16.05.1969
Sameinað þing: 52. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

Almennar stjórnmálaumræður

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Bjarni Benediktsson forsrh. hélt því fram hér í fyrrakvöld, að stjórnarandstæðingar hefðu verið á móti Búrfellsvirkjun og ekki hefði getað orðið af þessari miklu virkjun, ef álbræðslan hefði ekki komið til. Bjarni Benediktsson veit, að þetta er rangt. Lög um Búrfellsvirkjun voru samþ. með atkv. allra þingflokka, einu ári áður en nokkuð er vitað um, hvort hér yrði reist álbræðsla eða ekki. Þm. voru allir sammála um, að hagkvæmast yrði að virkja við Búrfell, hvort sem útlendingum yrði selt rafmagnið eða Íslendingar notuðu það til eigin þarfa. Ég er einn þeirra ræðumanna í þessum umr., sem tala hér sem gestur, staddur á Alþ. í fáeina daga sem varaþm. Ég hef ekki tekið þátt í útvarpsumr. í tvö ár, en ég tek eftir því, að ósannindin, sem Bjarni Benediktsson fór með í fyrrakvöld og ég nefndi áðan, eru nákvæmlega sömu ósannindin og hann fór með, þegar ég var hérna fyrir tveimur árum. Auðvitað mátti ég vita, að Bjarni Benediktsson hefur lítið breytzt, en ósköp hlýtur þjóðin að vera þreytt á svona stagli.

Útvarpsumr. í núverandi mynd eru reyndar fyrir löngu orðnar úreltar og úr sér gengnar. Ný tækni hefur rutt sér til rúms. Það er orðið fráleitt að láta 25 ræðumenn koma hér fram í halarófu til að ræða um allt og ekki neitt, meðan sjónvarpið, vinsælasta og áhrifamesta fjölmiðlunartækið, er að skemmta hv. kjósendum með æsispennandi amerískum glæpareyfurum. Núverandi skipan þessara mála er Alþ. til háðungar. Fæstir munu ætlast til þess, að sjónvarpið fari að taka upp þess háttar maraþonumr. eins og tíðkazt hafa í útvarpi. Það má varpa ljósi á stjórnmálaumr. með ýmsum hætti, eins og kunnugt er. En núverandi ástand er óviðunandi.

Það er ekki heldur að ástæðulausu, að bent hefur verið á hlutdrægni sjónvarpsins. Það, sem kemur frá ríkisstj., rennur hrátt og viðstöðulaust inn í sjónvarpið. Ráðherrarnir virðast vera taldir sérstakir aufúsugestir á heimilum sjónvarpsnotenda, en frá málflutningi óbreyttra þm. eða starfi stjórnmálaflokkanna er lítið sem ekkert sagt.

Ég nefni dæmi. Síðan Alþb. var endurskipulagt á s. l. hausti, hefur sjónvarpinu þóknazt að eyða um það bil 10 sekúndum til að lýsa starfi og stefnu Alþb. Það var kvöldið, sem stofnfundur flokksins var haldinn. En fréttatilkynningar og blaðamannafundir af okkar hálfu hafa verið hunzaðir.

Ég nefni annað dæmi. Í vetur átti Atlantshafsbandalagið 20 ára afmæli. Þetta eru mjög mikilvæg tímamót í sögu bandalagsins, því að nú fyrst er NATO-samningurinn uppsegjanlegur. Hvernig var meðferð sjónvarpsins á þessu máli? Ég minnist þess, að snemma í marzmánuði hringdi í mig sjónvarpsmaður og bað mig um að koma samdægurs í sjónvarpið til að gera grein fyrir afstöðu Alþb. til NATO. Áttu formenn allra flokka að koma þar fram, og var hann þegar búinn að fá samþykki formanna Framsfl. og Alþfl., en hann átti eftir að tala við Bjarna Benediktsson. Nú veit ég auðvitað ekki, hvað forsrh. hefur sagt við sjónvarpsmanninn. Af reynslunni að dæma eru sjónvarpsmenn afar viðkvæmir, og er því vissara að tala alvarlega. En víst er, að af þessum skoðanaskiptum varð aldrei. Allt í einu kærði sjónvarpið sig ekki lengur um að leita álits stjórnmálaflokkanna, en þess í stað var sjónvarpsfréttamaður sendur til Bandaríkjanna á NATO-fund til að fylgjast með hreyfingum forsrh.

