21.02.1969
Sameinað þing: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

Efnahagsmál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú varla hægt af minni hálfu að hefja þessar umr. án þess að víkja hér nokkuð að þeirri ræðu, sem nú var verið að ljúka við að flytja hér af hæstv. viðskmrh. Enda þótt ræða hans hafi verið, eins og hans ræður eru nú stundum, æði mótsagnakennd og með býsna nýstárlegum fullyrðingum, var hún nú eigi að síður þess eðlis, að ég tel það ómaksins vert að víkja að henni með nokkrum orðum.

Framsýnn hefur Stalín verið, þegar hann mótaði þá stefnu, að það að finna nokkuð að stefnu viðreisnarstjórnarinnar á Íslandi nú, að það væri sem sagt boðskapur Stalíns. (Gripið fram í.) Já, það er greinilegt, ef hann hefur séð það allt saman fyrir og lagt línurnar um það.

Hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, reyndi í sinni ræðu að draga upp nokkur meginatriði í efnahagsmálastefnu ríkisstj., þau, sem hann vildi telja hér sem grundvallandi stefnumál. Það er býsna athyglisvert, hvað það var, sem hæstv. ráðh. lagði einkum áherzlu á. Grundvallaratriðið í stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum sagði hann vera að skrá rétt gengi á krónunni og í öðru lagi að halda uppi innflutningsfrelsi. Þetta voru þau tvö grundvallaratriði, sem efnahagsstefna ríkisstj. hvíldi á.

Það er svo út af fyrir sig atriði til þess að velta fyrir sér, hvernig stendur á því, að ríkisstj. hefur alltaf verið að skrá rétt gengi. Hún hefur varla haft þar undan. Hún virðist ekki hafa gert sér mikla rellu út af því, hvað það hefur verið, sem hefur gert það að verkum, að hún er alltaf að skrá rétt gengi. Það kom að vísu fram í ræðu hæstv. viðskmrh., að fleiri atriði taldi hann mikilvæg í sambandi við efnahagsmálastefnuna en þessi tvö grundvallaratriði. Og þá vék hann að því, að það skipti miklu máli að hafa sterka stjórn á peningamálum, sjá um, að útlán væru úr bankakerfinu á hverjum tíma hófleg og að vextir væru gjarnan háir til þess að örva sparnað. En önnur atriði taldi hæstv. viðskmrh. ekki upp sem nein meginatriði varðandi efnahagsmálastefnu ríkisstj. Skyldu hv. þm. ekki hafa tekið eftir því, að hann þurfti ekki að víkja að því svo að segja neinu orði, hver stefnan í efnahagsmálum ætti að vera til þess að tryggja vaxandi þjóðarframleiðslu, hvernig stefnan ætti að vera í atvinnumálum landsins, til þess að atvinnuvegirnir skiluðu þar fullum árangri. Nei, það, sem skipti máli, var það að skrá rétt gengi, halda uppi frjálsum innflutningi, hafa háa vexti og sjá um það, að útlán væru hófleg.

Nú veit auðvitað hæstv. viðskmrh. mætavel, að það er enginn skoðanaágreiningur uppi milli stjórnmálaflokka hér á landi um það, að það sé út af fyrir sig rétt að halda uppi réttri skráningu á verðgildi íslenzku krónunnar. Þar er um atriði að ræða, sem allir eru sammála um. En menn eru hins vegar ekki sammála um það, hvernig á að standa að efnahagsmálapólitíkinni í landinu til þess að tryggja það, að það gengi, sem eitt sinn hefur verið skráð rétt, geti staðizt um lengri tíma. En hæstv. viðskmrh. heldur sig við það eins og efnahagsráðunautar ríkisstj., að nokkrar almennar formúlur, sem eru í rauninni slitnar úr samhengi — ætlar sér að halda sig við þær, hvernig svo sem ástatt er, — að það séu þær, sem ráði hér öllu um það, hvernig til tekst um þróun efnahagslífsins. Dæmið, sem hæstv. ráðh. nefndi hér um háa vexti og þannig vaxandi sparnað í efnahagskerfinu í kjölfar hárra vaxta, var í rauninni ágætt dæmi um það, hvernig menn geta misnotað svona almennar formúlur. Auðvitað er því þannig varið, að því fer víðs fjarri, að það sé vaxtafóturinn einn, sem ræður úrslitum um það, hvort sparnaður í peningakerfinu er mikill eða lítill. Við höfum mjög sláandi tölur um þetta af okkar reynslu nú síðustu árin.

