14.05.1969
Sameinað þing: 51. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (2134)

Almennar stjórnmálaumræður

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Fáum dylst, að ástandið í þjóðmálum er nú hið alvarlegasta, sem um áratugi hefur skapazt. Öllum eru ljós vandræðin, en menn greinir nokkuð á um orsakir þeirra. Eitt er víst, að ekki þýðir að víkja sér frá vandanum, heldur verður að gera sér ljósa grein fyrir því, hvernig ástandið er, hverjar séu orsakirnar og síðast en ekki sízt, á hvern hátt á að bæta úr því. Sjúklingur á ekki mikla von um lækningu, ef hann viðurkennir ekki sjúkdóm sinn eða greinir lækninum rangt frá einkennum hans og hefur ekki sjálfur trú á bata. Líkt slíkum sjúklingi er stjórnarliðinu farið meðan þeir telja sér sjálfum trú um og reyna að segja öðrum það, að allt þetta stafi af utanaðkomandi ástæðum, aflabresti og verðfalli. Væri svo, þá væri lítil von um bata, því að nú er nálægt meðalári með aflabrögð, ef á heildina er litið. Nei, við eigum hvorki að leggja árar í bát né hengja kænu okkar aftan í hafskip stórveldanna eða erlends auðmagns. Við tökum upp barninginn, við þurfum aðeins nýjan skipstjóra og nýja stýrimenn á þjóðarskútuna, en það er frumskilyrðið til endurreisnar og framfara. Hér þurfa að koma nýir menn til forystu með nýjar aðferðir. Skipulagshyggja, félagshyggja og samvinnustefna á öllum sviðum og í mörgum myndum þarf að taka við af stjórnleysinu. Við þurfum að setja okkur ákveðin takmörk og stefna að þeim eftir vandlega gerðum áætlunum. Við þurfum e. t. v. að leggja hart að okkur til að tryggja sjálfstæði okkar með sjálfstæðum íslenzkum atvinnurekstri, en þannig öðlumst við bjartsýni og losnum við bölmóðinn, sem nú ríður hér húsum.

Svipaða sögu er að segja af ástandinu í öllum aðalatvinnuvegunum. Geigvænleg fjárþröng háir þeim, og hallarekstur er þar hvarvetna á ferðinni. Ég rek hér nokkur atriði varðandi landbúnaðinn.

Kjör bænda eru slæm og tekjur þeirra lægri en annarra stétta, líklega lengra frá því að ná tekjum viðmiðunarstéttanna en nokkru sinni áður. Þetta sýna skattskýrslurnar, og á það hefur oft verið bent. Sama kemur í ljós við uppgjör búreikninga. Fyrir 1967 var gerður upp 61 búreikningur. Búin voru heldur stærri en verðlagsgrundvallarbú. Þau gáfu af sér 123900 kr. að meðaltali. Það var allt, sem fékkst fyrir vinnu allrar fjölskyldunnar og í vexti af eigin fé um 1 millj. kr. Reiknað á hverja vinnustund var kaupið 27.40 kr. Hverjir vildu vinna fyrir þetta tímakaup eða lifa af þessum tekjum? Það eru víst fáir, enda engum boðið nema bændum. Stærri búin gefa ekki betri afkomu, ef reiknað er með vöxtum af bundnu fjármagni. Stafar þetta af því, að þeir bændur hafa að jafnaði staðið í meiri framkvæmdum og verðlagið hefur ekki fylgt framkvæmdakostnaðinum að undanförnu. Þessi útkoma stafar ekki af illu árferði nema að hluta til, því að fjöldi þessara búa er í héruðum hér sunnanlands, þar sem árferði var fremur hagstætt 1967. Athuganir harðærisnefndar sýndu, að skuldaaukningin hefur verið geigvænleg hjá bændum að undanförnu, um 600 millj. á 6 árum, og ekki síður mikil í héruðum, sem hafa sloppið við harðindin.

