14.05.1969
Sameinað þing: 51. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

Almennar stjórnmálaumræður

Steingrímur Pálsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þeim mönnum fækkar nú óðum, sem treysta sér til að verja stefnu viðreisnarstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Það hefur sannazt betur og betur dag frá degi, að svokölluð viðreisnarstefna er alröng og samrýmist engan veginn íslenzkum hagsmunum. Þeir hafa haft að leiðarljósi þá stefnu að efla frjálst framtak, frjálsa verzlun og stóriðju hér á landi, en jafnframt látið reka á reiðanum höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveg, landbúnað og iðnað. Hinum dýrmæta gjaldeyri, sem þjóðin aflaði á góðu árunum, hefur verið sóað í frjálsa verzlun og óarðbæra fjárfestingu. Við Íslendingar megum alltaf búast við sveiflum, bæði í aflamagni og breyttu verði á útflutningsvörum þjóðarinnar, sem valda erfiðleikum um stundar sakir. En þá ríður á því að mæta þeim vanda með breyttri stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, en þetta hefur ekki verið gert. Núv. ríkisstj. hefur aðeins séð eitt úrræði til að leysa vandann. Hún hefur boðað gengislækkun og aftur gengislækkun, og síðan þessi ríkisstj. kom til valda, hafa verið fjórar gengislækkanir og tvær þær síðustu á einu ári.

Stutt er liðið síðan alþm. fengu í fyrsta skipti í hendur svokallaða Vestfjarðaáætlun, en þetta er aðeins greinargerð um ákveðna þætti hennar, sem búið er að framkvæma í flugvallar-, vega- og hafnarmálum á síðustu árum. Með þessa Vestfjarðaáætlun hefur verið farið eins og leyniplagg af hálfu ríkisstj. og stjórnarþm. Sjálfsagt hefði verið að vinna allt öðruvísi að þessu máli. Það hefði í upphafi átt að gefa sveitarstjórnum, sýslunefndum og öðrum heimamönnum tækifæri til að fjalla um málið, en þetta var því miður ekki gert.

Það er kunnugt, að nú er hafinn undirbúningur að þeim þætti Vestfjarðaáætlunar, sem fjalla á um uppbyggingu atvinnulífsins á Vestfjörðum, og miklar vonir eru bundnar við þennan þátt. Það liggur í augum uppi, að nauðsynlegt er, að haft verði fyllsta samráð við heimamenn, ef þessi þáttur á að ná tilgangi sínum. Því miður hafa heil byggðarlög á Vestfjörðum ekki komizt inn í þessa Vestfjarðaáætlun, eins og t. d. hluti af Norður-Ísafjarðarsýslu, Austur-Barðastrandarsýsla og Strandasýsla. Þó standa vonir til, að Strandasýsla verði tekin inn í svokallaða Norðurlandsáætlun, en sú áætlun mun sennilega verða tilbúin á þessu ári.

Því ber ekki að neita, að allmikið hefur verið gert á Vestfjörðum í vegamálum, flugmálum og hafnarmálum, en hinu ber ekki að gleyma, að einmitt úrræði ríkisstj. í efnahagsmálum þjóðarinnar, hinar sífelldu gengislækkanir, hafa stórrýrt þessar framkvæmdir, og gengistöpin eru nú að sliga sum sveitarfélögin. Víða á Vestfjörðum hefur verið unnið að dýrum hafnarframkvæmdum á undanförnum árum og fjár til þeirra aflað með erlendum lántökum. Þegar áætlanir voru gerðar um rekstur hafnanna, þar með taldar greiðslur af teknum lánum, var ljóst, að tekjur hafnanna gátu ekki staðið undir því næstu árin, þar til greiðslubyrðin minnkaði. Hins vegar var ráð fyrir því gert, að sveitarstjórnir legðu árlega til ákveðinn hluta tekna sinna til þess að standa undir þessum greiðslum. Þá var boginn það hátt spenntur, að aðrar framkvæmdir urðu samkv. áætlun að bíða. Nú hefur hins vegar skapazt það ástand vegna endurtekinna gengisfellinga, að sveitarfélögin eru með öllu vanmegna að standa við gerðar skuldbindingar. Gengistöpin á þessum framkvæmdum vegna erlendu lánanna hlaupa á millj. kr. Til skýringar á því, hve gífurlegt vandamál er hér við að etja, má geta þess, að töpin ein, þótt aukin vaxtabyrði sé ekki reiknuð með, nema alls staðar meira en tvöföldum álögðum ársútsvörum, eins og þau hafa verið undanfarin ár, en þau hafa verið sem næst 2 millj. kr. á hverjum stað. Auknar vaxtagreiðslur verða á hverjum stað um 400–500 þús. kr. Hin erlendu lán voru að hluta tekin vegna þess, að ríkissjóður hafði ekki greitt sinn hluta kostnaðarins, enda ekki veitt fé til þess á fjárlögum. Hins vegar var nauðsynlegt að ljúka hverjum áfanga sem heild, en ekki staldra þar við, sem áætlað fé ríkissjóðs dugði móti framlagi hafnarsjóða. Það er augljóst, að ríkissjóði ber að standa að sínum hluta undir þeim kostnaði, sem þannig hefur orðið til. Þetta er aðeins dæmi um það, hve grátt aðgerðir ríkisstj. geta leikið sjávarþorp á Vestfjörðum.