Á árinu 1965, eða í árslok ársins 1964, var ákveðið af Seðlabankanum að lækka innlánsvexti. Og þeir voru nokkru lægri á árinu 1965 en þeir höfðu verið um skeið. Hver varð afleiðingin? Minnkaði sparnaðurinn á árinu 1965 við það, að vextirnir voru lækkaðir? Nei, spariinnlánaaukningin í bankakerfinu óx úr 754 millj. kr., sem þær voru á árinu 1964, upp í 1210 millj. kr. á árinu 1965 þrátt fyrir vaxtalækkunina. Þá var aftur gripið til þess í árslokin 1965 að hækka vextina, hækka aftur innlánsvextina. Hvernig reyndist það? Á árinu 1966, þegar vextirnir voru hækkaðir aftur, jukust spariinnlánin minna en árið á undan, eða um 983 millj. í staðinn fyrir 1210 millj. Þessar tölur sýna það, svo að ekki verður um villzt, að á þessum tíma var það ekki vaxtahæðin, sem hér réði úrslitum. Hvað var það, sem gerði það að verkum, að sparifjárinnlögin í bankakerfinu jukust svona mikið á árinu 1965 þrátt fyrir lækkandi vexti? Vitanlega það, að á því ári varð mikil framleiðsla í þjóðarbúinu og stórlega vaxandi. Tekjur urðu þá allar hærri og meiri en áður, og það var aðstaða til þess, að um meiri sparnað gæti orðið að ræða. Ég er t. d. hræddur um það, að hæstv. viðskmrh. mundi reka sig á það nú, að þó að hann hækkaði innlánsvextina um 1–2%, þá mundu peningarnir ekki taka upp á því að streyma inn í bankakerfið, á meðan atvinnuleysi er í landinu og samdráttur er í öllu efnahagskerfinu. Þeir menn, sem bíta sig fasta í svona kenningar eins og kenninguna um háa vexti, fara vitanlega villir vegar, og þeir geta orðið til mikillar bölvunar með sína stefnu, ef þeir halda sig við hána á óeðlilegan hátt. Vitanlega er það sjálfsagt, að það þarf á hverjum tíma að reyna að meta það, hvað vextirnir, bæði innlánsvextir og útlánsvextir, eiga að vera háir. Það skiptir líka miklu máli, að það sé metið rétt, hvað hóflegt er að lána mikið út af fjármagni í bankakerfinu hverju sinni. Ekki neita ég þessu. En það er hitt, sem skiptir hér miklu meira máli um það, hvernig til tekst í efnahagsmálum landsins. Það er það, hvernig haldið er á þeim málum, sem áhrif hafa á gang atvinnulífsins. Er haldið uppi stefnu, sem miðar að því að kyrkja atvinnulífið, draga það saman, kreppa það saman þannig, að óeðlileg afköst verði í framleiðslukerfi þjóðarinnar? Of lítil útlán til framleiðsluatvinnuveganna geta leitt til þess arna. Og of háir vextir geta líka leitt til þess, að það verði um taprekstur í framleiðslukerfinu að ræða og framleiðslan dragist saman og minnki, en það er engu líkara en hæstv. viðskmrh. og efnahagsráðunautar ríkisstj. gangi í öllum sínum ákvörðunum algerlega fram hjá þessum staðreyndum.

Hæstv. viðskmrh. sagði hér í sinni ræðu marga furðulega hluti. Hann taldi t. d., að við stjórnarandstæðingar gerðum allt of mikið úr áhrifum vaxtahæðarinnar á afkomu atvinnuveganna í landinu og nefndi rétt einu sinni þá fjarstæðufullu tölu, að vaxtagreiðslur frystihúsanna í landinu næmu ekki nema í kringum 80 millj. kr. á ári. Það er auðvitað margsinnis áður búið að leiðrétta þessa vitleysu hjá hæstv. ráðh., en hann endurtekur hana eigi að síður. Ég vil benda á það, að aðalefnahagsráðunautur ríkisstj., sem hæstv. viðskmrh. trúir þó mjög mikið á, hefur þó sent frá sér alllanga greinargerð um það, að vaxtagreiðslur sjávarútvegsins í landinu séu rúmlega 400 millj. kr. á ári. Og í þeirri tölu tekur hann þó fram, að sé ekki um að ræða vaxtagreiðslur af margvíslegum lánum, sem framleiðslan muni þurfa að greiða vexti af á óbeinan hátt. Það vita allir, að vaxtagreiðslur framleiðslunnar hvíla á henni undir fleiri liðum en því, sem kallað er beinar vaxtagreiðslur. Vaxtaþunginn kemur í gegnum margvíslega kostnaðarliði framleiðslunnar, svo að hér er auðvitað um að ræða miklu meiri byrði en sem nemur þessum 400 millj., að maður tali nú ekki um meiri en 80 millj., sem hæstv. ráðh. vill láta líta út sem svo, að það sé í rauninni sú vaxtabyrði, sem sjávarútvegurinn þurfi við að glíma.

Og svo ræddi hæstv. ráðh. allmikið um þá stefnu, sem upp hefur verið tekin nú í mörgum sósíalístískum löndum hin síðari ár, sem nefnd hefur verið frjálslyndari stefna í efnahagsmálum en sú, sem þar var fylgt fyrir nokkrum árum. Og það var helzt að heyra á hæstv. ráðh., að stefna hans líktist þessari frjálslyndisstefnu, en að stefna okkar stjórnarandstæðinga, sem gert höfum hér allmargar aths. við stefnu stjórnarinnar, hins vegar einkenndist af sömu meginatriðum og hin gamla stefna Stalíns í efnahagsmálum. Hvort tveggja er álíka fjarlægt öllum raunveruleika. Auðvitað er sú frjálslyndisstefna, sem nefnd hefur verið og upp hefur verið tekin nú í vaxandi mæli í mörgum sósíalískum ríkjum, auðvitað er hún gersamlega önnur en sú stefna, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur haldið uppi hér á landi í efnahagsmálum. Stefnan, þessi frjálslyndisstefna, hefur auðvitað fyrst og fremst byggzt á áætlunarbúskap, en ekki á algeru skipulagsleysi um þróun atvinnu- og efnahagsmála, eins og hefur átt sér stað hér á landi, svo að allur samanburður hjá hæstv. ráðh. í þessum efnum er í rauninni alveg út í bláinn.

Ég get tekið undir það með formanni Framsfl., sem hér talaði fyrr í þessum umr., að ég fagna því, að umr. sem þessar eru teknar hér upp á Alþ. um jafnveigamikinn þátt í íslenzkum stjórnmálum eins og hér er um að ræða. En ég verð þó að segja, að mér finnst, að málið beri hér allt að á annan hátt en þann, sem ég hefði kosið. Mér finnst, að sú skýrsla, sem hér var gefin af hæstv. forsrh., hafi verið mjög ófullnægjandi sem greinargerð um það, hvernig nú sé ástatt í okkar efnahagsmálum og við hvaða vanda sé nú að glíma. Og þá verð ég einnig að lýsa yfir því, að ég kann heldur illa við þann hátt, að þegar hæstv. forsrh. hefur hér lokið máli sínu, lagt fyrir sína skýrslu og stjórnarandstaðan tekur svo til máls, þá skuli mikill hluti af þm. stjórnarflokkanna hverfa í burtu úr þingsalnum og ekki vera til viðtals um þessi mikilvægu mál, sem hér eru á dagskrá. En þannig hefur þetta verið í þessum umr. mjög áberandi.

