16.05.1969
Sameinað þing: 52. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

Almennar stjórnmálaumræður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ástandinu í málefnum landsins var rækilega lýst af stjórnarandstæðingum í fyrrakvöld, svo að óþarfi er að eyða nú fáum, dýrmætum mínútum til að endurtaka þær lýsingar.

Mörgum finnst þeir vera nálega ringlaðir eða að veruleikinn sé vondur draumur, og er mönnum það nokkur vorkunn, því að ríkisstj. lofaði við kosningarnar síðustu verðstöðvun og blómlegu ástandi áfram. Sór þetta og sárt við lagði, þótt hún vissi vel, hvað í vændum var.

Hún eyddi úr þjóðarbúinu öllu, sem losað varð fram að kosningunum, til þess að leyna því, hvernig komið var og tók tröllaukin lán erlendis til þess að breiða yfir sannleikann um gjaldþrot stjórnarstefnunnar, þangað til atkvæðin væru komin í kassana.

Það vita allir núna, að stjórnin skreið með brögðum yfir kosningarnar, og því verður ekki gleymt. Það heyrir maður alls staðar, og sumir spyrja: Þarf ástandið að vera svona? Því má óhikað svara: Áreiðanlega ekki. Og í því efni er reynslan ólygnust.

Núv. stjórn tók við fyrir 10 árum. Þá var góður þorskafli, eins og nú, en síld hafði þá brugðizt í nálega 10 ár í staðinn fyrir 2 nú, og verðlag í utanríkisviðskiptum hefur verið betra nú en þá, þessi síðustu 10 ár.

Fyrir 10 árum var atvinnuleysi ekki vandamál á Íslandi, vinnuafl vantaði og sótt var í önnur lönd á vertíðum. Skólafólk átti sumarvinnu vísa, og þar með voru námsbrautir opnar öllum dugandi unglingum. Nú var stórfellt atvinnuleysi á miðri topp-vertíð, og geigvænlegt ástand blasir við í næstu framtíð, enda hefur ríkisstj. haft uppi hreina vafninga og kák eitt í stað þess að hefja harða sókn gegn atvinnuleysinu. Skólanemendur horfa í stórhópum fram á atvinnuleysi, en stjórnin hefur ekkert gert til að ráða fram úr þeim málum, og sýnir það hin nýju viðhorf, að menn bollaleggja um vinnuútvegun erlendis fyrir íslenzkt námsfólk og stjórnin er að gera ráðstafanir til þess, að skólafólk geti fengið atvinnuleysisstyrk yfir hásumarið. Á hinn bóginn telur stjórnin ekki verkefni vera til á Íslandi fyrir æskufólkið og betra að borga því og öðru vinnandi fólki atvinnuleysisstyrki en að opna möguleika til þess, að menn geti lagt í þjóðarbúið þarflega vinnu sér til framfæris.

Fyrir 10 árum var kaupmáttur algengustu launa meiri en hann er í dag, og hefur hann því farið lækkandi. Þetta er árangur af 10 ára kauplækkunarstyrjöld núv. ríkisstj., sem háð hefur verið á mörgum vígstöðvum sem liður í úreltri efnahagsmálastefnu, og heitir sá þáttur hennar að minnka kaupgetuna. Sumpart hafa verið háðar kjaraorrustur beint og sumpart sú aðferð notuð að moka álögum á algengustu neyzluvörur, jafnvel innlendar vörur eins og fisk og kjöt í fyrsta skipti í sögu landsins, og sumar brýnustu nauðsynjar heimilanna hafa hækkað um 600–800%. Ein orrustan í þessu stríði hefur staðið í allan vetur, fyrst við sjómenn og síðan við landverkafólk, og grefur sú undan framleiðslunni og afkomu þjóðarinnar, en tilgangurinn er að lækka launin enn meira en áður var búið.

Fyrir þessu stendur ríkisstj. og enginn nema hún, því að hún steig á háls atvinnurekendum í vetur og bannaði þeim að greiða vísitöluuppbót, jafnvel á lægstu laun, og kallaði skemmdarstarf, ef út af væri brugðið. Ráð íslenzkra atvinnurekenda hefur stjórnin á hinn bóginn alveg í hendi sér og stjórnar því öllu þessu. Þetta er nauðsynlegt, að allir skilji og þá um leið, að viðhorfin í kjaramálum breytast ekki, nema stjórnin fari frá. En samanburður á kaupmætti launa nú og fyrir 10 árum og aðrar aðstæður sýnir glöggt, að kaupmáttur þarf ekki að vera svona, ef skynsamlega er stjórnað og af ráðdeild.