Mikið hefur verið talað um, að við Íslendingar ættum að nýta betur okkar sjávarafla og að tími sé kominn til að hætta að tala um tonnatölu aflans, heldur um verðmæti hvers tonns og við ættum að auka til muna fjölbreytni í framleiðsluháttum og auka vöruvöndun samfara fullnýtingu sjávaraflans. Því miður hefur þetta nauðsynjamál lítið þokazt í rétta átt. Þó að margvíslegar till. komi frá heimamönnum um ýmsar hugmyndir um fullnýtingu aflans, t. d. með niðursuðu eða niðurlagningu, þá hafa fæstar þessara till. fengið hljómgrunn hjá þeim, sem mestu ráða í þessum efnum. Allir gera sér þó grein fyrir þeirri staðreynd, að við getum margfaldað verðmæti sjávaraflans í erlendum gjaldeyri með því að fullnýta okkar góða hráefni. Það er skoðun okkar Alþb.-manna, að stefna eigi að því að smíða svo til öll fiskiskip landsmanna í innlendum skipasmíðastöðvum. Við höfum á undanförnum árum látið smíða skip okkar og báta í erlendum skipasmíðastöðvum, þó að við eigum sjálfir skipasmíðastöðvar og ágæta skipasmíði, sem þekkja íslenzkar aðstæður betur en útlendingar.

Allir vita, að ótryggt gengi er einkenni á sjúku efnahagslífi þjóðar. En stjórnarflokkarnir hafa alltaf reynt að beita þeim áróðri, að gengislækkun væri allra meina bót. Boðskapur þeirra í nóv. 1967 var á þessa leið: Með gengislækkuninni er lagður grundvöllur að nýju framfaraskeiði atvinnuveganna og til að hleypa nýju lífi fyrst og fremst í sjávarútveg og iðnað, og mun hún bera árangur í aukinni atvinnu og verndun heilbrigðs og frjáls vöruframboðs. Allir vita, að gengislækkunin árið 1967 rann út í sandinn. Á árinu 1968 ríkti stjórnleysi á flestum sviðum í atvinnumálum þjóðarinnar, gífurlegt atvinnuleysi var um allt land, og í nóv. 1968 fengum við nýja gengislækkun, þegar gengið var lækkað um 54.4% miðað við dollarann. Talið er, að þessi síðasta gengislækkun hafi þýtt um 18–20% kjaraskerðingu fyrir launafólkið í landinu, og enn þá hafa sérfræðingar stjórnarflokkanna í efnahagsmálum ekki getað reiknað út, hvernig hinn almenni launþegi eigi að geta lifað á launum sínum.

Vinnustéttirnar hafa sýnt mikið langlundargeð. Aðalkröfur þeirra eru, að tafarlaust verði gengið til samninga án kauplækkunar og ráðstafanir verði gerðar til að útrýma atvinnuleysi, að innlendur iðnaður verði efldur, að fjár verði aflað til íbúðabygginga með viðráðanlegum kjörum og komið á réttlátri skattheimtu og tekin verði upp heildarstjórn á fjárfestingu landsmanna. — Góða nótt.