16.05.1969
Sameinað þing: 52. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Enn er að ljúka eldhúsdegi. Í fyrra lá fyrir Alþingi frv. til 1. um þingsköp flutt af n. skipaðri mönnum úr öllum flokkum. Þar var gert ráð fyrir því að leggja eldhúsdagsumr. niður. Ég átti því ekki þess von, að neinn eldhúsdagur yrði í ár eða framvegis. Hér hefur þó á annan veg skipazt. Nefnt frv. hefur ekki sézt í vetur og enginn minnzt á að leggja eldhúsdaginn niður, svo að enn færir stjórnin sínar varnir og stjórnarandstaðan sínar ásakanir fram fyrir alþjóð svo sem vera ber, og þjóðin metur málavexti á sínum tíma.

Menn hafa nú heyrt hér margt sagt af hálfu hinna ýmsu aðila, sem þátt taka í þessum umr. Það hefur verið nokkuð einkennandi fyrir þá hæstv. ráðh., sem hér hafa flutt mál stjórnarinnar, að þeir hafa bæði sýnt bölsýni og reynt að sýna bjartsýni líka, þó ekki í sömu málunum. Bölsýni hafa þeir sýnt, þegar þeir sýna fram á það, að nauðsynlegt sé að hafa kaupgjaldið lágt, atvinnuvegirnir þoli lítið, þjóðin sé illa komin eftir verðfall og aflabrest, eins og þeir kalla það. En á hinn bóginn hafa þeir sýnt fram á glæstar gróðatölur, þegar þeir hafa verið að mæla fyrir því, sem virðist vera eitt aðaláform ríkisstj., að blanda fjármunum saman við fjármagn erlendra auðhringa til þess að byggja verksmiðju á Íslandi, og þá eru þær ævinlega kallaðar stóriðjuframkvæmdir, hversu smáar sem þær eru. En það vill raunar svo til, að einmitt síðustu daga höfum við verið að sjá framan í fyrstu reikninga slíkrar verksmiðju hér á Alþingi, og það er svo sannarlega ekki uppörvandi um framtíð þjóðarinnar, að hún geti á næstu árum byggt góð lífskjör á því. Kísilgúrverksmiðjan við Mývatn, sem svo sannarlega var kynnt hér af stjórnarinnar hálfu sem arðvænlegt fyrirtæki og uppbyggilegt á sinni tíð, sýnir stórtap, svo að nemur milljónatugum á hinu fyrsta ári, og þó er tap hennar áætlað enn þá meira á næsta ári, þannig að nú verður íslenzki ríkissjóðurinn, svo illa sem hann er staddur fyrir, að reiða þessu fyrirtæki fram hundruð milljóna til þess að greiða upp töp og til þess að reyna að bæta fyrir þær skekkjur, sem fram hafa komið í byggingu verksmiðjunnar, til þess að reyna að berja í þá bresti, sem fyrir liggja.