Fyrir 10 árum var afkoma atvinnufyrirtækja yfirleitt betri en nú, rekstrarfé ríflegra úr bankakerfinu, vextir lægri og margir sérskattar, sem nú ganga nærri atvinnuvegunum, voru óþekktir þá. Íslenzk fyrirtæki sátu þá fyrir viðskiptum og vinnu í þágu þjóðarinnar, og iðnaður Íslendinga var vaxandi í mörgum greinum, enda næg atvinna. En menn vita, hvernig nú er ástatt. Ekki vegna lakari ytri skilyrða, því að viðskiptakjör eru betri en fyrir 10 árum, ekki heldur vegna aflabrests, því að afli hefur yfirleitt verið með betra móti, heldur vegna þess að stjórnarstefna þessara 10 ára, ef stefnu skyldi kalla, hefur verkað eins og eitur á íslenzkt atvinnulíf, eins og sýnt var fram á í upphafi og æ síðan með óyggjandi rökum.

Ofboðsleg uppgrip af síld gerðu ríkisstj. léttara að leyna því, sem var að gerast. Nú verður engu lengur leynt, og allt blasir við í fullri nekt. En kannske er ekki til ömurlegri vottur um það, hvernig búið er að leika atvinnulíf Íslendinga, en það, að árum saman hafa ekki fundizt ráð til þess að eignast einn einasta nýtízku togara. Er það þó aðeins eitt dæmi af mýmörgum, sem nefna mætti um vanrækslu í uppbyggingu atvinnuveganna af hendi ríkisstjórnarinnar, enda lýsti forsrh. því í fyrrakvöld, að það væri ekki í verkahring ríkisstj. að gangast fyrir kaupum á togurum. Ekki er von, að vel hafi farið.

Fyrir 10 árum var afkoma þjóðarinnar út á við ósambærilega betri en hún er nú orðin, því að þjóðin er sokkin í skuldir, og það, sem er ömurlegast, er, að sá hugsunarháttur er rótgróinn hjá stjórninni, að ekkert sé lengur hægt að gera, nema með erlendu lánsfé, annað en það, sem útlendingar verði þá hreinlega að setja á fót sjálfir á Íslandi og reka sjálfir hér. Þetta er ein afleiðing þeirrar speki, að hægt sé að hafa jafnvægi í þjóðarbúskap Íslendinga með því einu að draga úr lánsfé í umferð og halda niðri kaupgetunni.

Fyrir 10 árum var sparifé landsmanna haft í umferð hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum og Seðlabankinn lagði veltufé að auki í bankakerfið. En nú hefur þessu verið snúið við og Seðlabankinn notaður til þess að draga sparifé úr umferð, og framleiðslulán þaðan hafa verið minnkuð, og þannig hefur þetta gengið í 10 ár. Þetta átti að tryggja, að þjóðarbúskapurinn þyldi verzlunarfrelsi og fjárfestingarfrelsi. Afleiðingin hefur orðið rekstrarfjárskorturinn, lömun fyrirtækjanna, botnlaus skuldasöfnun erlendis á vegum einstaklinga og ríkis og nú loks sá hugsunarháttur ríkisstj., að erlend lán þurfi til alls, því að hér séu ekki peningar til þess að koma af stað vinnu og nýrri framleiðslu. Þess vegna m. a. verði menn að þola bölvun atvinnuleysisins. Af þessu sprettur líka sá hugsunarháttur þeirra, að þjóðin hafi frekar ráð á að borga atvinnuleysisstyrki en að greiða kaup fyrir nytsamleg störf.

Ný og djarfari lánastefna í átt til þess, sem áður var, er algjör forsenda þess, að þjóðin nái sér upp. En þeirri lánastefnu þarf að fylgja stjórn í stað stjórnleysis. Það er ekki sama, í hvað peningunum er varið, sem í umferð eru settir. Forystu þarf í atvinnumálum, og fjárfestingarstjórn og gjaldeyrisstjórn verður að standa á bak við þá stefnu í lána- og peningamálum, sem þarf að taka upp, ef komast á upp úr feninu.

Fyrir 10 árum var íslenzka krónan ólíkt verðmeiri en hún er nú og hag sparifjáreigenda betur borgið, þótt vextir væru lægri. Og þótt áður væri nokkur dýrtíðarvöxtur og verðbólga, þá finnst mörgum með réttu, að þeir hafi aldrei kynnzt dýrtíð fyrr en nú. Og óðaverðbólgu hafa Íslendingar aldrei þekkt fyrr en á valdatímabili þessarar ríkisstj., sem lofaði þjóðinni því að stöðva verðbólguna og sem meira að segja fékk umboð sitt endurnýjað fyrir 2 árum með því að heita þjóðinni verðstöðvun, þótt hún vissi, að gengishrun væri framundan og þar með óðadýrtíð og kreppuástand og ekki einu sinni met-síldatmokstur áfram mundi geta breytt því, að svo færi.

