16.05.1969
Sameinað þing: 52. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

Almennar stjórnmálaumræður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Magnús Jónsson fjmrh. lét sig hafa það að harðneita því hér áðan, að nokkrir teljandi fjármunir hafi farið forgörðum á undanförnum árum vegna skipulagslausrar og óarðbærrar fjárfestingar. Honum fer það ósköp illa, þessum dagfarsprúða og að jafnaði hófsama manni, að láta sér slíkt fleipur um munn fara. Það þýðir ekki að neita því, að hundruð milljóna króna hafa farið í súginn vegna óarðbærrar og óskynsamlegrar fjárfestingar.

Benedikt Gröndal sagði hér áðan til vitnis um umhyggju Alþfl. fyrir verkalýðnum, að Eggert G. Þorsteinsson ráðh. hefði með reglugerð, „með einu pennastriki,“ hækkað atvinnuleysisbætur. Þetta væri dæmi um Alþfl.-ráðh. með hjartað á réttum stað. Ég er hræddur um, að Benedikt Gröndal misminni þetta. Hækkun atvinnuleysisbóta var gerð með löggjöf til að efna samkomulag, sem gert var við verkalýðshreyfinguna í fyrra. Þetta sannar því ekkert um hjartagæzku Alþýðuflokksmanna yfirleitt né hvar hjarta félmrh. er staðsett.

Undanfarin missiri hafa margir velt fyrir sér þeirri spurningu, hvernig á því geti staðið, að hag okkar Íslendinga sé skyndilega svo illa komið sem raun ber vitni. Menn spyrja: Hverjar eru skýringarnar á því, að eftir margra ára samfellt góðæri skuli hallærisástand ríkja, nær jafnskjótt og eitthvað blæs á móti? En hallærisástand hlýtur það að kallast, þegar þúsundir manna búa við atvinnuleysi og verkafólk verður að heyja langvinna og tvísýna baráttu til að varðveita kaupmátt launa, sem eru helmingi lægri en meðal nágrannaþjóða. Eitt sjúkdómseinkennanna eru hinar miklu erlendu lántökur til að standa undir innflutningi á neyzluvörum auk framkvæmdalána, en slíkar lántökur eru nú ískyggilega tíðar, svo að enn vex skuldabyrðin.

Stjórnarliðar segja, að orsakir allra okkar erfiðleika séu minnkandi afli og lækkandi verðlag sjávarafurða. Rétt er það, að miðað við metárin 1964–66, þegar saman fór árlega aukinn afli og hækkandi verðlag, þá varð á allveruleg breyting tvö síðustu árin. Vissulega hlýtur það jafnan að valda erfiðleikum með fiskveiðiþjóð, þegar afli minnkar og söluverð afurða lækkar samtímis. Við bjuggum skyndilega árið 1967 og 1968 við svipað verð og aflamagn og verið hafði fyrir 4–5 árum, þ. e. árin 1962–63. En nú var svo komið, að það aflamagn og þau viðskiptakjör, sem þóttu heldur góð fyrir fáeinum árum, töldust nú hið mesta áfall og ógnuðu afkomu atvinnuveganna. Hér getur varla verið um aðra skýringu að ræða en þá, að fylgt hafi verið rangri og háskalegri stjórnarstefnu. Hin mörgu veltiár hafði verðbólgan verið látin leika lausum hala, og í stað þess að valdhafar legðu sig fram um að stemma stigu við henni, urðu ýmsar stjórnvaldaaðgerðir til að auka hana og magna. Þessu þýðir ekki að neita. Afleiðingarnar urðu að sjálfsögðu þær, að atvinnuvegirnir bjuggu við allt annað og óhagkvæmara verðlag innanlands en verið hafði og samkeppnisaðstaða þeirra á erlendum mörkuðum varð nær vonlaus.

Viðreisnarstefnan svokallaða hefur alla tíð byggzt á því, að blind gróðalögmál auðmagnsins ættu að ráða í atvinnu- og efnahagslífinu. Ekkert hefur verið slíkt eitur í beinum núverandi valdhafa sem félagsleg viðhorf til atvinnuveganna eins og áætlunarbúskapur, eins og fjárfestingarstjórn. Kenningum okkar Alþb.-manna um nauðsyn þess að hafa stjórn á þessum hlutum og beita nútíma vinnubrögðum við meiri háttar fjárfestingarákvarðanir hefur verið tekið með móðursjúkum hrópum um, að við viljum færa allt í höft og viðjar. Hér hefur sú kenning ráðið og ræður enn, að gjaldeyrisverðmætin, sem útflutningsatvinnuvegirnir og þó einkum sjávarútvegurinn leggja þjóðinni til, skuli vera til sem allra frjálsastrar ráðstöfunar, til innflutnings og fjárfestingar í gróðaskyni án minnsta tillits til hagsmuna þjóðarheildarinnar. Hitt er svo annað mál, að gróði einstaklinganna hefur ekki ætíð verið sá, sem vænzt var. Þar hafa lögmál frumskógarins ráðið. Mörg misheppnuð fjárfestingin, sem engan arðinn gaf, hvorki svonefndum eigendum né þjóðfélaginu sjálfu, er ljós vottur þessa.