Verðlagskerfi landbúnaðarins er í algeru öngþveiti, og ekki liggur við, að grundvallarverð náist í ár fyrir vörurnar í heild, og var það þó ekki of hátt reiknað. Stafar þetta fyrst og fremst af því, hve allur tilkostnaður hefur hækkað taumlaust í óðaverðbólgu stjórnleysisins. Sala á kjöti innanlands hefur stórminnkað vegna lítillar kaupgetu almennings, og sýnir það m. a., að saman fara hagsmunir bænda og alls almennings í landinu, neytendanna. Útflutningsbætur hrökkva því hvergi nærri til, en ríkið telur sér ekki skylt að hlaupa frekar undir bagga, þó að svo sé gert, þegar aðrir atvinnuvegir eiga í hlut. Búið er að svelta bændur og samvinnufélög þeirra svo rækilega með tilliti til rekstrarfjármagns á þessu stjórnartímabili, að engu er líkara en að ganga eigi af félögunum dauðum og bændum eignalausum. Rekstrarlánin, sem veitt eru á tímabilinu marz-ágúst hafa verið óbreytt að krónutölu í 10 ár eða síðan 1959. Þá voru þau 245 kr. á dilk, sem þá gerði 361 kr., eða 67.8% af nettóverði til bóndans. Nú nema lánin 169 kr. á dilk, en innleggsverðmæti dilkanna er um 1300 kr. að meðaltali, og nema því lánin aðeins 15% af verðmæti dilksins. Með þessu fjármagni eiga sauðfjárbændur að leysa út áburðinn, sem nú hækkar um 35% eða 110 millj. alls. Greiðsluskilmálar verða þeir sömu í ár og í fyrra, þrátt fyrir góð loforð landbrh. um, að þeir yrðu nú betri. Við það var ekki staðið frekar en ýmislegt annað. Enn hefur verið daufheyrzt við skynsamlegum till. bændasamtakanna um niðurgreiðslu á áburði. Það væri þó tvímælalaust þjóðhagslega rétt að gera. Það kæmi neytendum til góða í lækkuðu vöruverði og þjóðinni allri með gjaldeyrissparnaði vegna meiri ræktunar og heimafengins fóðurs. Endurtaka á þau fádæmi frá í fyrra að taka erlendan víxil til að reka innlenda verzlun með áburðinn. Þá var tekinn 90 millj. kr. víxill til 9 mánaða erlendis. Ekki fékkst að greiða víxilinn, þegar gengisfellingin vofði yfir, þó að áburður væri þá allur greiddur, og átti síðan að velta gengistapinu, 49 millj., yfir á bændur næstu 5 árin. Vafasamt er, hvort það hefði staðizt gagnvart lögum, enda var heykzt á því í bili vegna almennrar andstöðu bænda og hótana um málsókn.

Þetta er aðeins eitt dæmið af mörgum um það, hvernig komið er. Hér þarf að taka upp nýja stefnu í landbúnaðarmálum eins og öðrum þjóðmálum, taka upp skipulagshyggju í stað skipulagsleysis og glundroða. Stefna verður markvisst og með öllum ráðum að lækkun framleiðslukostnaðarins með hagræðingu í framleiðsluháttum, meiri rannsóknum, betri nýtingu framleiðslumöguleikanna, betri nýtingu markaðanna og öflun nýrra markaða. Landbúnaðurinn þarf að komast út úr úlfakreppu þröngra markaða. Annars verður hér um kyrrstöðu að ræða og hlutfallslega afturför. Í fáti, sem líkist helzt atferli manna á sökkvandi skipi, láta stjórnarherrarnir nú leita að nýjum atvinnugreinum. Þeir virðast trúlausir á gömlu atvinnuvegina. Ekkert kemst að nema hugarórar um stóriðju með erlendu fjármagni. Þó að rétt sé að athuga þar alla möguleika, þarf það að gerast með allri gát og fullri yfirvegun, sem tæpast er fyrir hendi hjá slíkum skipbrotsmönnum, sem hæstv. ríkisstj. nú er orðin. Allir hugsandi menn sjá, að iðnaður verður að stórvaxa hér á næstu árum og áratugum, bæði til að veita fólki atvinnu og þjóðinni gjaldeyri. En ekki verður um að ræða iðnað eða landbúnað og sjávarafla, heldur iðnað og sjávarútveg og landbúnað. Traustasti grundvöllur íslenzks iðnaðar er og verður hráefni það, sem þessir frumatvinnuvegir leggja til, enda er aldrei svo rætt um iðnþróun hér af skynbærum mönnum, að ekki sé staðnæmzt við iðnað úr sauðfjárafurðunum, ull og gærum. Vábrestur var það talinn í vetur, þegar verksmiðjurnar á Akureyri brunnu. Komu menn þá auga á það, hverju þær skiptu, ekki bara fyrir fólkið, sem vann þar, heldur og bæjarfélagið og þjóðfélagið í heild. Jafnvel kaupmennirnir hérna í Reykjavík börmuðu sér blessaðir, yfir tíðindunum. Ég minnist þess ekki, að bændum hafi, hvorki fyrr né síðar, verið þakkað fyrir að leggja til hráefnið eða byggja verksmiðjurnar með samtakamætti sínum og reka þær, þó að oft blési hart á móti og margir einstaklingar gæfust upp við slíkan rekstur.

