16.05.1969
Sameinað þing: 52. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ánægja er auði betri, segir gamalt máltæki. Andstæðingar ríkisstj. hafa í ræðum sínum í fyrrakvöld og í kvöld gert á þessu svolitla breytingu. Þeir virðast trúa því, að óánægja sé atkvæðum betri, og eftir þeirri kenningu lifa þeir dyggilega. Þeir blása í glóðir óánægju, hvenær sem færi gefst, og bíða nú eftir því, að hún lyfti þeim til valda. Hver hugsandi maður hlýtur jafnan að vera ánægður með sumt, en óánægður með annað í málefnum þjóðarinnar. Er eðlilegt, að þetta tvennt fylgist að eftir ástæðum.

Það er rétt hjá stjórnarandstæðingum, að Íslendingar hafa ástæðu til að vera óánægðir með margt, sem gengið hefur yfir þjóðina síðustu 3 ár. Erum við ekki öll óánægð með það, að gjaldeyristekjur þjóðarinnar skyldu minnka um tæplega 50%? Erum við ekki öll óánægð með það, að þessir efnahagsörðugleikar skyldu éta upp gjaldeyrisvarasjóði og leiða til tveggja gengisbreytinga með stuttu millibili? Erum við ekki öll óánægð með það, að þessir erfiðleikar skuli hafa leitt til aukinnar sundrungar með þjóðinni, þegar hún átti að sameinast gegn þeim? Erum við ekki öll óánægð með það, að stjórnarandstöðuflokkarnir skyldu neita að taka þátt í baráttunni við erfiðleikana, þegar þeim voru boðin sæti í ríkisstj.? Erum við ekki öll óánægð með atvinnuleysið, óánægð yfir því, að íslenzkir atvinnuvegir geta ekki greitt hærra kaup en raun ber vitni? Jú, það er sannarlega ekkert lát á óánægjunni, þegar þvílíka erfiðleika ber að garði. En það væri mikil skammsýni að halda, að framsóknarmenn eða kommúnistar hefðu getað leitt þjóðina fram hjá þessum voða. Það vita þeir, sem bezt þekkja til stjórnar íslenzka ríkisins, að þessir flokkar hefðu svo sannarlega ekki getað forðað þjóðinni frá þeim erfiðleikum, sem yfir hafa dunið, og enn í dag hafa þeir ekki bent á nein undraráð, sem gætu flýtt fyrir batanum. Þess vegna er engan veginn rökrétt af einum eða neinum að hlaupa til stuðnings við þá.

Einn af ræðumönnum stjórnarandstæðinga sagði í fyrrakvöld, að óánægjan ein væri ekki nóg. Menn yrðu að gera sér grein fyrir, hverju þyrfti að breyta, svo að betur fari. Þetta er hverju orði sannara. Við megum ekki láta óánægju vegna stundarerfiðleika ná valdi á okkur eða stýra gerðum okkar. Nokkur óánægja getur orðið til góðs, ef henni er beint inn á jákvæðar brautir og hún látin leiða til þess, að við lærum af reynslunni, gerum skynsamlegar breytingar á högum okkar og stefnu. Með því móti verður óánægja að aflgjafa til nýrra átaka, en einmitt það þyrfti að gerast nú. Þegar við ákveðum að láta óánægju verða til að ýta undir uppbyggingu, en ekki til niðurrifs, kemur í ljós, að það er líka ýmislegt, sem ástæða er til að vera ánægður með. Við getum verið ánægð með þá staðreynd, að þjóðin hefur aldrei átt meira af stórvirkum atvinnutækjum en nú, aldrei voldugri fiskiskipaflota, aldrei fleiri eða betri verksmiðjur, aldrei búið við betri samgöngur eða samgöngutæki. Þetta er auðvitað ekki tilviljun, heldur er þetta að verulegu leyti forði frá góðu árunum. Við getum verið ánægð með þá staðreynd, að bæði verkalýðshreyfingin og ríkisstj. hafa undanfarna mánuði sýnt mikla þolinmæði og gætt þess að spilla ekki vertíðinni, sem hefur orðið hin bezta um langa hríð. Við getum verið ánægð með þá fyrirhyggju, að stofnaður var atvinnuleysistryggingasjóður fyrir 14 árum, og hann hefur komið að miklum notum nú. Við höfum því enn fengið nokkurn frest til þess að örva svo atvinnulíf okkar, að atvinnuleysi verði aldrei aftur eins mikið og það varð s. l. vetur. Við getum enn fremur verið ánægð með þá staðreynd, að voldugt orkuver og álbræðsla taka til starfa innan nokkurra mánaða og munu veita bæði atvinnu og gjaldeyristekjur. Þau mannvirki sanna, hvað íslenzka þjóðin getur á sviði tækninnar. Á menntun og manndómi fólksins eigum við nú að byggja frekari iðnvæðingu, framar öllu nýjar iðngreinar, sem veita mikla atvinnu. Á þann hátt skulum við gera óánægju, sem sótt hefur á okkur öll í erfiðleikum síðustu missera, að aflgjafa nýrrar sóknar. Við skulum ekki fleygja fyrir borð því, sem unnizt hefur, heldur byggja ofan á það, bæta það og laga til.