Því verður ekki neitað, að á viðreisnarárunum hefur verið vanrækt að byggja upp og treysta suma mikilvæga þætti undirstöðuatvinnuvega okkar, sjávarútvegs og þess iðnaðar, sem honum er tengdur. Stórfelld fækkun togara og fiskibáta, sem öfluðu hráefnis fyrir hraðfrystiiðnaðinn, hefur haft ákaflega óheillavænleg áhrif á rekstur hraðfrystihúsa og ásamt verðbólgunni gert hraðfrystiiðnaðinn veikari en skyldi og verr undir það búinn að mæta verðlækkunum á erlendum mörkuðum. Ýmsar greinar iðnaðar hafa á viðreisnarárunum verið stórlega vanræktar og sumum nær útrýmt með hömlulausum innflutningi erlends iðnvarnings og stöðugum rekstrarfjárskorti. Á þessi samdráttur í iðnaði sinn ríka þátt í atvinnuleysinu undanfarna vetur. Í stað þess að efla alhliða íslenzkan iðnað, bæði til innanlandsneyzlu og útflutnings, hefur hagsmunum hans og þar með almennings í of mörgum tilfellum verið fórnað á altari kenningarinnar um hin frjálsu viðskiptamál gróðahyggjunnar. Hér hafa og fyrirætlanir valdhafanna um að tengja Ísland erlendum efnahagsbandalögum orðið til þess að kveða upp dauðadóm yfir ýmsum tegundum íslenzks iðnaðar. Engum dettur í hug að saka ríkisstj. um aflabrest á síldveiðum eða færa á reikning stjórnarstefnunnar verðfall á erlendum mörkuðum. Þessum áföllum höfum við mátt sæta nú um tveggja ára skeið. Það er rétt. En hitt er jafnljóst, að þjóðin hefði verið ólíkt betur í stakkinn búin til að mæta slíkum áföllum, ef góðærið hefði verið hagnýtt til alhliða uppbyggingar íslenzkra atvinnuvega, fiskibátaflotinn og togaraflotinn endurnýjaður og færður í nútíma horf, hraðfrystiiðnaðurinn efldur og gerður hagkvæmari en verið hefur, fullvinnsla á sjávarafla tekin upp í stórum stíl. Á sama hátt hefði þurft að vinna markvisst að uppbyggingu annars iðnaðar eftir vandlega gerðum áætlunum um hagkvæmni og hóflega fjárfestingu, byggðum á ýtarlegum rannsóknum.

Þá hafa og markaðsmálin verið hörmulega vanrækt og alla markvissa forystu skort af opinberri hálfu til að leysa það verkefni sómasamlega af hendi. Aðrar fiskveiðiþjóðir, allir helztu keppinautar okkar á þessu mikilvæga sviði, leita hinna víðtækustu markaða fyrir framleiðslu sína og verja til þess skipulagðri vinnu og miklum fjármunum og ná líka miklum árangri. Hér hefur lengi skort samstillt átak ríkisvalds og framleiðenda um stóraukna markaðsleit og markaðsöflun með nútíma aðferðum á sviði kynningar og auglýsingatækni. Það, sem ríkisstj. verður sökuð um með fullum rökum, er margvísleg vanræksla af þessu tagi og það er stjórnarstefnan, sem hér veldur mestu, það er kenningin um markaðslögmálið og óskorað frelsi gróðahyggjunnar, sem fyrr en varir leiðir til glundroða og öngþveitis. Við Alþb.-menn höfum varað við þessari stefnu og talið hana háskalega. Því hefur ekki verið sinnt, enda er nú svo komið því miður, að þjóðin öll og þó sérstaklega alþýða landsins sýpur seyðið af þessari stefnu. En ráðamenn berja höfðinu við steininn og búa sig undir að halda förinni áfram lengra út í ófæruna. Harla fátt bendir til, að ríkisstj. hafi dregið gagnlega lærdóma af reynslu undanfarandi ára né sé undir það búin að takast á við vandamálin á þann hátt, að von sé um farsæla lausn þeirra. Vantraustið á íslenzkum atvinnuvegum er hið sama og áður, engar varanlegar ráðstafanir gerðar til að tryggja nauðsynlegar undirstöður þeirra. Hins vegar liggja á borðum ráðh. ýmsar áætlanir og jafnvel samningsuppköst um stóraukna aðild erlendra auðhringa að íslenzku atvinnulífi.