Iðnaðinn þarf að skipuleggja vel. Við þurfum e. t. v. að leggja hart að okkur við að koma honum upp og vinna honum markaði. En gera verður honum kleift að borga bændum mannsæmandi verð fyrir hráefnið. Ætli margir viti, að bændur fá 20–30 kr. fyrir kg af ullinni, sem selt er á 3–4 þús. kr. vestur í Ameríku, þegar það er komið í handprjónaða lopapeysu. En af því hafa margar húsmæður haft búdrýgindi á erfiðum vetri að prjóna slíkar peysur. Við uppbyggingu iðnaðar þarf að fylgja raunsærri byggðastefnu eftir vandlegri skipulagningu. Það á að velja hverri verksmiðju stað þannig, að stefnt sé að því, að öll gögn og gæði landsins nýtist sem bezt og öllum þegnum þannig séð fyrir sem jafnastri þjónustu á vegum samfélagsins. Annað er áníðsla þjóðfélagsins á þeim, sem standa útvörð á mikilvægum varðstöðum og leggja oft margfaldan meðalskerf í þjóðarbúið. Fráleitt er að telja það eftir og reikna það eftir höfðatölu, hvað það kostar að koma vegum, rafmagni, veita heilbrigðisþjónustu, koma útvarpi og sjónvarpi og síðast en ekki sízt skapa jafna aðstöðu til menntunar fyrir fólkið í dreifbýlinu. Jöfn og góð menntun þegnanna hefur verið talin aðall íslenzks þjóðfélags. En hvað er að gerast nú? Af 2100 menntaskólanemum eru 1700 úr Stór-Reykjavík og Akureyri, þar sem þeir geta gengið að heiman í skólana, en aðeins um 400 utan þessara staða, en ættu að vera um 1600 með sama hlutfalli. Nær fjórum sinnum fleiri stunda menntaskólanám frá þessum þéttbýlisstöðum en utan þeirra hlutfallslega séð. Þetta er mynd frá einu stigi skólakerfisins. Önnur skólastig eru ekki síður mikilvæg, og þar mun svipað ástand í þessum málum.

Hvað gerist nú, þegar þúsundir skólafólks fá ekki sumaratvinnu? Á það að ganga iðjulaust í sumar og næstu sumur? Á menntun aftur að verða forréttindi fárra og ríkra? Þá hugsun er vart hægt að hugsa til enda. Eiga ekki allir unglingar, hvar sem foreldrar þeirra búa og hvernig sem þeir standa fjárhagslega, að hafa sama rétt til menntunar, hver eftir því sem hann hefur hæfileika til? Menntun ungmennanna er fyrir þjóðfélagið. Það hefur ekki efni á öðru en að nýta alla hæfileika þegna sinna. Hér þarf að vera valinn maður í hverju rúmi og hver þegn að vera reiðubúinn að gera ekki aðeins skyldu sína, heldur meira en það, þegar þörf krefur. Þjóðin þarf nýja forystu til að samstilla átök sín til framsóknar og batnandi hags. Stjórnin hefur á margan hátt unnið sér til óhelgi; þess vegna á hún að fara frá. — Góða nótt.