Á undanförnum vikum hafa ýmsir aðilar verið kvaddir í sjónvarpið til að vegsama NATO og sýndar hafa verið hráar áróðursmyndir framleiddar í aðalstöðvum bandalagsins, en enginn andstæðingur NATO hefur átt þess kost að segja sína skoðun. Ef sjónvarpið hefði viljað vera annað en áróðursstofnun fyrir ríkisstj., hefði mátt sýna eitthvað meira en glansmyndir af NATO. Þá hefði sjónvarpið kannske getað sýnt okkur, hvernig lýðræðið í Grikklandi var fótumtroðið með þegjandi samþykki NATO og hvernig NATO styður einræðisöflin í Portúgal, bæði fjárhagslega og hernaðarlega, til að halda niðri portúgölsku þjóðinni og kúga og arðræna 12 millj. blökkumanna í nýlendum sínum í Afríku. Sjónvarpið hefur sýnt margar myndir frá hinni svívirðilegu innrás Sovétríkjanna í Tékkóslóvakíu, og það er út af fyrir sig ágætt. Hitt er verra, þegar innrásin er notuð í sjónvarpinu til að réttlæta tilvist Atlantshafsbandalagsins og aðild Íslands að hernaðarbandalagi. Árásin á Tékkóslóvakíu ætti þvert á móti að hafa sýnt mönnum og sannað á sama hátt og framferði Bandaríkjamanna í Víetnam, hve háskalegt er fyrir smáþjóðir að binda trúss sitt við risaveldin í austri og vestri.

Tékkneska þjóðin varð fyrir árás fyrst og fremst vegna þess, að landið var og er í hernaðarbandalagi. Sovétríkin þykjast hafa einkarétt til áhrifa og íhlutunar meðal bandamanna sinna í Austur-Evrópu á sama hátt og Bandaríkjamenn nota NATO til að tryggja áhrif sín í Vestur-Evrópu. En slíkar skoðanir virðast ekki mega heyrast í sjónvarpinu. Þess vegna hefur enginn NATO-andstæðingur verið kvaddur í sjónvarpið á þessu ári til að segja álit sitt á bandalaginu. Ég vil nota þetta tækifæri til að taka mjög eindregið undir þá kröfu, að settar verði ákveðnar meginreglur um fréttaflutning sjónvarpsins, svo að framvegis megi tryggja óhlutdrægni þess gagnvart mönnum og málefnum, eins og lög fyrirskipa. Þetta er stórmál, enda er sjónvarpið ótrúlega máttugt áróðurstæki. Misbeiting þess er meiri ógnun við lýðræðið en flest annað.

Í þessum umr. hefur hver ræðumaðurinn af öðrum í stjórnarandstöðuflokkunum báðum sýnt fram á, hvílíkt öngþveiti er ríkjandi í efnahags- og atvinnumálum og raunar á flestum sviðum þjóðlífsins. Í vetur voru um 6000 launþegar atvinnulausir, þegar ástandið var verst, og flest bendir til þess, að ekki verði það miklu betra næsta vetur. Og á næstu vikum koma 8000 skólanemendur á vinnumarkaðinn og aðeins þriðjungur þeirra á vísa atvinnu.

Á öllum sviðum eru þarfirnar æpandi. Við erum að dragast aftur úr öðrum þjóðum í skólamálum og heilbrigðismálum. Húsbyggingar hafa dregizt stórlega saman, svo að búast má við alvarlegum húsnæðisskorti og stórhækkuðum leigukjörum á næstu árum. Skuldir þjóðarinnar við útlönd eru líklega hlutfallslega hærri nú en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðarinnar. Og samt er nýlega gengið hjá garði mesta góðæristímabilið í sögu þjóðarinnar. Ráðamennirnir viðurkenna, að þjóðartekjur á mann eru ekki minni nú en þær voru fyrir fáeinum árum, og enn eru Íslendingar með tekjuhæstu þjóðum í heimi. Samt sem áður reyna þeir að þvinga það fram með lögum og ólögum, að alþýða manna búi við lífskjör, sem eru helmingi lakari en í nágrannalöndunum, og eigi í látlausri styrjöld við stéttasamtökin í landinu. Fjmrh. vílar jafnvel ekki fyrir sér að standa uppi sem lögbrjótur mánuð eftir mánuð. Hvað er að gerast? Hvernig stendur á því, að svo gífurlegt ósamræmi er á milli þeirra tekna, sem þjóðin í heild aflar, og þeirra launa og lífskjara, er hinn almenni maður býr við? Hvað verður um hinar miklu tekjur þjóðarinnar? Hvað hefur orðið af öllum þeim gífurlegu auðæfum, sem sjórinn í kringum landið hefur veitt okkur á undanförnum góðæristímum? Svarið er, að undanfarinn áratug hafa stjórnvöld og hagfræðingar reynt að beita hér á landi hagstjórnarkenningum innfluttum frá auðvaldssinnuðum þjóðum, sem eru 200–300 sinnum fjölmennari en við og búa þar að auki við traustan og háþróaðan iðnað. Þetta er kerfi hins óhefta kapítalisma, þar sem fjármagnið leikur lausum hala, fjárfestingin er skipulagslaus og verzlunin fær mikið og frjálst olnbogarými. Þessi stefna hefur óneitanlega skilað árangri víða erlendis. Frjáls viðskipti hafa örvað neyzluna, og aukin neyzla almennings hefur aftur á móti kallað á meiri framleiðslu iðnvarnings, sem aftur hefur skapað meiri atvinnu. Fólkið hefur fengið meiri peninga til að kaupa meiri vörur og þannig koll af kolli. Með nákvæmri útlánapólitík banka hefur tekizt að halda sæmilegu jafnvægi. Verðbólga í þessum löndum hefur yfirleitt verið fremur lítil og hagvöxtur ör.