Í þeim umr., sem fram hafa farið um stjórn efnahagsmála, síðan gjaldeyriskreppan skall yfir, hefur borið hvað mest á þeirri gagnrýni, að fjárfesting hafi verið of lausbeizluð í landinu undanfarinn áratug. Eitt veigamesta stefnuskráratriði Alþfl. er áætlunargerð og áætlunarbúskapur. Í þeim efnum þurfum við nú ekki að leita lengur röksemda hjá hugsuðum jafnaðarstefnunnar, er fyrstir báru þessi úrræði fram. Rökin fyrir þessari stefnu er að finna f svo til öllum nágrannalöndum okkar, sem hafa notað áætlunargerð í stórum stíl síðustu áratugi, svo og hjá stórfyrirtækjum auðvaldsheimsins, sem sennilega hafa komizt lengst allra í hagnýtri áætlunargerð. Með tilliti til þess, hve mikla áherzlu Alþfl. leggur á áætlunargerð og áætlunarbúskap, hljótum við Alþfl.-menn að játa, að reynsla síðasta áratugs í sambandi við hina alfrjálsu fjárfestingu gefur tilefni til nokkurrar íhugunar. En nú er rétt að minna á nokkur atriði varðandi þróun áætlunarmála hér á landi.

Þegar vinstri stjórnin sat að völdum, vildu Alþfl. og Alþb. leggja drög að áætlunarbúskap og töldu það eðlilegt stefnumál þeirrar stjórnar. En svo undarlega brá við, að þá sögðu framsóknarmenn nei. Þeir reyndust ekki reiðubúnir til að stíga þá fyrstu skrefin, þótt hljóðið í þeim sé annað í dag í stjórnarandstöðu, sbr. Eystein Jónsson, sem þá var ráðh. og hindraði áætlunarbúskap, en var að boða hann úr þessum ræðustól fyrir hálftíma.

Eftir að núv. ríkisstj. kom til valda, brá svo við, að hafizt var handa um ýmiss konar áætlunargerð, og verður að minnast þess, þegar rætt er um fjárfestingarmál. Stjórnin byrjaði gerð framkvæmdaáætlana, sem hafa gerbreytt öllum aðdraganda að opinberum framkvæmdum og meðferð þeirra. Þá hefur verið sett löggjöf, sem fyrirskipar stöðuga áætlunargerð í sambandi við vegaframkvæmdir, og er Alþingi einmitt þessa daga að leggja síðustu hönd á vegaáætlun næstu 4 ára. Er mikill munur á þeim vinnubrögðum eða því, sem áður tíðkaðist, að samþ. voru fjárveitingar til eins árs í senn, en enginn vissi, hvað síðar tæki við. Þá hefur sjútvmrh. fyrir nokkrum dögum lagt fram á Alþingi áætlun um hafnárframkvæmdir, en hún er gerð skv. ákvæðum nýrra l., sem ríkisstj. hafði forgöngu um, er þar fjallað um allar hafnir á landinu, hvaða verkefni þar séu óleyst og í hvaða röð þau skuli leyst. Hér er einnig um að ræða gerbreytingu á þeim vinnubrögðum, sem tíðkuðust á Alþ. fyrir fáum árum. Þá vil ég geta áætlana fyrir einstaka landshluta, en þær hafa verið gerðar bæði fyrir Vestfirði, Norðurland og Austurland. Hefur verið lögð mikil vinna sérfróðra manna í þessar áætlanir, og skipulegar framkvæmdir eru þegar komnar af stað.

Þótt reynt hafi verið að gera þessar áætlanir tortryggilegar í pólitískum deilum, verður því ekki neitað, að þær marka tímamót í framkvæmdasögu þjóðarinnar, og með þeim eru tekin upp ný og skipuleg vinnubrögð. Allt eru þetta skref á réttri braut, og til samans hefur verið tekin upp víðtæk og þýðingarmikil áætlunargerð í sambandi við fjárfestingu ríkisins. Verkefni næstu framtíðar verður að flétta sveitarfélögin sem heild inn í þessa mynd og síðast en ekki sízt að koma við skipulegum vinnubrögðum varðandi fjárfestingu einkafyrirtækja.