Um stjórnarfarið í landinu hef ég raunar þetta að segja í örstuttu máli: Áform og gerðir ríkisstj. hin síðustu árin hafa öðru fremur mótazt af ókunnugleika hennar á stöðu íslenzkra atvinnuvega, vanmati á möguleikum þeirra og oftrú á því, að hægt sé að misbjóða umburðarlyndi þjóðarinnar með óþörfum og óbærilegum kjaraskerðingum. Fyrir 1½ ári trúði stjórnin og sérfræðingar hennar því, að svo sem ekkert væri að í þjóðfélaginu, kreppumörkin, sem þá þegar voru komin fram, væru aðeins smávægileg stundarfyrirbæri, sem ekki væri ástæða til að taka alvarlega. Úr þeim mætti auðveldlega slétta með erlendum lántökum og peningablöndun við útlenda auðhringi til þess að byggja fyrirtæki eins og kísilgúrverksmiðjuna. Þeir, sem töldu ástæðu til að mæta erfiðleikunum með öðrum hætti, auka festu í þjóðfélaginu, mynda breiðari stjórn og taka upp stefnubreytingu, voru hafðir þá að háði og spotti í stjórnarherbúðunum. Fumkenndari ráðstafanir og fánýtari en stjórnin hafði uppi í efnahagsmálum, meðan gjaldeyrisvarasjóðirnir voru að fjara út, voru óþekkt fyrirbæri allt til þess tíma. Það var ekki fyrr en á s.1. hausti, sem menn fengu að sjá framan í meira fálm og meira fum í þeim efnum. Þá hafði stjórnin þó loks séð, að hún réð ekki við vandann, og bauð upp á viðræður um þjóðstjórn. Ekki reyndist hún þó reiðubúin til að láta af stefnu sinni, sem leitt hafði til ófarnaðarins, eða viðurkenna, að henni væri í teljandi mæli áfátt í einu eða neinu, og hefði hún því alveg eins getað sparað sér allt þetta ómak, því að stjórnarandstaðan var auðvitað ekki til viðtals um að skrifa sem ábyrgðaraðili upp á þann fallna óreiðuvíxil, sem viðreisnin nú var orðin, án þess að gera ráðstafanir til þess að breytt yrði um stefnu.

Haustið 1967 felldi stjórnin gengi krónunnar verulega og lét það boð jafnframt út ganga, að í engu mætti bæta þá dýrtíðaröldu, sem þetta skapaði með kauphækkunum eða dýrtíðaruppbótum á kaup. Engu sinnti stjórnin því, þótt henni væri sagt það fyrirfram, að þessu yrði ekki unað, heldur lét hún koma til hinna alvarlegustu truflana á framleiðslu og öllum vinnumarkaði, svo sem þeir mega gleggst muna, sem minnast hinna víðtæku verkfalla frá því í marzmánuði í fyrravetur. Eftir þær truflanir, sem þá urðu, og eftir allt tapið, sem þjóðin hafði af þessum ráðstöfunum hlotið, var svo auðvitað samið upp á vísitöluuppbætur á kaup í lægri launaflokkunum, svo sem auðvitað varð að verða. Það má vera mikil fyrirmunun að geta ekkert lært af atburðum eins og þessum. En ekki virðist ríkisstj. hafa tekizt það. A. m. k. æddi hún út í sama fenið aftur á s. l. hausti alveg með sama hætti, utan hvað nú hafði hún gengisfellinguna miklum mun stórfelldari en nokkur dæmi voru til um áður, og dagskipun hennar um blátt bann við dýrtíðaruppbótum á kaup var enn strangari nú en í fyrra. Þetta jafngilti auðvitað því, að allt, sem keypt var til landsins erlendis frá, hlaut að hækka að meðaltali um 54 eða 55%, en kaup átti að standa í stað. Ef stjórninni tækist að koma þessum áformum sínum fram, færi að verða heldur minna úr því velferðarríki, sem hún hefur oft gumað af, að orðið væri á Íslandi og um skeið var alls ekki fjarri sanni.

Stjórnin hefur miklar tilhneigingar til að sækja fyrirmyndir sínar vestur um haf til Bandaríkjanna. Þar var það að gerast um svipað leyti og gengisbreytingin síðasta fór hér fram, að hafnarverkamennirnir í New York og síðar í fleiri hafnarborgum þess lands sömdu um kaup, sem í íslenzkum krónum nú svarar til nálega 400 kr. á tíma. Samt sá stjórnin ástæðu til þess að láta fylgja ákvörðun sinni bann við því, að orðið yrði við kröfu íslenzkra verkamanna um, að vegna gengisfellingarinnar breyttist tímakaup hér úr um það bil 55 kr. í röskar 60 kr. á tímann. Nú er það að vísu rétt, að íslenzkt þjóðfélag býr að sumu leyti betur að sínum þegnum en hið bandaríska gerir, einkum að því er varðar almannatryggingar, og því er hægt að komast af hér með eitthvað lægra kaup en þar. En fyrr má rota en dauðrota.