Fyrir 10 árum trúðu menn á landið, treystu því og gæðum þess og töldu sig hafa ástæðu til þess. Íslendingar áttu þá öll sín fyrirtæki sjálfir, og atvinnulíf var í vexti og uppbyggingu. Það hvarflaði ekki að neinum, svo að upp væri látið, að ekki mætti gera ráð fyrir, að íslenzkt framtak mundi reynast þess megnugt að sjá þjóðinni borgið framvegis. En nú 10 árum síðar hefur ríkisstj. með ráðleysi sínu samfara látlausum úrtölum og þindarlausum áróðri um erfið skilyrði á Íslandi sér til afsökunar og með lævíslegum fortölum um vandkvæði á því, að Íslendingar geti sjálfir byggt upp þjóðarbúskap sinn, eins og áður var gert, dregið kjark úr ýmsum og skapað óhug með þjóðinni, sem magnast við atvinnuleysi og kreppu, sem er einsdæmi meðal hliðstæðra þjóða.

Hér er heldur ekki látið sitja við orðin ein, því að í framkvæmd er sumpart fylgt og sumpart í undirbúningi að fylgja fram þeirri stefnu, að erlendir aðilar taki í sívaxandi mæli að sér atvinnureksturinn hér, en Íslendingar verði þjónar. Útlendingum standa til boða fríðindi fyrir atvinnurekstur í landinu umfram landsmenn sjálfa, og allt er þetta angi af þeirri trú, sem lifað er eftir, að Íslendinga vanti peninga til að koma upp eigin rekstri og nota framtak sitt og vinnuþrek og því verði að leita til hinna, sem hafi peningana. Af þessu leiðir, að útlendingar sitja fyrir verkum, sem íslenzk fyrirtæki geta unnið.

Það er óðfluga verið að undirbúa enn frekari útfærslu þessarar stefnu með ótímabærum viðræðum og áætlunum um þátttöku í efnahagsbandalögum, og það er þetta, sem stendur eins og veggur fyrir því t. d., að atvinnuleysinu sé útrýmt með því að efla heimaiðnaðinn og notfæra sér afköst hans, sem gætu verið miklu meiri en þau eru nú, ef skynsamlega væri að farið. Og það er þetta, sem veldur því, að iðnaðurinn er lamaður með innflutningspólitík ríkisstj. og með því að láta útlendinga taka hér verk af innlendum aðilum.

Í stað þess að snúa sér að því að efla íslenzka atvinnulífið og búa því viðunandi skilyrði varðandi rekstrarfé, vexti, álögur, stuðning við uppbyggingu, verkefni o. s. frv., eitthvað sambærileg skilyrði því, sem annars staðar þekkist, þá er sífellt þrengt að því íslenzka og það erlenda látið flæða yfir, þar sem hið íslenzka liggur í valnum.

Því er afstaða okkar í Framsfl. þessi: Ný atvinnumálastefna í framkvæmd sem fyrst, þar næst allsherjarmat á stöðu Íslands og íslenzkra atvinnuvega til undirbúnings skynsamlegri samvinnu og samningum við aðrar þjóðir eða bandalög. En til þess að svona verði unnið, þarf stjórnin að fara frá.

Þær staðreyndir, sem ég hef rakið, verða ekki hraktar, og samanburðurinn sýnir, svo að ekki verður um deilt af neinu viti, að erfiðleikar Íslendinga stafa ekki af ytri ástæðum eða áföllum, heldur eiga rót sína í rangri stefnu og forystuleysi, sem duldist nokkuð um tíma vegna áður óþekktra uppgripa. Hafi menn haldið, að ríkisstjórnin væri í þann veginn að viðurkenna þetta og breyta eftir því, þá fengu menn þann misskilning leiðréttan rækilega í fyrrakvöld, því að þeir berja enn höfðinu við steininn með forsrh. í broddi fylkingar. En vonlaust er um nokkra endurreisn á vegum þeirra seku, sem vegna metnaðar og þráhyggju vilja hvorki sjá né játa, hvar vandinn liggur.

Ríkisstj. hefur algjörlega mistekizt að stjórna landinu. Um það er tæplega deilt, og má segja, að bragð er að, þá barnið finnur, því að hv. þm. Jón Þorsteinsson krafðist hástöfum ráðherraskipta í gærkvöld, og hvað skyldu þá aðrir hugsa? Hagstjórnaraðferðir ríkisstj. hafa ekki náð að lækna verðbólgumeinið, en þær hafa lamað atvinnulífið. Þessar aðferðir, ásamt stjórnleysi í fjárfestingu og atvinnumálum, hafa orðið til þess, að margar þær framkvæmdir hafa setið á hakanum, sem þýðingarmestar voru, en aðrar komizt fram fyrir, sem máttu bíða eða missa sig. Verðbólgufjárfestingin hefur setið í fyrirrúmi, og því vantar nú atvinnutæki, heilbrigðisstofnanir, skóla og annað, sem mestu skiptir.