Alþb.-menn eru eindregið þeirrar skoðunar, að nú sé brýnni þörf en nokkru sinni að fylkja liði um nýja stjórnarstefnu í landinu, þar sem kostað verði kapps um með þjóðfélagslegum viðhorfum, ákveðinni stefnu í fjárfestingarmálum og áætlunarbúskap að byggja upp þá mikilvægu þætti atvinnuveganna, sem verið hafa vanræktir og hlotið hafa þungar búsifjar undir viðreisnarstjórn. Einnig er þörf djarflegra átaka í félagsmálum þjóðarinnar, í húsnæðismálum, tryggingamálum, heilbrigðismálum, menntamálum. Alþb. heitir á Íslendinga, hvar í flokki sem þeir hafa staðið, að veita slíkri uppbyggingarstefnu fulltingi. Ljóst er að til þess að hrinda henni í framkvæmd, svo að um muni, þarf Alþb. að eflast að áhrifum, svo að tryggja megi breytt valdahlutföll á Alþingi að loknum næstu kosningum. Ég mun nú víkja lítið eitt að utanríkismálum.

NATO-samningurinn frá 1949 var óuppsegjanlegur í 20 ár. En frá og með 24. ágúst n. k. getur hvert aðildarríki hans um sig sagt honum upp, hvenær sem er, með eins árs fyrirvara. Snemma á þessu þingi fluttum við Alþb.-menn till. til þál. um að fela utanrmn. að semja rækilega grg. um þau vandamál, sem tengd eru aðild Íslands að NATO, um breytingar á alþjóðamálum á þeim 20 árum, sem bandalagið hefur starfað og viðhorfið nú. Seint og um síðir var till. þessari. vísað til utanrmn., en hún hefur ekki fengið þar fullnaðarafgreiðslu þrátt fyrir ákveðin fyrirheit þar um. Síðar á þinginu fluttum við Alþb.- menn síðan till., sem felur í sér hvort tveggja í senn úrsögn úr NATO og uppsögn herstöðvasamningsins við Bandaríkin. Þessi till. hefur alloft verið á dagskrá sameinaðs Alþingis, en hún hefur ekki verið tekin til umr., hefur ekki einu sinni komizt til n. Afstaða þingflokka til þessara mála er hins vegar nokkurn veginn ljós. Allir flokkarnir, aðrir en Alþb., hafa lýst fylgi við áframhaldandi aðild að NATO. Báðir stjórnarflokkarnir hafa á þessu þingi lýst eindregnum stuðningi sínum við dvöl Bandaríkjahers í landinu. Framsóknarmenn hafa hins vegar lýst því yfir, að þeir vilji endurskoðun herstöðvasamningsins og brottför hersins í áföngum, en íslenzka gæzlumenn við rekstur radarstöðva og fleiri slík gæzlustörf.

Á síðustu árum hafa umr. um mikilvægustu utanríkismál svo sem um afstöðu Íslands til aðildar að Atlantshafsbandalagi og dvöl erlends hers í landinu tekið nokkrum stakkaskiptum. Ég hygg, að raunsæjar og málefnalegar rökræður um þessi mál hafi einna fyrst átt sér stað meðal ungra manna innan stjórnmálaflokkanna og utan, svo sem í skólunum. Hér á Alþ. gætir einnig aukinnar viðleitni til að fjalla um þessi mál á röklegan hátt. Það er og spor í rétta átt, að utanrmn. hefur verið vakin af dvala, og hæstv. utanrrh., svo og formaður utanrmn. hafa haft um það fögur orð, að n. skuli framvegis gegna hlutverki sínu eins og lög standa til, en samkv. þingsköpum ber n. að fjalla um öll mikilvæg utanríkismál, ekki einungis þá mánuði, sem Alþ. situr ár hvert, heldur einnig utan þingtíma.