Hér á landi hefur þessi stefna hins vegar haft gerólík áhrif. Hér er atvinnulíf allt miklu ótraustara og frumstæðara. Framleiðsla iðnaðarvarnings skiptir engu meginmáli, enda eru iðnaðarvörur að miklu leyti innfluttar. Hér á landi hefur aukin verzlun fyrst og fremst þýtt meiri gjaldeyriseyðslu. Verzlunarþjónusta hefur tútnað gífurlega út, en það hefur ekki orðið til styrktar framleiðslunni eins og víða annars staðar, heldur má þvert á móti segja, að útþensla verzlunarinnar hafi þjarmað að öðrum atvinnuvegum, um leið og hún hefur leitt til gífurlegrar eyðslu og sóunar. Auk þess hefur verðbólga aldrei verið meiri en einmitt þennan áratug með þeirri ótrúlegu verðmætasóun, sem henni hlýtur áð fylgja. Vafalaust hefur lögmál gróðans hvergi í Evrópu reynzt jafnhaldlítill vegvísir eins og hér í þessu örsmáa þjóðfélagi, þar sem markaðurinn er svo þröngur, að ekkert rúm er fyrir nema 2–3 fyrirtæki í sömu grein. Enda hefur efnahagshrunið óvíða orðið meira, og hvergi hefur skipulagslaus fjárfesting verið jafndýrkeypt fyrir fórnarlömbin, hinn almenna skattborgara.

Nú þegar mesta góðærið er liðið hjá, aflabrögð eru aftur með venjulegum hætti og verðlag í meðallagi, þá kemur loksins fyrir alvöru í ljós, hve hrapallega þessi stefna hefur mistekizt. Það verður að skerða lífskjörin verulega frá því, sem áður var, ef hagfræðingunum á að takast að halda gangandi þessu sama sóunarkerfi og áður. Þjóðin verður að þola stórfellt atvinnuleysi. Það verður að lækka gengið aftur og aftur. Ný og ný hrossalækning er reynd með viðeigandi krampaflogum í öllu efnahagslífi, því að kerfið skal standa, hvað sem það kostar. Það höfum við heyrt í þessum umr. Stefnan skal vera óbreytt, hvað sem reynslan segir. Enn er það greinilega fræðilegt trúaratriði, að hér á landi skuli áfram beita sömu hagstjórnarkenningum og hjá auðvaldssinnuðum stórþjóðum.

Við heyrðum boðskapinn hjá Gylfa Þ. Gíslasyni viðskmrh. í fyrrakvöld. Á sjávarútveg er ekkert að treysta. Hér á að byggja upp nýjan útflutningsiðnað, að sjálfsögðu í eigu erlendra manna, og til þess að gera hann samkeppnisfærari á að innlima íslenzkt efnahagslíf í stóra evrópska efnahagsdeild. Áfram skal frelsi verzlunarinnar ganga fyrir öllu, og áfram skulu gjaldeyrisviðskiptin hömlulaus.