Þrátt fyrir þetta má víða um land heyra réttmæta gagnrýni á óhagkvæma fjárfestingu undanfarin ár. Reistar hafa verið síldarverksmiðjur, sem aldrei hafa fengið síld, og stórhýsi verzlunarfyrirtækja hafa risið, en staðið hálfgerð árum saman. Og fleira mætti nefna. Mikilvægara er þó hitt, að ekki hafa alltaf verið bornir saman nægilega vel möguleikar á ýmsum sviðum, þegar ráðin hefur verið ný fjárfesting. En hvernig getum við kippt þessu í lag? Helzt er á stjórnarandstæðingum að skilja, að þeir vilji taka upp yfirstjórn á fjárfestingu, eins og var fyrr á árum, þegar pólitísk n. úthlutaði leyfum fyrir hverjum bílskúr, hvað þá öðrum framkvæmdum. Þegar sú leið er rædd, er rétt að minnast þess, að fjárfestingarstjórn af því tagi dugði ekki til að fyrirbyggja margvísleg mistök. Þá risu svo sannarlega misheppnuð fyrirtæki, eins og glerverksmiðjan, Hæringur og Örfiriseyjarverksmiðjan. Eins var um innflutningseftirlitið, meðan allur innflutningur var háður leyfum. Þá var líka flutt inn óþarfavara til að afla tekna í ríkissjóð. Muna ekki hlustendur, aðrir en þeir yngstu, eftir öllum deilunum um glerkýr fyrir nokkrum árum? Það voru tertubotnar þeirra tíma, þótt fullkomin innflutningshöft hafi verið í þá tíð. Þetta er sýnilega ekki leið framtíðarinnar til að hafa stjórn á efnahagskerfinu, sérstaklega til að tryggja, að fjármunum þjóðarinnar og lánsfé sé varið til raunverulega arðbærra fyrirtækja, sem veita.þjóðinni atvinnu og tekjur.

Hér verður að leita nýrra úrræða, og mér segir svo hugur um, að þau muni finnast í sambandi við aukna áætlunargerð og áætlunarbúskap. Það er leið nútímans, sem bæði sósíalistar og kapítalistar og allir þar á milli hafa farið undanfarin ár. Núverandi ríkisstj. hefur stigið mörg og gagnleg spor á þeirri leið, og það er ósk jafnaðarmanna, að í framtíðinni verði enn frekari áherzla á hana lögð.

Undanfarna mánuði, þegar íslenzk alþýða hefur barizt við þungbæra efnahagskreppu og atvinnuleysi, hafa margir beint spjótum sínum að Alþfl. og spurt, hvað er flokkur jafnaðarmanna að gera í ríkisstj. á þessum tímum? Andstæðingar hafa ráðizt harkalega gegn Alþfl., en stuðningsmenn, flokksmenn og jafnvel leiðtogar flokksins hafa hugsað alvarlega um það ástand sem skapazt hefur stjórnmálalega.

Þrátt fyrir margvíslegar efasemdir, hefur Alþfl. þó haldið áfram stjórnarsamstarfi og ekki hlaupizt á brott úr því. Við sátum í ríkisstj. í góðæri og gátum þá komið fram mörgum áhuga- og stefnumálum okkar. Það viðurkenndi þjóðin með auknu fylgi við Alþfl. við síðustu kosningar. En Alþfl. er ekki sú tegund af stjórnmálaflokki, sem hleypur af hólmi, strax og á móti blæs. Höfum við ekki nóg af tækifærissinnum, sem hringsnúast eftir vindi og flýja, hvenær sem taka þarf erfiðar ákvarðanit. Ég leyfi mér að fullyrða, að það sé og hafi verið hagstætt fyrir íslenzka alþýðu að eiga a. m. k. einn stjórnmálaflokk, sem þorir að starfa og stjórna af ábyrgð, en sú ábyrgð mun skila árangri, áður en yfir lýkur.