Það er enginn vafi á því, að það var orðinn mikill vandi á höndum í okkar efnahagsmálum, þegar hæstv. ríkisstj. ákvað það að grípa til einnar gengislækkunarinnar enn í nóvembermánuði s. l. Þá var þannig komið í efnahagsmálum þjóðarinnar, að gjaldeyrisforðinn var genginn til þurrðar. Atvinnuleysi var orðið mikið. Iðnaðurinn hafði dregizt saman. Ýmsar greinar sjávarútvegsins voru komnar í strand. Landbúnaðurinn átti í miklum erfiðleikum, og framkvæmdir minnkuðu eða höfðu minnkað í nær öllum greinum, og segja mátti, að samdráttur væri þá orðinn mikill í öllu efnahagskerfinu. En gengislækkunin, sem ríkisstj. ákvað að framkvæma, átti að leysa þennan mikla efnahagsvanda. Það gat ekki farið framhjá neinum, að sú ráðstöfun, sem að því miðaði að hækka verð á erlendum gjaldeyri um rúmlega 50% gagnvart íslenzkum, mundi leiða til mjög stórfelldra breytinga í mörgum greinum efnahagslífsins. Það lá fyrir, að verðlag á innfluttum vörum mundi hækka um 40–50%, og áætlað var, að framfærsluvísitalan mundi hækka vegna þessarar gengislækkunar um 20–25% tiltölulega fljótlega. Þegar ríkisstj. ákvað að fara þessa leið, stóð ekki á því, að stuðningsmenn hennar lýstu því yfir með ýmsum hátíðlegum yfirlýsingum, að þeir tryðu því, að áhrifin í efnahagskerfinu af þessari gengislækkun yrðu góð. Þá var talað um það, að áhrifin þýddu í rauninni, að verið væri að dæla nýju blóði í atvinnulífið, og sagt var, að öll hjól framleiðslunnar mundu taka að snúast tiltölulega fljótlega. En reynslan af þessum efnahagsráðstöfunum varð allt önnur. Reynslan varð sú, að eftir gengislækkunina, sem samþykkt var 12. nóvember, þá hélt atvinnuleysið í landinu áfram að aukast. Samdrátturinn í atvinnulífinu fór enn vaxandi. Fleiri og fleiri fyrirtæki tóku að segja upp sínu starfsliði og lýstu því yfir, að þau yrðu að draga úr sinni framleiðslu. Fjármagnsskorturinn varð enn þá tilfinnanlegri eftir gengisbreytinguna en hann hafði verið fyrir gengisbreytinguna.

Við vitum, að eitt af ákvæðunum, sem fylgdu með í efnahagsráðstöfunum ríkisstj., var að ógilda þá samninga, sem í gildi höfðu verið um launakjör sjómanna á fiskibátunum. Þeir samningar féllu út um áramót. Afleiðingarnar af því urðu þær, að fiskibátaflotinn stöðvaðist í verkföllum, og hann stöðvaðist um rúmlega 6 vikna skeið. Það hefur verið áætlað, að þjóðarbúið hafi tapað í gjaldeyrisverðmætum í kringum 600 millj. kr. á þessari stöðvun. Og ég hygg, að það fari ekki langt frá því, þegar tillit er tekið til þess, að hér var um allþýðingarmikið tímabil að ræða á aðalvetrarvertíð.

Nú fyrir skömmu var talið, að um 6000 menn í landinu væru skráðir atvinnulausir. Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum, að ástandið almennt séð var orðið mjög alvarlegt. En nú er sjómannaverkfallið leyst, og þá má búast við því, að talsvert dragi úr atvinnuleysinu víða um landið, a. m. k. nú á hávetrarvertíðinni. En það er þó alveg ljóst, að atvinnuleysi verður eftir sem áður einnig í vetur verulega mikið víða um landið, þó að vetrarvertíðin verði sæmileg. Meira að segja í útgerðarbæjunum, þar sem mest snýst nú um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, er alveg greinilegt, að talsvert atvinnuleysi verður þó í ýmsum öðrum starfsgreinum vegna þess almenna ástands, sem þar er komið upp. En vandinn er ekki búinn, þó að nú hafi tekizt að leysa sjómannaverkfallið. Við vitum, að einmitt nú í dag er haldin hér í borginni ráðstefna á vegum Alþýðusambands Íslands varðandi það mikla mál í þessum efnum, sem varðar launakjör verkafólks almennt í landinu. Það vakti athygli mína, að í þeirri skýrslu, sem hæstv. forsrh. flutti hér um efnahagsmálin eins og þau blasa nú við, vék hann ekki einu einasta orði að þessu stóra vandamáli. Það virtist vera, að hann og ríkisstj. hefði engar áhyggjur af því, hvað gerðist í þeim efnum nú um næstu mánaðamót. Það liggur þó fyrir yfirlýsing af hálfu atvinnurekenda í landinu um það, að þeir treysti sér ekki til þess að borga laun nú 1. marz n. k. og eftirleiðis, sem séu miðuð við þá samninga, sem í gildi voru fram að áramótum. Og það liggur einnig fyrir yfirlýsing af hálfu verkalýðssamtakanna, að þau munu ekki sætta sig við það að fá ekki vísitöluuppbætur á laun, eins og samið var um í síðustu samningum. Það lítur því helzt út fyrir það, að hér geti dregið til stórtíðinda í þessum efnum svipað því og gerðist á s. l. vetri, þegar deilt var um þessi mál. Vel gæti svo farið, að hér drægi til verkfallsátaka og stöðvunar á mestöllu framleiðslulífi í landinu vegna deilna um þetta mál, en sú deila er auðvitað upp komin vegna þeirra efnahagsaðgerða, sem ríkisstj. greip til í nóvembermánuði s. l. Hér er auðvitað um stórfellt vandamál að ræða, en þegar ríkisstj. ræðir nú um stöðuna í efnahagsmálum og atvinnumálum, þá virðist hún ekki þurfa að víkja að þessu einu einasta orði. Hæstv. viðskmrh. vék heldur ekki að þessu í sinni ræðu. Hann hafði aðeins áhyggjur af því, að það væru til vondir stjórnarandstæðingar, sem væru á móti stefnu ríkisstj. í því að skrá rétt verðgildi krónunnar og stæðu í vegi fyrir því, að ríkisstj. gæti haldið hér uppi frjálsum innflutningi. Það voru þeir þættir, sem hann ræddi aðallega um. En ég og við Alþb.-menn teljum, að það, sem skipti miklu meira máli en allt það, sem fallegt má segja um frjálsan innflutning og um rétta skráningu á krónunni, sé það, að þannig sé að málum staðið, að framleiðslutæki þjóðarinnar nýtist til fulls, að þjóðin standi ekki fyrst frammi fyrir því í einn og hálfan mánuð, að bátaflotinn stöðvist á vetrarvertíð og að þjóðarbúið tapi þannig. mörgum hundruðum millj. kr. vegna framleiðslustöðvunar og síðan komi allsherjarstöðvun út af almennum kaupgjaldsmálum, sem gæti einnig leitt til annarrar slíkrar stöðvunar um lengri eða skemmri tíma. Stefna, sem leiðir til slíks, er í eðli sínu háskaleg, hún er í eðli sínu röng.

En í þessum efnum er einmitt rétt að átta sig nokkuð á því, hvað það var, sem raunverulega fólst í þeirri efnahagsmálastefnu, sem ríkisstj. ákvað að beita sér fyrir, þegar gengið var síðast lækkað, í nóv. s. l. Raunverulega var það svo, að það var eitt meginatriði, sem þar var verið að framkvæma. Ríkisstj. ætlaði sér að koma því fram með gengislækkuninni, að almennt kaupgjald í landinu yrði lækkað frá því, sem það hafði verið, um 20–25%. Þetta var megininntakið í þeim efnahagsmálaráðstöfunum, sem þarna var verið að ákveða, og ríkisstj. lýsti því yfir, að hún ætlaðist til þess, að þetta gerðist með þeim hætti, að þó að framfærsluvísitalan í landinu hækkaði í kjölfar gengisbreytingarinnar um 20–25%, þá gengi slík verðhækkun yfir launafólk í landinu bótalaust, að vísitöluuppbætur, sem þessari verðhækkun næmu, yrðu ekki greiddar. Og ríkisstj. lýsti því einnig yfir, að hún mundi beita sér fyrir lagasetningu í þá átt að koma í veg fyrir það á sama hátt, að sjómenn gætu fengið hér nokkrar bætur á móti hækkandi verðlagi, með því að breyta með lögum gildandi kjarasamningum þeirra. Það var þetta, sem raunverulega fólst í þeim efnahagsráðstöfunum, sem ákveðnar voru í nóvembermánuði s. l. Þetta var inntakið.

Það er rangt, sem reynt hefur verið að halda hér fram, að megintilgangur með þessari gengislækkun hafi verið sá, að bæta rekstrarafkomu fiskiðnaðarins í landinu og fiskibátanna í landinu eða sjávarútvegsins almennt. Það liggur nú fyrir á ótvíræðan hátt, að við gengisbreytinguna batnaði rekstrarafkoma þessara aðila ekki frá því, sem áður var. Forustumenn í fiskiðnaði landsins hafa gefið opinbera yfirlýsingu um þetta. Þeir hafa bent á það með alveg óyggjandi tölum, að eftir gengisbreytinguna þá verði afkoma fiskiðnaðarins ekki betri en hún var áður, miðað við það styrkjafyrirkomulag, sem áður var í gangi. Breytingin yrði í rauninni aðeins sú, að í staðinn fyrir styrkjakerfið kæmi hin nýja gengisskráning. Og forustumenn útgerðarmanna hafa gefið alveg hliðstæðar yfirlýsingar um það, að þeir teldu, að rekstrarafkoma t. d. bátanna væri ekki betri miðað við hið nýja fyrirkomulag en samkvæmt eldra uppbótakerfinu, sem í gildi var á s. l. ári. Gengisbreytingin var því ekki gerð út af fyrir sig til að gera hag þessara aðila betri en hann var, en það átti að koma þessum málum fyrir á þann hátt, að það átti að láta alla launþega í landinu, og þar með eru taldir allir sjómenn, taka á sínar herðar að standa undir þessum kostnaði, sem áður hafði verið haldið uppi með ýmiss konar skattheimtu til þess að standa undir uppbótakerfinu. Nú átti með gengislækkunaraðferðinni að koma þessum böggum yfir á vinnandi fólk. Það átti sem sagt að framkvæma hér almenna kjaraskerðingu, sem næmi í kringum 20–25%.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að sú leið, sem ríkisstj. valdi í nóvembermánuði s. l. í efnahagsmálum, var í rauninni samdráttarstefna. Það var samdráttarstefna, sem ríkisstj. ákvað að taka hér upp. Samdrátturinn átti að verða í kaupgetunni, og með því að framkvæma þann samdrátt átti að reyna að ná endum saman. Auðvitað hlaut þessi mikli samdráttur, ef hann gengi yfir, að leiða til þess, að það yrði samdráttur hér í fleiri greinum en varðandi hinn almenna kaupmátt. Það var t. d. gefið, að framleiðsla í iðnaði fyrir innanlandsmarkað hlaut líka að dragast saman, um leið og kaupgetan drægist saman. Og það gaf auðvitað einnig auga leið, að með því að fram yrði komið stefnu, sem þýddi 20–25% raunverulega kjaraskerðingu, þá hlaut að draga úr margvíslegum framkvæmdum í landinu. Hvaða manni dettur t. d. í hug, að þeir verði margir, sem geta ráðizt í að byggja sér íbúðarhús, eftir að byggingarkostnaður í landinu hefur hækkað um 40%? En hin almenna kaupgeta hefur verið skorin niður einnig gagnvart lífsnauðsynjum, sem nemur 20–25%. Auðvitað gefur það auga leið, að þetta hlaut að leiða til stórfellds samdráttar í allri byggingarstarfsemi. Leiðin, sem ríkisstj. valdi í þessum efnum, var því samdráttarleið. Hún sá enga aðra leið út úr þeim vanda, sem upp var kominn, en að fara út í almennan samdrátt. Það var þess vegna ekki með öllu óeðlilegt, að ríkisstj. veldi þessa leið, þegar það er haft í huga, hvernig hún leit á þau vandamál eða eðli vandans, sem við var að glíma.

Ríkisstj. hélt því fram, að sá vandi, sem við var að glíma, væri þess eðlis, að hann stafaði eingöngu af ytri erfiðleikum, hann stafaði af minnkandi aflamagni og lækkandi verði á erlendum mörkuðum. Ríkisstj. vildi ekki viðurkenna, að neitt væri athugavert við hina almennu stefnu, sem hún hafði haldið uppi í atvinnu- og efnahagsmálum. Nú gefur það auga leið, ekki sízt nú þegar menn athuga þessi mál, og þetta er þó umliðið, að þessi skýring ríkisstj. á eðli vandamálsins fær á engan hátt staðizt. Það er að vísu rétt, að aflinn minnkaði nokkuð á árinu 1967 frá þeim mikla afla, sem hafði verið á árinu á undan, en aflinn minnkaði þó ekkert verulega frá því ári, og árið 1967 mun lengi verða kallað mikið aflaár. En á því ári féll verð á ýmsum okkar útflutningsvörum alltilfinnanlega. Um það er ekkert að villast, að á þessu ári urðum við fyrir talsverðu áfalli vegna utanaðkomandi áhrifa. Nokkuð svipað gerðist á árinu 1968. Síldaraflinn brást þá mun meir, en annar afli fór hins vegar vaxandi og hefði þó undir eðlilegum kringumstæðum átt að vaxa miklu meira en hann gerði. Verðfallið var hins vegar ekki eins mikið, vegna þess að ýmsar vörur fóru þá aftur hækkandi. Hið lága verð á síldar- og fiskmjöli, sem mest hafði verið talað um áður, er löngu úr sögunni. Aftur er komið upp fyrir alllöngu eins hátt verð á þessari vöru og við höfum nokkurn tíma áður haft. Og það hefur legið fyrir, að við höfum átt kost á því að fá mjög hátt verð fyrir mikinn hluta af okkar hraðfrysta fiski, ef við hefðum skipað okkar framleiðslumálum í þeim greinum rétt. Og verðlag á þeim afla, sem við höfum selt í fiskihöfnum erlendis, hefur verið mjög hagstætt. Ég viðurkenni það, að á þessum tveimur árum, árinu 1967 og árinu 1968, urðum við fyrir í þessum efnum allverulegum áföllum, þegar við berum saman framleiðsluverðmætin á þessum árum og framleiðsluverðmætin á árunum 1965 og 1966, þegar framleiðsluverðmætið náði algjöru hámarki. En það er þó alveg augljóst mál, að þetta er ekki skýringin á þeim vanda, nema að litlu leyti, sem við erum að glíma við í okkar efnahagsmálum. Við vitum t. d., að við hefðum átt að geta framleitt á s.1. ári miklu meira en við gerðum, ef við aðeins hefðum fullnotað framleiðslutæki okkar, ef þau hefðu ekki legið ónotuð mánuð eftir mánuð og í tugatali.

Ef við lítum nokkuð til ástandsins, sem hefur verið að skapast í okkar atvinnumálum almennt séð, þá kemur það miklu betur í ljós, í hverju aðalvandinn hefur legið, sem við höfum átt við að glíma í okkar efnahagsmálum. Við skulum víkja hér að nokkrum þáttum í sambandi við okkar atvinnulíf og sjá, hvernig þar hefur verið ástatt. Það hefur oft verið minnst á það, að nú sé svo komið, að við rekum hér á landi aðeins 18 togara, nær alla mjög gamla, en höfum rekið fyrir nokkrum árum 46 togara. Hafa menn gert sér grein fyrir því, að ef við hefðum bætt við togaraflotann okkar, þótt ekki hefði verið nema 15 nýjum skipum, og rekið þau skip með þessum 18 gömlu skipum, hefðum við, miðað við afla gömlu skipanna nú á s. l. ári, átt að fá í verðmæti vegna rekstrar þessara 15 nýju skipa rúmlega 700 millj. kr. í erlendum gjaldeyri? Ég efast reyndar ekkert um það, að nýju skipin hefðu skilað mun meiri afla en gömlu skipin gerðu, en afli á togurum hefur nú tvö s. l. ár reynzt ágætur og mjög góður á s. l. ári. En ástandið í þessum þýðingarmikla þætti í okkar efnahagslífi var orðið þannig, að ríkisstj. hafði í engu skeytt því, þó að togaraútgerð landsmanna væri að eyðast upp á undanförnum árum. Við Alþb.-menn höfum flutt hér till. á Alþ. ár eftir ár um það, að hafizt yrði handa um það að endurreisa togaraflotann. Ríkisstj. hefur ekki sinnt þessum till. Við skulum líta á annan þátt okkar framleiðslumála. Við skulum líta á þann hluta bátaflotans, sem einkum hefur aflað hráefnis fyrir fiskvinnslustöðvarnar í landinu. Þessi hluti bátaflotans hefur sífellt verið að minnka á undanförnum árum. Bátarnir hafa orðið færri og færri, eldri og eldri. Endurnýjun hefur ekki átt sér stað í þessum atvinnutækjum. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. verið bent á hér á Alþ. ár eftir ár af sérstakri mþn., þar sem menn úr öllum stjórnmálaflokkum störfuðu, en ríkisstj. hreyfði hvorki hönd né fót til þess að hugsa um það að halda a. m. k. við þessum þýðingarmikla framleiðsluþætti í okkar framleiðslukerfi. Hún lét þennan þátt drabbast niður. Og ekki aðeins það, hún horfði á það sljóum augum t. d. á s. l. ári, að fjölmargir bátar af þessari stærð lágu ónotaðir mánuðum saman, bundnir við bryggju vegna alls konar fjárhagserfiðleika. Ég fullyrði, að ef þeir bátar af þessari stærð, sem við áttum, þessir gömlu bátar, hefðu verið reknir með eðlilegum hætti og afli þeirra unninn til útflutnings, þá hefðum við getað framleitt a. m. k. viðbótarverðmæti, sem numið hefðu 600 millj. kr. En þetta tókst vitanlega ekki, vegna þess að ríkisstj. hafði vanrækt að hugsa um uppbyggingu atvinnulífsins.