Innan margra NATO-ríkja, ekki sízt á Norðurlöndum, í Danmörku, Noregi og hér á Íslandi, ber mjög á vaxandi gagnrýni á NATO. Bent er á, að höfuðandstæðurnar í heimsmálum séu ekki lengur milli austurs og vesturs, heldur miklu fremur milli norðurs og suðurs, milli ríku þjóðanna í Norður-Ameríku og Evrópu annars vegar og fátæku þjóðanna í Suður-Ameríku, Asíu og Afríku hins vegar. Að dómi æ fleiri er NATO hlekkur í valdakerfi ríku þjóðanna undir forystu Bandaríkjanna. Hafa verið dregnar fram óteljandi staðreyndir um þetta valdakerfi, hvernig það teygir anga sína víðs vegar um heim og lætur til sín taka, ef kúgaðar þjóðir reyna að öðlast efnahagslegt sjálfstæði. Innrás Rússa í Tékkóslóvakíu hefur af ýmsum, bæði hér á landi og erlendis, verið notuð sem röksemd fyrir nauðsyn og gildi Atlantshafsbandalagsins. Ekki dettur mér í hug að neita því, að framferði Rússa gagnvart Tékkum hefur í bili blásið nýju lífi í NATO, sem orðið var næsta ólíklegt til langlífis. Það er án efa rétt, að fyrst í stað styrkjast hernaðarbandalögin tvö af óhæfuverkum hvors annars. Hitt er fjarstæða, að árás ríkja Varsjárbandalagsins á Tékka sé vottur um styrkleika þess bandalags. Það er að sjálfsögðu veikleikamerki, en ekki styrkleika. Jafnframt er innrásin vottur þess, að sameiginleg aðild að hernaðarbandalagi er notuð til að réttlæta hernaðarlega íhlutun. Þegar þessi mál eru því skoðuð niður í kjölinn, gera menn sér ljóst, að innrásin í Tékkóslóvakíu var afleiðing af skiptingu heimsins í áhrifasvæði risaveldanna tveggja, afleiðing af óbilgjarnri og háskalegri kröfu þeirra hvors um sig að deila og drottna innan síns áhrifasvæðis. Ég er þess fullviss, að þeim fer fjölgandi, ekki sízt meðal ungu kynslóðarinnar, sem gera sér ljóst, að við Íslendingar eigum heima í röðum þeirra þjóða, sem standa utan við hernaðarblokkir, og því beri okkur að segja upp aðild að Atlantshafsbandalaginu og hverfa úr NATO.

Krafan um uppsögn herstöðvasamnings og brottför Bandaríkjahers fær nú vaxandi hljómgrunn með þjóðinni, einkum í röðum æskufólks. Í þeim efnum eru að verða alger straumhvörf. Ungir menn í öllum hernámsflokkunum taka nú herstöðvamál til endurmats í ljósi nútíma sjónarmiða. Ungir jafnaðarmenn hafa gengið þar ákveðnast til verks og gert afdráttarlausar ályktanir um uppsögn herstöðvasamningsins. Raunar verður ekki annað séð en þeir séu í algerri andstöðu við ríkisstj. í flestum helztu deilumálum, jafnt á sviði utanríkis- sem innanlandsmála. Till. ungra framsóknarmanna um brottför herliðsins í áföngum og þjálfun íslenzkra manna til að taka þar við gæzlustörfum eru að vísu dálítið óljósar, en sýna þó, að krafan um að losna við herliðið á vaxandi fylgi að fagna. Mér skilst, að Framsfl. allur hafi nú gert þessar till. að sínum. Meðal ungra sjálfstæðismanna er einnig tekið að rökræða um hersetuna, og mér er tjáð, að afstaðan til herstöðvasamningsins sé orðin þar verulegt deilumál. Meðal háskólastúdenta, sem Sjálfstfl. fylgja, munu nú áhöld um, hvor hópurinn er fjölmennari, fylgismenn eða andstæðingar bandarískra herstöðva á Íslandi. Hefur í þessu efni orðið gerbreyting á örfáum árum, jafnvel á allra síðustu missirum. Ég hygg, að það sé nú fyllilega tímabært orðið að hefja umr. um herstöðvamálin af fullri einlægni og hreinskilni og efla samstöðu allra þeirra, sem gera sér ljósa nauðsyn þess, að hér verði ekki erlendur her til frambúðar. Rétt væri vafalaust að draga eftir föngum úr þeirri tortryggni, sem upp kynni að rísa í nálægum löndum, ef við létum herinn fara. Í þessu sambandi er sjálfsagt að kanna allar þær leiðir, sem samrýmzt geta sjálfstæði okkar og öryggi. Samvinna við nágrannaþjóðir okkar um öryggismál getur að mínu viti átt fullan rétt á sér. Form slíkrar samvinnu gæti verið með ýmsum hætti og skal ekki farið nánar út í þá sálma nú. Vissulega er mikið til þess vinnandi að losna við háskalegar herstöðvar úr landinu.

Ég vil að lokum leggja á það ríka áherzlu, að í þeim málum öllum, sem snerta afstöðu Íslands til umheimsins, þurfum við stöðugt að vera vakandi og tileinka okkur raunhæf sjónarmið á hverjum tíma. Tímarnir breytast óðfluga, og við megum ekki láta okkur daga uppi með úrelt viðhorf, skoðanir, sem heyra fortíðinni til. Tökum nú öll hin svonefndu varnarmál til rækilegrar endurskoðunar af hispursleysi og raunsæi. Leitum af einlægni þeirrar niðurstöðu, setti bezt samrýmist sjálfstæðisvilja og framtíðarhagsmunum íslenzkrar þjóðar.— Góða nótt.