19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Landbn. Ed. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir til umr. Eins og nál. meiri hl. á þskj. 206 ber með sér, gat n. ekki orðið sammála um afgreiðslu þess, og ber minni hl. n. fram brtt. við frv., eins og fram kemur á þskj. 207.

Þegar gengi íslenzkrar krónu var breytt á árinu 1967, var borið fram og samþ. frv. um ráðstafanir á gengishagnaði vegna útflutningsafurða landbúnaðarins, og var það mjög samhljóða því frv., sem hér er rætt. Um framkvæmd þeirra laga hefur ekki verið deilt, svo ég viti til, og má því ætla, að óþarfi væri að hafa annan hátt á um meðferð þessara mála nú en þá var viðhöfð. Við, sem stöndum að nál. meiri hl., lítum svo á, að ekki sé ástæða til að gera þá breytingu á l., sem minni hl. leggur til, bæði vegna þeirrar reynslu, sem fékkst við samskonar aðstæður fyrir einu ári og ég gat um áðan, svo og vegna þess, að vitað er, að Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur aðstöðu til að koma till. sínum á framfæri við hæstv. landbrh., og mundi því sú brtt., sem minni hl. hyggst koma fram, engu breyta um framkvæmd laganna. Í frv. er afdráttarlaust kveðið á um það, að því fé, sem ráðstafa skal eftir þessu frv., skuli varið í þágu landbúnaðarins. Hæstv. landbrh. lýsti því yfir við fyrstu umr. um frv. í hv. Nd., að það yrði vandlega skoðað, með hverjum hætti það kæmi landbúnaðinum bezt að notum. Þessi yfirlýsing er mjög mikilvæg, svo og það, að stjórn Stéttarsambands bænda hyggst ræða þetta mál við hæstv. landbrh., eins og hann upplýsti við 1. umr. um þetta frv.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. í heild eða einstök efnisatriði þess, en vil skírskota til fyrri reynslu á samhljóða frv., sem samþ. var fyrir einu ári, og meiri hl. n. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt.