16.05.1969
Sameinað þing: 52. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

Almennar stjórnmálaumræður

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þið hafið nú fengið að heyra málflutning stjórnarandstöðunnar. Helzt verður af honum ráðið, að flest það, sem erfiðlega hefur gengið, sé að kenna störfum og stefnu stjórnarinnar. Gengur þessi söngur svo langt, að gert er sem minnst úr þeim örðugleikum, sem mannlegur máttur fær trauðla við ráðið en við höfum orðið fyrir, svo sem aflabresti, verðfalli á erlendum mörkuðum, kostnaðarsömum síldveiðum á fjarlægum miðum og harðæri til landsins.

Í útvarpsumr. í fyrrakvöld ræddi hv. þm. Jónas Jónsson nokkuð um landbúnaðarmál og lagði á það áherzlu, hversu illa væri að bændum búið af hendi stjórnvalda, og því til áréttingar sagði hann, að nú væri nálægt meðalárferði, ef á allt væri litið og því væri hér fyrst og fremst um að kenna rangri stefnu í landbúnaðarmálum, hversu komið væri fyrir þeim. Þegar hugsað er til þessara orða, verður það ugglaust fleirum en mér umhugsunarefni, af hvaða tilefni hafísnefnd var sett til starfa og hvers vegna harðærisnefnd var skipuð 1967 og falið að starfa áfram 1968. Þá var henni raunar fengið aukið verkefni með athugun á efnahag bænda. Ég er ekki í vafa um það, að bændur um land allt hafa á því betri skilning en þessi hv. þm. virðist hafa, að árferðið hefur jafnan haft úrslitaáhrif á afkomu bænda. Framleiðsla landbúnaðarins og afkoma þeirra, er þann atvinnuveg stunda, er eins og jafnan áður háð árferðinu. Bóndinn hefur átt allt sitt undir sól og regni og á það enn, þótt tækni og vísindi hafi í ýmsum efnum dregið úr hörðustu sveiflunum og ráðstafanir og lagasetningar stjórnvalda stuðli að jafnari og öruggari nýtingu þeirrar framleiðslu, sem fæst.

Einnig þykir mér rétt við þetta tækifæri að vekja athygli á ummælum í grein í blaði framsóknarmanna á Suðurlandi hinn 10. maí s. l., sem hníga mjög í sömu átt og gagnrýni stjórnarandstæðinga hér á Alþ. Þar segir, að landbúnaðarpólitíkin hér á landi s. l. ár hafi verið íhaldssöm og illgjörn. Ég á að vísu von á því, að mörgum bóndanum ofbjóði slíkur málflutningur, en því vil ég geta þessara orða hér, að eins líklegt má telja, að fyrir fleiri mönnum geti farið eins og höfundi þessara ummæla að ruglast svo af öfugmælum flokksbræðra sinna, að heilbrigð skynsemi og dómgreind víki og eftir verði ofstæki og stóryrðaglamur sjálfum þeim til lýta og öðrum til ama, er á hlýða. Skyldu bændur almennt telja, að íhaldssemi og illgirni hafi ráðið gerðum Ingólfs Jónssonar landbrh., þegar hann fékk lögfest, að ríkissjóður tryggði greiðslu á þeim halla, er bændur kynnu að verða fyrir af útflutningi landbúnaðarvara? Þetta ákvæði er búið að vera í l. um nokkurt skeið og hefur reynzt bændum heilladrjúgt og verður það enn um sinn, en hvergi var það í l. á meðan framsóknarmenn fóru með þessi mál. Skyldi það hafa verið af íhaldssemi og illvilja, að aukið var ríkisframlag til súgþurrkunar árið 1964, en það hefur gert mörgum bóndanum kleift að ráðast í súgþurrkunarframkvæmdir og hefur án alls efa orðið til þess, að miklu stærri hluti heyforðans hefur orðið verðmætara fóður en áður þekktist og dregið verulega úr þeirri áhættu, sem heyframleiðslan var undirorpin, þegar óþurrkasumur gengu yfir? Hvað skal þá segja um aukið ríkisframlag og ræktun þeirra bænda, sem búa við lítil tún? Skyldu þeir telja þá ráðstöfun bera vott um íhaldssemi og illvilja? Ég tel það illa farið, þegar þeir, sem betur eru settir og hafa stærri ræktunarlönd, sjá ofsjónum yfir þeirri fyrirgreiðslu, sem þeim er veitt, sem lakasta aðstöðu hafa til góðrar afkomu. Margt fleira mætti telja, en ég læt þetta nægja og hygg, að bændur muni sammála um, að vel hafi verið unnið að hagsmunamálum landbúnaðarins á því tímabili, sem núv. ríkisstj. hefur verið við völd.