Þá kunna menn að spyrja: hvaða gagn hafa íslenzkir launþegar haft af setu Alþfl. í ríkisstj. undanfarna mánuði, t. d. síðan gengið var lækkað? Í fyrsta lagi trúum við Alþfl.-menn því, að gengislækkunin hafi verið óhjákvæmileg og hún hafi komið í veg fyrir stórfellda stöðvun íslenzkra atvinnuvega og miklu meira atvinnuleysi en raunverulega varð, þótt mikið væri. Annars hefðum við ekki staðið að þessari aðgerð. En ég vil minna á annað atriði til þess að sýna, hvers konar áhrif Alþfl. hefur þrátt fyrir það allt. Þegar gengið var lækkað, krafðist Alþfl. þess, að samtímis yrði lýst yfir, að bætur almannatrygginga yrðu hækkaðar sem nemur hækkun vísitölunnar. Samstarfsflokkur okkar gekk að þessu, og forsrh. lýsti þessu yfir. Nokkru síðar afgreiddi Alþ. lög um hækkun tryggingarbóta í samræmi við þessa ákvörðun. Þetta mál hefur þýtt, að gamla fólkið, öryrkjarnir, einstæðu mæðurnar og aðrir þeir, sem njóta launa eða bóta frá almannatryggingunum, hafa frá áramótum fengið fulla dýrtíðaruppbót. Þetta fólk er búið að fá það, sem verkalýðsfélögin hafa verið að berjast fyrir í hinni löngu og hörðu baráttu undanfarnar vikur. Alþfl. hefur ávallt talið það eitt meginhlutverk sitt að auka almannatryggingar í góðu árferði, en standa vörð um þær á erfiðum tímum. Að þessu sinni hefur þarna unnizt varnarsigur, sem sannarlega skiptir miklu máli fyrir þúsundir manna í landinu, einmitt þá, sem eiga hvað erfiðast með að verja kjör sín sjálfir. Við skulum líta á annað dæmi.

Atvinnuleysið í vetur er eitt mesta áfall, sem íslenzkt þjóðfélag hefur orðið fyrir á síðustu áratugum. Það kann að vera, að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu gert eitthvað öðru vísi en ríkisstj. í þessu máli, en hitt er meginstaðreynd, að framsóknarmenn og Alþb.-menn hefðu ekki getað hindrað þetta atvinnuleysi, þótt þeir hefðu setið við völd. Rætur þess liggja of djúpt til þess að slíkt hefði getað átt sér stað. Atvinnuleysistryggingarnar komu sér nú vel. Sú fyrirhyggja að safna þar miklum sjóði gerði þjóðinni kleift að forða heimilum atvinnuleysingja frá skorti. Þegar ljóst varð, hvernig ástandið mundi verða'eftir áramótin, gaf Eggert G. Þorsteinsson félmrh. út nýja reglugerð, þar sem hann hækkaði atvinnuleysisbætur verulega með einu pennastriki.

Þessi ákvörðun Eggerts hefur verið gagnrýnd af íhaldssömu fólki um allt land. Það er allt of langt gengið, segja þessir menn. Það er verið að borga fólki fyrir að gera ekki neitt. En hvað fannst þeim, sem voru atvinnulausir í vetur? Var það verra, að þá skyldi félmrh. vera Alþfl.-maður með hjartað á réttum stað? Var það verra, að Eggert leit á málið frá sjónarhóli hinna atvinnulausu, en ekki frá sjónarhóli hinna íhaldssömu borgara, sem alltaf hafa haft fasta og næga atvinnu? Þarna hafði íslenzkt verkafólk meira gagn af reglugerð Eggerts en af allri hinni verðlaunuðu illkvittni Magnúsar Kjartanssonar, eins og hún t. d. kom fram í ræðu hans í fyrrakvöld.

Því er haldið fram, að núv. ríkisstj. sé undir sterku áhrifavaldi frá atvinnurekendum. Það er ekki óeðlilegt, að slík skoðun heyrist, þar sem stóraðgerðir eins og tvær gengislækkanir hafa verið gerðar til að rétta við hag atvinnufyrirtækja og hindra stöðvun þeirra. Þó hefur þar verið farið endanlega eftir dómi hagfræðinga, og báðar ráðstafanirnar hafa verið mun minni en atvinnurekendur óskuðu eftir til þess að draga úr áhrifum þeirra á kjör fólksins. Hitt er sjaldan viðurkennt og vita ekki allir, að verkalýðshreyfingin hefur, allt síðan júnísamkomulagið fræga var gert, haft veruleg áhrif á ríkisstj. og stöðugt samband við hana. Ráðh. hafa á bak við tjöldin reynt að ræða við forystumenn verkalýðssamtakanna og taka sem mest tillit til óska þeirra. Það er fyrst og fremst árangur af þessu hljóðláta samspili, að þrátt fyrir deilur og nokkur verkföll hefur nú tekizt að halda vertíðinni gangandi og ná á land miklum afla. Þetta er eftir aðstæðum svo mikilvægt, að þjóðin getur reiknað sér hundruð millj. til tekna þess vegna. Þetta hefði ekki tekizt, ef fullur fjandskapur hefði ríkt milli ríkisstj. og verkalýðssamtaka. Þetta hefði ekki tekizt, ef ríkisstj. hefði gripið til þess að beita valdi og leysa deiluna með lagaboði. Um það bið ég hlustendur að hugsa rækilega, er þeir kveða upp dóm yfir hlutdeild Alþfl. á þessum dimma kreppuvetri, sem nú er að renna út í sólríkt en enn þá svalt sumar. Það er auðvelt að vera í stjórnarandstöðu og geta talað án þess að þurfa að standa við orð sín í verki.