Það er hægt að taka hér miklu fleiri þætti. Við Alþb.-menn höfum flutt hér till. ár eftir ár um það, að ríkisstj. vildi sinna þeim þýðingarmikla þætti að reyna að koma hér upp frekari fullvinnslu á sjávarafla okkar en við höfum haft. Það er alveg vitað mál, að við munum ekki ná neinum teljandi árangri í því að koma hér upp niðursuðu og niðurlagningu á fiskafurðum án þess, að ríkisvaldið komi hér verulega til aðstoðar. Það þarf að leggja fram fjármagn til þess að aðstoða þá, sem vilja ráðast í framkvæmdir í þessum efnum, aðstoða þá við að fá í sína þjónustu sérfróða menn til þess að skipuleggja framleiðsluna og leiðbeina þeim á fyrsta stigi. Það þarf að veita þessari framleiðslu í byrjun sérstök hlunnindalán til þess að komast yfir byrjunarerfiðleika, og það þarf síðast en ekki sízt að reyna að greiða fyrir því í viðskiptapólitík landsins, að markaður fáist erlendis fyrir þessa framleiðsluvöru. Í þessum efnum hefur ríkisstj. heldur ekki gert neitt. Hún hefur ekki sinnt þessu.

Á þessum þáttum, sem ég nú hef minnzt á, og það mætti telja upp marga fleiri svipaðs eðlis, hefur ríkisstj. ekki haft nokkurn minnsta áhuga. Hún hefur haldið sig við það, eins og hæstv. viðskmrh. í sinni ræðu, að það, sem öllu máli skipti, væri að tryggja hér frjálsan innflutning, frjálsa verzlun, halda uppi háum vöxtum, gæta að því, að útlánin verði ekki of mikil o. s. frv. Í þá stefnu hefur ríkisstj. haldið, en hún hefur hins vegar ekki skilið þarfir framleiðslulífsins.

Það er ekki aðeins í málum sjávarútvegsins, sem þessarar tregðu og þessa skilningsleysis af hálfu ríkisstj. hefur gætt. Sama viðhorfið hefur verið hjá ríkisstj. gagnvart öðrum atvinnugreinum. Við skulum t. d. taka innlendan iðnað. Vita ekki allir, að innlendur iðnaður hefur í rauninni verið að kreppast saman á undanförnum árum. Framleiðslan hefur farið minnkandi. Fleiri og fleiri fyrirtæki hafa verið að gefast upp. Okkar innlendi iðnaður er mjög illa undir það búinn að eiga að taka upp harða samkeppni við erlendan iðnað. En hvað hefur verið gert í þeim efnum að kippa þessu í lag? Efnahagsmálastefna ríkisstj. hefur ekki náð til þess.

Það er enginn vafi á því, að það er einmitt stefna ríkisstj. í efnahagsmálum, sem hér hefur staðið í veginum. Ríkisstj. hefur ekki fengizt til að sinna því, að það ætti að létta af framleiðslunni margvíslegum óþarfaútgjöldum, sem á framleiðslunni hvíla. Hún hefur talið það eðlilegt eftir sinni almennu kenningu, að útflutningsframleiðslan þyrfti að búa við okurháa vexti. Hún hefur talið það eðlilegt, að framleiðslufyrirtæki stöðvuðust, útflutningsframleiðslufyrirtæki stöðvuðust vegna rekstrarfjárskorts. Og þegar till. hafa verið fluttar um það að létta t. d. af sjávarútveginum nokkrum kostnaði með því að koma fyrir breyttu verzlunarskipulagi á olíudreifingu í landinu, hefur ríkisstj. ekki viljað sinna neinu slíku. Hún hefur hins vegar haldið sér fast við það að dekra við verzlunina í landinu á öllum sviðum.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að mestur hlutinn af þeim vanda, sem við eigum við að stríða nú í okkar efnahagsmálum, stafar af því, að ríkisstj. hefur haldið sér við alranga stefnu í atvinnumálum. Hún hefur verið alltof neikvæð gagnvart uppbyggingu atvinnulífsins. Ég held beinlínis, að ríkisstj. hafi verið svo sljó í þessum efnum, að hún hefði þolað það, ef síldveiðin hefði haldið áfram, jafnmikil og góð og hún var, að það hefði enn fleiri aðilar í landinu bætzt í þann hóp, sem hefði farið að stunda síldveiðar, og við hefðum þá mokað að sjálfsögðu upp enn meiri verðmætum, þó að það hefði hins vegar kostað það, að ýmsir aðrir þættir í okkar framleiðslulífi hefðu um leið fallið niður. Ég ásaka ríkisstj. ekki fyrir það, að mikil þátttaka var hér á sínum tíma í síldveiðum og að mikil verðmæti fengust fyrir þau störf, en ég ásaka hana fyrir það, að hún lét lönd og leið, á sama tíma og síldarævintýrið gekk yfir, þá lét hún lönd og leið aðrar þýðingarmiklar atvinnugreinar í okkar efnahagskerfi. Hún fékkst ekki um það, þó að þær svo að segja legðust niður, og fyrir það einmitt gjöldum við nú í dag.

