16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

198. mál, loðdýrarækt

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Við atkvgr. við 2. umr. um frv. um loðdýrarækt kom í ljós, að í þessari hv. d. er mjög sterkur meiri hl., sem vill, að frv. verði að lögum. Ég mun því ekki halda áfram almennum umr. um grundvallaratriði málsins hér við 3. umr., en vil aðeins leyfa mér að hreyfa einu atriði í sambandi við 4. gr.frv.

Eftir mjög dýrkeypta reynslu hafa Íslendingar undanfarna áratugi verið afar varkárir í sambandi við allt það, sem leitt gæti til þess, að dýrasjúkdómar berist hingað til lands. Alþ. hefur gengið fram fyrir skjöldu og sett við hvert tækifæri löggjöf, sem hefur borið það með sér, að þingið vill. að í þessum efnum sé gætt allrar þeirrar varúðar, sem hugsanleg er til þess að forðast það, að hingað berist sjúkdómar utanlands frá, sem ástæða er til að ætla, að náttúra Íslands sé mjög veik fyrir vegna einangrunar um aldir. Sem dæmi get ég nefnt l. um innflutning búfjár. Í 1. gr. þeirra standa þessi orð:

„Bannað er að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin og villt“, o. s. frv. Þó segir síðar í gr., að landbrh. geti vikið frá banni þessu, ef þar til greind skilyrði eru uppfyllt.

Í 2. gr. segir: „Landbrh. getur þó því aðeins notað heimild 1. gr. þessara laga, að stjórn Búnaðarfélags Íslands mæli með því og yfirdýralæknir samþykki innflutninginn.“

Nú er 4. gr. í frv. um loðdýrarækt að vissu leyti um sama efni og 1. og 2. gr. l. um innflutning búfjár. En þó er þarna örlítið misræmi, og gengur loðdýraræktarfrv. skemmra heldur en hin eldri lög um innflutning búfjár. Skal ég ekki segja, hvernig dómstólar eða aðrir mundu úrskurða, ef til þeirra kæmi, hvor l. ættu að gilda. Til þess að taka af allan vafa um þetta, höfum við fjórir þm. flutt á þskj. 763 till. um það, að síðasta mgr. 4. gr. verði orðuð þannig: „Innflutningsleyfi fyrir loðdýrum má aðeins veita að fengnu samþykki yfirdýralæknis.“

Ef þessi till. yrði samþykkt, kæmist á samræmi við 1. um innflutning búfjár, og þá hygg ég, að þessi hv. þd. hefði gert það í verki, sem fram kom í ræðum flestra þeirra, sem töluðu fyrir þessu frv., að þeir væru opnir fyrir hvers konar ráðstöfunum, sem gera þyrfti til þess, að ekki hlytist neinn skaði af loðdýrarækt, ef til hennar kemur, og þeir vildu mjög gjarnan stuðla að hvers konar ráðstöfunum, sem gætu leitt til þess, að sem tryggilegast væri um þessa hnúta búið. Ég vil því vænta þess, að hinn sterki og óvænti meiri hl., sem vill afgreiða þetta mál, vilji ganga til móts við minni hl. um það eitt, að þarna verði samræmi og í þessum 1. verði ekki slakað á ákvæðum í sambandi við hugsanlega sýkingarhættu, heldur verði þau höfð eins og þau eru í hinum eldri l. um innflutning búfjár. Það er sérstök ástæða til þess að slaka ekki á þessu atriði vegna þess, að það er upplýst, að í minkastofni ýmissa nágrannalanda okkar er nú fyrir hendi sýkingarhætta og það er hætta, sem ég tel, að við verðum að reyna að forðast, hvað sem á dynur, að berist hingað til lands okkur til mikils tjóns. Ég vil því fara fram á það við hv. d., að hún taki vel þessari litlu brtt. og samþykki hana.