Þrátt fyrir margs konar aðgerðir ríkisvaldsins til þess að tryggja og efla landbúnaðinn verður það þó, eins og áður var að vikið, undirstöðuatriði, að árferði sé sæmilegt. Nú hefur s. l. 3 ár verið harðæri víðast hvar um landið, og voru menn að vonum uggandi um afkomu bænda á haustnóttum. Margt benti til þess, að verðlagsgrundvallarverð næðist hvergi nærri, þegar árið væri gert upp. Þegar Mjólkurbú Flóamanna hélt aðalfund sinn þann 29. apríl s. l., kom það fram, að nú vantaði 33 aura á hvern lítra, til þess að bændur fengju fullt verð fyrir mjólkina. Orsakir þessa eru aðallega tvær: Lögboðnar útflutningsuppbætur reyndust ekki nægilega miklar að þessu sinni svo og hitt, að mjólkurmagnið síðustu mánuði ársins var mun minna en ætlað var, og ekki reyndist fært að draga úr rekstrarkostn. búsins í samræmi við minnkandi mjólkurmagn. Allur hefði þessi halli orðið meiri og um leið mjög tilfinnanlegur, ef hæstv. landbrh. hefði ekki ákveðið, að af gengishagnaði vegna útfluttra landbúnaðarvara skyldi verja 140 millj. kr. til að mæta þessum halla. Þær ráðstafanir, sem ríkisstj. beitti sér fyrir að koma fram á s. l. hausti, hafa því orðið til þess að minnka stórlega þann mun, sem orðinn var á verði búvara innanlands og á erlendum mörkuðum, og ég tel, að vegna gengisbreytingarinnar á s. l. hausti og batnandi verðs ýmissa vara á erlendum markaði, þá getum við vænzt þess, að sú útflutningstrygging, sem í l. er til greiðslu á útfluttar landbúnaðarvörur, verði nægileg til þess að jafna þennan halla. Um áramótin s. l. var fellt niður verðjöfnunargjaldið, 18 aurar á lítra, sem framleiðandinn varð að greiða á s. 1. ári, og kemur það því til hækkunar á þessu ári, þegar miðað er við árið 1968. Eftir gildandi 1. hækkar verðlag á landbúnaðarvörum innanlands í samræmi við hækkun á rekstrarvörum og kaupgjaldi. Ef grundvallarverð mjólkur er borið saman við það, sem var fyrir einu ári, kemur í ljós, að hækkunin nemur kr. 1.83 á lítra. Um kjötið er það að segja, að það hefur hækkað á sama tíma um kr. 15.25 á kg. Þá hefur gengisbreytingin og valdið því, að verð á ull og gærum hefur hækkað verulega. Ég áætla því, að á árinu 1969 muni bændur búa við batnandi hag í verðlagsmálum, ef hófs er gætt í fjárfestingarmálum og sölufélög okkar kosta kapps um að fella starfsemi sína og rekstur að kröfum tímans og þörfum hverju sinni. Þar eigum við vissulega verk að vinna, og von er um árangur, ef takast mætti að fullvinna betur hinar ýmsu vörutegundir, áður en þær eru látnar af hendi.