Það er skoðun mín, að eins og nú er ástatt í okkar efnahagsmálum, þá skipti meginmáli, að þegar í stað verði gerðar nokkrar undirstöðuráðstafanir til úrbóta. Þessar ráðstafanir eru að mínum dómi, miðað við núverandi aðstæður, þessar: Í fyrsta lagi ætti að úthluta þessum 300 millj. kr. til atvinnuaukningar, sem ríkisstj. hefur lofað að útvega. Það ætti að úthluta þessari fjárhæð þegar í stað. Það ætti að setja sér að úthluta þessari upphæð á viku eða 10 dögum. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að það er enginn vandi að úthluta þessari upphæð þannig, að hún kæmi að miklu gagni og yrði úthlutað, ég verð að segja, á ekki lakari hátt en þó menn liggi yfir því og velti því á milli sín og sendi það til umsagnar á milli landsfjórðunga í hálft ár eða svo, eins og nú mun vera áætlað að gera. 300 millj. kr. er ekki ýkjahá fjárhæð, miðað við það, sem við þurfum nú á að halda í þessum efnum. En úthlutun á þessu fjármagni nú þegar er brýn. Úthlutunin ætti fyrst og fremst að fara fram með þeim hætti, að atvinnumálanefndirnar í héruðunum úthlutuðu þessu fjármagni eftir meginreglum, sem atvinnumálanefnd ríkisins setti um það. Verði úthlutunin á þessu fjármagni dregin í marga mánuði, fram á sumar eða haust, hefur þessi úthlutun ekki mikið að segja.

Í öðru lagi tel ég, að það, sem nú kallar mest að, sé það, að frá því verði gengið tryggilega, að vísítölubætur á laun verði greiddar a. m. k. á þeim grundvelli, sem síðustu samningar gerðu ráð fyrir, miðað við 1. marz n. k., og þannig verði komið í veg fyrir það, að ný framleiðslustöðvun verði í landinu vegna deilna um þetta sjálfsagða réttlætismál, sem þarna er um að ræða. Þetta álít ég að skipti hér alveg meginmáli. Það væri ný ógæfa, ef til þess drægi, að verkföll og framleiðslustöðvun yrði að skella hér yfir á næstunni vegna þessa máls.

Í þriðja lagi tel ég, að þegar í stað eigi að gera ákveðnar ráðstafanir til stuðnings innlendum iðnaði og til þess að draga úr innflutningi á varningi, sem við getum með góðu móti framleitt í landinu. Við eigum ekki að láta fyrirtæki, sem við höfum þegar lagt fjármagn í að byggja upp í landinu, standa ónotuð og það á atvinnuleysistímum. Þessar ráðstafanir á að gera strax.

Í fjórða lagi er nauðsynlegt að viðurkenna þá staðreynd, að taka þarf upp stjórn á gjaldeyris- og fjárfestingarmálum. Það þarf vitanlega ekki um það að ræða, að þegar þjóð er komin í þann vanda, eins og okkar nú, að hana skortir gjaldeyri, þá verður hún að setja sér skynsamlegar reglur um það, hvernig á að nota hinn takmarkaða gjaldeyri, og jafnvel þó að til þess þurfi að grípa á einhverju tímabili að banna innflutning á einhverjum vörum eða draga úr innflutningi á vörum, sem litla þýðingu hafa, þá á ekki að hika við að gera slíkt. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að þjóð eins og t. d. brezka þjóðin hefur ekki hikað við það að undanförnu að grípa til ráðstafana, sem fara í þessa átt, þegar svona hefur staðið á hjá henni, og vitanlega er það fjarstæða, eins og ástatt er hjá okkur, að ætla að halda hér áfram því skipulagsleysi, sem hér hefur verið í fjárfestingarmálum. Allir viðurkenna, að fjármagn þjóðarinnar er mjög takmarkað. Við þurfum mjög á viðbótarfjármagni að halda, og af því höfum við m.a. verið að taka erlend lán. En skyldi þá ekki vera sjálfsagt að reyna að setja reglur um það, að það takmarkaða fjármagn, sem þjóðin á og ræður yfir, nýtist á sem allra beztan hátt? Hinar efnuðustu þjóðir hafa reglur um þetta, og m. a. vegna þess, sem hæstv. viðskmrh. fór að minnast á í sambandi við Svíþjóð, þá vil ég benda honum á það, að í Svíþjóð eru reglur um sérstakan fjárfestingarskatt á ýmsar framkvæmdir og um það, að það þurfi að fá sérstök stjórnvaldaleyfi til þess að fara í ákveðnar framkvæmdir. Þar er auk þess um það að ræða, eins og hjá mörgum þjóðum, að þar er unnið eftir miklu meiri áætlunargerð um framkvæmdir í landinu og ráðstöfun fjármagnsins en á sér stað hér hjá okkur, og einmitt þar, sem svo er ástatt, að áætlunargerð og framkvæmd samkvæmt áætlun er á lágu stigi, þá er alveg nauðsynlegt að hafa hér eftirlit með fjárfestingu.