Þegar þið, góðir hlustendur, hlýðið á fordæmingar stjórnarandstæðinga á ríkisstj. og stjórnarflokkunum, ætla ég að biðja ykkur að minnast þess, að einu sinni voru framsóknarmenn og Alþb.-menn stjórnarflokkar. Einu sinni voru Eysteinn og Lúðvík ráðherrar. Það gerðist síðast í vinstri stjórninni, sem mynduð var 1956. Og hver haldið þið, að hafi verið fyrsti boðskapur flokkanna í þeirri stjórn til þjóðarinnar? Hann var sá, að íslenzkir launþegar yrðu að gefa eftir þó nokkur vísitölustig bótalaust. Verkalýðsfélög og opinberir starfsmenn áttu svo sannarlega samningsbundinn rétt til að fá þessi stig greidd. En þeir fengu þau ekki. Þeir urðu að bera verðhækkanir án bóta undir stjórn vinstri flokkanna. Þetta dæmi sannar, að framsóknarmenn og kommúnistar bregðast á svo til sama hátt við erfiðleikum, sem sækja á þjóðarbúskapinn og stjórnarflokkarnir hafa nú gert, og þó eru erfiðleikarnir, sem við höfum átt við að glíma nú síðustu tvö ár mörgum, mörgum sinnum alvarlegri og þyngri í skauti en það, sem vinstri stjórnin átti við að glíma fyrsta ár sitt.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu ekki getað hindrað þá kreppu, sem yfir okkur hefur gengið. Þeir hefðu án efa brugðizt við henni á mjög svipaðan hátt og stjórnarflokkarnir hafa gert. Þetta sannar reynslan. Þetta er staðreynd, sem vert er að hafa í huga, þegar menn tala um þá erfiðleika, sem íslenzka þjóðin hefur glímt við nú í nokkur misseri. Framsóknarmenn og Alþb.- menn gátu komizt í ríkisstj. í fyrrahaust, en hlupu af hólmi. Það hefði verið að minni hyggju farsælla, að við stæðum öll saman í erfiðleikum s. l. vetrar í stað þess að vera sundruð þjóð, sem mætti utanaðkomandi kreppu með innbyrðis bræðravígum. En svo gæfusöm vorum við því miður ekki. Úr því að svona fór, þótti Alþfl. ekki sæmandi að hlaupa af hólmi, og ríkisstj. tók til verka og gerði það, sem gera varð. Hún vissi, að það mundi verða óvinsælt og hún vissi, að hún mundi standa opin fyrir höggum hinna tækifærissinnuðu stjórnarandstæðinga, sem brugðust, þegar á þá reyndi.

Ég hef nefnt nokkur dæmi, sem sýna, að áhrif Alþfl. í fyrrahaust og vetur hafa verið launþegum og alþýðu til góðs, því að illt ástand gat vel orðið miklu verra, t. d. fyrir gamla fólkið eða atvinnuleysingjana. Ég hef dregið fram hlut Alþfl., af því að ég hef viljað ræða starf hans sérstaklega. Það hefur nú eins og áður einkennzt af ábyrgð, sem hefur borið árangur. Þessi árangur er launþegum að ýmsu leyti meira virði en allt það, sem hinir illskeyttu stjórnarandstæðingar hafa getað upp skorið.

Alþfl. hefur ávallt starfað öðruvísi en kommúnistar. Við gerum ekki uppþot eins og þeir. Við hrópum ekki eins hátt, við gerum ekki ábyrgðarlaus yfirboð. En samt hefur starf Alþfl. í áratugi borið miklu meiri árangur fyrir launþega landsins. Svo hefur enn reynzt í þeirri varnarbaráttu, sem íslenzk alþýða hefur háð við kreppuna undanfarin tvö ár.

Samninga- og sáttanefndir hafa setið á fundum í næsta nágrenni við alþingishúsið í dag. Við skulum vona, að samkomulag takist fyrir eða um helgina og það verði upphaf að betri afkomu, nægri vinnu, vinnufrið og aukinni farsæld þjóðarinnar. Þökk þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.