Mér þykir rétt að verja örstuttum tíma til þess að ræða skuldir bænda og þær aðgerðir, sem ákveðnar hafa verið til fyrirgreiðslu fyrir þá, sem þar standa höllum fæti. Eins og áður var sagt, fól hæstv. landbrh. harðærisn. að kanna efnahag bænda og skila áliti um það efni. Álit n. lá fyrir í vetur og er mjög vel unnið og glöggt. Þar kemur fram, að rannsókn n. tók til 4769 bænda, og reyndust þeir skulda að meðaltali 262 þús. kr. Ég ætla, að ef litið er á þessar tölur einar, þá þyki þessar skuldir ekki ýkja háar, en þess ber að gæta, að efnahagur bænda er mjög misjafn. Þegar tekið er tillit til tekna og skuldir bornar saman við þær, þá kemur í ljós, að 77.7% bænda eiga ekki í greiðsluerfiðleikum og eru því allvel settir efnalega, 12,8% bænda búa við sæmilegt rekstraröryggi, en 6.1 % þeirra skulda meira en hæfilegt getur talizt og þurfa því aðstoðar við. Hins vegar eru 3.4%, eða 160 bændur, sem eru mjög illa settir, og er hætt við, að ýmsir þeirra búi við þau skilyrði, að ekki verði komið til móts við þarfir þeirra eftir venjulegum leiðum. Sú skuldasöfnun, sem nú hefur orðið hjá bændum, á sér víðast hvar eðlilegar orsakir. Má þar tilnefna vegna erfiðs tíðarfars sérstaklega þrjú síðustu vor, sem hafa verið óvenju köld, og hefur tilkostnaðurinn við búreksturinn orðið miklu meiri en var um árabil, bæði í auknum fóðurbætiskaupum og meiri áburðarnotkun. Bændur hafa og á fáum áratugum gjörbreytt búskaparaðstöðu allri með stóraukinni vélvæðingu og fjárfestingu í byggingum og ræktun, enda sér þess glögg merki, þar sem framleiðsla búvara hefur vaxið verulega, en æ færri hendur vinna við þau framleiðslustörf. Og þótt ríkisvaldið hafi tryggt eðlilegt lánsfé til þessarar fjárfestingar, hefur uppbygging atvinnurekstrarins verið svo hröð, að ekki var mögulegt að eigið fjármagn bænda nægði til mótframlags. Á þessu þingi voru sett lög um breyt. á lausaskuldum bænda í föst lán. Þessi lög eru hliðstæð lögum um sama efni frá 1962, en þau lög hafa orðið þeim, er þeirra nutu, hin gagnlegustu. Reglugerð um framkvæmd l. verður sett innan tíðar, og er líklegast, að unnt verði að hefja framkvæmd l. síðla sumars eða á komandi hausti.

Það væri freistandi að gera fleiri þætti þjóðmála að umtalsefni nú. En tími minn leyfir það ekki. Stjórnarandstæðingar hafa haft hér uppi harða gagnrýni á störf og stefnu stjórnarinnar. Ég mun ekki neita því, að eitt og annað hefur ráðizt á annan veg en ætlað var og við hefðum viljað. En við samanburð á verkum núv. ríkisstj. og þeirrar, sem stjórnarandstaðan bar ábyrgð á, vinstri stjórnarinnar, þá er ég ekki í vafa um, hvort stjórnartímabilið hefur orðið heilladrýgra hinni íslenzku þjóð. Hér hefur verið minnt á nokkrar staðreyndir, sem styðja þá skoðun mína og meiri hl. íslenzku þjóðarinnar, að stefna ríkisstj. og viðbrögð hennar við aðsteðjandi vanda hafi verið á þá lund, að til heilla hafi horft.

Sú stefna, sem stjórnarandstaðan heldur að þjóðinni, þykir mörgum manninum ærið laus í reipum, og er erfitt að henda reiður á, hvert hugsað sé að halda. Formaður Framsfl. sagði hér í umr. í fyrrakvöld, að sú stefna í þjóðmálum, sem hann boðaði, hefði enn ekki verið reynd í framkvæmd. Þetta er hin mesta firra. Hvað sem leiðirnar hafa verið kallaðar og hvernig sem reynt er að breyta svip og þyrla ryki í augu almennings, þá þekkist þelið, þegar togið er horfið af lagðinum. Í óljósum orðum og almennum hugleiðingum felst gamla framsóknarstefnan. Það skyldu menn gera sér ljóst. — Góða nótt.