18.12.1968
Efri deild: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur fengið afgreiðslu í Nd. óbreytt, enda þótt brtt. hafi komið fram frá hv. minni hl. landbn., en minni hl. lagði til, að það væri skýrt ákveðið, að gengishagnaði af útfluttum landbúnaðarvörum verði ráðstafað til útflutningsuppbóta, að því marki, að bændur fengju fullt grundvallarverð. Þannig var gengishagnaðinum varið frá síðasta ári. Hann fór til útflutningsuppbóta. Enn hefur ekkert verið ákveðið, hvort svo skuli gert í þetta sinn. Og ef ég ætti að svara því í dag, hvaða tillögu ég mundi gera í þessu efni, þá liggur það ekki fyrir. Hitt er svo ekki nokkrum vafa bundið, að þessum gengishagnaði verður ráðstafað til hagsbóta fyrir landbúnaðinn og að með þessum frumvarpsflutningi er verið að gera ráðstafanir til þess, að landbúnaðurinn geti fengið þetta fé, sem áætlað er að geti numið að þessu sinni 150 milljónum eða kannske meira, en við síðustu gengisbreytingu nam þessi hagnaður 45 millj.

Ég tel eðlilegt að keppa að því, að þetta frv. verði að lögum nú fyrir jólin, til þess að það sé tilbúin löggjöf jafnvel fyrir jól. Framleiðsluráð landbúnaðarins sendi landbn. Nd. bréf, þar sem lagt var til, að gengishagnaðinum yrði ráðstafað að fengnum tillögum framleiðsluráðsins. En við 1. umr. málsins í Nd. hafði ég tekið það fram, — að ég mundi ræða við stjórn Stéttarsambands bænda og Framleiðsluráð um þetta mál. Það mun hafa verið þess vegna, sem ekki þótti taka því að flytja brtt. við frv., því að þótt þetta hefði verið tekið inn að ósk Framleiðsluráðs, var það ekkert bindandi um ráðstöfun fjárins, heldur aðeins ábending. Nú er það vitað, að bæði Framleiðsluráð og stjórn Stéttarsambands bænda hefur alltaf tækifæri til þess að koma tillögum sínum á framfæri og þess vegna engin þörf á því að taka það í lög. En það verður svo ríkisstjórnarinnar að ákveða endanlega um það, að nákvæmlega athuguðu máli, hvernig þessu verður varið, og mun ég á sínum tíma gera tillögur um það í ríkisstj. Þetta eru allmiklir peningar, sem munu koma landbúnaðinum að góðu gagni. Enginn er út af fyrir sig hrifinn af gengisbreytingu. En gengisbreytingin að þessu sinni mun gera útflutning landbúnaðarvara mun auðveldari en áður. Þannig er það nú, að það mun fást allt að 80% af verðmæti sauðfjárafurða á erlendum markaði, miðað við innanlandsverð, en var fyrir gengisbreytinguna innan við 50%. Þó er það enn svo, að ullin er í mjög lágu verði, og ef ullin kæmist aftur í normalverð, gæti það orðið allt að 85% af innanlandsverðinu, sem fengist fyrir útfluttar sauðfjárafurðir. Þetta hlýtur að gefa vonir um það, að sauðfjárframleiðslan, út af fyrir sig, eigi miklu betri og meiri möguleika en var fyrir gengisbreytinguna og að það verða minni vandræði að koma sauðfjárafurðunum í fullt verð en annars hefði orðið. Aftur á móti er það enn svo með mjólkurafurðir, að það er innan við 50%, sem fæst fyrir mjólkurafurðirnar á útlendum markaði miðað við innanlandsverð, og er þess vegna enn mjög óhagstætt að flytja út mjólkurafurðir. En það er víst ekki ástæða til þess að kvíða því nú í bili a.m.k., að við þurfum að flytja út mikið af mjólkurafurðum, miðað við mjólkurframleiðsluna eins og hún er í dag, því að í haust höfum við orðið að flytja mjólk norðan úr landi, og smjörframleiðsla er sem sagt engin í haust, og þess vegna er það, að það er ekki hægt um sinn að tala um offramleiðslu á mjólk. Það hefur hins vegar hvarflað að mér, að einmitt nú geti verið komið að því, að það verði út af fyrir sig miklum vandkvæðum bundið að tryggja þéttbýlinu nægilega neyzlumjólk. En það er mál út af fyrir sig og ekki ástæða til þess að ræða sérstaklega í sambandi við þetta frv.

Ég vil, herra forseti, vegna þess hvernig á stendur, ekki lengja þessar umræður, en legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.