Í fimmta lagi tel ég, að gera þurfi nú þegar ýmsar ráðstafanir, sem miða að því að auka útflutningsframleiðsluna, gjaldeyrisöflunina. Þar tel ég fyrst til, að auðvitað eigum við að snúa okkur að því þegar í stað að kaupa allmarga nýja togara. Það þarf enga langa nefndarathugun í það mál. Af því höfum við reynslu. Það er hægt að snúa sér að því að kaupa togara á tiltölulega stuttum tíma og láta það takast vel. Við höfum dregið það allt of langan tíma, og þó ekki væri annað en það, hver afli togaranna var nú á s. l. ári, þá ætti það eitt að hafa sannað mönnum, að við höfum tapað miklu á því að fylgjast ekki með í uppbyggingu togaraflotans, þannig að við værum svona sæmilega samkeppnisfærir á því sviði við aðrar þjóðir. Í öðru lagi tel ég, að við ættum að gera hið allra fyrsta samning við innlendar skipasmíðastöðvar um eðlilega endurnýjun og aukningu okkar fiskibátaflota. Þetta er verkefni, sem er orðið aðkallandi að snúa sér að. Þau ráð, sem ríkisstj. hefur haft í þessum efnum eru allsendis ófullnægjandi. Þau leysa ekki vandann. Í þriðja lagi nefni ég til, að gerðar verði öflugar ráðstafanir til þess, að öll framleiðslutæki þjóðarinnar séu fullnýtt, að við líðum það ekki lengur, að allmikið af okkar fiskiskipum eða önnur framleiðslutæki okkar séu ekki notuð. Í fjórða lagi tel ég, að efla eigi nýjar greinar fiskiðnaðar, þar eigi að koma til beinn stuðningur ríkisvaldsins, alveg sérstaklega á sérfræðisviði og varðandi markaðsöflun. Í fimmta lagi væri svo um það að ræða að koma hér upp nýjum iðnfyrirtækjum, eins og t. d. fullkominni veiðarfæragerð og reyndar iðnrekstri til útflutnings á ýmsum sviðum. Í sjötta lagi þyrfti einnig að mínum dómi að taka hér upp nýja stefnu í landbúnaðarmálum, þar sem við það yrði miðað að skipuleggja framleiðsluna í stað þess skipulagsleysis, sem hefur sett svip sinn á stefnuna í landbúnaðarmálum að undanförnu.

Þessi atriði, sem ég hef nefnt, eru þýðingarmest að mínum dómi, og það verður að vinna að því að framkvæma þessi mál í fullu samstarfi við vinnustéttirnar í landinu. Það er grundvallaratriði. Þennan látlausa hernað, sem ríkisstj. og hennar lið er alltaf í við vinnustéttirnar í landinu þolir þjóðfélagið vitanlega ekki. Margt fleira er svo auðvitað aðkallandi, sem er hér ekki vikið að, t. d. að reyna að vinna skipulega að því að lækka dýrtíðina í landinu og draga úr margvíslegum milliliðakostnaði. En hitt, sem snýr einmitt að atvinnulífinu, skiptir hér auðvitað höfuðmáli.

Þetta, sem ég hef nú sagt, sýnir, að það er skoðun okkar Alþb.-manna, að það, sem mest aðkallandi sé í okkar efnahagsmálum, sé einmitt það, að taka þurfi upp nýja stefnu, aðra stefnu en þá, sem hæstv. ríkisstj. hefur haldið sér við. Það er alveg vonlaust að ætla að komast út úr þeim vanda, sem við eigum nú við að glíma, með óbreyttri efnahagsmálastefnu, hversu fast sem hæstv. viðskmrh. heldur sér við vextina, í innflutningsfrelsið og í gengisskráningu einu sinni eða tvisvar á sama ári. Slíkar ráðstafanir leysa ekki okkar efnahagsvanda. Og þó að menn geti hugsað sér það að komast út úr erfiðleikunum á þann hátt að lækka í sífellu laun vinnandi fólks, 10% þetta árið og 20% næsta árið, eins og nú er verið að gera, þá er það alveg vonlaus leið. Það fæst ekkert samkomulag um slíka leið. Hún verður allt of kostnaðarsöm, og hún er líka röng. Við búum ekki lengi við það ástand, að verkafólk hér á landi eigi að hafa helmingi lægri laun fyrir sín störf en verkafólk hefur í nálægum löndum. Og við búum heldur ekki lengi við það að ætla að halda því uppi með lögþvingun, að okkar sjómenn eigi að hafa helmingi lægra kaup en sjómenn í nálægum löndum.

Leiðin út úr þeim vanda, sem við erum nú komin í í efnahagsmálum er ekki sú samdráttarleið, sem ríkisstj. hefur valið, kauplækkunar- og kjaraskerðingarleið, sem leiðir af sér almennan samdrátt í öllu hagkerfinu. Leiðin er einmitt að taka upp nýja stefnu, sem miðar að aukinni framleiðslu, meiri verðmætasköpun, kemur í veg fyrir framleiðslustöðvanir, nýtir þá framleiðslumöguleika, sem við eigum.

En ég ætla líka, að það sé alveg ljóst af því, sem hér hefur komið fram og hefur verið að gerast hér á undanförnum árum, að núv. ríkisstj. er ekki líkleg til þess að beita sér fyrir þessari nýju stefnu. Hún virðist enn halda sér við sína gömlu stefnu. Af þeim ástæðum tek ég undir það, sem hér hefur komið fram frá form. Framsfl. Ég tek undir það og tel eðlilegt miðað við núverandi aðstæður, að ríkisstj. rjúfi þing og efni til kosninga. Og mér sýnist það satt að segja vera eina leiðin út úr því öngþveiti, sem við erum komin í, að þing verði rofið, efnt verði til nýrra kosninga, svo að tækifæri gefist til þess, að hér verði tekin upp ný og heillavænlegri stefna.