Engin þjóð þolir til lengdar ráðlausa stjórn á rangri leið, og allra sízt við Íslendingar. Það gerði oft gæfumuninn áður fyrr, frá því framfaraskeið hófst á Íslandi, þótt ýmislegt mistækist, að fylgt var framleiðslustefnu og sterklega hlúð að atvinnuvegunum. Og handahófið var ekki ráðandi þáttur í búskaparlaginu fyrr en þessi stjórn tók við og tók upp gersamlega úrelta stjórnarhætti, sem alls ekki koma til mála annars staðar, þar sem sæmilega farnast.

Stefnubreyting þolir enga bið, og kjarni hinnar nýju stefnu er sá, að þjóðin fái tækifæri til þess að vinna sig út úr vandanum. Skynsamlegur áætlunarbúskapur verður að komast á, sem tryggir, að það, sem mesta þýðingu hefur fyrir þjóðina, komist fram fyrir eyðsluna og sukkið og það, sem má bíða. Það verður að útrýma atvinnuleysinu með jákvæðri forystustefnu í atvinnumálum, sem byggist á nánara samstarfi ríkisvalds, einstaklings og félagsframtaks en nokkru sinni áður. Lánastefnuna verður að miða við þarfir atvinnuveganna og nauðsyn þjóðarinnar á því, að hver vinnandi maður hafi verk að vinna. Íslenzkt framtak ber að hafa í heiðri og treysta því og efla það, en kveða niður þann hugsunarhátt, að Íslendingar geti ekki lengur sjálfir komið neinu í kring og þurfi að láta útlendinga gera allt fyrir sig í sínu eigin landi, eða hvað halda menn, að 200 þús. manna þjóð haldi lengi sjálfstæði sínu, ef þeir menn eiga lengi fyrir landi að ráða úr þessu, sem byggja á slíkum hugsunarhætti? Voru það kannske útlendingar, sem stóðu fyrir glæsilegri framfarasókn Íslendinga frá 1918 til 1958? Í lok þess tímabils áttu Íslendingar sjálfir atvinnutæki sín öll og þær stofnanir, sem þeir byggðu á atvinnu sína og afkomu.

Við búum hvorki við aflabrest né óhagstætt verðlag í viðskiptum út á við, þegar á heildina er litið, síður en svo. Almennt séð má fremur tala um ágæta vertíð, og verðlagsvísitala erlendra viðskipta er með hagstæðara móti. En samt er búið að koma þjóðinni í alvarlega hættu, sem ógnar fyllilega fjárhagslegu sjálfstæði landsins og þar með frelsi þjóðarinnar. Þeir menn fara með forystu í stjórn landsins, sem fullreynt er, að engu geta stjórnað, eins og það er orðað á hispurslausu alþýðumáli, og aðhyllast hagstjórnaraðferðir, sem hafa leitt til kreppu og atvinnuleysis inn á við, sem Íslendingar búa nú einir við, og botnlausrar skuldasöfnunar út á við, enda hafa sumir þm. stjórnarflokkanna gefizt upp við að verja ráðherrana í þessum umr. og heimta þá nú frá.

Endurreisnarstarfið verður erfitt, eins og formaður Framsfl. gerði hreinskilnislega grein fyrir í fyrrakvöld, og því erfiðara sem lengur dregst, að á því verði tekið. Því er það almenn krafa í landinu, ekki bara stjórnarandstæðinga, sem verið hafa, að ríkisstj. láti fara fram kosningar, svo að þjóðin geti við breyttar ástæður valið sér nýtt Alþingi og nýja stjórn. Því miður virðist ríkisstj. ekki á því að gefa þjóðinni kost á þessu strax, en ætlar þess í stað að nota vald sitt til þess að slíta Alþ. nú og senda alþm. heim frá óleystum vinnudeilum, t. d. á vegum ríkisstj. sjálfrar og án þess að nokkuð viðunandi hafi fengizt gert til þess að ráða fram úr atvinnuleysismálunum. Þ. á m. hafa allar till. til úrlausnar á geigvænlegum atvinnuvanda skólafólksins ýmist verið svæfðar eða felldar.

Verður ekki annað séð en ríkisstj. sé orðin hrædd við þingið, enda mynduðust hér á Alþ. í vetur samtök um að taka tvö stórmál úr höndum ríkisstj. og leysa þau þannig. Það eru afnot fiskveiðilandhelginnar og vegamálin. Máske vill ríkisstj. ekki bíða eftir meira af slíku, en það verður að mótmæla því kröftuglega, að Alþ. sé slitið eins og nú stendur á og ríkisstj. taki til að stjórna með brbl. Þess í stað krefst þjóðin kosninga að loknu þinghaldi í vor og á rétt á því að fá þær.