Eins og oft hefur áður komið fram, erum við Alþb.- menn í grundvallaratriðum andvígir þessari stefnu. Þetta er stefna áframhaldandi sóunar og skipulagsleysis. Í meðalárferði eins og nú er er þessi stefna óframkvæmanleg nema með stórfelldu atvinnuleysi og miklu lakari lífskjörum en tíðkast í nágrannalöndunum. Við Alþb.-menn erum sammála ríkisstj. um, að renna beri nýjum stoðum undir atvinnulíf þjóðarinnar með því að byggja upp nýjan útflutningsiðnað. En það er skoðun okkar, að íslenzkur iðnaður eigi að vera í eigu landsmanna sjálfra. Þótt nauðsynlegt kunni að vera í undantekningartilfellum að byggja upp atvinnurekstur með hlutdeild og tæknilegri aðstoð útlendinga, verða þó Íslendingar að hafa meirihlutavald í öllum slíkum fyrirtækjum. Vel má vera, að við getum selt útlendum atvinnurekendum mikla raforku, fyrst á kostnaðarverði og seinna með einhverjum hagnaði. En það getur ekki verið gæfulegt til frambúðar að byggja afkomu þjóðarinnar á fyrirtækjum, sem flytja ágóðann af rekstrinum jafnóðum út úr landinu. Til þess að koma í veg fyrir halla í gjaldeyrisviðskiptum er hægt að hugsa sér tvær leiðir. Í fyrsta lagi er hugsanlegt að draga úr mesta óhófinu með almennum reglum og takmarka innflutning á vörum, sem landsmenn geta framleitt sjálfir, og auka þannig atvinnu innanlands. Í öðru lagi má lækka gengi krónunnar svo stórlega, að fólk hafi ekki efni á að kaupa erlendar vörur. Þá er neyðin látin skammta þjóðinni gjaldeyri. Það er þessi síðari tegund gjaldeyrishafta, sem ríkisstj. hefur valið. Þess vegna beitir ríkisstj. ótrúlegustu ráðum til að þrýsta lífskjörum almennings niður. Sóunarkerfi ríkisstj. hvílir á þeirri forsendu, að lífskjörin séu helmingi lakari en í nágrannalöndunum. Þar að auki eru lág laun almennings afar vel til þess fallin að vekja áhuga erlendra auðmanna á landi okkar, svo að þeir sjái sér hag í að staðsetja hér atvinnutæki. En við tvær seinustu gengisfellingar hafa laun íslenzks verkafólks lækkað um helming talin í dollurum.

Hin megna vantrú, sem stjórnarflokkarnir hafa lengi haft á sjávarútvegi, kemur heldur ekki á óvart. Þessi vantrú hefur m. a. komið fram í því á undanförnum áratug, að togaraflotinn hefur minnkað um meira en helming og framleiðsla frystihúsanna dregizt verulega saman. ódugnaður og trassaskapur ráðh. Alþfl. við stjórn sjávarútvegsmála á þessu tímabili er notaður til að vekja með þjóðinni vantrú á framtíð sjávarútvegsins, á meðan aðrar þjóðir stórauka aflamagn og vinnslu sjávarafurða. Það er út af fyrir sig rétt, að með sömu óstjórn og sama skipulagsleysi og ríkt hefur í sjávarútvegi og fiskiðnaði á undanförnum árum eru framtíðarmöguleikar ekki miklir í þessum atvinnugreinum. En ef allt er með felldu, eigum við að hafa næstum ótakmarkaða möguleika á þessum sviðum, og ekki verður því neitað, að samkeppnisaðstaða okkar er betri en flestra annarra þjóða.

Hið nána samstarf Alþfl. og Sjálfstfl. hófst veturinn 1959. Nú, réttum áratug síðar, er meira vonleysi og óhugur ríkjandi meðal almennings en nokkru sinni fyrr í meira en aldarfjórðung. Slíka ótrú og vantraust á framtíðarmöguleikum þjóðarinnar hefur ríkisstj. tekizt að vekja, að sívaxandi hópur ungra Íslendinga sér enga aðra leið en að flýja land.

