sauðskinnum heldur en úr minkaskinnum.

Ég vil nefna fleira, sem við ættum að sýna meiri áhuga heldur en minkaræktinni. Það er vitað mál, að æðarvarp hefur verið í afturför hér á landi undanfarið. Útflutningur á æðardún er langtum minni nú í seinni tíð heldur en áður var. Það er einnig ljóst, að það er hægt að stórauka æðarvarpið, ef menn leggja sig fram við það. Það er áreiðanlega víðar hægt en á Mýrum í Dýrafirði að auka æðarvarpið.

Æðarfugl eða minkur. Ég verð að biðja afsökunar á, að ég nefni þetta tvennt í sömu andránni. Ég veit, að það er syndsamlegt, annars vegar þessi dásamlegi fugl og hins vegar þetta óargadýr.

Þá er það líka vitað mál, að það er hægt að stórauka fiskirækt í ám og vötnum. En þarna er minkurinn skaðvaldur eins og á fleiri sviðum. Og það þarf engar áætlanir eða ágizkanir um þetta. Það er alveg öruggt, að þetta hvort tveggja, æðarvarpið og fiskirækt í ám og vötnum, gefur mikinn arð, öruggan arð. Það er alveg fullvíst. En það er engin vissa með minkinn, ekki nokkur. Og meira að segja einn af áhugamönnum um framgang þessa frv., sem var að tala hér í dag, hv. 3. þm. Sunnl., dró í efa — eða hann sagði, að það yrði nú kannske ekki mikill ágóði af þessu fyrir Íslendinga, því að þeir mundu þurfa að fá erlenda menn til þess að annast uppeldi þessara dýra fyrir sig. En það þarf enga útlendinga til þess að auka æðarvarpið hér á landi og ekki heldur fiskirækt í ám og vötnum. Og það getur allt farið í vasa Íslendinga, sem af því kemur.

Auðvitað sleppa minkar hér, ef þeir verða fluttir inn, eins og þeir gerðu í gamla daga og eins og þeir gera í okkar nágrannalöndum. Þeir sleppa og ganga um eyðileggjandi fugla og fiska. Þeir munu tjóni valda, miklu tjóni á fuglalífi og dýrmætum fiskastofni í ám og vötnum. Ég tel það ákaflega misráðið að samþykkja þetta frv. og mun því greiða atkv. með hinni rökst. dagskrá á þskj. 699.