Þvergirðingsháttur stjórnarinnar í kaupgjaldsmálum hefur enn efnt til ókyrrðar á vinnumarkaðinum. Verkföll og verkbönn hafa nú truflað framleiðsluna og athafnalífið um margra vikna skeið og gera enn. Auðvitað verður sú hugsjón stjórnarinnar fyrr eða síðar að víkja, að kaup skuli standa óbreytt, því að slíkt er ekki hægt. Allir sanngjarnir menn sjá og viðurkenna, að kaup er óhjákvæmilegur liður í framleiðslukostnaði, og hann er ekki hægt að lækka endalaust. Þar hefur lágmarki á einstakling fyrir löngu verið náð. Það er augljóst, að framferði ríkisstj. gagnvart verkalýðshreyfingunni er afleitt. Þó á hún sér enn einn þátt í launamálum, sem ég fæ ekki betur séð en sé hinn versti þeirra allra. En það er framferði hennar gagnvart starfsmönnum ríkisins, þar sem hún sjálf er húsbóndinn. Ekki er það þó vegna launaupphæðarinnar í sjálfu sér, heldur þeirra vinnubragða, sem stjórnin beitir þar. Um launagreiðslur til opinberra starfsmanna eru í gildi ákveðnar reglur, og hefur hvorugur aðili sagt þeim upp. Þar er gert ráð fyrir kaupuppbótum eftir vísitölu, en ríkissjóður borgar þær ekki. Hefur það mál nú þegar komið í ýmsum myndum fyrir ekki færri en þrjá dómstóla, og hefur ríkisstj. farið halloka fyrir þeim öllum, þótt enn takist stjórninni að tefja uppkvaðningu efnislegs dóms um, hvað borga beri.

Nú getur hvaða ríkisstj. sem er auðvitað litið svo á, að kaup ríkisstarfsmanna sé of hátt og nauðsyn beri til að lækka það. En þá lækkun getur hún ekki framkvæmt þegjandi og hljóðalaust né heldur fyrirvaralaust, þegar henni dettur sjálfri í hug. Hún verður annað tveggja að segja upp samningum og fara að eins og lög mæla fyrir um gerð nýrra samninga eða fá Alþingi til að samþykkja lög um frávik frá gildandi samningi eða dómi. Þetta gerir stjórnin ekki, heldur beitir beinlínis ofríki og fótum treður lög og reglur. Ef athugað er, til hvers ríkisstj. er í réttarríki, þá er það fyrst af öllu til þess að sjá um, að í landinu sé :farið eftir gildandi lögum og reglum. Sú ríkisstj., sem virðir einskis þessa skyldu sína, heldur þvert á móti hefur sjálf forgöngu um að troða á lögum og reglum, er með öllu óhæf til þess verks, sem þjóðin hefur falið henni og hlýtur að krefjast skilyrðislaust af hverri ríkisstj. sem er að framkvæmt sé.

Góðir hlustendur. Um skeið höfum við búið við nokkurt andstreymi. Það er rétt, sem stjórnvöldin halda fram, að að undanförnu hafi afli rýrnað á síldveiðum. Það er sömuleiðis rétt, að verðlag á erlendum mörkuðum hefur verið okkur nokkru óhagkvæmara um skeið en bezt eru dæmi til um áður. En það er ekki síður rétt, að þjóðin hefur goldið þetta í rýrðum lífskjörum. Það er einnig komið í ljós, að sjávarafli okkar var betri á nýlokinni vertíð en að undanförnu. Flest bendir nú til þess, að verðlag erlendis á okkar afurðum sé að færast í betra horf. Þá mun líka rofa til um lífskjör og aðstaða fólksins í landinu geta batnað á ný, ef ekki ræður hér endalaust ríkjum stjórn, sem er sinnulaus um íslenzka atvinnuvegi og sljó gagnvart lífskjörum alþýðumanna í landinu.

Ég óska landsmönnum þess að lokum, að brátt náist samningar um hækkað kaup og að þjóðin megi brátt búa við betra stjórnarfar en verið hefur um skeið. Svo þakka ég þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.