Í röðum launþega vekur það vaxandi óþolinmæði og gremju, hve kjarabaráttan gengur grátlega hægt. Menn hjakka í sama farinu árum saman, og nú í seinni tíð eru lífskjörin jafnvel á stöðugri niðurleið. Menn vita sem er, að miðað við þjóðartekjur ætti að vera unnt að greiða miklu hærra kaup, og þó er það svo, að framleiðslutækin víða um land eru engin stórgróðafyrirtæki, heldur skrimta þau flest frá ári til árs með styrkjum og uppbótum. Þessi sjálfhelda íslenzkra launamanna hefur jafnvel stundum valdið því, að sökinni er skellt á forystumenn í verkalýðsfélögum. En menn verða að skilja, að verulegar kjarabætur eru hreint og beint óhugsandi í núverandi efnahagskerfi. Meðan launþegar kjósa aftur og aftur yfir sig þá menn, sem halda uppi þessu sama sóunarkerfi, sem við lifum í, verður engum verulegum árangri náð. Stjórnarherrarnir stela jafnóðum aftur því, sem áunnizt hefur. Það er aðeins ein leið, sem getur veitt varanlegar kjarabætur, og það er sigur á hinu pólitíska sviði. Það er brýnasta verkefni Alþb.- manna um þessar mundir að koma þjóðinni í skilning um, að með gerbreyttri stjórnarstefnu má bæta verulega lífskjör almennings og skapa landsmönnum öllum fulla atvinnu. Það verður að endurskipuleggja efnahags- og atvinnulífið. Það verður að skera niður milliliðagróða, stöðva óhóflega gjaldeyriseyðslu, lækka vexti á afurða- og rekstrarlánum og þjóðnýta olíudreifingu og tryggingar, svo að aðeins fátt eitt sé talið. Það verður að byggja ný atvinnutæki og fjárfesta samkv. áætlunum, sérstaklega í iðnaði.

Atvinnuleysið er í dag átakanlegasta sóunin á verðmætum þjóðarinnar. Það verður að fullnýta frystihúsin með því að stórauka aflamagnið, en það gerist ekki af sjálfu sér eins og núverandi ríkisstj. virðist halda. Það kostar forsjá og fyrirhyggju ráðamanna. Það verður að sanna þjóðinni, að við Íslendingar getum sjálfir byggt upp fjölskrúðugt atvinnulíf og við þurfum sízt af öllu að leggja ráð okkar í hendur útlendum auðmönnum.

Alþb. hefur haft forystu um mótun nýrrar stjórnarstefnu með afdráttarlausri afstöðu og ótvíræðri tillögugerð. Við munum halda því áfram og við munum sérstaklega treysta á stuðning alþýðusamtakanna í landinu, enda er það ekkert vafamál, að Alþb.-menn eru sterkasta aflið í verkalýðshreyfingunni, eins og berlega kom fram á seinasta Alþýðusambandsþingi, enda þótt ekki væru þeir þar í meiri hl. En Alþb. eitt hefur ekki bolmagn til að knýja fram breytta stjórnarstefnu. Það verður að skapa einingu með þeim öflum, sem afneita sóunarskipulagi núverandi stjórnar og vilja umbylta og endurskipuleggja efnahagslíf þjóðarinnar.

Alþb. er ungur flokkur. Í rúman áratug var skipulag þess í deiglunni og lengi voru hörð átök um framtíð þess. En á s. l. hausti var það endurskipulagt sem stjórnmálaflokkur í samræmi við óskir yfirgnæfandi meiri hluta Alþb.-manna. Í þessari endurskipulagningu hafa þó fáeinir einstaklingar orðið viðskila við hreyfingu okkar, án þess að nokkurn tíma kæmu frá þeim neinar till. um aðra stefnu eða annað skipulag samtakanna. Tveir þessara manna, Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson, hafa nú átt í langvinnu samningamakki við ýmsa aðila um nokkurt skeið. En þeir virðast nú telja sig munu fiska bezt, ef þeir róa einir á báti. Ekki skal ég leggja dóm á það. Enda er hitt víst, að athafnir þessara manna munu engu breyta um stöðu Alþb. Birni Jónssyni tókst í vetur að fá nokkra tugi manna til að ganga með sér úr félaginu á Akureyri. Nú eru hins vegar fleiri í Alþb. á Akureyri en nokkru sinni fyrr. Í stórum landshlutum er jafnvel ekki hægt að finna einn einasta félagsbundinn Alþb.-mann, sem helzt hefur úr lestinni við skipulagsbreytinguna í vetur. Þessar vikurnar eru haldnir kjördæmisráðsfundir í öllum kjördæmum landsins, og hvarvetna má finna vaxandi bjartsýni og sóknarhug.

Nú þegar upplausnarástandið magnast og uppgjörið við núverandi stjórnarflokka nálgast óðfluga, verður sú krafa æ háværari, að Alþ. verði rofið og efnt sé til nýrra kosninga. Þjóðin þarf að velja sér nýja forystu, nýja róttæka vinstri sinnaða stjórnarstefnu, sem reisir þjóðlega atvinnuvegi landsins úr rústum, sem byggir öðru fremur á félagslegum úrræðum og hefur raunverulegan vilja til að vernda þjóðerni Íslendinga og efnahagslegt sjálfstæði. — Góða nótt.